Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1098  —  422. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (endurbótaáætlun, tímanleg inngrip, eftirlit á samstæðugrunni, eftirlitsheimildir o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 5. júní.)


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. a laganna:
     a.      29. tölul. orðast svo: Stór áhættuskuldbinding: Áhættuskuldbinding fjármálafyrirtækis vegna einstaks viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna telst vera stór áhættuskuldbinding ef hún nemur 10% eða meira af hæfu fjármagni.
     b.      Við bætast átta nýir töluliðir, svohljóðandi:
              40.      Móðurfélag í aðildarríki: Lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki í aðildarríki sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
                          a.      Á dótturfélag sem er lánastofnun, verðbréfafyrirtæki eða fjármálastofnun.
                          b.      Á hlutdeild í lánastofnun, verðbréfafyrirtæki eða fjármálastofnun, þannig að eitthvert framantalinna fyrirtækja teljist hlutdeildarfélag í eigu lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins.
                          c.      Er ekki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis sem fengið hefur starfsleyfi í sama aðildarríki.
                          d.      Er ekki dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem staðsett er í sama aðildarríki.
              41.      Móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu: Lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki sem staðsett er í aðildarríki og er hvorki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í einhverju aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í einhverju aðildarríki.
              42.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu: Eignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í einhverju aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í einhverju aðildarríki.
              43.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í einhverju aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í einhverju aðildarríki.
              44.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki: Eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem hvorki er dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis sem hefur starfsleyfi í sama aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða annars blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í sama aðildarríki.
              45.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi sem hvorki er dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki né dótturfélag eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða annars blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í sama aðildarríki.
              46.      Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurfélag sem er móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu, móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu eða blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
              47.      Eftirlitsaðili á samstæðugrunni: Lögbært yfirvald á Evrópska efnahagssvæðinu sem ber ábyrgð á framkvæmd eftirlits á samstæðugrunni með einhverju eftirtalinna félaga:
                          a.      Móðurfélagi á Evrópska efnahagssvæðinu.
                          b.      Lánastofnun sem móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.
                          c.      Lánastofnun sem blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.
                          d.      Verðbréfafyrirtæki sem móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.
                          e.      Verðbréfafyrirtæki sem blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu fer með yfirráð í.

2. gr.

    6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: hafi ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli ákvæða 86. gr. h – 86. gr. j um tímanleg inngrip Fjármálaeftirlitsins eða ákvæða um inngrip Fjármálaeftirlitsins í eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis skv. 100. gr. a ekki skilað árangri eða hafi verið kveðinn upp úrskurður um slit fyrirtækisins skv. XII. kafla.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Eftirlitskerfi með áhættu skal einnig taka til og innihalda skjalfesta innri ferla um hvers konar viðskipti við blandað eignarhaldsfélag og dótturfélög þess sé það blandað eignarhaldsfélag móðurfélags fjármálafyrirtækis.
     b.      Í stað „8. mgr.“ í 7. mgr. kemur : 9. mgr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „reglum Fjármálaeftirlitsins“ í 1. mgr. kemur: reglugerð skv. 8. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um heimila frádráttarliði, áhættumildandi þætti, hámark samtölu stórra áhættuskuldbindinga og heimildir fjármálafyrirtækja til að reikna út eiginfjárkröfu vegna umframáhættu stórra áhættuskuldbindinga. Í reglugerðinni skal einnig kveðið á um takmarkanir á fjárfestingum fjármálafyrirtækja vegna skuggabankastarfsemi.

5. gr.

    Á eftir IX. kafla laganna kemur nýr kafli, IX. kafli A, Endurbótaáætlun, með sjö greinum, 82. gr. a – 82. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (82. gr. a.)

Endurbótaáætlun lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis.

    Lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a skulu gera endurbótaáætlun sem skal a.m.k. innihalda eftirfarandi atriði:
     1.      Aðgerðir sem lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hyggst grípa tímanlega til, og það verklag sem viðhafa skal, komi upp rekstrarerfiðleikar hjá fyrirtæki sem geta haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu þess eða starfsemi, þ.m.t. ef aðstæður eru þannig að beita þurfi tímanlegum inngripum skv. 86. gr. h.
     2.      Sviðsmyndir sem gera ráð fyrir rekstrarerfiðleikum hjá lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki ásamt áföllum í fjármálakerfinu og hagkerfinu sem geta haft áhrif á rekstur eða starfsemi viðkomandi fyrirtækis.
     3.      Þegar við á, greiningu á því hvenær og undir hvaða kringumstæðum lánastofnanir geta óskað eftir lausafjárfyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands. Ekki skal gera ráð fyrir annars konar opinberum fjárstuðningi í endurbótaáætlun.
    Stjórn lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis skal samþykkja endurbótaáætlunina og afhenda hana Fjármálaeftirlitinu. Lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki skulu uppfæra endurbótaáætlun að lágmarki árlega en oftar ef breytingar verða á rekstri fyrirtækjanna eða ef annað í starfsemi þeirra veldur verulegum breytingum á áætluninni. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að endurbótaáætlun sé uppfærð oftar en árlega.
    Ráðherra skal setja reglugerð þar sem m.a. er kveðið á um nánari kröfur um innihald endurbótaáætlana skv. 1. mgr. og endurbótaáætlun samstæðu skv. 82. gr. d.

    b. (82. gr. b.)

