Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 408 — 306. mál.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum (víðtækari matsskylda).
Flm.: Ari Trausti Guðmundsson.
1. gr.
Liður 3.02 í 1. viðauka við lögin orðast svo:
a. Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 10 MW uppsett varmaafl eða meira.
b. Önnur orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira.
c. Raforkuver með uppsett rafafl frá 1 MW til 10 MW, innan verndarsvæða skv. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
2. gr.
Lög þessi taka þegar gildi.
Greinargerð.
Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er að lagt verði mat á framkvæmdir sem kunna að hafa „umtalsverð umhverfisáhrif“ eins og segir í a-lið 1. gr. laganna. Jafnframt er markmið laganna að draga eins og unnt er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, stuðla að samvinnu hagsmunaaðila og annarra sem málið varðar og enn fremur að kynna umhverfisáhrif framkvæmda sem lögin taka til fyrir almenningi og gefa hlutaðeigandi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum meðan unnið er að málinu. Breytingunni, sem lögð er til með fyrirliggjandi frumvarpi, er ætlað að styðja við framangreind markmið laganna, sbr. b- og d-lið 1. gr.
Lög nr. 106/2000 byggjast á eldri lögum um sama efni, lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, sem sættu endurskoðun á árunum fyrir aldamótin með það að markmiði að nýta og bregðast við reynslunni sem fengist hafði á árunum sex sem liðin voru frá því að lögin tóku gildi þar til endurskoðun þeirra hófst, sbr. athugasemdir með frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum á þskj. 644 á 125. löggjafarþingi, og einnig til að innleiða og fella inn í lögin tilskipun ráðsins 97/11/EB frá 3. mars 1997 um breytingar á tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Í 3. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjunum gert fært að setja strangari reglur til verndar umhverfinu en gert er í reglugerðinni og viðaukum hennar.
Smávirkjanir, þ.e. virkjanir með uppsett rafafl frá 200 kW til 10 MW, eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar samkvæmt lið 3.22 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Er það síðan hlutverk Skipulagsstofnunar að meta hvort framkvæmdir við smávirkjanir séu matsskyldar og leitar stofnunin í því skyni umsagna leyfisveitenda og sérfræðistofnana. Sveitarfélög hafa sama hlutverki að gegna og Skipulagsstofnun fyrir virkjanir við ákvörðun um matsskyldu vatnsorkuvera með uppsett rafafl allt að 200 kW samkvæmt lið 3.23 í 1. viðauka laganna (C-flokkur).
Árétta ber að við skipulagsgerð skal ávallt líta til þess hve margar smávirkjanir geta rúmast innan tiltekins svæðis án þess að veruleg umhverfisáhrif þar hljótist af.
Verði þetta frumvarp að lögum yrðu allar raforkuvirkjanir kannaðar, ýmist af Skipulagsstofnun eða sveitarfélögum, með tilliti til þess hvort mat þurfi á umhverfisáhrifum framkvæmda.
Hvað varmaorkuver til raforkuframleiðslu varðar er hér lagt til að mörk matsskyldu fyrir orkuver sem nýta háhita verði færð úr 50 MW í 10 MW. Ástæðan er sú að framkvæmdir við slíka orkuvinnslu geta verið umtalsverðar og einnig mannvirkjagerð. Margar borholur getur þurft til, leiðslur á yfirborði jarðar, kæliturna, stöðvarhús o.fl. Framleiði slíkt varmaorkuver líka hitaveituvatn er jafnt ástæða til sömu matsskyldumarka og fyrr eru nefnd.
Samkvæmt Raforkuspá 2017–2050 sem orkuspárnefnd gaf út sumarið 2017 er gert ráð fyrir því að raforkunotkun aukist um 1,9% að meðaltali á gildistíma spárinnar eða nálægt því 100 MW á hverjum áratug. Eru því allar líkur á að þörf verði fyrir talsverðar framkvæmdir vegna raforkuöflunar á næstu árum og áratugum. Má ætla að meiri ásókn verði eftir nýtingu smærri virkjanakosta á komandi tímum en var meðan athyglin beindist einkum að stærri valkostum. Þar sem framkvæmdir við minni virkjanir en þær sem geta framleitt 10 MW af raforku eða meira geta haft veruleg umhverfisáhrif, t.d. á jarðmyndanir, gróðurfar og dýralíf, þykir flutningsmanni sjálfsagt að umhverfismat verði gert vegna smávirkjana einnig enda væri það fyllilega í samræmi við markmið laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum.
Í nágrannalandinu Noregi, þar sem mikið er um vatnsaflsvirkjanir, bæði stórar og smáar, eru ekki í gildi sérstök lög um mat á umhverfisáhrifum. Þess í stað eru ákvæði um umhverfismat vegna framkvæmda felld inn í skipulags- og byggingarlög. Ekki er skylt að gera umhverfismat vegna virkjana sem framleiða minna rafafl en 10 MW en stjórnsýslustofnunin sem annast umsóknir virkjanaleyfa, Vatns- og orkustofnun Noregs (Norges vassdrags- og energidirektorat), fylgir því eftir að gerðar séu rannsóknir á áhrifum framkvæmdarinnar á líffræðilega fjölbreytni, kynnir framkvæmdina og áhrif hennar fyrir hlutaðeigandi aðilum, meðhöndlar kærur og tekur ákvörðun um leyfisveitingu. Eru ákvarðanir stofnunarinnar kæranlegar til olíu- og orkumálaráðuneytisins (Olje- og energidepartementet). 1
1 energifaktanorge.no/regulering-av-energisektoren/konsesjonsbehandling/