Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 28  —  28. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um aðbúnað, hollustuhætti
og öryggi á vinnustöðum (notendastýrð persónuleg aðstoð).


Frá félags- og jafnréttismálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað 2. málsl. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að framlengja samninga sem gerðir hafa verið árið 2017 til ársloka 2018, eða fram að gildistöku laga þar sem kveðið verður á um réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Jafnframt er heimilt að gera nýja samninga í samræmi við heimildir í fjárlögum fyrir árið 2018.

II. KAFLI

Breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum.

2. gr.

    2. mgr. bráðabirgðaákvæðis 9 í lögunum verður svohljóðandi:
    Ákvæði þetta gildir fram að gildistöku laga þar sem kveðið verður á um réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, en þó ekki lengur en til ársloka 2018.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu, sem unnið var í velferðarráðuneytinu af hálfu félags- og jafnréttismálaráðherra, er kveðið á um næstu skref í lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem hefur verið rekin sem tilraunaverkefni frá árinu 2012 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Samhliða þessu frumvarpi verða lögð fram tvö önnur frumvörp, annars vegar um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og hins vegar um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að þau taki gildi um mitt ár 2018 og með þeim verði fest í sessi ákvæði um réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
    Með lögum nr. 152/2010, um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, var meðal annars kveðið á um að koma skuli á sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, sbr. ákvæði til bráðabirgða IV. Fram kemur að markmið verkefnisins sé að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti. Miða skuli við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa. Í fyrrnefndu ákvæði til bráðabirgða var einnig gert ráð fyrir að faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu færi fram fyrir árslok 2014 og þá yrði verkefninu formlega lokið. Var sá frestur síðar lengdur til ársloka 2016 með lögum nr. 80/2015. Heimild til þess að framlengja samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) var framlengd til ársloka 2017 með lögum nr. 128/2016.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir var lagt fram á vor- og haustþingi 2017 (438. mál 146. löggjafarþings; 69. mál 147. löggjafarþings) en frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Er í frumvarpinu m.a. fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð og eiga ákvæði þess að setja varanlega umgjörð utan um þjónustuna. Til þess að tryggja að ekki verði rof á samningum þeirra sem nú þegar eru með slíka þjónustu er hins vegar nauðsynlegt að framlengja bráðabirgðaákvæði um tilraunaverkefni þar til það frumvarp hefur verið samþykkt og tekur gildi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími tveggja bráðabirgðaákvæða vegna tilraunaverkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð verði framlengdur þar til lögfest hafa verið ákvæði sem festi þjónustuna í sessi, þó ekki lengur en til ársloka 2018.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki sérstakt tilefni til þess að kanna samræmi við stjórnarskrá en efni þess er í samræmi við 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti í september 2016.

5. Samráð.
    Frumvarpið var unnið í velferðarráðuneytinu. Sú leið sem hér er farin, að leggja til framlengingu á ákvæðum til bráðabirgða er varða notendastýrða persónulega aðstoð, samhliða framlagningu frumvarpa um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, var ákveðin í samráði við fulltrúa allra þingflokka. Frumvarpið var einnig borið undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem er sammála efni þess.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir 286 millj. kr. fjárheimild til samninga um notendastýrða persónulega aðstoð. Fjárheimildin er aukin um 70 millj. kr. frá árinu 2017 í því skyni að unnt verði að fjölga samningum um 25 eða úr 55 samningum í 80 samninga. Ríkissjóður greiðir 25% af útgjöldum vegna NPA á móti 75% hlutdeild sveitarfélaga. Þannig er gert ráð fyrir að heildarútgjöld vegna NPA verði tæpar 1.150 millj. kr. og útgjöld sveitarfélaga því rúmar 850 millj. kr.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að framlengja samninga sem gerðir hafa verið á grundvelli framangreinds bráðabirgðaákvæðis út árið 2018 eða þangað til að lögfest hafa verið ákvæði um framkvæmd NPA-þjónustu.
    Í öðru lagi er kveðið á um að heimilt verði að fjölga samningum í samræmi við heimildir í fjárlögum en gert hefur verið ráð fyrir fjölgun samninga upp í allt að 80 samkvæmt fjármálaáætlun.

Um 2. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að bráðabirgðaákvæði 9 í lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, nr. 46/1980, sbr. lög nr. 80/2015, gildi til þess tíma að ákvæði sem festi í sessi notendastýrða persónulega aðstoð taki gildi, en þó ekki lengur en til ársloka 2018.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.