Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 446  —  335. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/314/EBE.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017, frá 22. september 2017, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fylgiskjal I), og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/314/EBE (sbr. fskj. II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir framangreindri gerð var ákvörðun nr. 187/2017 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/314/EBE.
    Framangreind gerð fjallar um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Tilskipunin víkkar út gildissvið gildandi löggjafar varðandi pakkaferðir svo að hún nái einnig yfir það sem kalla má samtengda ferðatilhögun og mælir hins vegar fyrir um gagnkvæma viðurkenningu tryggingakerfa. Í eldri tilskipun, sem innleidd var með lögum nr. 80/1994, um alferðir, voru innleidd mikilvæg réttindi fyrir neytendur sem keyptu sér alferð (pakkaferð). Þá var sú krafa gerð að neytendur nytu verndar gegn fjárhagslegu tjóni vegna gjaldþrots fyrirtækis sem skipulagði ferð. Í lögum um alferðir eru sérreglur um vanefndir seljanda og vanefndaúrræði kaupanda sem taka m.a. mið af aðstæðum og misjafnri stöðu kaupanda og seljanda alferða. Þessar reglur eru hagstæðari kaupanda en þær sem mundu ella gilda samkvæmt meginreglum kröfuréttar. Enn fremur voru í reglunum gerðar ítarlegar kröfur um að neytandi fengi ítarlegar upplýsingar um ferðina og alla skilmála sem giltu um hana. Með tilkomu veraldarvefsins geta neytendur nú auðveldlega sett saman eigin ferðir og í raun skipulagt pakkaferðir sem falla utan við þá vernd sem gildandi löggjöf veitir þeim. Þessi staða varð til þess að mikill þrýstingur var á að breyta Evrópulöggjöfinni þannig að hún taki framvegis til ferða sem neytendur setja saman sjálfir. Fyrrnefnd samtengd ferðatilhögun á við um þau tilvik þar sem neytendur kaupa t.d. tvenns konar þjónustu af tveimur mismunandi ferðaþjónustuaðilum sem ekki telst vera ferðapakki en verður samt sem áður að líta á sem samkeppni við hina hefðbundnu ferðapakka. Þá veitir seljandi þjónustu sem auðveldar neytanda að velja sérstaklega og greiða fyrir hvern ferðaþjónustuþátt fyrir sig eða býður með beinni markaðssetningu fram a.m.k. eina viðbótarþjónustu frá öðrum seljanda í tengslum við kaup á ferðaþjónustu. Gagnkvæm viðurkenning tryggingakerfa er nýmæli sem kynnt er í tilskipun (ESB) 2015/2302.
    Í framangreindri tilskipun er nú gert ráð fyrir að öll ríki á Evrópska efnahagssvæðinu verði með gagnkvæmum hætti að viðurkenna tryggingakerfi hvert annars. Íslenskir neytendur geta nú gengið að því vísu að seljendur í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem markaðssetja sig yfir landamæri séu tryggðir á fullnægjandi hátt sem kann að auka samkeppni milli seljenda yfir landamæri. Ófullnægjandi eða dýrt tryggingakerfi mun ýta undir að fyrirtæki og seljendur ferðaþjónustu muni frekar ákveða að staðsetja sig innan þeirrar lögsögu þar sem skilvirk og ódýr tryggingakerfi eru fyrir hendi. Þetta getur kallað á aðstæður, t.d. varðandi heimflutning ferðamanna, sem eru flóknar í útfærslu. Þó er ólíklegt að þetta komi til með að gera íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar (ESB) 2015/2302 kallar á lagabreytingar hér á landi. Lög nr. 80/1994 verða felld brott og sett ný heildarlög í staðinn. Afleidd breyting verður væntanlega einnig á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005. Gert er ráð fyrir því að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi fram frumvarp til laga á yfirstandandi löggjafarþingi. Tilskipun (ESB) 2015/2302 hefur verið samþykkt innan ESB og skal koma til framkvæmda 1. júlí 2018. Tilskipunin heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og lög nr. 80/1994 eru á forræði þess sem og lög um skipan ferðamála.Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017, frá 22. september 2017, um breytingu á II. viðauka XIX (Neytendavernd) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0446-f_I.pdf
Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/314/EBE.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0446-f_II.pdf