Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 37  —  37. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um vestnorrænt samstarf.


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að undirbúa stefnumótun um áherslur í vestnorrænu samstarfi og leggja hana fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem verði hliðstæð þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, nr. 20/139.
    Enn fremur ályktar Alþingi að
     a.      í tilefni af fullveldisafmæli Íslands 2018 verði Grænlandssjóður efldur með myndarlegu fjárframlagi og stofnaður sambærilegur Færeyjasjóður sem hafi sams konar hlutverk og Grænlandssjóði er markað í lögum um sjóðinn, nr. 108/2016,
     b.      Ísland bjóði fram aukin framlög til eflingar Vestnorræna ráðinu og um leið færist kostnaðarhlutföll nær réttu hlutfalli af vergri landsframleiðslu hvers lands um sig,
     c.      fulltrúum Grænlands og Færeyja verði boðið sérstaklega til þátttöku í hátíðahöldum fullveldisafmælisársins og gefinn kostur á að fjalla um þróun og stöðu hugmynda um fullveldi þessara landa á sérstöku málþingi.

Greinargerð.

    Vorið 1981 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sex þingmanna um kjör þingmannanefndar til að vinna að auknu samstarfi Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga (202. mál á 103. löggjafarþingi). Tilefni þess að tillagan var borin fram var að ástæða þótti til að koma á meiri festu í samskiptum og samstarfi þessara grannþjóða og til þess hafði verið hvatt á vettvangi Norðurlandaráðs.
    Næstu ár var unnið að framgangi málsins og þar kom að Vestnorræna þingmannaráðið var stofnað í Nuuk haustið 1985 af lögþingi Færeyja, landsþingi Grænlands og Alþingi sem samstarfsvettvangur þjóðþinganna þriggja. Heiti samstarfsvettvangsins var breytt í Vestnorræna ráðið árið 1997.
    Vestnorræna ráðið og samstarf þeirra þjóða sem eiga aðild að því hefur vaxið og eflst til mikilla muna á þeim rúmu þremur áratugum sem liðnir eru frá því að það hófst. Samfélög aðildarþjóðanna hafa einnig styrkst og þróast á jákvæðan hátt þótt vissulega hafi gengið á ýmsu og erfið áföll dunið yfir sem settu mark sitt á framvinduna um skeið.
    Sendiskrifstofa Færeyja á Íslandi tók til starfa haustið 2007 og gert er ráð fyrir því að grænlensk sendiskrifstofa verði opnuð í Reykjavík í byrjun ársins 2018. Fyrir eru sendiskrifstofur Íslands í Þórshöfn, opnuð 1. apríl 2007, og Nuuk, opnuð 8. nóvember 2013. Fyrir tilstilli þeirra verða hin pólitísku tengsl vestnorrænu landanna styrkari og sýnilegri en nokkru sinni fyrr þegar Íslendingar fagna aldarafmæli fullveldis. Sívaxandi samgöngur milli landanna, bæði í lofti og á legi, eru til marks um veruleg samskipti, flutninga og viðskipti milli Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga og er það vel, en þau má enn efla og bæta. Þá er ferðaþjónusta í löndunum þremur í þó nokkrum mæli samofin.
    Þótt samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja innan Vestnorræna ráðsins sé fyrst og fremst svæðisbundið hefur það einnig þýðingu á alþjóðavettvangi. Vestnorræna ráðið fékk áheyrnaraðild að Heimskautaráðinu vorið 2017 og má ætla að það geti haft verulega þýðingu fyrir tækifæri kjörinna fulltrúa í ráðinu til að hafa áhrif á framgang mála á norðurslóðum. Er því enn brýnna en ella að auka samstarfið innan Vestnorræna ráðsins þannig að áheyrnaraðildin að Heimskautaráðinu komi að sem bestum notum.
    Fullveldisafmæli Íslands 1. desember 2018 gefur sérstakt tilefni til að sýna áformum Færeyinga og Grænlendinga um fullveldi stuðning. Í báðum löndum eru sterkar hreyfingar sem stuðla að aukinni sjálfstjórn með fullveldi sem lokamarkmið og þegar hafa verið tekin mikilvæg skref í þá átt. Í ljósi sögunnar ætti það að standa Íslendingum nærri að styðja við sókn nágrannaþjóðanna til sjálfstjórnar og væri vel til fundið að gera það með sýnilegum og ótvíræðum hætti þegar landsmenn fagna því að Ísland hefur verið sjálfstætt og fullvalda ríki í eina öld.
