Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1137  —  431. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um eignaraðild vogunarsjóða að bankakerfinu og eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins.


    Fjármála- og efnahagsráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu vegna fyrirspurnar þingmannsins.

     1.      Hvaða vogunarsjóðir eiga beint eða óbeint eignarhlut í íslenskum fjármálafyrirtækjum, hver er eignarhlutur þeirra beint eða óbeint í prósentum og að nafnvirði og í hvaða fjármálafyrirtækjum eiga þeir eignarhluti?
    Eignarhald aðila, sem geta talist til svonefndra vogunarsjóða, í íslenskum fjármálafyrirtækjum er samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu 31. maí 2018 eftirfarandi:

Arion banki hf. (útgefið hlutafé 2.000.000.000 kr.)

Aðili

Bein eign

Óbein eign
Nafnverð, kr. % %
Taconic Capital Advisors LP og tengdir aðilar 199.999.999 9,99 26,65
Attestor Capital LLP og tengdir aðilar 248.799.999 12,44 4,39
Och-Ziff Capital Management Group LLC og tengdir aðilar 131.522.115 6,58 3,3

    Óbein eign ofangreindra aðila og tengdra aðila er vegna eignarhlutar í Kaupþingi ehf. sem fer með eignarhluti í Arion banka hf. í gegnum Kaupskil ehf.
    Fleiri aðilar, sem talist geta til svonefndra vogunarsjóða, kunna að fara með óverulegan óbeinan hlut í Arion banka hf. vegna hlutdeildar sinnar í Kaupþingi ehf. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að áhrif óbeinnar eignar allra framangreindra aðila í Arion banka hf. er verulegum takmörkunum háð vegna skilyrða sem Fjármálaeftirlitið setti fyrir virkum eignarhlut Kaupþings ehf. í bankanum í gegnum Kaupskil ehf. 8. janúar 2010. Upplýsingar um þessi skilyrði er að finna í svari við 9. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Fjármálaeftirlitið hefur metið tvo af framangreindum aðilum hæfa til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. Annars vegar Attestor Capital LLP og tengda aðila, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. september 2017, og hins vegar Taconic Capital Advisors LP og tengda aðila, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. sama mánaðar.

Lykill fjármögnun hf.

Aðili Óbein eign

%

Davidson Kempner Capital Management LP og tengdir aðilar
78,60

    Fjármálaeftirlitið hefur metið Davidson Kempner Capital Management LP og tengda aðila hæfa til að fara með virkan eignarhlut með óbeinni hlutdeild í Lykli fjármögnun hf., sbr. ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins frá 30. desember 2016 og 27. janúar 2017. Óbein eign er vegna hlutar í Klakka ehf. sem fer með allt hlutafé í Lykli fjármögnun hf..

     2.      Hefur Fjármálaeftirlitið upplýsingar um hvaða aðilar standa raunverulega að baki vogunarsjóðunum, sbr. skilgreiningar á raunverulegum eiganda í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og ákvæði 5. tölul. 2. mgr. 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki?
    Samkvæmt upplýsingum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið aflaði frá Fjármálaeftirlitinu vegna fyrirspurnarinnar fer upplýsingaöflun af þeim toga sem lýst er í þessum lið fyrirspurnarinnar einungis fram af hálfu Fjármálaeftirlitsins þegar stofnunin leggur mat á hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Við slíkt mat fer fram umfangsmikil upplýsingagjöf af hálfu aðilans, þ.m.t. um raunverulegan eiganda, sbr. 41. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og leiðbeiningar sem Fjármálaeftirlitið hefur gefið út og birtar eru á vefsíðu stofnunarinnar um upplýsingagjöf í tengslum við tilkynningu um virkan eignarhlut. Í 49. gr. a laga um fjármálafyrirtæki er einnig kveðið á um að leiki vafi á því, að mati Fjármálaeftirlitsins, hver sé eða verði raunverulegur eigandi virks eignarhlutar skuli stofnunin tilkynna þeim sem sendi tilkynningu eða fjármálafyrirtækinu sjálfu, ef ekki næst til þess sem tilkynnti, að stofnunin telji hlutaðeigandi ekki hæfan til að fara með eignarhlutinn.
    Af framangreindu leiðir að í tilfelli þeirra aðila sem metnir hafa verið hæfir af Fjármálaeftirlitinu til að fara með virkan eignarhlut, og getið er um í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, hefur stofnunin aflað upplýsinga um raunverulega eigendur og annarra tengdra upplýsinga, t.d. um uppruna fjármagns, uppbyggingu eignarhalds hjá aðilunum og stjórnun þeirra.
    Samhengisins vegna er rétt að geta þess að í skýrslu Financial Action Task Force, alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, um Ísland, sem birt var 6. apríl sl. á vefsvæði dómsmálaráðuneytisins, er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að hér á landi séu ítarlegar kröfur gerðar til þess að koma í veg fyrir að glæpamenn og aðilar þeim tengdir séu raunverulegir eigendur að virkum eignahlutum í fjármálafyrirtækjum, eins og það er orðað í skýrslunni.

     3.      Telur ráðherra að upplýsingagjöf Arion banka sem er að finna á heimasíðu bankans sé í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði?
    Fyrst ber að geta þess að skylda fjármálafyrirtækis til að birta upplýsingar um eignarhald sitt á vefsíðu sinni og í ársreikningi sínum kemur ekki fram í 5. tölul. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, heldur í 4. mgr. 19. gr. og c-lið 3. mgr. 87. gr. sömu laga. Arion banki hf. hefur birt upplýsingar um eignarhald bankans á vefsíðu sinni og samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu eru þar birtar upplýsingar í samræmi við ákvæði 4. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

     4.      Hvaða upplýsingar liggja fyrir um eignarhald á Kaupþingi sem er 100% eigandi Kaupskila?
    Samkvæmt 19. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, ber Kaupþingi ehf., líkt og öðrum einkahlutafélögum, að halda hlutaskrá og gæta þess að hún geymi réttar upplýsingar á hverjum tíma. Hlutaskrár einkahlutafélaga skulu aðgengilegar hluthöfum og stjórnvöldum skv. 6. mgr. 19. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og hefur Fjármálaeftirlitið aðgang að hlutaskrá Kaupþings ehf.
    Kaupþingi ehf. ber að upplýsa í skýrslu stjórnar í ársreikningi um fjölda hluthafa í upphafi og lok reikningsárs í samræmi við 3. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Í skýrslunni skal einnig upplýsa um að lágmarki tíu stærstu hluthafa eða alla ef hluthafar eru færri en tíu, og hundraðshluta hlutafjár hvers þeirra í lok ársins. Jafnframt skal skilum á ársreikningi fylgja skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa í stafrófsröð ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers þeirra og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Ársreikningar einkahlutafélaga eru aðgengilegir almenningi, ásamt skrám yfir hluthafa, hjá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra gegn gjaldi, sbr. 3. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Í nýjasta ársreikningi Kaupþings ehf., sem skilað hefur verið til ársreikningaskrár, er að finna upplýsingar um hluthafa félagsins í árslok 2016.

