Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 827  —  545. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/26 frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017, frá 22. september 2017, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/26 frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum (sbr. fskj. II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir framangreindri gerð var ákvörðun nr. 186/2017 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.
    Markmið tilskipunarinnar er að samræma starfshætti rétthafasamtaka með því að setja samræmdar reglur um starfsramma er varðar stjórnskipulag, skipan fjármála, gegnsæi og upplýsingagjöf. Reglunum er ætlað að tryggja þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli rétthafasamtaka og upplýsingaflæði til rétthafa, rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og almennings. Reglurnar eiga auk þess að tryggja að rétt sé staðið að umsýslu tekna sem rétthafasamtök innheimta fyrir hönd rétthafa. Réttindi rétthafa skulu þannig vera tilgreind í samþykktum viðkomandi samtaka auk þess sem rétthafar geta valið sér rétthafasamtök án tillits til ríkisborgararéttar eða búsetu. Óheimilt er að neita rétthöfum um aðild að rétthafasamtökum og rétthafar munu sjálfir geta veitt leyfi fyrir notkun sem ekki er í hagnaðarskyni. Þá er það jafnframt markmið tilskipunarinnar að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af rétthafasamtökum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu og tilgreinir tilskipunin í því skyni þær kröfur sem rétthafasamtök, sem munu geta veitt slíkt leyfi, þurfa að uppfylla. Tilskipunin nær til allra rétthafasamtaka sem falla undir skilgreiningu hennar, óháð stærð þeirra.
    Tilskipunin hefur fengið umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd og setti hún fram sjónarmið sín í áliti. Þar vísar nefndin til þess að þær kröfur sem tilskipunin gerir eru sérstaklega íþyngjandi fyrir íslensk rétthafasamtök í ljósi smæðar þeirra og telur mikilvægast að líta sérstaklega til þeirra áhrifa sem innleiðing felur í sér fyrir íslensk rétthafasamtök. Þá taldi nefndin rétt að óskað yrði eftir aðlögun að þeim þáttum tilskipunarinnar sem reynst geta íslenskum samtökum á þessu sviði íþyngjandi. Utanríkismálanefnd tók undir þessi sjónarmið allsherjar- og menntamálanefndar.
    Í kjölfar framangreinds álits áttu fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins fund með þeirri stjórnarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB sem fer með málefni hugverkaréttar þar sem kannaðar voru undirtektir við þeirri aðlögun sem nefndir þingsins vísuðu til. Á fundinum lýstu fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB þeirri eindregnu afstöðu sinni að öllum slíkum óskum um aðlögun yrði hafnað. Var vísað til þess að í umræðum um tillögu að tilskipuninni hjá stofnunum ESB hefðu komið fram sambærilegar óskir um undanþágur fyrir höfundarréttarsamtök í smáríkjum innan ESB, t.d. Möltu. Við afgreiðslu á tilskipuninni var þessu sjónarmiði hins vegar hafnað með þeim rökum að slíkar undanþágur mundu ganga gegn markmiðum tilskipunarinnar.
    Þar sem beiðni Íslands um efnislega aðlögun skilaði ekki árangri ákváðu íslensk stjórnvöld að óska eftir tímabundinni aðlögun frá tilskipuninni með þeim hætti að frestað yrði gildistöku íþyngjandi ákvæða hennar um skýrslugerð rétthafasamtaka, þannig að miðað yrði við fjárhagsárið 2019 í stað 2018 í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Nú liggur fyrir samkomulag EFTA-ríkjanna innan EES um drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku framangreindrar tilskipunar í EES-samninginn. Í ljósi þess hversu umræða um upptöku þessarar tilskipunar hefur dregist á langinn mun tilskipunin hins vegar ekki taka gildi meðal EFTA-ríkjanna innan EES fyrr en á næsta ári, enda á Evrópusambandið eftir að samþykkja framangreind drög áður en sameiginlega EES-nefndin getur tekið ákvörðun um upptöku tilskipunarinnar. Þá mun tilskipunin ekki taka gildi fyrr en stjórnskipulegum fyrirvara hefur verið aflétt af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Að þessu virtu er ljóst að kröfur um skýrslugerð rétthafasamtaka munu ekki gilda fyrr en fjárhagsárið 2019, en það er í samræmi við afstöðu Íslands. Með vísan til þessa var niðurstaða sérfræðinga EFTA-ríkjanna að sérstakur aðlögunartexti þess efnis væri ekki nauðsynlegur.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2014/26/ESB kallar á lagabreytingar hér á landi. Setja þarf ný lög sem kveða meðal annars á um samræmdar reglur um stjórnarhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag samtaka rétthafa höfundarréttar. Auk þess þarf að koma á samræmdum reglum um fjölsvæðaleyfi sem rétthafasamtök veita til afnota af tónlist á netinu. Gert er ráð fyrir því að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram lagafrumvarp þessa efnis.



Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017, frá 22. september 2017, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0827-f_I.pdf




Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0827-f_II.pdf