    Alþingi hefur margoft lýst vilja til að efla vestnorrænt samstarf, bæði almennt og á afmörkuðum sviðum. Á 145. löggjafarþingi var samþykkt tillaga Össurar Skarphéðinssonar og fleiri þingmanna um að efla samstarf Íslands og Grænlands, nr. 42/145. Í n-lið hennar er lýst stuðningi við að „efla á alla lund starfsemi Vestnorræna ráðsins í því skyni að styrkja enn frekar pólitísk, menningarleg og viðskiptaleg tengsl Íslands, Færeyja og Grænlands, og vinna að því að formfesta árlega fundi æðstu manna þjóðanna.“ Er þetta mjög í sama anda og 5. tölul. þingsályktunar nr. 20/139, um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, þar sem segir að styrkja beri og auka samstarf við Færeyjar og Grænland í því skyni að efla hag og pólitískt vægi vestnorrænu landanna þriggja.
    Aðrar ályktanir Alþingis varðandi samvinnu vestnorrænu þjóðanna um afmörkuð málefni frá síðasta áratug eru m.a. nr. 20/145, um greiningu á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði, nr. 22/145, um að styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál, nr. 21/145, um greiningu á möguleikum þess að móta sameiginlega langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum, nr. 21/144, um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra, nr. 20/144, um samstarf við Færeyjar og Grænland til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum, nr. 16/143, um aukið samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu, nr. 15/143, um samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna, starfsmannaskipti og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna, nr. 12/143, um að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða, nr. 13/143, um samstarf við Færeyjar og Grænland um námskeið fyrir starfandi og upprennandi rithöfunda í löndunum þremur, nr. 11/143, um samstarf við Færeyjar og Grænland um samantekt um orsakir fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum, nr. 13/140, um ráðstefnu um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna og möguleika til tónlistarmenntunar til hagsbóta fyrir vestnorrænu löndin, nr. 10/140, um skilgreiningu á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi breyttrar stöðu norðurslóða í alþjóðahagkerfinu af völdum loftslagsbreytinga, nr. 52/139, um athugun á fyrirkomulagi fraktflutninga við austurströnd Grænlands, nr. 54/139, um eflingu samgangna milli Vestur-Norðurlanda, nr. 56/139, um samvinnu milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna, nr. 55/139, um samvinnu milli vestnorrænu ríkjanna um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum, nr. 53/139, um vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum, nr. 10/138, um samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum og milli Færeyja og Grænlands um skipti á opinberum sendifulltrúum, nr. 8/138, um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs, nr. 9/138, um vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi, nr. 5/135, um gerð námsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi, nr. 7/135, um samstarf milli slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í vestnorrænu löndunum, nr. 6/135, um aukna samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna og við önnur ríki við Norður-Atlantshaf, nr. 9/135, um aukna samvinnu milli vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra og nr. 10/135, um stofnun norrænna lýðháskóla.
    Framangreindar samþykktir Alþingis, sem að uppistöðu til eru til staðfestingar ályktunum Vestnorræna ráðsins, bera þess vott að á undanförnum árum hefur verið fullur vilji til þess af hálfu fulltrúa þjóðþinganna að stuðla að víðtæku og fjölbreyttu samstarfi vestnorrænu þjóðanna. En einmitt hinn mikli fjöldi ályktana þingsins um samstarf á vestnorrænum vettvangi gæti gefið til kynna skort á stefnumörkun, yfirsýn og samfellu í vestnorrænum samskiptum sem væri þá rétt að bæta úr hvað Ísland varðar á þann hátt sem lagt er til í upphafsmálsgrein tillögunnar.