Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 536  —  337. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017, frá 13. júní 2017, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn framkvæmdarákvörðun (ESB) 2016/1032 frá 13. júní 2016 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna iðnaðar með járnlausan málm.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 13. desember 2017. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2010/75/ESB um losun í iðnaði felur í sér endurútgáfu og uppfærslu á sjö EES-gerðum um samþættar mengunarvarnir í þeim tilgangi að auka skýrleika reglnanna. Tilskipunin kveður á um samþættar aðferðir við mengunarvarnir sem varða tiltekna mengandi starfsemi og gengur lengra en eldri tilskipanir. Markmið tilskipunar 2010/75/ESB er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi. Helstu nýmæli snúa að ákvörðunum um bestu aðgengilegu tækni (BAT) og gildi þeirra með tilkomu svokallaðra niðurstaðna um bestu aðgengilegu tækni (BAT Conclusions – BATC). Þau fela það í sér að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun setja fram, í samráði við aðildarríkin og hagsmunaaðila, viðmið varðandi tiltekna starfsemi. Þessi viðmið verða sett sem sérstakar gerðir framkvæmdastjórnarinnar.
    Framkvæmdarákvörðun (ESB) 2016/1032 birtir bestu fáanlegu niðurstöður fyrir járnlausan málmiðnað. Á Íslandi falla þrjú álver undir ákvörðunina, eitt eða tvö fyrirtæki sem vinna að endurvinnslu álgjalls og ein verksmiðja sem framleiðir kísiljárn (járnblendi). Auk þess falla undir ákvörðunina tvær verksmiðjur sem hafið hafa framleiðslu samkvæmt starfsleyfi Umhverfisstofnunar og framleiða hrákísil, auk einnar verksmiðju til viðbótar sem sótt hefur um starfsleyfi til slíkrar starfsemi.
    Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1032 kallar sem slík ekki á lagabreytingar. Móðurgerðin sem ákvörðunin byggist á, þ.e. tilskipun 2010/75/ESB, kallaði aftur á móti á lagabreytingu. Umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir á 146. löggjafarþingi sem m.a. innleiddi tilskipun 2010/75/ESB í íslenska löggjöf. Lögin tóku gildi 1. júlí 2017.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Bryndís Haraldsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Gunnar Bragi Sveinsson.
Logi Einarsson. Sigríður María Egilsdóttir. Smári McCarthy.
Stefán Vagn Stefánsson.