Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 605  —  423. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (hlutabréfakaup, skuldajöfnun, álagning o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna:
     a.      Orðin „og þremur árum eftir“ í 6. tölul. 2. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „eða starfsmaður“ í 1. málsl. b-liðar 6. tölul. 2. mgr. falla brott.
     c.      Orðin „og árlega eftir það“ í 1. málsl. 12. tölul. 3. mgr. falla brott.
     d.      2. málsl. 5. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Í stað „1. nóvember“ í 2. málsl. 6. mgr. 51. gr. laganna kemur: 1. október.

3. gr.

    3. mgr. 65. gr. laganna orðast svo:
    Í upphafi hvers árs skal ríkisskattstjóri að fenginni staðfestingu ráðherra gefa út reglur um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt ákvæði þessu.

4. gr.

    Í stað orðanna „til búsetu leigjanda“ í 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna kemur: sem fellur undir húsaleigulög.

5. gr.

    Í stað 3. og 4. málsl. 1. mgr. 90. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ríkisskattstjóra er heimilt að ákveða að framtalsskil skuli almennt vera með rafrænum hætti og að málsmeðferð verði jafnframt rafræn, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum 94.–96., 98., 99. og 101. gr.

6. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 98. gr. laganna orðast svo: Birta skal hverjum skattaðila upplýsingar um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir og er ríkisskattstjóra heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

7. gr.

    Í stað „60 daga“ í 1. málsl. 1. mgr. 99. gr. laganna kemur: þriggja mánaða.

8. gr.

    Í stað „1. júlí“ í 9. mgr. 112. gr. laganna kemur: 1. júní.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 114. gr. laganna:
     a.      Í stað „1. júlí“ í 3. málsl. kemur: 1. júní.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurgreiðslukröfum sem stofnast samkvæmt lögum þessum vegna tímabila fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti skal skuldajafna á móti vangoldnum sköttum og gjöldum, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 100. gr. og 136. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

II. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.

10. gr.

    Við 2. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurgreiðslukröfum sem stofnast samkvæmt lögum þessum vegna tímabila fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti skal skuldajafna á móti vangoldnum sköttum og gjöldum, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 100. gr. og 136. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

III. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum.

11. gr.

    Á eftir orðunum „innheimtu þeirra“ í 21. gr. laganna kemur: og skuldajöfnun á móti gjaldföllnum sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélaga.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

12. gr.

    Við 3. mgr. 25. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurgreiðslukröfum sem stofnast samkvæmt lögum þessum vegna tímabila fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti skal skuldajafna á móti vangoldnum sköttum og gjöldum þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 100. gr. og 136. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

V. KAFLI

Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.

13. gr.

    Í stað „1. júlí“ og „1. nóvember“ í 6. mgr. 12. gr. laganna kemur: 1. júní; og: 1. október.

14. gr.

    Í stað „1. ágúst“ og „1. nóvember“ í 16. gr. laganna kemur: 1. júlí; og: 1. október.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, með síðari breytingum.

15. gr.

    Í stað „1. júlí“ og „1. nóvember“ í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur: 1. júní; og: 1. október.

16. gr.

    Í stað „1. nóvember“ í 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna kemur: 1. október.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, með síðari breytingum.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað „1. júlí, 1. ágúst og 1. september“ í 2. málsl. kemur: 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst.
     b.      Í stað „1. nóvember“ í 3. málsl. kemur: 1. október.
     c.      Í stað „1. júlí“ og „1. nóvember“ í 4. málsl. kemur: 1. júní; og: 1. október.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

18. gr.

    Í stað „1. júlí“ í 2. og 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: 1. júní.