Mat á endurbótaáætlun.

    Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort endurbótaáætlun sé í samræmi við ákvæði 82. gr. a. Auk þess skal Fjármálaeftirlitið leggja mat á hvort sýnt hafi verið fram á eftirfarandi:
     1.      að verklag í endurbótaáætlun og aðgerðir séu líklegar til að viðhalda eða rétta af fjárhagslega stöðu fyrirtækis eða samstæðu þess og tryggja heilbrigðan rekstur, og
     2.      að líklegt sé að áætluninni megi hrinda hratt í framkvæmd þegar óróleiki er á fjármálamörkuðum og að með innleiðingu áætlunarinnar megi draga úr neikvæðum áhrifum á fjármálakerfið, þ.m.t. þegar fleiri lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki þurfa að virkja endurbótaáætlun sína á sama tíma.
    Við mat á endurbótaáætlun skal horfa til þess hvernig eigið fé lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis er samsett og hvernig fjármögnun er háttað með hliðsjón af starfsemi, skipulagi og áhættusniði.
    Fjármálaeftirlitið skal leita álits Seðlabanka Íslands við mat á þeim þáttum endurbótaáætlunar lánastofnunar sem varða lausafjármál.
    Ráðherra skal setja reglugerð þar sem fram koma lágmarksviðmið sem Fjármálaeftirlitinu ber að líta til við mat á efnisþáttum skv. 1. mgr.

    c. (82. gr. c.)

Málsmeðferð og aðgerðir vegna ágalla við mat á endurbótaáætlun.

    Fjármálaeftirlitið skal innan sex mánaða frá móttöku endurbótaáætlunar ljúka mati á áætluninni og tilkynna lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki telji það verulega ágalla vera á áætluninni.
    Lánastofnun og verðbréfafyrirtæki skulu, innan tveggja mánaða frá móttöku tilkynningar Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr., bæta úr ágöllum á endurbótaáætluninni. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framlengja þann frest um einn mánuð sé þess óskað. Ef úrbætur eru ófullnægjandi að mati Fjármálaeftirlitsins getur það krafist þess að gerðar verði tilgreindar breytingar á áætluninni innan hæfilegs frests sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
    Ef lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki afhendir ekki endurskoðaða endurbótaáætlun innan tímafrests skv. 2. mgr. eða ef Fjármálaeftirlitið telur að endurskoðuð áætlun sé ekki fullnægjandi skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki, innan hæfilegs frests, geri tillögur að breytingum á starfsemi sinni til þess að ráða bót á þeim ágöllum sem eru að mati Fjármálaeftirlitsins á endurbótaáætluninni.
    Geri lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki ekki tillögur að breytingu á starfsemi sinni innan tímafrests skv. 3. mgr., eða teljist tillögur sem gerðar eru ófullnægjandi, er Fjármálaeftirlitinu heimilt, að teknu tilliti til alvarleika ágallanna, að krefjast þess að lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki grípi til einhverra eftirfarandi aðgerða:
     1.      Dragi úr áhættusniði, þar á meðal lausafjáráhættu.
     2.      Tryggi að til staðar sé traust og tímanleg endurfjármögnun.
     3.      Endurskoði stefnu og skipulag fyrirtækisins eða samstæðu þess.
     4.      Breyti fjármögnunaráætlunum sínum til þess að bæta viðnámsþrótt kjarnastarfsemi og kerfislega mikilvægrar starfsemi.
     5.      Breyti stjórnskipulagi og viðskiptaáætlunum fyrirtækisins.
    Ef við á skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við lögbær yfirvöld aðildarríkja þar sem mikilvæg útibú fyrirtækisins eru staðsett.

    d. (82. gr. d.)

Endurbótaáætlun samstæðu.

    Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu skal gera og uppfæra endurbótaáætlun samstæðu. Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsaðili á samstæðugrunni skal það móttaka endurbótaáætlun og áframsenda til lögbærra yfirvalda dótturfélaga og mikilvægra útibúa í öðrum aðildarríkjum.
    Endurbótaáætlunin skal ná til samstæðu í heild og tilgreina aðgerðir sem grípa getur þurft til hjá móðurfélaginu og einstökum dótturfélögum þess. Endurbótaáætlun samstæðu skal samþykkt af stjórn móðurfélagsins.
    Endurbótaáætlun samstæðu skal taka mið af þeim efnisatriðum sem fram koma í 82. gr. a. Endurbótaáætlun samstæðu skal einnig innihalda upplýsingar sem varða samninga um fjárstuðning innan samstæðu skv. 109. gr. a, hafi slíkir samningar verið gerðir.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem eru dótturfélög félaga skv. 1. málsl. 1. mgr. geri sjálfstæða endurbótaáætlun skv. 82. gr. a. Ef móðurfélag er staðsett í öðru aðildarríki skal Fjármálaeftirlitið leitast við að taka sameiginlega ákvörðun með lögbærum yfirvöldum um endurbótaáætlun dótturfélags. Ef lögbært yfirvald hefur vísað ákvörðun eftirlitsaðila á samstæðugrunni til Eftirlitsstofnunar EFTA eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðun sinni um að dótturfélag geri sjálfstæða endurbótaáætlun og taka ákvörðun um það í samræmi við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, sbr. 7. mgr.
    Mat á endurbótaáætlun samstæðu skal grundvallast á 82. gr. b. Málsmeðferð og aðgerðir vegna ágalla á endurbótaáætlun samstæðu skulu grundvallast á 82. gr. c. Ef Fjármálaeftirlitið telst eftirlitsaðili á samstæðugrunni skal tilkynningum skv. 82. gr. c beint til móðurfélags samstæðu.
    Við mat á endurbótaáætlun samstæðu skal Fjármálaeftirlitið leitast við að taka sameiginlega ákvörðun með lögbærum yfirvöldum. Ef sameiginleg ákvörðun liggur ekki fyrir innan fjögurra mánaða frá því að Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni, sendi endurbótaáætlun til viðeigandi lögbærra yfirvalda skv. 1. mgr., skal það taka sjálfstæða ákvörðun um áætlunina. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna móðurfélagi og lögbærum yfirvöldum um ákvörðunina.
    Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðun sinni hafi eitthvert þeirra lögbæru yfirvalda sem aðild eiga að málinu vísað ákvörðun eftirlitsaðila á samstæðugrunni, þ.m.t. Fjármálaeftirlitsins ef við á, til Eftirlitsstofnunar EFTA eða til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar í samræmi við lög nr. 24/2017, fyrir lok tímafrests skv. 6. mgr. og skal Fjármálaeftirlitið í þeim tilvikum bíða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka á grundvelli reglugerðarinnar. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal vera í samræmi við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA.

    e. (82. gr. e.)

Einföld endurbótaáætlun.

    Fjármálaeftirlitið ákveður hvort lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki skv. 1. málsl. 1. mgr. 82. gr. a sé heimilt að gera einfalda endurbótaáætlun. Skilyrði slíkrar ákvörðunar eru að rekstrarerfiðleikar lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis og eftir atvikum slitameðferð fyrirtækjanna hafi ekki í för með sér verulega neikvæð áhrif á fjármálakerfið, aðrar lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki, miðlun fjármagns í fjármálakerfinu eða hagkerfið.
    Fjármálaeftirlitið getur hvenær sem er fallið frá ákvörðun um einfalda endurbótaáætlun skv. 1. mgr.
    Ráðherra setur reglugerð um einfaldar endurbótaáætlanir og skal í reglugerðinni m.a. kveðið á um viðmið vegna ákvörðunar um einfalda endurbótaáætlun skv. 1. mgr.

    f. (82. gr. f.)

Vísar í endurbótaáætlun.

    Lánastofnun og verðbréfafyrirtæki skv. 1. málsl. 1. mgr. 82. gr. a skulu í endurbótaáætlun tilgreina vísa er gefa til kynna hvenær og þá til hvaða aðgerða þörf er á að grípa á grundvelli endurbótaáætlunar. Vísarnir skulu ákveðnir í samræmi við starfsemi fyrirtækjanna og taka mið af innri sem ytri aðstæðum og fjárhagsstöðu fyrirtækis. Vísarnir skulu þannig framsettir að auðvelt sé að hafa yfirsýn yfir hvenær þeir gefa til kynna að viðbragða sé þörf. Vísarnir skulu sæta reglubundinni vöktun fyrirtækis og skal endurbótaáætlun tilgreina hvernig vöktun þeirra er háttað.
    Jafnvel þótt vísar gefi ekki til kynna að þörf sé á að grípa til aðgerða getur stjórn lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis eigi að síður gripið til þeirra aðgerða sem fram koma í endurbótaáætlun og stjórn telur viðeigandi með tilliti til aðstæðna. Stjórn getur einnig ákveðið, telji hún það viðeigandi með tilliti til aðstæðna, að grípa ekki til aðgerða þó að vísar gefi annað til kynna.
    Ákvörðun stjórnar skv. 2. mgr. skal án tafar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu ásamt rökstuðningi.
    Fjármálaeftirlitið skal upplýsa Seðlabanka Íslands ef tilkynning sem varðar lausafjármál berst skv. 3. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt, að undangengnu samráði við Seðlabanka Íslands, að setja reglur um þá vísa sem að lágmarki skal fjalla um í endurbótaáætlun.

    g. (82. gr. g.)

Skrá yfir fjárhagslega samninga.

    Lánastofnun skal halda skrá yfir fjárhagslega samninga sem hún er aðili að.
    Fjármálaeftirlitið getur farið fram á að eftirtaldir aðilar viðhaldi skrá yfir fjárhagslega samninga:
     1.      Verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a.
     2.      Eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
     3.      Blandað eignarhaldsfélag.
     4.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.
     5.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu.
     6.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
     7.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki.
     8.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki.
     9.      Fjármálastofnun, ef hún er dótturfélag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a eða fyrirtækja skv. 2.–8. tölul. og fellur undir eftirlit á samstæðugrunni hér á landi.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. séu afhentar Fjármálaeftirlitinu innan 24 klukkustunda gerist þess þörf.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um skrá um fjárhagslega samninga, þ.m.t. um hvaða lágmarksupplýsingar skuli koma fram í skrá yfir fjárhagslega samninga og hvaða samningar teljist fjárhagslegir samningar.