     5.      Telur ráðherra að vogunarsjóðir uppfylli kröfur sem lög um fjármálafyrirtæki gera til eigenda að virkum eignarhluta í fjármálafyrirtæki, svo sem um orðspor og gagnsæi?
    Rétt er að geta þess að breytingar á eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum koma einungis til afgreiðslu hjá Fjármálaeftirlitinu ef þær leiða til þess að virkur eignarhlutur myndist eða fari yfir önnur mörk sem tilgreind eru í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Til að aðili, hvort sem það er svonefndur vogunarsjóður eða annars konar aðili, sé metinn hæfur til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki þarf hann að uppfylla sérstök hæfisskilyrði sem tilgreind eru í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Grundvallast mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi virks eiganda á öllum þeim atriðum sem tilgreind eru í ákvæðinu, þ.m.t. af orðspori aðila sem einkum felst í mati á heilindum hans og þekkingu og reynslu. Þar sem fyrrnefnd hæfisskilyrði laganna byggja á EES-reglum hefur stofnunin við skýringu þeirra m.a. haft til hliðsjónar viðmiðunarreglur evrópsku eftirlitstofnananna á fjármálamarkaði frá 20. desember 2016 (e. Joint Guidelines on the prudential assessment of acquisitions and increases of qualifying holding in the financial sector – JC/GL/2016/1).
    Tilgangur ákvæða VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjalla um mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi fyrirhugaðs eiganda virks eignarhlutar er einkum sá að draga úr hættunni á að virkir eigendur í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á heilbrigðan og traustan rekstur fyrirtækjanna og virkni fjármálamarkaðarins. Það sama á við um ákvæði kaflans sem snúa að viðvarandi mati á hæfi virks eiganda en þau veita Fjármálaeftirlitinu heimild til að grípa til aðgerða gegn eiganda að virkum eignarhluta ef hann veldur fjármálafyrirtækinu tjóni eða sýnir af sér háttsemi sem er til þess fallin að valda fjármálafyrirtækinu tjóni. Með öðrum orðum eru tilgangur lagaákvæðanna og matsferlis Fjármálaeftirlitsins að draga úr líkum á því að breytingar á eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum séu til þess fallnar að hafa skaðleg áhrif á heilbrigðan og traustan rekstur þeirra eða ógna fjármálastöðugleika.
    Samkvæmt framangreindu þurfa allir þeir aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki að fara í gegnum hæfismat Fjármálaeftirlitsins. Þannig eru vogunarsjóðir, eins og aðrir aðilar, ekki fyrir fram útilokaðir frá því að fullnægja hæfiskröfum laganna. Þá má geta þess að við mat á því hversu ríkar kröfur eru gerðar til hæfis þess aðila sem hyggst eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki er tekið mið af starfsemi umrædds fjármálafyrirtækis, t.d. hvort um sé að ræða kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki eða ekki, og hversu stóran eignarhlut aðili ætlar sér að eignast.
    Ákvæði VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki um eignarhluti og meðferð þeirra innleiðir í íslenskan rétt samræmdar Evrópureglur um meðferð og mat á virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um mat á hæfi svonefndra vogunarsjóða til þess að fara með virka eignarhluti í Arion banka hf. og Lykli fjármögnun hf., sem vísað er til í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi við matið horft til nánari skýringa á umræddum Evrópureglum, þ.m.t. tekið mið af viðmiðunarreglum Evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Með tilliti til alls ofangreinds, rökstudds mats Fjármálaeftirlitsins og aðferðafræði stofnunarinnar við mat á svonefndum vogunarsjóðum hefur ráðherra ekki ástæðu til þess að ætla annað en að eignarhaldið sé í samræmi við lög

     6.      Telur ráðherra að eignarhald vogunarsjóða á íslensku fjármálafyrirtæki í heild sinni torveldi eftirlit með fyrirtækinu? Svarið óskast rökstutt.
    Kveðið er á um mat á hæfi til þess að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki í 42. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Samhliða mati á orðspori aðila til þess að fara með virkan eignarhlut, og fjallað var um í svari við 5. tölul. fyrirspurnarinnar, kannar Fjármálaeftirlitið ávallt hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki eða hafa áhrif á hvort fyrirtækið muni fylgja lögum og reglum sem um starfsemi þess gilda. Er hér einkum átt við varfærniskröfur sem gilda um fjármálafyrirtækið, þ.m.t. kröfur um lágmarkseiginfjárgrunn. Eins og fram kemur í tilkynningum Fjármálaeftirlitsins um mat á hæfi Attestor Capital LLP og tengdra aðila og Taconic Capital Advisors LP og tengdra aðila til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf., sem birtar hafa verið og vísað er til í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, kannaði stofnunin sérstaklega getu þeirra til að styðja fjárhagslega við bankann við sérstakar aðstæður. Með tilliti til framangreinds, og þess sem fram kemur í svari við 5. tölul. fyrirspurnarinnar, hefur ráðherra ekki ástæðu til þess að ætla að eignarhaldið torveldi eftirlit með fyrirtækinu.

