Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 207 —  135. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs.


Flm.: Willum Þór Þórsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september 2017.


Greinargerð.

    Tillagan var fyrst lögð fram á 145. löggjafarþingi (643. mál) og endurflutt á 146. þingi (58. mál) en var ekki afgreidd. Hún er nú endurflutt í óbreyttri mynd.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnnar segir á bls. 10: „Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvístölunnar.“
    Þessi tillaga sem hér er lögð fram er því í fullu samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar. Hér á landi hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs (VNV) sem mælikvarða á verðbólgu og til útreiknings á verðtryggingu síðan árið 1995. Í Evrópusambandsríkjunum er hins vegar stuðst við svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs (SVN) en tilgangur hennar er m.a. að tryggja samræmda verðbólgumælingu í þeim ríkjum þar sem evra er gjaldmiðill. Hlutverk beggja vísitalnanna er að mæla verðbreytingar á vörum og þjónustu sem almenningur kaupir til einkanota en mismunandi vöruflokkar liggja til grundvallar hvorrar vísitölunnar fyrir sig. Þar munar líklega mestu um kostnað við eigið húsnæði sem er vöruflokkur innan VNV en ekki SVN. Hækkun húsnæðisverðs reiknast þannig beint inn í VNV en hefur aðeins afleidd áhrif á þróun SVN í gegnum húsaleigu. Það að halda húsnæðisverði og kostnaði við eigið húsnæði utan vöruflokka sem reiknast til neysluverðsvísitölu hefur verið rökstutt með því að þar sé fremur um að ræða fjárfestingu en eiginlega neyslu. Annar veigamikill munur á vísitölunum er sá að útgjöld ferðamanna eru undanskilin við útreikning VNV en ekki SVN.
    Verðbólgumæling þar sem stuðst er við VNV sýnir jafnan hærri verðbólgu en ef stuðst er við SVN. Má leiða að því líkur að húsnæðisverð og kostnaður við eigið húsnæði skipti þar mestu máli. Þannig kom t.d. fram í 4. tbl. Peningamála Seðlabanka Íslands árið 2016 að ársverðbólga í október það ár hefði mælst 1,8% en vísitala neysluverðs án húsnæðis hefði lækkað um 0,5% frá fyrra ári. Verðbólga miðað við samræmda vísitölu neysluverðs hefði mælst 1,1% í september 2016. Slíkur munur getur haft veruleg áhrif á þróun verðtryggðra lána. Sem dæmi má nefna að heildargreiðsla af 20 millj. kr. verðtryggðu jafngreiðsluláni til 40 ára með 3,85% vöxtum væri ríflega 57 millj. kr. miðað við 1,8% verðbólgu en ríflega 49 millj. kr. miðað við 1,1% verðbólgu. Af þessu er ljóst að líkur eru til að verðtrygging hefði talsvert minni áhrif á verðtryggð inn- og útlán ef stuðst væri við SVN en samkvæmt núverandi fyrirkomulagi. Í grunninn má ætla að breytingin yrði því til hagsbóta fyrir þorra skuldara en hið gagnstæða gilti um eigendur verðtryggðs sparifjár sem að stærstu leyti eru lífeyrissjóðirnir.
    Alþýðusamband Íslands skoraði nýlega á stjórnvöld og Alþingi að beita sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að kannaðir verði til hlítar kostir þess og gallar að taka upp SVN í stað VNV við útreikninga verðbólgu og verðtryggingar hér á landi með sérstöku tilliti til lána- og launakjara almennings, stöðu verðtryggðra lána og áhrifa á vexti, þar á meðal hugsanlegra afleiddra áhrifa. Niðurstöður þeirrar greiningar geta í kjölfarið nýst sem grundvöllur heildræns mats á því hvort og hvernig verði ráðist í breytinguna.