Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1124  —  480. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hólmfríði Sveinsdóttur og Hermann Sæmundsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Aðalstein Sigurgeirsson frá Skógræktinni, Sindra Sigurgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Snorra Björn Sigurðsson og Árna Ragnarsson frá Byggðastofnun, Baldur Dýrfjörð frá Samorku, Jón Ingimarsson frá Landsvirkjun, Karl Björnsson og Vigdísi H ä sler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Pál S. Brynjarsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Reinhard Reynisson frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf. og Sigríði Þorgrímsdóttur, Björn Barkarson og Þórarin Sólmundarson úr stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál.
    Umsagnir bárust frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Bændasamtökum Íslands, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Facebook-hópnum „Dýrt innanlandsflug – þín upplifun“, Fljótsdalshéraði, Landsvirkjun, Landvernd, Öryrkjabandalagi Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Skógræktinni.

Almennt um byggðaáætlun.
    Í 3. gr. laga nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, er kveðið á um að ráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára í senn. Áætlunin skal lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Þá skal áætlunin hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Í áætluninni skal leggja sérstaka áherslu á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Einnig skal gerð grein fyrri sérstökum áformum ríkisins um stuðning við atvinnulíf á skilgreindum stuðningssvæðum byggðakorts af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt fyrir tiltekið tímabil og tengingu þeirra við sóknaráætlanir.
    Í fyrirliggjandi tillögu eru byggðamál skilgreind sem öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Í tillögunni eru sett fram þrjú meginmarkmið: jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Meiri hlutinn telur það jákvæða breytingu að í fyrirliggjandi tillögu sé við vel flestar aðgerðir í IV. kafla tilgreint hvernig árangur af verkefninu verði mældur. Þá er tilgreint hver er framkvæmdaraðili aðgerðar og tekin dæmi um samstarfsaðila sem meiri hlutinn telur til bóta og auka skýrleika byggðaáætlunar og auðvelda eftirfylgni með henni. Það sama á við um afmörkun hverrar aðgerðar í tíma. Auk þess er tryggð regluleg skýrslugjöf til Alþingis um framgang tillögunnar. Meiri hlutinn vonast til að nefndar breytingar leiði til þess að árangur af framkvæmd byggðaáætlunar verði betri og sýnilegri.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að byggðakorti af Íslandi sé beitt markvisst til að styðja sömu svæði og sérstök áhersla er lögð á að styðja í byggðaáætlun, þ.e. svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.
    Nefndinni barst athugasemd um orðalag I. kafla um framtíðarsýn og viðfangsefni, þ.e. þann hluta þar sem fram kemur að landið allt verði í blómlegri byggð þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með jöfnu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu. Bent var á að nánast ómögulegt væri að ná þessu markmiði, m.a. vegna þess að landið er stórt en þjóðin fámenn. Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu sem að þessu lýtur en leggur áherslu á að inntak framtíðarsýnarinnar breytist ekki. Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar til lagfæringar.

Samráð.
    Samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir skal við gerð byggðaáætlunar haft samráð við ráðuneyti, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra haghafa eftir þörfum. Fram kom á fundum nefndarinnar að samráð hefði verið víðtækt, haldnir voru fundir með öllum ráðuneytum, samráðsvettvöngum sjö landshluta, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál. Þá var opið samráðsferli á vef Byggðastofnunar auk þess sem drög að tillögu til þingsályktunar um byggðaáætlun voru sett inn á opna samráðsgátt stjórnvalda. Lýstu umsagnaraðilar almennt mikilli ánægju með hið aukna samráð. Meiri hlutinn telur breytt fyrirkomulag samráðs við gerð áætlunarinnar til fyrirmyndar þó alltaf megi gera betur. Þannig álítur meiri hlutinn að mikilvægt sé að ríkisstofnanir sem starfa á landsbyggðinni og geta orðið virkir þátttakendur í framkvæmd áætlunarinnar séu með í byggðaáætlanaferlinu en slíkt samráð gæti t.d. átt sér stað í gegnum samráðsvettvanginn í landshlutunum. Þá var á fundum nefndarinnar bent á að æskilegt væri að auka samráð og samtal milli Byggðastofnunar, Bændasamtaka Íslands og annarra sem koma að framkvæmd búvörusamninga við vinnslu áætlunarinnar, m.a. til að auka samræmi milli byggðaaðgerða í búvörusamningum og byggðaáætlunar. Einnig var bent á tækifæri til að tengja Framleiðnisjóð landbúnaðarins betur við nýsköpun í strjálbýli í byggðaáætlun.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að öll verkefni sem eru í tillögunni hafa fengið jákvæða umfjöllun í samráðsferlinu, ráðuneytin og aðrir framkvæmdaaðilar væru meðvitaðir um hvert og eitt verkefni sem að þeim snýr, sem og margir af mögulegum samstarfsaðilum. Vilji er meðal framkvæmda- og samstarfsaðila að fara í verkefnin. Þá hvöttu umsagnaraðilar til þess að tillagan yrði samþykkt sem fyrst þannig að hægt yrði að hefjast handa við einstök verkefni.