6. gr.

    86. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Tilkynning um brot gegn varfærniskröfum.

    Stjórn eða framkvæmdastjóri skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar uppfylli fjármálafyrirtæki ekki þær varfærniskröfur sem kveðið er á um í lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra. Stjórn eða framkvæmdastjóri skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar ef líklegt er að fjármálafyrirtæki muni á næstu tólf mánuðum ekki uppfylla þær varfærniskröfur sem kveðið er á um í lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum. Stjórn fjármálafyrirtækis skal greina Fjármálaeftirlitinu frá því til hvaða ráðstafana hún hyggst grípa til að koma starfsemi í lögmætt horf.
    Er tilkynning berst skv. 1. málsl. 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita fjármálafyrirtæki frest í allt að sex mánuði til að koma starfsemi í lögmætt horf. Séu til þess ríkar ástæður er Fjármálaeftirlitinu heimilt að framlengja þann frest í allt að sex mánuði í viðbót.
    Er tilkynning berst skv. 1. og 2. málsl. 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að stjórn fjármálafyrirtækis afhendi greinargerð og önnur gögn um úrbætur og ráðstafanir á grundvelli 1. mgr. Greinargerð og gögnum skal skilað til Fjármálaeftirlitsins innan tímamarka sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
    Ákvæði þetta takmarkar á engan hátt aðrar heimildir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. heimildir í 9. gr., 86. gr. g – 86. gr. j og XII. kafla.

7. gr.


     Í stað tilvísunarinnar „84. gr. a“ í 3.–5. mgr. 86. gr. f laganna kemur: 86. gr. a.

8. gr.

    Á eftir 86. gr. g laganna koma fjórar nýjar greinar, 86. gr. h – 86. gr. k, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (86. gr. h.)

Tímanleg inngrip Fjármálaeftirlitsins.

    Fjármálaeftirlitið getur beitt tímanlegum inngripum gagnvart lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a ef:
     1.      fyrirtækið brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmæla settra á grundvelli þeirra, þ.m.t. reglugerð settri á grundvelli 117. gr. a, eða
     2.      líkur eru á því vegna versnandi fjárhagslegrar stöðu, þ.m.t. versnandi lausafjárstöðu, aukinnar vogunar, aukinna vanskila lántakenda eða samþjöppunar áhættuskuldbindinga, að fyrirtækið muni brjóta gegn lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum skv. 1. tölul.
    Ef aðstæður skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. eru til staðar getur Fjármálaeftirlitið hrint í framkvæmd eða krafist þess að lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hrindi í framkvæmd a.m.k. einni eða fleiri af eftirfarandi aðgerðum:
     1.      Grípi til aðgerða samkvæmt endurbótaáætlun eða uppfæri endurbótaáætlun og framkvæmi aðgerðir samkvæmt uppfærðri áætlun.
     2.      Afhendi Fjármálaeftirlitinu tímasetta aðgerðaáætlun.
     3.      Boði til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Verði ekki farið að þeirri kröfu getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Í báðum tilvikum ákveður Fjármálaeftirlitið dagskrá fundarins og getur krafist þess að tiltekin mál verði tekin til umræðu og ákvörðunar.
     4.      Víki einum eða fleiri stjórnarmönnum og/eða framkvæmdastjóra frá uppfylli þeir ekki kröfur skv. 52. gr., 52. gr. a og 54. gr.
     5.      Afhendi Fjármálaeftirlitinu áætlun um samningaviðræður um endurskipulagningu á skuldum við lánardrottna.
     6.      Breyti viðskiptastefnu fyrirtækisins.
     7.      Breyti skipulagi fyrirtækisins.
    Fjármálaeftirlitið skal veita fyrirtæki hæfilegan tímafrest, sem Fjármálaeftirlitið ákveður, til að ljúka við þær aðgerðir sem það hefur krafist skv. 2. mgr.
    Fjármálaeftirlitið skal upplýsa Seðlabanka Íslands tímanlega ef aðstæður eru þannig að Fjármálaeftirlitið getur beitt tímanlegum inngripum skv. 1. mgr. Seðlabanki Íslands skal upplýsa Fjármálaeftirlitið tímanlega ef lausafjárstaða lánastofnunar fer versnandi skv. 2. tölul. 1. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur sem skilgreina viðmið um hvenær Fjármálaeftirlitið getur beitt tímanlegum inngripum vegna versnandi fjárhagslegrar stöðu lánastofnana og verðbréfafyrirtækja skv. 2. tölul. 1. mgr.

    b. (86. gr. i.)

Brottvikning stjórnar og framkvæmdastjóra við tímanleg inngrip.

    Fjármálaeftirlitið getur vikið stjórn lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis skv. 1. málsl. 1. mgr. 86. gr. h frá, í heild eða að hluta, sem og framkvæmdastjóra hafi fyrirtækið brotið alvarlega gegn ákvæðum laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samþykkta fyrirtækis eða ef alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við stjórnun þess.
    Brottvikning Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. á einnig við ef fjárhagur lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis hefur versnað verulega eða aðgerðir skv. 86. gr. h hafa ekki eða eru ekki líklegar að mati Fjármálaeftirlitsins til að rétta af fjárhagslega stöðu fyrirtækis.

    c. (86. gr. j.)

Bráðabirgðastjórnandi.

    Telji Fjármálaeftirlitið að brottvikning stjórnar og framkvæmdastjóra skv. 86. gr. i sé ekki fullnægjandi til að rétta af fjárhagslega stöðu lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis skv. 1. málsl. 1. mgr. 86. gr. h getur það skipað fyrirtækinu bráðabirgðastjórnanda.
    Skipun bráðabirgðastjórnanda skv. 1. mgr. getur tekið til þess:
     1.      að einn eða fleiri bráðabirgðastjórnendur leysi stjórn af í heild sinni, eða
     2.      að einn eða fleiri bráðabirgðastjórnendur starfi með starfandi stjórn.
    Ákvæði þessara laga og ákvæði um félagsstjórn í lögum um hlutafélög gilda eftir því sem við á um bráðabirgðastjórnanda sem skipaður er skv. 1. tölul. 2. mgr. Ákvæði 63. og 68. gr. hlutafélagalaga gilda ekki um skipun bráðabirgðastjórnanda sem skipaður er skv. 1. tölul. 2. mgr. og fundur stofnfjáreigenda eða hluthafa getur ekki leyst bráðabirgðastjórnanda frá störfum.
    Skipi Fjármálaeftirlitið bráðabirgðastjórnanda skal í skipunarbréfi til hans, eftir því sem við á, kveða á um:
     1.      Skipunartíma.
     2.      Helstu verkefni.
     3.      Skyldur.
     4.      Valdsvið, bæði heimildir og takmarkanir.
     5.      Hvaða ákvarðanir stjórn þarf að bera fyrir fram undir bráðabirgðastjórnanda, hafi hún ekki verið leyst frá störfum.
     6.      Hvaða ákvarðanir bráðabirgðastjórnandi þarf að bera undir Fjármálaeftirlitið.
     7.      Skýrsluskil til Fjármálaeftirlitsins.
    Skipunartími bráðabirgðastjórnanda skal að hámarki vera eitt ár. Við sérstakar aðstæður er Fjármálaeftirlitinu heimilt að framlengja skipunartímann. Fjármálaeftirlitið getur hvenær sem er breytt skipun bráðabirgðastjórnanda skv. 2. mgr. og umboði hans skv. 4. mgr. eða leyst hann frá störfum.
    Fjármálaeftirlitið leggur mat á hæfi bráðabirgðastjórnanda. Um hæfisskilyrði bráðabirgðastjórnanda fer skv. 52. gr. og 52. gr. a.
    Telji Fjármálaeftirlitið skipun bráðabirgðastjórnanda ekki hafa borið tilætlaðan árangur getur það skipað fjármálafyrirtækinu bráðabirgðastjórn. Ákvæði 100. gr. a gilda að öðru leyti um slíka stjórn og störf hennar.
    Bráðabirgðastjórnandi er einungis ábyrgur fyrir tjóni sem hann veldur í störfum sínum af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

    d. (86. gr. k.)

Samningsákvæðum vikið til hliðar.

    Ef Fjármálaeftirlitið grípur til aðgerða skv. 86. gr. h – 86. gr. j gagnvart lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki skulu aðgerðirnar, þ.m.t. atburðir sem leiðir af þeim, hvorki samsvara vanefnd samkvæmt samningi um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir né jafngilda úrskurði um heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamningsumleitana eða gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði 1. málsl. er háð því skilyrði að fyrirtæki haldi áfram að efna meginskyldur samningssambands, þ.m.t. um greiðslu, afhendingu og veitingu tryggingarréttinda.
    Efni fyrirtæki áfram meginskyldur samningssambands skv. 1. mgr. veita aðgerðir Fjármálaeftirlitsins skv. 86. gr. h – 86. gr. j samningsaðilum fyrirtækisins ekki sjálfkrafa rétt til að:
     1.      Beita rétti til uppsagnar, gjaldfellingar, frestunar eða breytingar samningsskuldbindinga eða greiðslu- eða skuldajöfnunar á grundvelli samnings.
     2.      Öðlast eignarhald, fá yfirráð eða ganga að tryggingarréttindum í eigu fyrirtækisins.
     3.      Hafa áhrif á samningsbundin réttindi fyrirtækisins.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um samninga sem dótturfélag hefur gert og móðurfélag eða annað félag innan samstæðu ábyrgist eða styður á annan hátt. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um samninga á milli félaga innan samstæðu sem innihalda víxlvanefndarákvæði.

9. gr.

