Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 71  —  3. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Gylfa Arnbjörnsson og Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Alexander Eðvardsson frá KPMG ehf., Sigurð Jónsson og Þórunni Sveinbjarnardóttur frá Landssambandi eldri borgara, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Ingvar J. Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra, Ásdísi Kristjánsdóttur og Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Vilhjálm Egilsson rektor.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bílgreinasambandinu, Carbon Recycling International ehf., Félagi atvinnurekenda, Fjármálaeftirlitinu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hagsmunasamtökum heimilanna, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökum lífeyrissjóða, Persónuvernd, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum sparifjáreigenda, Sigvalda Hrafni Jósafatssyni, Strætó bs., VIRK Starfsendurhæfingarsjóði ses., Viðlagatryggingu Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands. Auk þess bárust nefndinni minnisblöð og ýmsar upplýsingar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og ríkisskattstjóra.

Frítekjumark vaxtatekna.
    Meiri hlutinn leggur til að frítekjumark vaxtatekna í 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. og a-lið. 8. tölul. 70. gr. laga um tekjuskatt hækki úr 125.000 kr. í 150.000 kr. til að hækkun hlutfalls fjármagnstekjuskatts úr 20% í 22% komi ekki niður á fólki sem hefur hóflegar vaxtatekjur af venjulegum sparnaði. Breytingin felur í sér að skattbyrði einstaklinga sem hafa minna en 400.000 kr. og hjóna sem hafa minna en 800.000 kr. vaxtatekjur á ári minnkar þrátt fyrir hækkun hlutfallsins. Samkvæmt tölum sem ríkisskattstjóri lét nefndinni í té á það við um 96,38% einstaklinga og 93,50% sambýlisfólks miðað við vaxtatekjur 2016. Hækkun frítekjumarksins felur því í sér að skattgreiðslur meginþorra fólks af vaxtatekjum minnkar þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins í 22%. Samkvæmt útreikningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins minnka tekjur ríkissjóðs um u.þ.b. 200 millj. kr. á ári vegna hækkunarinnar.

Tekjuskattshlutfall lögaðila sem eru skattskyldir skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt.
    Að tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytis leggur meiri hlutinn til að hlutfall tekjuskatts lögaðila skv. c-lið. 3. tölul. og c-lið 4. tölul. 70. gr. og 2. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt hækki úr 36% í 37,6%. Með hækkun á hlutfalli fjármagnstekjuskatts úr 20% í 22% verður samanlagður skattur á hagnað félags og arð eiganda samtals 37,6%. Því er lögð til hækkun á tekjuskatti lögaðila sem skattskyldir eru skv. 3–5. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga, eins og sameignar- og samlagsfélög, úr 36% í 37,6%. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2019 vegna rekstrarársins 2018.

Skattlagning metanólbifreiða.
    Ökutæki knúin með metani njóta ívilnana frá vöru- og bifreiðagjöldum skv. 2. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og f-lið 4. gr. laga um bifreiðagjald. Carbon Recycling International ehf. benti á að hliðstæð rök stæðu til ívilnana vegna ökutækja sem væru knúin með metanóli, sem væri einnig vistvænt eldsneyti. Breyting af því tagi samræmdist einnig þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem samþykkt var 31. maí 2017. Þar segir: „Bifreiðar verði að mestu knúnar metanóli af endurnýjanlegum uppruna, M56–M100, þ.e. 56–100% af eldsneytinu falli í sama ívilnanaflokk (afslátt á vörugjöldum) og metanbifreiðar þar sem um sambærilega tegund af losun er að ræða.“ Meiri hlutinn leggur með tilliti til þessa til að bætt verði við vísunum til metanóls í ákvæðunum.

Frítekjumark vegna ellilífeyris.
    Í 29. gr. frumvarpsins er lagt til að ellilífeyrisþegar hafi sérstakt 100.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna. Meiri hlutinn telur æskilegt að til frambúðar verði frítekjumark vegna lífeyrisgreiðslna og atvinnutekna hið sama til að gæta jafnræðis milli ellilífeyrisþega. Meiri hlutinn beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytis og velferðarráðuneytis að taka þau sjónarmið til skoðunar.

Skattalegir hvatar í þágu vistvænna almenningssamgangna.
    Í 40. gr. frumvarpsins er framlengd ívilnun frá virðisaukaskatti vegna vistvænna bifreiða í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt. Ívilnunin er þó bundin fjárhæðarmörkum skv. 2. og 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins sem takmarkar mjög þýðingu hennar þegar kemur að kaupum á bifreiðum í þágu almenningssamgangna, sem eru mun dýrari en venjulegir fólksbílar. Í fyrrgreindri þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti segir: „Skoðað verði að endurgreiða virðisaukaskatt fyrir hreinorkubifreiðar með fleiri en 22 farþega. Aukin áhersla hefur verið lögð á almenningssamgöngur og þátt ferðaþjónustunnar í orkuskiptum. Þetta ákvæði ætti að hvetja til notkunar hreinorkubifreiða og vera hvatning til þess að hópferðabifreiðar nýti hreina orku.“ Með tilliti til þessa beinir meiri hlutinn því til fjármála- og efnahagsráðuneytis að kanna hvernig nýta megi betur skattalega hvata til að styðja við skipti í vistvæna orku í almenningssamgöngum.

Viðlagatrygging Íslands.
    Í umsögn Viðlagatryggingar Íslands um frumvarpið eru færð rök fyrir því að stofnunin ætti að vera undanþegin fjármagnstekjuskatti og greiða lægra eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins en hún hefur gert. Meiri hlutinn óskaði eftir viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðuneytis við athugasemdunum. Ráðuneytið taldi rétt að taka skattskyldu fjármagnstekna Viðlagatryggingar til skoðunar í þeirri vinnu sem fram undan væri við endurskoðun á skattstofnum fjármagnstekjuskatts. Jafnframt taldi ráðuneytið þess vert að skoða tillögu Viðlagatryggingar um lægra eftirlitsgjald en taldi of seint að grípa til ráðstafana nú. Meiri hlutinn telur rétt að taka athugasemdir Viðlagatryggingar til nánari skoðunar og beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Frádráttur vaxtatekna.
    Í 1. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt eru sett takmörk á heimildir lögaðila til að draga frá skattskyldum tekjum vaxtagjöld og afföll vegna lánaviðskipta við tengda aðila. Skv. b-lið 3. mgr. greinarinnar á ákvæðið ekki við ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Skv. 3. gr. laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017, sbr. 2. tölul. 26. gr. sömu laga, fellur sú undanþága brott 1. janúar 2018.
    Bent hefur verið á að brottfall undanþágunnar geti komið niður á eðlilegri lánsfjármögnun innan samstæðu sem beinist ekki að því að takmarka skattgreiðslur. Unnið er að breytingartillögu til að mæta þeim sjónarmiðum sem meiri hlutinn hyggst leggja fram eftir 2. umræðu um málið.

Annað.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að tekið verði fram í lögum um tekjuskatt að úrskurðum ríkisskattstjóra um skattalegt heimilisfesti megi skjóta til yfirskattanefndar. Meiri hlutinn bendir á að breytingin hefur einnig þau áhrif að ráðherra fremur en ríkisskattstjóri fari með fyrirsvar fyrir ríkið í dómsmálum sem varða úrskurði ríkisskattstjóra um skattalegt heimilisfesti. Meiri hlutinn telur slíka breytingu eðlilega enda til samræmis við það sem almennt gildir í dómsmálum um skattamálefni.
    Í k-lið 38. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sex stafliðum sem ættu að verða töluliðir. Meiri hlutinn leggur til breytingu á j- og k-lið greinarinnar til lagfæringar.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á gildistökuákvæði í 46. gr. frumvarpsins með hliðsjón af öðrum breytingum sem lagðar eru til. Lagt er til að hækkun á frítekjumarki vaxtatekna gildi þegar við álagningu 2018 vegna vaxtatekna 2017.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 20. desember 2017.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Brynjar Níelsson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.