Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 672, 133. löggjafarþing 330. mál: almannatryggingar og málefni aldraðra (lífeyrisgreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega o.fl.).
Lög nr. 166 20. desember 2006.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris.
     Til tekna skv. II. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
 1. Tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk og tekjutryggingu skv. 11.–13. gr. og 17. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
 2. Tekjur elli- og örorkulífeyrisþega af atvinnu skulu hafa áhrif við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 17. gr. Lífeyrisþegi getur valið að hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Ef um hjón er að ræða skulu atvinnutekjur lífeyrisþegans, sbr. 1. málsl., hafa 75% vægi og atvinnutekjur maka hafa 25% vægi.
 3. Við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 17. gr. skal ekki reikna með lífeyrisgreiðslum maka lífeyrisþega úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
 4. Við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 17. gr. skulu aðrar tekjur lífeyrisþegans en tilgreindar eru í a–c-liðum þessarar málsgreinar hafa 75% vægi við ákvörðun tekjugrundvallar og aðrar tekjur maka hafa 25% vægi.

     Þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri skv. 11. og 12. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr.
     Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 17. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr.
     Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist.
     Tryggingastofnun ríkisins skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr.
     Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
     Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 50. gr.
     Tryggingastofnun ríkisins skal upplýsa umsækjanda eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum. Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur og þagnarskyldu starfsmanna Tryggingastofnunar fer skv. 47. gr.
     Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar, sbr. 12. og 17. gr., er ráðherra heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá Tryggingastofnun ríkisins.
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum og séreignarsparnaði sem leystur hefur verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

2. gr.

     Orðin „5.–7. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. og 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 12. gr. um búsetutíma og örorkumat og 5. mgr. 12. gr.

4. gr.

     17. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tekjutrygging.
     Tryggingastofnun ríkisins skal greiða þeim tekjutryggingu sem fá greiddan elli-, örorku- eða slysalífeyri samkvæmt lögum þessum. Tekjutrygging greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Rétt til tekjutryggingar eiga þeir sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla A, sbr. og 1. mgr. 11. gr. og 1. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 12. gr. Um útreikning á tekjutryggingu gildir 10. gr., 1. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 12. gr.
     Greiða skal ellilífeyrisþega tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans að fjárhæð 942.504 kr. á ári. Hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 10. gr. skal skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.
     Greiða skal örorku-, slysa- eða endurhæfingarlífeyrisþega tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans að fjárhæð 956.088 kr. á ári. Hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 10. gr. skal skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.
     Samanlögð skerðing elli-, örorku-, slysa- eða endurhæfingarlífeyris og tekjutryggingar skal aldrei fara umfram 38,35% af tekjum. Komi samtímis til skerðingar þessara bóta skal lífeyrir fyrst skertur og samsvarandi dregið úr skerðingu tekjutryggingar. Ákvæði þessarar málsgreinar um skerðingu gilda ekki um heimilisuppbót skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.
     Ef annað hjóna nýtur lífeyris og 2/ 3 tekna þess nema lægri fjárhæð en 446.736 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
     Nú sinnir maður ekki lagaskyldu um greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Er þá heimilt að áætla honum tekjur sem koma til frádráttar greiðslu tekjutryggingar.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

5. gr.

     18. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Frestun á töku lífeyris.
     Þeir sem eiga rétt á ellilífeyri skv. 11. gr. en hafa ekki lagt inn umsókn eða fengið greiddan ellilífeyri geta frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Frestunin tekur til bóta skv. 11., 14. og 17. gr.
     Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 11. og 17. gr. laga þessara og 9. gr. laga um félagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

6. gr.

     Við 3. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Enn fremur tekur tryggingin til allra slysa sem verða á friðargæsluliðum íslenska ríkisins sem verða þegar þeir eru staddir erlendis vegna friðargæslustarfa.

7. gr.

     B-liður 1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum og háskólanemar þegar þeir sinna verklegu námi.

8. gr.

     Í stað orðanna „tekjumörk tekjutryggingar skv. 17. gr.“ í 5. og 6. málsl. 8. mgr. 43. gr. laganna kemur: 680.350 kr. á ári.

9. gr.

     7. málsl. 2. mgr. 47. gr. laganna orðast svo: Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „úrskurðaðar“ og „úrskurðaðir“ í 1. og 2. mgr. kemur: ákvarðaðar, og: ákvarðaðir.
 2. Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.


11. gr.

     Í stað orðanna „úrskurðaðar“ og „úrskurða“ í 2. mgr. 49. gr laganna kemur: ákvarðaðar, og: ákvarða.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
 1. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er verður 1. málsl. og orðast svo: Hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum það sem upp á vantar.
 2. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
 3.      Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, t.d. um innheimtu á ofgreiddum bótum, undanþágur frá innheimtu ofgreiddra bóta og afskriftir krafna.


13. gr.