19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 1. gr. kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2019 vegna fjárfestinga á árinu 2018.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum af ólíkum toga. Um er að ræða breytingar sem varða skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa, álagningu opinberra gjalda, reglur um ívilnanir, skuldajöfnun vegna vangoldinna skatta og gjalda, orðalag í ákvæðum tekjuskattslaga um tekjur manns af útleigu íbúðarhúsnæðis og rafræn samskipti og birtingu álagningar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar er nokkuð mismunandi eftir því hvaða breytingartillögur er um að ræða. Tilefni breytinga sem varða skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa er að fækka og einfalda þau skilyrði sem bæði einstaklingar og félög þurfa að uppfylla þegar einstaklingar hyggjast nýta sér skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í formi frádráttar frá tekjuskattsstofni. Þá er það jafnframt tilefni breytinganna að stuðla að því að skilyrði frádráttarins hvetji einstaklinga til að nýta sér hann. Tilefni breytinga vegna skuldajöfnunar er dómur Hæstaréttar nr. 329/2016, en hann varðar riftun skuldajöfnunar inneignar þrotabús í virðisaukaskatti upp í vangoldin opinber gjöld. Sú niðurstaða kallar á breytingar á nokkrum lögum til samræmingar. Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu um að álagningu á einstaklinga og lögaðila verði flýtt um einn mánuð og breytingar til samræmingar á orðalagi í ákvæðum tekjuskattslaga um tekjur manns af útleigu íbúðarhúsnæðis auk rafrænna samskipta og birtingar álagningar.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa.
    Lagðar eru til breytingar á 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með því að einstaklingur og félagið sem hann hyggst fjárfesta í vegna hlutafjáraukningar þurfi ekki lengur að uppfylla skilyrði frádráttar sem varða annars vegar tengsl einstaklingsins við félagið og hins vegar þau skilyrði sem varða félagið sjálft og starfsemi þess, eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað. Það að einstaklingur og félagið þurfi samkvæmt núgildandi lögum að halda áfram að uppfylla skilyrðin í fyrirframákveðinn tíma eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað er talið draga úr hvata einstaklingsins til að nýta sér frádráttinn.
    Einnig er fyrirhugað að fækka skilyrðum laganna sem snúa að einstaklingi sem hyggst nýta sér frádráttinn með því að fella brott skilyrðið um að hann megi ekki vera starfsmaður félagsins sem hann hyggst fjárfesta í vegna hlutafjáraukningar þess. Tillaga þessi ætti að hafa í för með sér bæði jákvæð áhrif á hlutafjáraukningu félagsins og gera frádráttarferlið skilvirkara.

3.2. Breyting á álagningardegi einstaklinga og lögaðila.
    Fjármála- og efnahagsráðherra auglýsir árlega, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, hvenær álagningu á einstaklinga skuli lokið. Undanfarið hefur álagning á einstaklinga farið fram í lok júní ár hvert og hefur kærufrestur verið tveir mánuðir. Álagning á lögaðila hefur farið fram í lok október. Tímasetning á lokum álagningar réðst frá upphafi á skorti á tæknilegri getu til að vinna álagninguna á skemmri tíma. Með gjörbreyttri tækni og breyttum viðhorfum, svo sem auknum heimildum til upplýsingaöflunar, hefur auðnast að leggja nánast fullbúin skattframtöl fyrir allan þorra framteljenda, þannig að þann rúma tíma sem þeim var áður ætlaður til skila á skattframtölum er unnt að stytta umtalsvert. Þá hefur öll úrvinnsla á skattframtölum orðið vélræn í þeim mæli að handvirk afgreiðsla heyrir til undantekninga. Að auki hefur ráðuneytið talið bæði heppilegra vegna allrar samantektar á þjóðhagsstærðum og eins með tilliti til þarfa skattgreiðenda að álagning opinberra gjalda liggi fyrir sem fyrst. Því er lagt til að álagningardegi einstaklinga og lögaðila verði flýtt. Álagning einstaklinga verði þannig birt um mánaðamótin maí/júní 2018 og álagning lögaðila um mánaðamótin september/október 2018. Einnig er lagt til að kærufrestur verði lengdur úr 60 dögum í þrjá mánuði frá dagsetningu auglýsingar um lok álagningar.

3.3. Heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni – ívilnun.
    Við tilteknar aðstæður er ríkisskattstjóra heimilt að lækka tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga óski þeir eftir því í skattframtali og fylli út þar til gerða umsókn. Eftir að embætti skattstjóra voru sameinuð undir stjórn ríkisskattstjóra í ársbyrjun 2010 er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um nánari skilyrði fyrir ívilnunum. Fyrir sameiningu embættanna skyldi ríkisskattstjóri fylgjast með ívilnunum sem skattstjórar veittu samkvæmt lagagreininni og sjá til þess að samræmis væri gætt og réttum reglum fylgt. Með vísan í málsgreinina hefur ríkisskattstjóri sett reglur um skilyrði fyrir ívilnun, sbr. reglur nr. 212/1996, og viðmiðunarreglur um ívilnanir, sbr. auglýsingu nr. 495/2017. Viðlíka viðmiðanir hafa verið til hliðsjónar árin 2015–2017. Erfitt getur verið að sjá öll tilvik fyrir og gefa út reglugerð sem gilda á fyrir alla umsækjendur. Tilvik eru margvísleg og líta verður til einstaklingsbundinna aðstæðna hvers og eins þótt ákveðnar viðmiðunarreglur séu hafðar til hliðsjónar. Því er lagt til að reglugerðarheimild ráðherra verði felld brott en þess í stað verði kveðið á um það að ríkisskattstjóri skuli í upphafi hvers árs, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt ákvæði 65. gr. tekjuskattslaga.

3.4. Útleiga íbúðarhúsnæðis.
    Með lögum nr. 59/2017, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, voru gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt þar sem skýr greinarmunur var gerður á skattalegri meðferð leigutekna eftir því hvort um væri að ræða útleigu sem félli undir húsaleigulög, heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eða aðra útleigu á íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi. Markmiðið var að einfalda skattskil og skýra skattskyldu, skattalega meðferð leigutekna og afmörkun skattstofna vegna íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 59/2017 var upphaflega vísað til „útleigu til varanlegrar búsetu leigjanda“ en við meðferð frumvarpsins á Alþingi komu fram ábendingar um að vísa fremur til „útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög“. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar taldi þá afmörkun skýrari og var ákvæðum frumvarpsins breytt í þá veru, sbr. þingskjöl 858 og 859 – 385. mál á 146. löggjafarþingi 2016–2017. Í ljós hefur komið að láðst hefur að gera sambærilega breytingu á ákvæði 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga þar sem enn er vísað til eldra orðfæris. Lagt er til að úr því verði bætt í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á orðalagi a-liðar 1. mgr. 58. gr. a og a-lið 5. tölul. 70. gr. tekjuskattslaga.

3.5. Rafræn samskipti og rafræn birting álagningar.
    Rafræn skil skattframtala voru tekin upp í áföngum og var í fyrstu lögfest heimild til handa ríkisskattstjóra að ákveða að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri skyldu skila skattframtölum í tölvutæku formi. Með 11. gr. laga nr. 124/2015 var veitt heimild til þess að einstaklingum utan atvinnurekstrar yrði einnig gert skylt að skila framtölum rafrænt. Eðlilegt þykir að sameina og samræma framangreind ákvæði. Þá var með tilvitnuðum lögum kveðið á um önnur rafræn samskipti við einstaklinga utan atvinnurekstrar. Nauðsynlegt þykir að taka af allan vafa um að rafræn samskipti séu meginregla í öllum samskiptum við framteljendur óháð því hvort um ræðir einstaklinga eða lögaðila. Með rafrænum samskiptum er umhverfisvernd, hagræðing í rekstri og skilvirk samskipti við einstaklinga og fyrirtæki höfð að leiðarljósi.
    Nánast allir framteljendur eiga í rafrænum samskiptum við skattyfirvöld og afla sér nauðsynlegra upplýsinga með rafrænum hætti á vef ríkisskattstjóra eða á þjónustusíðu sinni. Útsending álagningarseðla á pappír er því á skjön við þessa þróun, enda stækkar sá hópur frá ári til árs sem afþakkar bréflega móttöku álagningarseðils og þykir því ástæða til að heimila með skýrum hætti að niðurstöður álagningar megi almennt tilkynna framteljendum rafrænt.

3.6. Skuldajöfnun.
    Tilefni þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu, um skuldajöfnun á móti vangoldnum sköttum og gjöldum, er dómur Hæstaréttar nr. 329/2016, sem varðar riftun skuldajöfnunar inneignar þrotabús í virðisaukaskatti upp í skuld opinberra gjalda þess. Samkvæmt ákvæðum skattalaga er skylt að skuldajafna kröfum á móti inneignum til að mynda í virðisaukaskatti, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar var, með vísan til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., fallist á kröfur þrotabúsins um riftun á greiðslum sem fóru fram með skuldajöfnun tollstjóra á inneignum í virðisaukaskatti upp í skuld vegna ógreiddra opinberra gjalda. Samkvæmt ákvæðum gjaldþrotalaga er það gert að skilyrði fyrir skuldajöfnun að krafa þrotabús á hendur lánardrottni hafi orðið til fyrir frestdag sem er sá dagur er héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Skattalög og gjaldþrotalög stangast því á hvað þetta varðar og snerist ágreiningur í málinu m.a. um það hvor þeirra innihéldu sérákvæði gagnvart almennu ákvæði um skuldajöfnun. Dómurinn taldi gjaldþrotalögin innihalda sérákvæði sem gengju framar ákvæðum skattalaga að þessu leyti og þar sem kröfur vegna inneignar í virðisaukaskatti urðu allar til eftir frestdag var fallist á kröfur þrotabúsins um riftun á greiðslum sem fóru fram með skuldajöfnun tollstjóra á inneignum í virðisaukaskatti upp í skuld vegna ógreiddra opinberra gjalda.
    Staðgreiðsla launagreiðanda og virðisaukaskattur ásamt fleiri gjöldum eru svonefndir vörsluskattar því fyrirtæki innheimta tekjuskattinn af starfsmönnum sínum og virðisaukaskattinn af viðskiptavinum sínum fyrir hönd ríkisins og ber að afhenda ríkinu þessa skatta á tilteknum gjalddögum. Þessir fjármunir eiga aðeins að vera tímabundið í vörslu fyrirtækjanna og eru aldrei eign neins annars en ríkissjóðs. Því er lagt til að við lög um tekjuskatt, virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur verði bætt ákvæði sem kveður á um að skuldajöfnun skuli fara fram vegna inneigna á tímabilum fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 100. gr. og 136. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Skuldajöfnun mun því fara fram hvort sem krafa hefur orðið til fyrir eða eftir frestdag samkvæmt lögunum, enda óeðlilegt að skuldajöfnunarheimild sé háð því hvenær aðili kýs að skila inn skýrslum eða hvenær inneign myndast. Þá getur það ekki talist réttmætt að inneign í skatti, sem myndast vegna tímabila fyrir gjaldþrotaúrskurð þrotamanns, renni inn í þrotabúið til hagsbóta fyrir alla kröfuhafa. Auk þess er ekki um sama svigrúm til ráðstafana búsins að ræða í tilviki skattkrafna eins og í tilviki annarra krafna samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmist ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við ríkisskattstjóra og tollstjóra og leitað samráðs við dómsmálaráðuneytið. Þá var frumvarpið kynnt á vettvangi ráðuneytisstjóra og almenningi í opinni samráðsgátt ráðuneytanna 22.–28. febrúar 2018. Ein umsögn barst frá Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem ekki voru gerðar sérstakar athugasemdir við efni frumvarpsins. Hins vegar var komið á framfæri ábendingum um að takmörkun á gildistíma bráðabirgðaákvæðis XL í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, yrði felld niður og ákvæðið gert ótímabundið auk þess sem það fé sem hefði verið innheimt í formi fjármagnstekjuskatts frá því ákvæðið rann sitt skeið yrði endurgreitt.
    Bráðabirgðaákvæði eru í eðli sínu tímabundin eins og heiti þeirra gefur til kynna og tók áðurnefnt bráðabirgðaákvæði XL til ákvörðunar vaxta á árunum 2010 og 2011. Löggjafanum hefur ekki þótt ástæða til að framlengja ákvæðið í lok árs 2011 en þess má geta að á árunum 2010–2013 var frítekjumark vaxtatekna hjá einstaklingum 100.000 kr., á árunum 2014–2016 var frítekjumarkið 125.000 kr. og frá árinu 2017 hefur það verið 150.000 kr. Þannig leggst ekki skattur á þær vaxtatekjur við álagningu opinberra gjalda.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu muni hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hins vegar ættu þær breytingar sem stefnt er að með frumvarpinu að hafa jákvæð áhrif á almannahagsmuni. Áhrif þess á stjórnsýslu ríkisins og stofnanir eru talin verða hverfandi.
    Núverandi úrræði til lækkunar tekjuskattsstofns vegna hlutabréfakaupa hefur haft umtalsvert minni áhrif á tekjur ríkissjóðs en áður hafði verið gert ráð fyrir. Við álagningu ársins 2017 á tekjur ársins 2016 voru 30 einstaklingar sem lækkuðu tekjuskattsstofn sinn samanlagt um 18 millj. kr. fyrir tilstilli úrræðisins. Erfitt er að segja til um hve margir einstaklingar muni koma til með að nýta sér úrræðið eftir að skilyrðum sem þarf að uppfylla hefur verið fækkað. Með hliðsjón af álagningu ársins 2017 metur fjármála- og efnahagsráðuneytið það svo að vænta megi þess að um 200 einstaklingar muni nýta sér skattafsláttinn sem felst í frádrætti frá tekjuskattsstofni sem lagður er til í frumvarpinu. Vegna þessa er tekjutap ríkissjóðs metið um 28 millj. kr. árið 2018 og tekjutap sveitarfélaganna um 12 millj. kr. Þær tölur taka mið af álagningu einstaklinga árið 2017 og þeirra tekna sem ríkissjóður varð af vegna úrræðisins í núverandi mynd.
    Gert er ráð fyrir því að þær breytingartillögur sem snúa að skuldajöfnun vegna vangoldinna skatta og gjalda muni koma í veg fyrir hugsanlegt tekjutap ríkissjóðs vegna riftana skuldajöfnunar í kjölfar dóms Hæstaréttar nr. 329/2016.
Aðrar breytingar frumvarpsins er taldar hafa óveruleg eða engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-, c- og d-lið greinarinnar er lagt til að einstaklingur sem hyggst nýta sér frádrátt skv. 1. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og/eða félagið sem hann hyggst fjárfesta í vegna hlutafjáraukningar þurfi ekki lengur að uppfylla þau skilyrði frádráttarins sem varða annars vegar tengsl einstaklingsins við félagið, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna, og hins vegar þau skilyrði sem varða félagið sjálft og starfsemi þess, sbr. 3.–4. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna, eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað. Einstaklingurinn mun þar með ekki þurfa að standa frammi fyrir þeirri áhættu að frádrátturinn verði bakfærður ef hann og/eða félagið uppfyllir ekki lengur þessi skilyrði frádráttarins vegna síðar tilkominna atvika. Talið er heppilegt að miða við þessa punktstöðu þar sem slíkt mundi að öðru leyti draga almennt úr hvata einstaklingsins til að nýta sér frádráttinn og jafnframt er talið óeðlilegt að ríkisskattstjóri staðfesti félag, sbr. 12. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna, þegar fyrirsjáanlegt er að félagið mun ekki uppfylla skilyrði frádráttarins í náinni framtíð.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að fellt verði brott það skilyrði að einstaklingur sem hyggst fjárfesta í félagi vegna hlutafjáraukningar þess og nýta sér frádrátt skv. 1. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, megi ekki vera starfsmaður félagsins. Það að starfsmenn félagsins geti ekki nýtt sér frádráttinn er talið útiloka stóran hluta þess hóps sem almennt er hvað líklegastur til að taka þátt í hlutafjáraukningu félags á uppbyggingartíma þess. Tillaga þessi mun því hafa jákvæð áhrif á hlutafjáraukningu félagsins og gera frádráttarferlið skilvirkara.

