Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 667  —  461. mál.




Frumvarp til laga


um framkvæmdaleyfi vegna uppbyggingar á Vestfjarðavegi.

Flm.: Haraldur Benediktsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Bergþór Ólason, Sigurður Páll Jónsson.


1. gr.

    Vegagerðin hefur leyfi til framkvæmda á leið Þ-H á Vestfjarðavegi (60) milli Bjarkalundar og Skálaness, þrátt fyrir ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010. Viðkomandi sveitarfélag skal eftir sem áður hafa eftirlit með framkvæmdunum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp sambærilegt þessu var flutt á 147. löggjafarþingi (102. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú flutt í styttri og verulega einfaldara útgáfu enda hefur sveitarstjórn samþykkt breytingar á aðalskipulagi að undangengnum nauðsynlegum rannsóknum sem fjallað var um í fyrra frumvarpi.

1. Inngangur.
    Liðin eru 20 ár frá því að Alþingi samþykkti vegaáætlun um uppbyggingu heilsársvegar milli Reykjavíkur og Patreksfjarðar og 18 ár frá því framkvæmdir áttu að hefjast á vegarkaflanum á milli Bjarkalundar og Flókalundar. Þó svo að margt hafi verið gert frá þeim tíma er uppbygging á veginum um Gufudalssveit ekki enn hafin. Breið samstaða er um mikilvægi þess að leggja nýjan veg um Gufudalssveit. Núverandi vegur er kominn til ára sinna og uppfyllir ekki gildandi kröfur um umferðaröryggi. Verulegir almannahagsmunir eru þannig í húfi og því blasir við að frekari tafir eru óásættanlegar.
    Í september 2015 sendi Vegagerðin tillögu að matsáætlun fyrir Vestfjarðaveg (60) milli Bjarkalundar og Skálaness í Reykhólahreppi til ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna framkvæmdarinnar barst 1. desember 2015 Frummatsskýrsla var lögð fram 19. október 2016 til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt lögum nr. 106/2000. Í frummatsskýrslu var gerð grein fyrir þeim fimm valkostum sem kynntir voru í tillögu að matsáætlun og þeir lagðir fram til samanburðar með tilliti til umhverfisáhrifa, þar á meðal leiðin um Teigsskóg. Í kjölfarið vann Vegagerðin endanlega matsskýrslu. Álit Skipulagsstofnunar barst 28. mars 2017.
    Staða málsins er sú að öll efnisleg atriði málsins liggja fyrir. Tekið hefur verið tillit til margvíslegra athugasemda, dregið verulega úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og eldri ágreiningsefni um stjórnsýslumeðferðina heyra sögunni til. Enn á ný eru tafir á framkvæmdum sem snúa að stjórnsýslulegri málsmeðferð er varðar veitingu framkvæmdaleyfis, en fyrir liggur að Vegagerðin þarf að sækja um slíkt leyfi til Reykhólahrepps. Það var mat Skipulagsstofnunar að til að hægt væri að sækja um framkvæmdaleyfi þurfti að breyta aðalskipulagi Reykhólahrepps. Skipulagsstofnun fékk sent samþykkt aðalskipulag í febrúar 2018. Skipulagsstofnun staðfestir aðalskipulag innan fjögra vikna frá því að uppdráttur berst og birtir staðfestingu í B-deild Stjórnartíðinda. Að því búnu er ekkert að vanbúnaði að sækja um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdaleyfi gæti legið fyrir í ágúst 2018 og ef allir kærufrestir verða nýttir þá getur útgáfa framkvæmdaleyfis dregist fram á vor 2019. Það er óásættanlegt að íbúar á þessu svæði þurfi að bíða í heilt ár til viðbótar vegna flækjustigs í stjórnsýslunni.

2. Tilgangur og nauðsyn lagasetningar.
    Ekki þarf að fjölyrða um brýna nauðsyn þess að ráðast í vegabætur á svæðinu sem um ræðir, enda ber gamli malarvegurinn um Gufudalssveit ekki lengur þá umferð sem um hann fer og skapar alvarlega hættu. Óásættanleg töf hefur nú þegar orðið á málinu sem hefur nú þegar velkst í kerfinu í tæp 15 ár. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi lengur að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfi til framkvæmda hefur þurft að feta. Það hefur varla verið vilji löggjafans að hægt sé að halda jafnbrýnni samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar í jafnlangan tíma og raun ber vitni. Tímabært er að umræða um rétt íbúa gegn svifaseinni stjórnsýslu eigi sér stað. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að nauðsynlegt sé því að grípa í taumana í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari tafir og flýta því eins og kostur er að framkvæmdir geti hafist. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa að undanförnu sett fram sambærileg sjónarmið.
    Tilgangur þessa frumvarps er að veita leyfi til framkvæmdarinnar með lögum til að eyða óvissu um það atriði.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpinu er ætlað að veita Vegagerðinni með lögum framkvæmdaleyfi fyrir leið Þ-H sem fylgir núverandi vegi frá Bjarkalundi að Þorskafirði og þverar Þorskafjörð eins og leiðir D2 og H1. Hún liggur svo út með Þorskafirði að vestanverðu. Yst á Hallsteinsnesi sameinast hún leið H1 og verður í sömu legu yfir Djúpafjörð og Gufufjörð að Skálanesi. Með veitingu framkvæmdaleyfisins er verið að eyða óvissu um þann þátt málsins og fyrirbyggja frekari tafir á þessum brýnu samgönguframkvæmdum sem varða ríka almannahagsmuni og koma ferlinu í fastan farveg.