Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 533  —  333. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Ólaf Grétar Kristjánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017, frá 5. maí 2017, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“).
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 5. nóvember 2017. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB felur í sér heimild til handa fagstéttum til að njóta viðurkenningar á starfsréttindum sínum innan EES-svæðisins og þar með til að stunda vinnu í krafti menntunar sinnar og starfsreynslu. Helstu breytingar sem í tilskipuninni felast miða að því að tryggja að framkvæmdin verði einfaldari og skjótvirkari. Með tilskipuninni er tekið upp svokallað „evrópskt fagskírteini“ (e. European Professional Card). Evrópska fagskírteininu er ætlað að styrkja innri markaðinn, ýta undir frjálsa för fagfólks og tryggja skilvirkari og gagnsærri viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Með evrópska fagskírteininu geta umsækjendur sótt um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi með rafrænum hætti fyrir þær starfsgreinar sem falla undir evrópska fagskírteinið. Þá er í samræmi við tilskipunina unnt að veita takmarkaðan aðgang að starfsgrein (e. partial access) í þeim tilfellum þar sem svo mikill munur er á þeim kröfum sem gerðar eru til viðkomandi starfsgreinar í heimaríki viðkomandi og væntanlegu gistiríki að kröfur í því síðarnefnda jafngiltu því að umsækjandinn þyrfti að ljúka fullu námi og þjálfun í gistiríkinu til að fá fullan aðgang að viðkomandi starfsgrein í því ríki.
    Þá skulu aðildarríki nýta upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar (e. Points of Single Contact, PSC) sem komið var á fót í samræmi við kröfur þjónustutilskipunar Evrópusambandsins (tilskipun 2006/123/EB) til þess að auðvelda viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Miðstöðvarnar skulu hafa aðgengilegar upplýsingar, þ.m.t. skrá yfir allar lögverndaðar starfsgreinar í viðkomandi aðildarríki.
    Tilskipunin felur einnig í sér heimild til að taka upp sameiginlegar menntunarkröfur eða sameiginlegt lokapróf fyrir starfsgreinar þar sem þess er óskað og koma þannig á sjálfkrafa viðurkenningu fyrir þær greinar. Tilskipunin tekur einnig til starfsnáms en nemendur í starfsnámi skulu eiga þess kost að fá viðurkennt starfsnám eða starfsreynslutíma innan löggiltra starfsgreina sem fer fram í öðru EES-ríki en í heimalandinu.
    Þá eru með tilskipuninni settar fram kröfur um að rýna beri frekar núgildandi fyrirkomulag lögverndunar starfsgreina, einkum til að tryggja að núgildandi kröfur feli ekki í sér beina eða óbeina mismunun á grundvelli ríkisfangs eða búsetu, að þær séu settar á grundvelli brýnna almannahagsmuna og að kröfur um lögverndun starfsréttinda séu til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem stefnt er að og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er að til að ná þeim markmiðum.
    Innleiðing tilskipunar 2013/55/ESB kallar á breytingar á lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Mennta- og menningarmálaráðherra mun leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Bryndís Haraldsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Gunnar Bragi Sveinsson.
Logi Einarsson. Sigríður María Egilsdóttir. Smári McCarthy.
Stefán Vagn Stefánsson.