Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 468  —  119. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um útgáfu vestnorrænnar söngbókar.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, og Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Með tillögunni er ríkisstjórn Íslands hvött til að beita sér ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands fyrir því að vestnorræn söngbók verði gefin út með lögum á þjóðtungum landanna þriggja. Vestnorræn söngbók með lögum á íslensku, færeysku og grænlensku yrði íbúum landanna góð kynning á þjóðtungum og sönglagamenningu nágranna sinna. Fyrsta skrefið í þessa átt væri að setja á fót vinnuhóp fagfólks frá löndunum þremur sem mundu velja lögin og útsetja þau með nótum. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2017 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 1. september 2017 í Reykjavík.
    Nefndin er jákvæð gagnvart útgáfu vestnorrænnar söngbókar en hefur efasemdir um þörf á atbeina ríkisstjórnar í málinu. Nefndin telur að Vestnorræna ráðið geti unnið að slíkum verkefnum, m.a. í gegnum sjóði fyrir norrænt og vestnorrænt menningarsamstarf, án þess að sérstök hvatning Alþingis til ríkisstjórnar þurfi að koma til. Nefndin beinir því vinsamlegum tilmælum til Vestnorræna ráðsins um að endurskoða verklag sitt þegar viðlíka verkefni er annars vegar. Að því sögðu vill nefndin ekki standa í vegi fyrir málinu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, og Bryndís Haraldsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Inga Sæland sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 5. mars 2018.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaform. Logi Einarsson, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir.