Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 892  —  135. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karen Á. Vignisdóttur frá Seðlabanka Íslands og Heiðrúnu Eriku Guðmundsdóttur frá Hagstofu Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Hagmunasamtökum heimilanna, Hagstofu Íslands og Seðlabanka Íslands. Tillagan er endurflutt og kom einnig til umfjöllunar í nefndinni á 146. löggjafarþingi (58. mál) og bárust þá umsagnir frá sömu aðilum.
    Tillagan kveður á um að skipaður verði starfshópur sem kanni kosti þess og galla að miða útreikninga verðbólgu og verðtryggingar við samræmda vísitölu neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Við greiningarvinnuna skuli horft til þess hvernig verðbólga sé mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti.
    Í umsögnum sem nefndinni hafa borist, sem og í umræðum um málið á fundum nefndarinnar, hefur komið fram að tilgangi þingsályktunartillögunnar væri betur náð þannig að starfshópnum yrði ekki eingöngu falið að meta kosti og galla þess að miða verðtryggingu við samræmda vísitölu neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs, enda væri húsnæði neysluflokkur í báðum vísitölunum og stefnt að frekari innleiðingu þess í forsendur samræmdrar vísitölu neysluverðs. Þess í stað væri réttara að hópnum yrði falið að meta kosti og galla þess að tekin yrði upp vísitala neysluverðs án húsnæðisliðar eða að lántökum yrði gert kleift að velja á milli mismunandi gerða vísitalna. Leggur meiri hlutinn til breytingar á tillögugrein og fyrirsögn tillögunnar í þessa veru og vísar, auk framangreindra umsagna og umræðna á fundum, til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að ríkisstjórnin muni á kjörtímabilinu „hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar“.
    Meiri hlutinn telur ekki rétt að setja starfshópnum skorður varðandi þær vísitölutegundir sem hann tekur til skoðunar á grundvelli tillögunnar þótt gera megi ráð fyrir að helst komi til álita þeir þrír kostir sem nefndir hafa verið að framan, vísitala neysluverðs, samræmd vísitala neysluverðs og vísitala neysluverðs án húsnæðisliðar. Auk þessara leiða hefur nefndinni verið bent á, með umsögn um annað þingmál sem hún hefur til umfjöllunar (246. mál), að vert væri að skoða þá leið að sú vísitala sem verðtryggð húsnæðislán miða við tæki eingöngu mið af húsnæðislið vísitölu neysluverðs.
    Auk þess að meta kosti og galla breytts fyrirkomulags við útreikning verðtryggingar fjárskuldbindinga felur tillögugreinin starfshópnum að meta sérstaklega áhrif breytinganna á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Meiri hlutinn leggur til að þessi upptalning haldi sér en að við bætist að hópurinn meti áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kunna að hafa á vísitölur, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sérfræðinga sem meti kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar eða að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti, sem og áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kynnu að hafa á vísitölur, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum fyrir árslok 2018.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar.

    Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 26. apríl 2018.

Óli Björn Kárason,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, frsm. Bryndís Haraldsdóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara. Hildur Sverrisdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Oddný G. Harðardóttir.