    Í stað „4. mgr. 86. gr.“ í 1. tölul. 2. mgr. og í 5. mgr. 101. gr. laganna kemur: 2. mgr. 86. gr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 107. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi eignarhaldsfélags á fjármálasviði, blandaðs eignarhaldsfélags og blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem stofnsett eru eða starfa hér á landi. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitsaðila á samstæðugrunni nær til starfsemi eignarhaldsfélags á fjármálasviði, blandaðs eignarhaldsfélags og blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi, móðurfélags slíkra félaga og dótturfélaga þeirra, þegar þau eru staðsett í öðru ríki, og getur eftirlitið þá verið í samstarfi og samráði við eftirlitsaðila í viðkomandi aðildarríki í samræmi við 108. gr.
     b.      Í stað orðanna „eignarhaldsfélögum á fjármálasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum“ í 4. mgr. kemur: eignarhaldsfélögum á fjármálasviði, blönduðum eignarhaldsfélögum og dótturfélögum slíkra félaga.
     c.      Á eftir orðinu „dagsektir“ í 8. mgr. kemur: vettvangskönnun.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Fjármálaeftirlitið og eftirlit á samstæðugrunni.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Þegar Fjármálaeftirlitið telst eftirlitsaðili á samstæðugrunni eða þegar fjármálafyrirtæki, eignarhaldsfélag á fjármálasviði, blandað eignarhaldsfélag, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða móðurfélag fjármálafyrirtækis hér á landi heyrir undir eftirlit á samstæðugrunni annars eftirlitsaðila í aðildarríki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að eiga samstarf við eftirlitsaðila í öðru aðildarríki og samræma eftirlit með samstæðu, þ.m.t. með samstarfssamningum, upplýsingaskiptum og starfrækslu sérstakrar samstarfsnefndar eftirlitsaðila. Um samstarf og upplýsingaskipti skal fara eftir lögum þessum, lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.
                      Fjármálaeftirlitinu er heimilt að eiga í samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina í samræmi við lög þessi og lög nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Aðstoð og samstarf við yfirvöld annarra EES-ríkja, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ákvæði IV. kafla C, IX. kafla A, X. kafla og reglugerð sett á grundvelli 117. gr. a skulu gilda um samstæðu þar sem móðurfélagið er fjármálafyrirtæki, blandað eignarhaldsfélag eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
     b.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar kröfur á grundvelli laga þessara og laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum um starfsemi blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi eru sambærilegar er Fjármálaeftirlitinu, sé það eftirlitsaðili á samstæðugrunni, heimilt að höfðu samráði við lögbær yfirvöld, sbr. 108. gr., að ákveða að um eftirlit með félaginu fari í einstökum atriðum, eða að öllu leyti, eftir lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Ef blandað eignarhaldsfélag telst móðurfélag fjármálafyrirtækis skal eftirlitskerfi með áhættu skv. 17. gr. ná til viðskipta fjármálafyrirtækis við móðurfélagið og dótturfélög þess.
     c.      Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fjármálaeftirlitinu er heimilt að víkja stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra eignarhaldsfélags á fjármálasviði, blandaðs eignarhaldsfélags og blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi frá störfum fyrir brot gegn XIII. kafla eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli kaflans.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Varfærniskröfur á samstæðugrunni og nánari reglur um eftirlit á samstæðugrunni.

13. gr.

    Á eftir 109. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 109. gr. a – 109. gr. f, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (109. gr. a.)

Samningur um fjárstuðning innan samstæðu.

    Félögum innan samstæðu er heimilt að gera sérstakan samning um fjárstuðning innan samstæðu. Slíkir samningar mega vera á milli eftirtalinna félaga, tveggja eða fleiri:
     1.      Móðurfélags í aðildarríki ef það er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a.
     2.      Móðurfélags á Evrópska efnahagssvæðinu ef það er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a.
     3.      Eignarhaldsfélags á fjármálasviði.
     4.      Blandaðs eignarhaldsfélags.
     5.      Blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi.
     6.      Móðureignarhaldsfélags á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu.
     7.      Blandaðs móðureignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
     8.      Móðureignarhaldsfélags á fjármálasviði í aðildarríki.
     9.      Blandaðs móðureignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi í aðildarríki.
     10.      Dótturfélags í öðru aðildarríki eða í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem er lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki með stofnframlag skv. 2. gr. 14. gr. a eða fjármálastofnun sem fellur undir eftirlit á samstæðugrunni hér á landi.
    Ekki er hægt að gera samning um fjárstuðning innan samstæðu nema ætlunin sé að hann komi einungis til framkvæmda ef hægt er að beita tímanlegum inngripum gagnvart aðila samnings eftir að samningur hefur verið gerður.
    Samningur um fjárstuðning innan samstæðu og það hvaða aðilar verða samningsaðilar slíkra samninga er háð fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins skv. 109. gr. b og skal að öðru leyti vera í samræmi við þessa grein og 109. gr. b – 109. gr. f.
    Samningur um fjárstuðning skal tilgreina reglur um útreikning á endurgjaldi sem tekur til allra viðskipta samkvæmt samningnum. Fjárhæð endurgjalds skal liggja fyrir áður en fjárstuðningur er veittur. Samningur um fjárstuðning skal samræmast eftirfarandi meginreglum:
     1.      Hver og einn samningsaðili gengur sjálfviljugur til samninga.
     2.      Samningsaðilar hafa eigin hag að leiðarljósi.
     3.      Aðili sem veitir fjárstuðning skal hafa fullnægjandi upplýsingar frá viðtakanda fjárstuðnings áður en endurgjald fyrir fjárstuðning er ákvarðað og ákvörðun tekin um að veita fjárstuðninginn.

    b. (109. gr. b.)