     Við lögin bætast fimm ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
 1. Í ákvæðum 3. málsl. b-liðar og d-liðar 2. mgr. 10. gr. laganna skulu hlutföllin 75% og 25% vera 65% og 35% á árinu 2007.
 2. Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 2. mgr. 10. gr. laganna skulu lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega hafa 80% vægi og lífeyrisgreiðslur makans hafa 20% vægi við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar á árinu 2007.
 3. Þrátt fyrir ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 17. gr. laganna skal skerðingarhlutfallið vera 39,95% á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2007.
 4. Þrátt fyrir ákvæði 65. gr. laganna skulu elli- og örorkulífeyrir og tekjutrygging skv. 11., 12. og 17. gr. laganna hækka um 2,9% á árinu 2007 í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar við Landssamband eldri borgara frá 19. júlí 2006.
 5. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 er hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku þessara laga. Ef samanburðurinn leiðir til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skal stofnunin greiða hærri bæturnar á því tímabili.


II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

14. gr.

     4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

     Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

16. gr.

     1. málsl. 3. tölul. 2. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Nú á vistmaður maka og fer þá um skiptingu tekna vistmanns og makans skv. 26. gr.

17. gr.

     26. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Skilgreining á tekjum o.fl.
     Til tekna skv. V. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
 1. Tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á vistunarframlagi skv. 21. gr., sbr. og 22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
 2. Tekjur vistmanns af atvinnu skulu hafa áhrif við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21., sbr. 22. gr. Vistmaður getur valið að hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning vistunarframlags. Ef um hjón er að ræða skulu atvinnutekjur vistmannsins, sbr. 1. málsl., hafa 75% vægi og atvinnutekjur maka hafa 25% vægi.
 3. Við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21., sbr. 22. gr., skal ekki reikna með lífeyrisgreiðslum maka vistmanns úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
 4. Við útreikning á fjárhæð vistunarframlags skv. 21., sbr. 22. gr., skulu aðrar tekjur vistmannsins en tilgreindar eru í a–c-liðum þessarar málsgreinar hafa 75% vægi við ákvörðun tekjugrundvallar og aðrar tekjur maka hafa 25% vægi.

     Þrátt fyrir 1. mgr. teljast ekki til tekna bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
     Tryggingastofnun ríkisins skal annast framkvæmd útreiknings á tekjum skv. 21. og 22. gr. og þessari grein og greiðir stofnunum vistunarframlag skv. 1. mgr. 21. gr.
     Tekjumörk skv. 22. gr. breytast í samræmi við breytingar á tekjumörkum ellilífeyris skv. 11. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
     Til grundvallar útreikningi á vistunarframlagi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum greiðsluársins. Greiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá skattyfirvöldum, umsækjanda, vistmanni eða öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Ef um nýja umsókn um vistunarframlag er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá framangreindum aðilum og réttur til vistunarframlags reiknaður út frá þeim tekjum vistmanns og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem réttur stofnaðist.
     Tryggingastofnun skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
     Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna fjárhæð vistunarframlags á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur vistmanns tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
     Komi í ljós við endurreikning að vistunarframlag hafi verið vangreitt af Tryggingastofnun ríkisins skal Tryggingastofnun greiða stofnun það sem upp á vantar. Ef vistunarframlag hefur verið ofgreitt skal um endurheimtu fara skv. 1., 2. og 5. mgr. 50. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Stofnun skal leiðrétta greiðslur til vistmanns í framhaldi af endurreikningi Tryggingastofnunar.
     Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða vistmann um forsendur útreiknings og gefa kost á að koma að athugasemdum. Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur fer skv. 47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
     Þegar nýr vistmaður kemur til dvalar á stofnun skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skulu stjórnendur stofnunarinnar óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að hún kanni hvort viðkomandi skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar, sbr. 3. mgr. 21. gr. og 23. gr.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

18. gr.

     Við lögin bætast fjögur ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     
     a. (I.)
     Í 3. málsl. b-liðar og d-lið 1. mgr. 26. gr. laganna skulu hlutföllin 75% og 25% vera 65% og 35% á árinu 2007.
     
     b. (II.)
     Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna skulu lífeyrisgreiðslur vistmanns hafa 80% vægi og lífeyrisgreiðslur makans 20% vægi við útreikning á fjárhæð vistunarframlags á árinu 2007.
     
     c. (III.)
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 9. gr. laganna skal fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra einnig varið til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum á árinu 2007.
     
     d. (IV.)
     Vegna útreiknings á vistunarframlagi skv. 21. gr. laganna er hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku þessara laga. Ef samanburðurinn leiðir til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skal leiðrétta vistunarframlag vegna framangreinds tímabils.

19. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál I. kafla þeirra inn í lög nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og meginmál II. kafla þeirra inn í lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Við útgáfuna skulu allar fjárhæðir og tekjumörk sem breytt hefur verið með reglugerðum uppfærð og miðast við útgáfudag laganna.
     Á sama tíma skal gefa út lög nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, með samfelldri greinatölu og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Við útgáfuna skulu allar fjárhæðir sem breytt hefur verið með reglugerðum uppfærðar og miðast við útgáfudag laganna.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.