Um 2. gr., 7. gr., 8. gr., a-lið 9. gr. og 13.–18. gr.

    Lagt er til að álagningu einstaklinga og lögaðila verði flýtt og álagning einstaklinga verði birt um mánaðamótin maí/júní ár hvert í stað loka júnímánaðar og álagning lögaðila verði birt um mánaðamótin september/október ár hvert í stað loka októbermánaðar. Þá er einnig lagt til að kærufrestur verði lengdur úr 60 dögum í þrjá mánuði frá dagsetningu auglýsingar um lok álagningar. Talið er heppilegra að kærufrestur sé lengri en nú er kveðið á um þar sem óheppilegt er að lok kærufrests sé á miðju sumarorlofstímabili. Lok kærufrests yrði því í lok ágúst líkt og verið hefur.

Um 3. gr.

    Lagt er til að reglugerðarheimild ráðherra verði felld brott en þess í stað skuli ríkisskattstjóri í upphafi hvers árs, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt ákvæði 65. gr. tekjuskattslaga.

     Um 4. gr.

    Lagt er til að í stað þess að vísa til „útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda“, í 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. sem er um tekjuskatt af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar, verði vísað til „útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög“ í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á a-lið 1. mgr. 58. gr. a og a-lið 5. tölul. 70. gr. tekjuskattslaga, sbr. lög nr. 59/2017.

Um 5. gr.

    Lagt er til að ákvæði um rafræn skil annars vegar lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri og hins vegar einstaklinga utan atvinnurekstrar á skattframtölum verði sameinuð og samræmd. Þá er lagt til að rafræn samskipti verði meginreglan í öllum samskiptum skattyfirvalda og framteljenda í tilviki lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri en slíkt gildir nú þegar um einstaklinga utan atvinnurekstrar. Þannig verða rafræn samskipti óháð því hvort um ræðir einstaklinga eða lögaðila.

Um 6. gr.

    Lagt er til að ríkisskattstjóra verði almennt heimilt að birta framteljendum niðurstöður álagningar rafrænt.

Um b-lið 9. gr. og 10.–12. gr.

    Lagt er til að við lög um tekjuskatt, virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur verði bætt ákvæði sem kveður á um að skuldajöfnun vegna opinberra skatta og gjalda skuli fara fram vegna inneigna á tímabilum fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 100. gr. og 136. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Skuldajöfnun mun því fara fram hvort sem krafa hefur orðið til fyrir eða eftir frestdag samkvæmt lögunum.

Um 19. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.