Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 797 — 117. mál.
Síðari umræða.
Nefndarálit
um tillögu til þingsályktunar um vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.
Frá utanríkismálanefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Ólaf Grétar Kristjánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Með tillögunni er ríkisstjórn Íslands hvött til að kanna möguleikann á samstarfi milli Íslands, Færeyja og Grænlands um menntun í sjávarútvegsfræðum. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2017 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 1. september 2017 í Reykjavík.
Í greinargerð kemur m.a. fram að Vestur-Norðurlönd eigi nú þegar gott samstarf á sviði sjávarútvegsmála og að með auknu samstarfi á vettvangi sjávarútvegsfræða gætu löndin deilt með sér reynslu og þekkingu á fiskvinnslu. Menntun í fisktækni sem stuðlar að bættri nýtingu sjávarafurða og hvetur til nýsköpunar í atvinnugreininni er t.d. í boði í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík, INUILI í Narsaq á Grænlandi og á menntaskólastigi í Færeyjum. Með skiptinámi milli landanna væri hægt að bjóða upp á fjölbreytta grunnmenntun í fiskveiðum, fisktækni og gæðaeftirliti með áherslu á starfsnám. Framhaldsmenntun í sjávarútvegi er t.d. í boði í BS-námi í sjávarútvegsfræðum í Háskólanum á Akureyri, diplómanámi í fisktækni við ARTEK – fisktæknimiðstöðina í Sisimiut og í Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Nefndin tekur undir að samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum geti gagnast öllum þremur löndunum þar sem þau búa yfir sérþekkingu á ólíkum málefnum innan sjávarútvegsins.
Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lýsir sig samþykka áliti þessu.
Alþingi, 16. apríl 2018.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, form., |
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, frsm. |
Ari Trausti Guðmundsson. |
Álfheiður Eymarsdóttir. | Bryndís Haraldsdóttir. | Gunnar Bragi Sveinsson. |
Logi Einarsson. | Rósa Björk Brynjólfsdóttir. | Silja Dögg Gunnarsdóttir. |