Samstarfsaðilar.
    Undir hverri aðgerð tillögunnar eru tilgreind dæmi um samstarfsaðila verkefnis. Að mati meiri hlutans er það til þess fallið að skýra viðkomandi verkefni enn frekar og hvetja ábyrgðaraðila til samstarfs við þá sem almennt hafa sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði. Nefndinni bárust ábendingar um að æskilegt væri að bæta við mögulegum samstarfsaðilum í nokkrum aðgerðum. Meiri hlutinn tekur undir það og leggur til nokkrar breytingar þar að lútandi, til að auka líkur á að sjónarmið þeirra og sérfræðiþekking nýtist við framkvæmd aðgerðarinnar.

Fjármögnun.
    Nefndin ræddi nokkuð að ekki væri alltaf nægjanlega skýrt hvernig fjármögnun einstakra aðgerða byggðaáætlunar væri háttað.
    Í tillögunni er að finna 54 aðgerðir, þar af eru 30 aðgerðir sem ætlað er tiltekið fjármagn af byggðalið en það eru þær fjárhæðir sem tilteknar eru í áætluninni. Samtals eru áætlaðir rúmlega 3,5 milljarðar kr. á tímabilinu til þessara 30 aðgerða. Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjármögnun aðgerða þrenns konar: að fullu af fjárheimild byggðaliðar, samfjármögnun af byggðalið og fjárheimildum viðkomandi málaflokks og svo fjármögnun að fullu af fjárheimild viðkomandi málaflokks. Þá eru nokkrar aðgerðir þar sem ekki er gert ráð fyrir verulegum kostnaði. Nefndin kallaði eftir frekari upplýsingum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um fjármögnun byggðaáætlunarinnar og fékk minnisblað frá ráðuneytinu þar að lútandi. Ljóst er að kostnaður við aðgerðirnar 54 verður umtalsvert meiri en það fjármagn sem kemur af byggðalið. Með því að samþætta byggðaáætlun við aðrar opinberar áætlanir verður hægt að fjármagna aðgerðir, ýmist af fjárheimild viðkomandi málaflokks eingöngu eða með samfjármögnun málaflokksins og byggðaliðar. Í mörgum tilvikum hefur þegar verið gert ráð fyrir fjármunum til aðgerða í fjármálaáætlun. Heildarkostnaður liggur ekki fyrir og mun ráðast af verkáætlun og kostnaðarmati sem unnið verður fyrir hverja aðgerð eftir að Alþingi hefur samþykkt áætlunina. Í framhaldi af því þarf verkefnisstjóri byggðaáætlunar og samstarfsaðilar að tryggja að gert sé ráð fyrir fjárheimildum í fjármálaáætlun og fjárlögum hverju sinni. Viðkomandi fagráðuneyti, sem ábyrgðaraðilar einstakra aðgerða, hafa jafnframt samþykkt allar tillögur sem undir þau heyra. Þá bendir meiri hlutinn á að fjárlagaliðurinn byggðamál gefur einn og sér ekki rétta mynd af framlögum til byggðamála. Þar sem byggðamál þvera flest málefnasvið ríkisins er viðfangsefni nýrrar byggðaáætlunar ekki síst að draga fram byggðaáherslur og sjónarmið í hinum ýmsu málefnaflokkum sem verja með beinum eða óbeinum hætti miklum fjármunum í byggðastefnu. Má þar nefna framlög til samgöngumála og fjarskipta, heilbrigðisþjónustu og menntamála.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að áætlunin verði fullfjármögnuð og við áframhaldandi þróun nýs verklags verði leitast við að auka gagnsæi við fjármögnun verkefna.

