Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 50  —  50. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.


Flm.: Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta. Átakið feli í sér gerð sérstaks kjarasamnings um bætt launakjör þessara stétta. Ráðist verði í greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta, svo sem kennara og heilbrigðisstarfsfólks, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera. Á grundvelli þeirrar greiningar verði gerður sérstakur kjarasamningur um leiðréttingu á kjörum þessara stétta. Samningurinn feli í sér sérstakar hækkanir til viðbótar við almennar hækkanir kjarasamninga á vinnumarkaði. Leitast verði við að ná samstöðu allra helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar um slíkt átak og um leið samþykki fyrir því að sérstakar hækkanir á grundvelli þess verði ekki grunnur að launakröfum annarra starfsstétta.

Greinargerð.

    Samkvæmt rannsókn sem Hagstofa Íslands vann árið 2015 fyrir aðgerðarhóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til að vinna að launajafnrétti kynjanna 1 höfðu konur að meðaltali rúmlega 13% lægri laun en karlar. Helsta skýringin er sú að íslenskur vinnumarkaður er kynbundinn. Fjölmennar kvennastéttir í heilbrigðis- og kennslustörfum, t.d. leikskóla- og grunnskólakennarar, fá greidd lægri laun en fjölmennar karlastéttir enda þótt enginn efist um mikilvægi umönnunar- og kennslustarfa. Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að konur eru að jafnaði betur menntaðar en karlar á vinnumarkaði.
    Afleiðinga þessara kjara eru kunnar. Erfiðlega gengur að ráða starfsfólk í leikskóla og starfsfólk vantar sömuleiðis í þær greinar sem leika lykilhlutverk í innviðum samfélagsins, menntastofnunum og heilbrigðisstofnunum. Það er vandséð hvernig styrkja eigi innviði í samfélaginu ef ekki er farið í það samhliða að bæta kjör þeirra kvennastétta sem starfa í þessum greinum.
    Tilraunir hafa verið gerðar til að taka á þessum vanda með sértækum leiðréttingum á launum einstakra starfsstétta. Þær leiðréttingar hafa undantekningarlítið orðið grunnur að almennum launakröfum á vinnumarkaði.
    Ef leiðrétta á kynbundinn launamun og bæta kjör kvennastétta sérstaklega þarf sameiginlega aðkomu hins opinbera sem launagreiðanda og allra stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði. Til þess þarf pólitískan vilja. Ekki verður litið fram hjá ábyrgð opinberra aðila að þessu leyti, enda eru ríki og sveitarfélög launagreiðendur þessara stétta. Meta þarf umfang þessa launamunar og finna leiðir til þess að eyða honum án þess að það leiði til hefðbundinna víxlhækkana launa.
    Hlutverk stjórnmálanna verður að leiða samtal verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga og leggja þannig grunn að víðtækri sátt um þjóðarátak í átt til stóraukins launajafnréttis.

1     www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit-og-skyrslur-2015/Launamunur _karla_og_kvenna_13112015.pdf