     7.      Hafa Fjármálaeftirlitið og/eða Samkeppniseftirlitið kannað hvernig samstarfi vogunarsjóða er háttað og hvernig því hefur verið háttað annars vegar á milli vogunarsjóðanna og hins vegar hvað varðar aðkeypta ráðgjöf, bæði innlenda og erlenda?
    Í upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu kemur fram að við mat á hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut kanni Fjármálaeftirlitið ávallt hvort viðkomandi sé í samstarfi við aðra aðila í skilningi 25. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í þessu samhengi er vert að geta þess að við mat á hæfi Taconic Capital Advisors LP og tengdra aðila, sem nefnt er í svörum hér að framan, og Kaupþings ehf. komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að þessir tveir aðilar teldust í samstarfi í skilningi c-liðar 25. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laganna.
    Í upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að málefni vogunarsjóða sem slíkra hafi ekki komið til sérstakrar athugunar af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Á hinn bóginn hafi Samkeppniseftirlitið lögum samkvæmt hugað að aðkomu þeirra sem annarra að eignarhaldi á íslenskum viðskiptabönkum en eignarhald fyrirtækja getur m.a. komið til skoðunar í tengslum við samruna eða yfirtökur.
    Þá segir í upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu að í lok árs 2009 hafi stofnuninni verið tilkynnt um annars vegar yfirtöku Glitnis banka hf. (Glitnir) á Íslandsbanka hf. og hins vegar yfirtöku Kaupþings banka hf. (Kaupþings) á Arion banka hf. Í málunum voru til skoðunar áform um að kröfuhafar viðkomandi banka eignuðust þorra hlutafjár í þeim. Hafði Samkeppniseftirlitið áhyggjur af því að með þessu eignarhaldi kynnu að skapast samkeppnishamlandi aðstæður. Þessum áhyggjum er nánar lýst í ákvörðunum stofnunarinnar nr. 49/2009 hf. og nr. 48/2009, sem hægt er að nálgast á vefsvæði Samkeppniseftirlitsins. Á grundvelli sjónarmiða Samkeppniseftirlitsins um áform þessara fyrirtækja skuldbundu annars vegar Glitnir og hins vegar Kaupþing sig til þess að hlíta skilyrðum sem kæmu í veg fyrir þau samkeppnislegu vandkvæði sem stofnunin hafði séð á yfirtökunum. Þannig var gerð sátt í báðum málum sem lýst er í fyrrgreindum ákvörðunum.
    Við viðvarandi eftirfylgni með þeim skilyrðum sem sett voru með framangreindum ákvörðunum beindi Samkeppniseftirlitið fyrirspurnum til stjórna bæði Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. og til Glitnis og Kaupþings á árinu 2014. Var þessum fyrirspurnum m.a. ætlað að varpa ljósi á það hvort tiltölulega samleitur hópur kröfuhafa í slitabúum Glitnis hf. og Kaupþings hf. gæti haft eða hefði haft áhrif á stefnu stjórna Íslandsbanka hf. og Arion banka hf., með tilliti til markmiða fyrrgreindra ákvarðana Samkeppniseftirlitsins. Var m.a. varpað fram spurningum sem lutu að aðkomu ráðgjafa Kaupþings hf. og Glitnis hf. en ekki var hins vegar kallað eftir upplýsingum frá einstökum ráðgjöfum.
    Framangreindri fyrirspurn var fylgt eftir en leiddi ekki til frekari ákvarðana af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Þar höfðu m.a. áhrif ákvæði 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, sem heimila eftirlitinu að forgangsraða málum. Þá fóru í hönd breytingar á eignarhaldi Íslandsbanka hf. með gerð samkomulags stjórnvalda við kröfuhafa Glitnis hf. um framsal allra hluta í Íslandsbanka hf. til íslenska ríkisins. Fjallað var um þær breytingar í ákvörðun nr. 9/2016 en í málinu skuldbundu aðilar sig til þess að hlíta skilyrðum sem tryggja eiga að bankar í eigu ríkisins séu reknir sem sjálfstæðir keppinautar. Ákvörðun nr. 9/2016 er birt á vefsvæði Samkeppniseftirlitsins.
    Eftir yfirtöku ríkissjóðs á Íslandsbanka hf. var ekki lengur fyrir hendi sá möguleiki að samkeppni á milli Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. yrði raskað með hugsanlegum samstillingaráhrifum aðila sem ættu kröfur í slitabú bæði Glitnis hf. og Kaupþings hf.
    Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu setti stofnunin eigendum Íslandsbanka hf. og Arion banka hf. ákveðin skilyrði, sbr. ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins nr. 48/2009 og nr. 49/2009, sem miðuðu að því að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði bankanna og m.a. að tryggja að yfirráð kröfuhafa bankanna (þ.m.t. vogunarsjóða) í gegnum eignarhaldsfélög myndu ekki leiða til skertrar samkeppni. Í því skyni voru sett skilyrði þar sem kveðið var á um sjálfstæði stjórnarmanna bankanna. Töldust þeir ekki óháðir ef þeir höfðu t.d. sinnt reglubundið hagsmunagæslu eða ráðgjafastörfum fyrir kröfuhafa.

     8.      Hafa Fjármálaeftirlitið og/eða Samkeppniseftirlitið skoðað samstarf ráðgjafa Kaupþings og Glitnis og kröfuhafa þeirra á þeim tíma þegar Kaupþing og Glitnir fóru með
    Vísað er til í upplýsinga frá Samkeppniseftirlitinu og Fjármálaeftirlitinu sem koma fram í svari við 7. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Um eignarhald Glitnis banka hf. (nú Glitnir HoldCo ehf.) í Íslandsbanka hf. í gegnum ISB Holding ehf. giltu skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setti félaginu 30. desember 2009 sem takmörkuðu verulega áhrif þess á stjórnun og rekstur bankans. Þau skilyrði gilda ekki um eignarhald ríkisins á bankanum. Eins og greint er frá í svörum þessum gilda enn slík skilyrði um eignarhald Kaupþings ehf. í Arion banka hf. í gegnum Kaupskil ehf. Í ljósi þessara takmörkuðu áhrifa hefur að mati Fjármálaeftirlitsins ekki þótt tilefni til að skoða sérstaklega hvort, og þá hvernig, samstarf milli einstakra kröfu- og hluthafa sem og ráðgjafa þessara tveggja félaga var viðhaft.

     9.      Hver eru þau skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setti 8. janúar 2010 til að takmarka aðkomu Kaupþings að Arion banka og hvernig hefur Fjármálaeftirlitið tryggt að þeim skilyrðum hafi verið fylgt?
    Fjármálaeftirlitið hefur fram til þessa ekki birt skilyrði fyrir heimild Kaupþings ehf. til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. í gegnum Kaupskil ehf. í heild sinni. Á hinn bóginn hefur skilyrðunum verið lýst af Fjármálaeftirlitinu, m.a. í tilkynningu 11. janúar 2010 sem birt er á vefsvæði stofnunarinnar.
    Í tilkynningunni kemur fram að Fjármálaeftirlitið mat Kaupskil ehf. hæft til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. fyrir hönd Kaupþings ehf., sem þá hét Kaupþing banki hf., 8. janúar 2010. Fjármálaráðuneytið og Kaupþing ehf. höfðu einnig gert samkomulag 3. september 2009 um að Kaupþing ehf. gæti eignast 87% hlut í bankanum að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Fjármálaeftirlitið taldi Kaupþing ehf., sem þá var í greiðslustöðvun og slitameðferð, ekki hæft til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Tekið var tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem leiddu til samkomulagsins, og vegna þess að það fæli í sér sátt á milli aðila þess um rekstur Arion banka hf. sem ætla mætti að stuðlaði að stöðugleika á fjármálamarkaði, kæmi til álita að kanna hvort Kaupþing ehf. gæti gripið til ráðstafana sem dygðu til að takmarka óæskileg áhrif eignarhaldsins, sbr. þágildandi 43. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Niðurstaðan var sú að Fjármálaeftirlitið veitti heimildina með skilyrðum um afgerandi ráðstafanir sem lutu að fjárhagslegum styrk, eignarhaldi og stjórnun bankans, eftirlitshagsmunum og stefnumiðum eigenda.
    Á grundvelli þessara skilyrða skal fjárhagslegur styrkur Kaupþings ehf. tryggður með aðgangi að ákveðinni lágmarksupphæð lausafjár sem myndar stofn sem nýta mætti til að auka hlutafé Arion banka hf. til að bregðast við því ef bankinn mætir verulegu andstreymi í rekstri. Fjárhæð þessi var metin af bankanum að undirlagi Fjármálaeftirlitsins á grundvelli samræmdrar aðferðafræði sem þróuð var innan ramma úttektar stofnunarinnar á nýju bönkunum í maí 2009.
    Eignarhald bankans skal samkvæmt skilyrðunum vera í höndum sérstaks dótturfélags Kaupþings ehf., Kaupskila ehf., sem lýtur stjórn sem er að meiri hluta skipuð stjórnarmönnum óháðum Arion banka hf., Kaupþingi ehf. og stórum kröfu- og hluthöfum félagsins. Kaupþing ehf. getur tilnefnt einn fulltrúa sinn í þriggja manna stjórn Kaupskila ehf., en hinir tveir, þ.m.t. stjórnarformaður, skulu vera óháðir. Útnefning allra stjórnarmanna eignarhaldsfélagsins er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og skulu þeir fullnægja kröfum þess, m.a. um þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi.
    Stjórn Kaupskila ehf. fer með atkvæðisrétt þann sem Kaupþing ehf. hefur öðlast í Arion banka hf. og útnefnir einstaklinga í stjórn bankans. Kveða skilyrði Fjármálaeftirlitsins einnig á um það að af stjórnarmönnum bankans sjálfs skuli Kaupþing ehf. aðeins hafa einn fulltrúa, en aðrir skuli vera óháðir, þ.m.t. stjórnarformaður. Með því er átt við að þeir starfi hvorki í umboði einstakra eigenda eða kröfuhafa Kaupþings ehf. né séu bundnir þeim eða bankanum sjálfum nokkrum hagsmunatengslum. Í sérstökum umboðssamningi milli Kaupskila ehf. og Kaupþings ehf. frá 20. apríl 2010 tekst Kaupþing ehf. á hendur að virða sjálfstæði stjórnar fyrrnefnda félagsins og skyldur hennar til að stuðla að heilbrigðum og traustum rekstri Arion banka hf. án utanaðkomandi íhlutunar.
    Stefnumiðum eigenda eru settar skorður með því að áskilja tilteknar kvaðir á viðskipti við tengda aðila, arðgreiðslur út úr Arion banka hf. og sölu hluta í bankanum í þrjú ár eftir að heimildin var veitt. Ber Kaupþingi ehf. m.a. að tilkynna fyrir fram um fyrirhuguð eigendaskipti hluta í bankanum eða Kaupskilum ehf. til Fjármálaeftirlitsins.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með því hvort umræddum skilyrðum sé fullnægt fer, líkt og um eftirlit stofnunarinnar með aðilum sem fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum almennt, samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 49. gr. síðarnefndu laganna sem kveður á um viðvarandi mat á hæfi virkra eigenda. Á grundvelli þessara laga getur Fjármálaeftirlitið óskað eftir öllum upplýsingum frá aðilum sem fara með virkan eignarhlut og gert sérstakar athuganir, ef tilefni er til, auk þess sem stofnunin fylgir eftir ábendingum sem henni berast.
    Til viðbótar framangreindu fær Fjármálaeftirlitið reglulega senda skýrslu frá stjórn Kaupskila ehf. þar sem fram kemur hvort umræddum skilyrðum sé réttilega fullnægt, auk þess sem stofnunin fær sent yfirlit yfir lausafjárstöðu Kaupþings ehf. með reglubundnum hætti.

     10.      Lá samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir áður en Kaupþing nýtti sér kauprétt sinn eða áður en ríkið afhenti hlutabréfin?
    Samþykki Fjármálaeftirlitsins var hvorki áskilið áður en Kaupskil ehf. nýtti sér kauprétt að 13% hlut ríkisins í Arion banka hf. né áður en ríkið afhenti félaginu hlutinn.