Loftslagsmál.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni var rætt um tengsl byggðaáætlunar við aðlögun og aðgerðir Íslands í tengslum við loftslagsbreytingar. Í I. kafla tillögunnar um framtíðarsýn og viðfangsefni er tekið fram að helstu viðfangsefni byggðaáætlunar verði m.a. að takast á við aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga en þetta er í fyrsta sinn sem byggðaáætlun kemur inn á loftslagsmál. Lögð er áhersla á hlutverk sveitarfélaga en undir markmiði C. Sjálfbær þróun byggða um land allt, kemur fram að í stefnumörkun fyrir eða innan landshluta verði fjallað um loftslagsbreytingar, möguleg áhrif þeirra, aðlögun og mótvægisaðgerðir, t.d. í svæðisskipulagi. Þar verði m.a. horft til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem tengist atvinnugreinum í héraði og breyttri landnotkun, svo sem með endurheimt votlendis eða annarra vistkerfa og bindingu í jarðvegi og gróðri eða með aðgerðum til vitundarvakningar meðal íbúa og gesta. Í því ljósi vill meiri hlutinn draga fram að skógrækt hefur þá sérstöðu að vera einn af lykilþáttum í aðgerðum í loftslagsmálum með bindingu kolefnis, samtímis uppbyggingu skógarauðlindar sem er atvinnuskapandi í dreifðum byggðum til langrar framtíðar. Meiri hlutinn leggur til viðbótarmarkmið þessu til áréttingar sem p-lið í B-hluta áætlunarinnar.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að skuldbindingar Íslands vegna Parísarsamkomulagsins verði hafðar að leiðarljósi við framkvæmd byggðaáætlunar. Það sé mikilvægt að viðfangsefni áætlunarinnar sé ekki einungis aðlögun vegna loftslagsbreytinga heldur líka nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að vinna gegn loftlagsbreytingum. Leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu í því skyni í I. kafla áætlunarinnar. Þá leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á að mismunandi áform og áætlanir tengdar loftslagsmálum verði samþættar í vinnu samkvæmt byggðaáætlun, svo sem landshlutaáætlanir í skógrækt, áætlanir bænda um kolefnisjöfnun einstakra búgreina, þróun almenningssamgangna og notkun vistvænna orkugjafa.
    Að lokum áréttar meiri hlutinn að í umsögnum komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem geta nýst við framkvæmd byggðaáætlunar, m.a. varðandi heilbrigðis-, mennta- og orkumál. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við I. kafla.
                  a.      1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu.
                  b.      2. málsl. 3. mgr. orðist svo: Í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin.
                  c.      Á eftir orðinu „atvinnugreinar“ í 4. mgr. komi: að skilgreina nauðsynlegar mótvægisaðgerðir og.
     2.      Við B-lið II. kafla bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Skógrækt verði efld sem atvinnugrein með áherslu á landshlutaáætlanir í skógrækt og þróun nýtingar skógarafurða.
     3.      Við IV. kafla.
                  a.      Á eftir orðinu „Velferðarráðuneyti“ í liðnum Dæmi um samstarfsaðila í lið A.12 komi: Öryrkjabandalag Íslands.
                  b.      Á eftir orðunum „Hafnasamband Íslands“ í liðnum Dæmi um samstarfsaðila í lið A.15 komi: Samorka.
                  c.      Á eftir orðinu „sveitarfélög“ í liðnum Dæmi um samstarfsaðila í lið A.19 komi: Öryrkjabandalag Íslands.
                  d.      Liðurinn Dæmi um samstarfsaðila í lið B.17 orðist svo: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bændasamtök Íslands, Samtök ungra bænda, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skógræktin, Landgræðslan og Umhverfisstofnun.
                  e.      Í stað orðanna „og atvinnuráðgjöf landshluta“ í liðnum Dæmi um samstarfsaðila í lið C.9 komi: atvinnuráðgjöf landshluta, Umhverfisstofnun, Skógræktin og Landgræðslan.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Sara Elísa Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 5. júní 2018.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Helga Vala Helgadóttir. Jón Gunnarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.