Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 797  —  117. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Ólaf Grétar Kristjánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er ríkisstjórn Íslands hvött til að kanna möguleikann á samstarfi milli Íslands, Færeyja og Grænlands um menntun í sjávarútvegsfræðum. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2017 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 1. september 2017 í Reykjavík.
    Í greinargerð kemur m.a. fram að Vestur-Norðurlönd eigi nú þegar gott samstarf á sviði sjávarútvegsmála og að með auknu samstarfi á vettvangi sjávarútvegsfræða gætu löndin deilt með sér reynslu og þekkingu á fiskvinnslu. Menntun í fisktækni sem stuðlar að bættri nýtingu sjávarafurða og hvetur til nýsköpunar í atvinnugreininni er t.d. í boði í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík, INUILI í Narsaq á Grænlandi og á menntaskólastigi í Færeyjum. Með skiptinámi milli landanna væri hægt að bjóða upp á fjölbreytta grunnmenntun í fiskveiðum, fisktækni og gæðaeftirliti með áherslu á starfsnám. Framhaldsmenntun í sjávarútvegi er t.d. í boði í BS-námi í sjávarútvegsfræðum í Háskólanum á Akureyri, diplómanámi í fisktækni við ARTEK – fisktæknimiðstöðina í Sisimiut og í Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
    Nefndin tekur undir að samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum geti gagnast öllum þremur löndunum þar sem þau búa yfir sérþekkingu á ólíkum málefnum innan sjávarútvegsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lýsir sig samþykka áliti þessu.

Alþingi, 16. apríl 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Álfheiður Eymarsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson.
Logi Einarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir.