Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 448  —  337. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1032 frá 13. júní 2016 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna iðnaðar með járnlausan málm.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og til að fella inn í samninginn framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1032 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna iðnaðar með járnlausan málm (sbr. fskj. II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir umrædda gerð var ákvörðun nr. 107/2017 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir. Hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1032 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna iðnaðar með járnlausan málm.
    Tilskipun 2010/75/ESB um losun í iðnaði sameinar sjö eldri EES-gerðir um samþættar mengunarvarnir. Tilskipunin felur í sér endurútgáfu og uppfærslu á viðkomandi EES-gerðum þar sem tilgangurinn er að auka skýrleika reglnanna. Með tilskipun 2010/75/ESB er kveðið á um samþættar aðferðir við mengunarvarnir sem varða tiltekna mengandi starfsemi og gengur hún lengra en eldri tilskipanir. Tilskipunin byggist á heildstæðri nálgun þar sem taka skal tillit til umhverfisins í heild, t.d. með því að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg við meðhöndlun úrgangs, grípa til nauðsynlegra ráðstafana þegar óhöpp eða slys verða sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfið og setja kröfur um orkunýtni. Markmið tilskipunar 2010/75/ESB er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi, svo sem með því að setja losunarmörk varðandi tiltekin efni.
    Meðal helstu nýmæla tilskipunarinnar eru ákvarðanir um bestu aðgengilegu tækni (BAT) og gildi þeirra með tilkomu svokallaðra niðurstaðna um bestu aðgengilegu tækni (BAT Conclusions – BATC). Þau fela það í sér að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun setja fram, í samráði við aðildarríkin og hagsmunaaðila, viðmið varðandi tiltekna starfsemi. Þessi viðmið verða sett sem sérstakar gerðir framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. BAT-ákvarðanir (BATC).
    Með framkvæmdarákvörðun (ESB) 2016/1032 eru bestu fáanlegar niðurstöður fyrir járnlausan málmiðnað birtar. Á Íslandi falla þrjú álver undir ákvörðunina, eitt eða tvö fyrirtæki sem vinna að endurvinnslu álgjalls og ein verksmiðja sem framleiðir kísiljárn (járnblendi). Auk þess falla undir þessa ákvörðun tvær verksmiðjur sem eru í byggingu og fengið hafa starfsleyfi Umhverfisstofnunar til að framleiða hrákísil, auk einnar verksmiðju til viðbótar sem sótt hefur um starfsleyfi til slíkrar starfsemi.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1032 kallar sem slík ekki á lagabreytingar. Hins vegar kallaði móðurgerð sú sem ákvörðunin byggist á, þ.e. tilskipun 2010/75/ESB, á lagabreytingu. Umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir á 146. löggjafarþingi sem m.a. innleiddi tilskipun 2010/75/ESB í íslenska löggjöf. Lögin tóku gildi hinn 1. júlí 2017.



Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 frá 13. júní 2017 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0448-f_I.pdf




Fylgiskjal II.


Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1032 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna iðnaðar með járnlausan málm.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0448-f_II.pdf