Staðfesting samnings.

    Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu skal leita samþykkis og fá staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á samningi um fjárstuðning innan samstæðu. Með umsókn skal fylgja afrit samnings, tilgreining á samningsaðilum og önnur gögn sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynleg til þess að taka afstöðu til umsóknarinnar. Fjármálaeftirlitið sendir afrit af umsókninni og viðeigandi gögn til Seðlabanka Íslands og lögbærra yfirvalda þeirra félaga sem áætlað er að verði aðilar að samningnum.
    Staðfesting Fjármálaeftirlitsins á samningi er háð því að öll skilyrði 109. gr. d séu uppfyllt.
    Fjármálaeftirlitið skal leitast við að taka sameiginlega ákvörðun með lögbærum yfirvöldum um umsókn um staðfestingu á samningi þar sem tekið skal tillit til þess hvaða áhrif samningurinn kann að hafa í þeim aðildarríkjum sem samstæðan starfar í. Sameiginleg ákvörðun skal liggja fyrir innan fjögurra mánaða frá því að fullbúin umsókn barst og skal hún tilkynnt umsækjanda ásamt rökstuðningi.
    Ef sameiginleg ákvörðun liggur ekki fyrir innan tímamarka skv. 3. mgr. skal Fjármálaeftirlitið taka sjálfstæða ákvörðun um umsókn skv. 1. mgr. að teknu tilliti til mats lögbærra yfirvalda. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda og lögbærum yfirvöldum um ákvörðunina.
    Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðun skv. 4. mgr. hafi eitthvert þeirra lögbæru yfirvalda sem aðild eiga að málinu vísað ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til Eftirlitsstofnunar EFTA eða eftir atvikum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar í samræmi við lög nr. 24/2017 fyrir lok tímafrests skv. 3. mgr. og skal Fjármálaeftirlitið í þeim tilvikum bíða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka á grundvelli reglugerðarinnar. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal vera í samræmi við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA.

    c. (109. gr. c.)

Samþykki hluthafa.

    Að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins skv. 109. gr. b skulu allir aðilar samnings um fjárstuðning innan samstæðu leggja samninginn fyrir hluthafafund til samþykktar eða synjunar. Samningur telst bindandi fyrir fyrirtæki þegar hann hefur verið samþykktur á hluthafafundi.
    Stjórn skal gera hluthöfum grein fyrir viðskiptum samkvæmt samningnum á hverju ári á aðalfundi félagsins.

    d. (109. gr. d.)

Skilyrði fyrir fjárstuðningi innan samstæðu.

    Heimilt er að veita fjárstuðning skv. 109. gr. a ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Ástæða er til að ætla að fjárstuðningur sé mikilvægur til þess að leysa úr fjárhagserfiðleikum viðtakanda.
     2.      Fjárstuðningi er ætlað að viðhalda eða rétta af fjárhag samstæðunnar eða félaga innan samstæðu, og í þágu þess sem veitir fjárstuðninginn.
     3.      Fjárstuðningur er í samræmi við skilmála samningsins, þ.m.t. um endurgjald skv. 4. mgr. 109. gr. a.
     4.      Verulegar líkur eru á því að endurgjald fyrir veittan fjárstuðning verði greitt.
     5.      Fjárstuðningur stofnar ekki í hættu lausafjárstöðu eða gjaldfærni fyrirtækis sem veitir fjárstuðning.
     6.      Fjárstuðningur ógnar ekki fjármálastöðugleika.
     7.      Fyrirtæki sem veitir fjárstuðning uppfyllir allar kröfur laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla settra á grundvelli þeirra um eigið fé, laust fé og stórar áhættuskuldbindingar og ekki er fyrirsjáanlegt að fyrirtæki brjóti gegn lögum með veitingu fjárstuðnings. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá þessu skilyrði.
    Skilyrði fyrir fjárstuðningi innan samstæðu skv. 1. mgr. skal afmarka nánar með reglugerð sem ráðherra setur og skal í reglugerðinni a.m.k. kveðið á um nánari skilyrði skv. 1., 3. og 5. tölul. 1. mgr.

    e. (109. gr. e.)

Ákvörðun um fjárstuðning.

    Ákvörðun um að veita fjárstuðning sem byggist á samningi skv. 1. mgr. 109. gr. a skal tekin af stjórn þess fyrirtækis sem veitir fjárstuðning. Ákvörðun stjórnar skal vera rökstudd og skulu markmið fjárstuðningsins koma fram. Þá skal sérstaklega gera grein fyrir því hvernig ákvörðunin samræmist skilyrðum skv. 109. gr. d.
    Stjórn þess fyrirtækis sem fjárstuðningur beinist að skal taka ákvörðun um viðtöku fjárstuðningsins með þeim skilmálum sem leiðir af samningi skv. 1. mgr. 109. gr. a.
    Stjórn fyrirtækis sem hyggst veita fjárstuðning skv. 109. gr. a skal tilkynna það eftirfarandi aðilum áður en fjárstuðningur er veittur:
     1.      Fjármálaeftirlitinu.
     2.      Seðlabanka Íslands.
     3.      Eftirlitsaðila á samstæðugrunni, ef hann er annar en Fjármálaeftirlitið.
     4.      Lögbærum yfirvöldum í því aðildarríki þar sem viðtakandi fjárstuðningsins er staðsettur, ef þau eru önnur en þau sem koma fram í 1. eða 2. tölul.
     5.      Eftir atvikum Eftirlitsstofnun EFTA og/eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni.
    Með tilkynningu skv. 3. mgr. skal fylgja rökstudd ákvörðun stjórnar skv. 1. mgr. og nákvæm lýsing á fyrirhuguðum fjárstuðningi, þ.m.t. afrit af samningnum.
    Fjármálaeftirlitið hefur að hámarki fimm virka daga frá því að fullbúin tilkynning skv. 3. mgr. barst til að hafna eða takmarka fjárstuðning innan samstæðu með rökstuddri ákvörðun. Höfnun eða takmörkun á fjárstuðningi skal grundvallast á því að skilyrði 109. gr. d séu ekki uppfyllt. Fjármálaeftirlitið skal hafa samráð við Seðlabanka Íslands áður en ákvörðun er tekin. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að heimila, hafna eða takmarka fjárstuðning innan samstæðu skal án tafar tilkynnt aðilum skv. 2.–5. tölul. 3. mgr.
    Ef eftirlitsaðili á samstæðugrunni eða lögbær yfirvöld viðtakanda fjárstuðnings, þ.m.t. Fjármálaeftirlitið, fallast ekki á takmörkun eða synjun á fjárstuðningi geta viðkomandi yfirvöld innan tveggja daga frá móttöku tilkynningar vísað ágreiningi til Eftirlitsstofnunar EFTA eða eftir atvikum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar í samræmi við lög nr. 24/2017.
    Ef Fjármálaeftirlitið hvorki hafnar né takmarkar fjárstuðning innan samstæðu innan tímafrests skv. 5. mgr. er fyrirtæki heimilt að veita fjárstuðning í samræmi við tilkynningu skv. 3. mgr.
    Ákvörðun stjórnar fyrirtækis um að veita fjárstuðning innan samstæðu skal tilkynnt til aðila skv. 1.–5. tölul. 3. mgr.
    Ef Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni, hafnar eða takmarkar fjárstuðning innan samstæðu skv. 5. mgr., og endurbótaáætlun samstæðu skv. 82. gr. d gerir ráð fyrir slíkum fjárstuðningi, getur lögbært yfirvald í því aðildarríki þar sem fyrirtækið sem veita átti fjárstuðningi viðtöku er staðsett óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið hafi frumkvæði að því að endurbótaáætlun samstæðu skv. 82. gr. d verði endurskoðuð, sbr. 82. gr. c. Ef endurbótaáætlun hefur verið gerð fyrir dótturfélag skv. 4. mgr. 82. gr. d og Fjármálaeftirlitið hefur hafnað eða takmarkað fjárstuðning innan samstæðu skv. 5. mgr. getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að fyrirtæki uppfæri endurbótaáætlun og afhendi Fjármálaeftirlitinu.

    f. (109. gr. f.)

Opinber birting.

    Fyrirtæki skal greina frá því opinberlega hvort það er aðili að samningi um fjárstuðning innan samstæðu skv. 109. gr. a. Ef fyrirtæki er aðili að slíkum samningi skal það gera grein fyrir aðilum samnings og helstu ákvæðum samnings í samandregnu formi. Upplýsingar um samninginn skulu birtar árlega, þ.m.t. breytingar sem kunna að verða á skilmálum eða aðild að samningnum. Um opinbera birtingu gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar skv. 117. gr. a.
    Ráðherra setur reglugerð um innihald og form birtinga skv. 1. mgr.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
     a.      29. tölul. orðast svo: 1., 4. og 5. mgr. 54. gr. um skyldur stjórnar, starfsreglur og bann við starfandi stjórnarformanni.
     b.      45. tölul. orðast svo: 1. mgr. 86. gr. um tilkynningu um brot gegn varfærniskröfum.
     c.      Við 53. tölul. bætist: og eftirlit á samstæðugrunni, þ.m.t. með því að hindra eftirlit, afhenda ekki gögn eða upplýsingar eða afhenda ófullnægjandi gögn eða upplýsingar.
     d.      Við bætast fjórir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                  63.      1. og 2. mgr. 82. gr. a um að gera endurbótaáætlun eða uppfæra hana.
                  64.      1. og 2. mgr. 82. gr. g um að halda skrá yfir fjárhagslega samninga.
                  65.      109. gr. um varfærniskröfur og eftirlit á samstæðugrunni og eftirlitskerfi með áhættu vegna starfsemi blandaðra eignarhaldsfélaga.
                  66.      3. mgr. 109. gr. e um að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaðan fjárstuðning innan samstæðu.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 112. gr. b laganna:
     e.      25. tölul. orðast svo: 1. mgr. 86. gr. um tilkynningu um brot gegn varfærniskröfum.
     f.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 107. gr. um að hindra eftirlit eða veita villandi og/eða rangar upplýsingar.

16. gr.

    Við 1. málsl. 117. gr. a laganna bætist: með áorðnum breytingum.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.