Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 186  —  117. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna möguleikann á samstarfi milli Íslands, Færeyja og Grænlands um menntun í sjávarútvegsfræðum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2017 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 1. september 2017 í Reykjavík.
    Fiskveiðar eru ein mikilvægasta atvinnugreinin á Vestur-Norðurlöndum og útflutningur sjávarfangs stendur undir háu hlutfalli útflutningstekna landanna. Sjávarútvegsráðherrar Vestur-Norðurlanda eiga nú þegar gott samstarf sín á milli, m.a. á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar, auk þess sem rannsóknarstofnanir landanna eiga náið samstarf. Með auknu samstarfi á vettvangi sjávarútvegsfræða gætu löndin deilt með sér reynslu og þekkingu á fiskvinnslu.
    Fyrsta skrefið í þá átt gæti verið samstarf um starfsþjálfun á vettvangi fisktækni og gæðaeftirlits. Menntun í fisktækni stuðlar að bættri nýtingu sjávarafurða og hvetur til nýsköpunar í atvinnugreininni. Í löndunum þremur er í boði menntun á sviðinu, t.d. í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík, INUILI í Narsaq á Grænlandi og á menntaskólastigi í Færeyjum. Með skiptinámi milli landanna væri hægt að bjóða upp á fjölbreytta grunnmenntun í fiskveiðum, fisktækni og gæðaeftirliti með áherslu á starfsnám. Með þessu samstarfi gætu löndin aukið þekkingu og gæði í matvælaframleiðslu í sjávarútvegi og skapað nemendum starfstækifæri og möguleika á frekari menntun á sviðinu. Framhaldsmenntun í sjávarútvegi er t.d. í boði í BS-námi í sjávarútvegsfræðum í Háskólanum á Akureyri, diplómanámi í fisktækni við ARTEK – fisktæknimiðstöðina í Sisimiut og í Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
    Samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum gagnast öllum þremur löndunum. Í hverju landanna er að finna sérþekkingu á ólíkum málefnum innan sjávarútvegarins og löndin kljást við margar sömu áskoranir. Alþingi hvetur því mennta- og menningarmálaráðherra til að kanna möguleika á samstarfi við menntamálaráðherra Grænlands og Færeyja um menntun í sjávarútvegi.