Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 592  —  418. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979 (grunnlínupunktar).

Frá utanríkismálanefnd .


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 58/2017:
     a.      21. tölul. orðast svo: 64°14'23,41"N     14°57'37,98"V     Stokksnes I
     b.      22. tölul. orðast svo: 64°14'08,11"N     14°58'22,20"V     Stokksnes II
     c.      27. tölul. orðast svo: 63°32'23,47"N     17°55'14,65"V     Meðallandssandur I
     d.      28. tölul. orðast svo: 63°30'24,19"N     18°00'01,69"V     Meðallandssandur II

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með lögum nr. 58/2017, um breytingu á lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979 (grunnlínupunktar og aðlægt belti), voru gerðar nokkrar breytingar á nefndum lögum. Helstu breytingar fólust í því að stofnað var til svokallaðs aðlægs beltis á 12 sjómílna breiðu belti í hafinu utan landhelgi Íslands, sem veitir Íslandi sem strandríki auknar valdheimildir á því svæði. Einnig voru tekin upp ákvæði um heimildir til verndar munum sem eru fornleifafræðilegs og sögulegs eðlis og eru á hafsbotni á aðlæga beltinu. Þessu til viðbótar voru grunnlínupunktarnir sem íslenska landhelgin, aðlæga beltið, efnahagslögsagan og landgrunnið mælast frá uppfærðir, að ábendingu Landhelgisgæslu Íslands, til samræmis við nýrri og nákvæmari mælingar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Eftir að lög nr. 58/2017 tóku gildi kom í ljós að hnit fjögurra grunnlínupunkta höfðu víxlast í gagnagrunni Landhelgisgæslunnar og voru því ranglega tilgreind í lögunum. Þannig höfðu raunverulegu hnitin á grunnlínupunkti 21, sem ber heitið Stokksnes I, verið ranglega skráð í gagnagrunninn sem hnit grunnlínupunkts 22, sem heitir Stokksnes II, og öfugt. Sama á við um hnit grunnlínupunkts 27, Meðallandssands I, sem höfðu verið skráð sem hnit grunnlínupunkts 28, sem er Meðallandssandur II, og öfugt.
    Þar sem grunnlínan er dregin milli grunnlínupunktanna eftir tilgreindri röð þeirra gerir þessi víxlun á hnitunum á þessum fjórum punktum það að verkum að lega grunnlínunnar bjagast á tveim stöðum við sunnan- og suðvestanvert landið. Á þeim stöðum er grunnlínan ekki í beinu línulegu framhaldi milli grunnlínupunktanna frá vestri til austurs, til samræmis við náttúrulegar aðstæður á því svæði, heldur liggur fram hjá einum punkti í þarnæsta punkt til austurs, gengur síðan til baka til vesturs í punktinn sem hún lá fram hjá og síðan í þar næsta punkt til austurs. Þótt bjögunin á grunnlínunni vegna þessara fjögurra punkta sé ekki stórvægileg hefur hún áhrif á afmörkun landhelginnar, aðlæga beltisins, landgrunnsins og efnahagslögsögunnar. Óhjákvæmilegt er því að leiðrétta tilgreiningu punktanna og er það gert með frumvarpi þessu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarp þetta felur í sér þær efnislegu breytingar að tilgreining hnita á fjórum grunnlínupunktum er leiðrétt innbyrðis. Þótt hnitin á öllum punktunum í þessu frumvarpi séu þegar til staðar í lögunum eru þau tilgreind þar undir röngu punktaheiti en verða nú færð undir rétt nafn í hnitaskránni í lögunum. Leiðrétting tilgreiningarinnar byggist á gögnum frá Landhelgisgæslu Íslands og er gerð að ósk og í fullu samráði við hana.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Rétt tilgreining grunnlínupunkta er eðlileg og sjálfsögð krafa og í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á hafréttarsviði. Efni frumvarpsins er í samræmi við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Öll punktahnitin sem tilgreind eru í frumvarpinu eru þegar í lögum nr. 41/1979, sbr. lög nr. 58/2017, en undir röngu heiti. Í frumvarpinu felast því ekki nein ný efnisleg atriði og af því leiðir að frumvarpið hefur engin áhrif umfram það sem lögum nr. 58/2017 var ætlað að hafa. Ekki er því þörf á viðbótarsamráði umfram það víðtæka samráð sem var haft nýlega í tengslum við setningu laga nr. 58/2017.

6. Mat á áhrifum.
    Enginn kostnaður fylgir samþykkt frumvarpsins. Engin neikvæð áhrif fylgja samþykkt þess heldur er það þvert á móti mikilvægt og jákvætt að grunnlínupunktar strandríkja séu tilgreindir eins skýrt, rétt og skilmerkilega og kostur er hverju sinni. Þess má vænta að rétt tilgreining grunnlínupunkta landsins komi öllum hlutaðeigandi til góða, bæði borgurum og opinberum aðilum, hérlendis sem erlendis.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni eru tilgreind rétt hnit fjögurra grunnlínupunkta sem höfðu víxlast í gagnagrunni Landhelgisgæslu Íslands og því verið ranglega tilgreind í 1. gr. laga nr. 41/1979, sbr. lög nr. 58/2017. Hnitin voru efnislega rétt en voru skráð undir röngu heiti. Hér er því ekki um efnislega breytingu að ræða, hvorki er bætt við nýjum punktum né hnitum punkta breytt, heldur eru hnit punkta sem þegar voru til staðar í lögunum einungis tilgreind undir réttum punktaheitum og í línulega réttri röð í hnitaskránni.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.