Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1160  —  345. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Berglindi Báru Sigurjónsdóttur og Svanhildi Þorbjörnsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Guðjón Bragason og Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrafnhildi Arnkelsdóttur og Ólaf Hjálmarsson frá Hagstofu Íslands, Birgittu Arngrímsdóttur og Elínu Ölmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra, Ástríði Jóhannesdóttur og Indriða Ómarsson frá Þjóðskrá Íslands, Guðnýju S. Bjarnadóttur frá Félagi um foreldrajafnrétti, Rögnu Haraldsdóttur og Halldóru Ólafsdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins og Sigurbjörgu Rut Hoffritz frá Útlendingastofnun.
    Umsagnir bárust frá Félagi um foreldrajafnrétti, Fljótsdalshéraði, Hagstofu Íslands, Ísafjarðarbæ, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sigurlaugu Knudsen Stefánsdóttur, Tryggingastofnun ríkisins og Útlendingastofnun.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, og lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952. Tilefni þess er fyrst og fremst þingsályktun Alþingis frá 7. september 2016 og breyttir samfélagshættir. Markmið frumvarpsins er m.a. að tryggja að löggjöf um lögheimili og aðsetur sé í takt við þarfir og samfélagshætti nútímans og sé skýr og auðskiljanleg. Nauðsynlegt er talið að samræma skráningu landsmanna, gera hana miðlæga, stuðla að því að hún verði sem réttust hverju sinni og sé að mestu leyti rafræn. Tilgangur frumvarpsins er auk þess að stuðla að betra verklagi við skráningu og að skýrar reglur gildi um heimild til afturvirkni skráninga.

Lögheimili og aðsetur.
    Á fundum nefndarinnar kom fram ábending um að þó að óheimilt sé að eiga lögheimili á Íslandi og erlendis á sama tíma skv. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins sé í skattalegu tilliti ekkert sem komi í veg fyrir að einstaklingur geti talist bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu í tveimur ríkjum á grundvelli heimilisfesti. Í greinargerð sem fylgir frumvarpi þessu kemur fram að miðað hefur verið við þessa reglu um lögheimili í dag en hún ekki lögfest og með frumvarpinu er bætt úr því. Nefndin bendir á að það hvort einstaklingur geti borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu í tveimur ríkjum á grundvelli heimilisfesti muni gilda áfram eftir sem áður. Lög um tekjuskatt séu sérlög og eigi að ganga framar lögum um lögheimili. Þá bendir nefndin á að jafnframt komi fram í athugasemdum við 12. gr. frumvarpsins að ákvæðið á ekki að raska 2. mgr. 1. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, varðandi úrskurðarvald ríkisskattstjóra um heimilisfesti í skattamálum.
    Við meðferð málsins var rætt um hvort tryggja þyrfti raunverulega skráningu aðseturs með víkkun skilgreiningar þess þannig að ekki væri nauðsynlegt að um væri að ræða íbúðarhúsnæði til að hægt væri að skrá aðsetur. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur fram að til umsagnar var ákvæði þess efnis að heimila skráningu lögheimilis í frístundabyggð eða iðnaðar- og atvinnuhúsnæði ef fyrir lægi sérstakt samþykki viðkomandi sveitarstjórnar enda væru uppfyllt skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla um íbúðarhæft húsnæði og skipulag. Hins vegar var ákvæðið fellt brott, m.a. á þeim grundvelli að ákvæðið hefði getað falið í sér aukinn kostnað fyrir ríki og sveitarfélög og rýrt skipulagsvald sveitarfélaga auk þess að fara í bága við skipulagslöggjöfina. Nefndin telur að sömu sjónarmið geti átt við um í þessu tilviki, þ.e. að útvíkkun á skilgreiningu á aðsetri geti farið í bága við skipulagslög og skipulagsreglugerðir, en slíkt þarfnast nánari skoðunar. Nefndin bendir á að fyrir liggur að fjöldi einstaklinga býr í atvinnuhúsnæði og telur nefndin æskilegt að þeir einstaklingar geti skráð aðsetur sitt svo skráning í þjóðskrá endurspegli raunverulega búsetu. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að taka til ítarlegrar skoðunar hvort heimila eigi skráningu aðseturs í þessum tilvikum og leggi fram tillögur í þeim efnum.

Frávik frá meginreglu um lögheimilisskráningu.
    Við umfjöllun málsins komu fram ábendingar um þörf á nánari skilgreiningu á hugtökunum „sambærilegu húsnæði“, „starfsmannabústaðir“, „tímabundið lögheimili“ og „aðsetur“ í 3. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum við 3. gr. segir að hugtök eins og „starfsmannabústaðir“ og „sambærilegt húsnæði“ þurfi að skilgreina nánar í reglugerð. Nefndin tekur fram að hugtökin „lögheimili“ og „aðsetur“ eru skýrð í frumvarpinu. Enn fremur er bent á í greinargerð með frumvarpinu að samfélög og samfélagshættir breytist mjög hratt samhliða tækniþróun og þannig kunni hugtök að taka hröðum breytingum. Stjórnvöld verði að geta brugðist hratt við breytingum og því talsvert auðveldara að lagfæra reglugerð ef samfélagið eða tækniþróun kalli á það. Nefndin telur nægja að framangreind hugtök verði skilgreind nánar í reglugerð en leggur áherslu á að ráðherra setji sem fyrst reglugerð þar að lútandi.

Óvissa um lögheimili.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins kemur fram að við sérstakur aðstæður megi skrá einstakling til heimilis þar sem hann stundar aðalatvinnu sína. Í 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. kemur fram að um er að ræða aðalatvinnu þegar 2/ 3 hlutar tekna stafa frá henni. Við meðferð málsins komu fram ábendingar um að óljóst væri hvernig staðið yrði að upplýsingaöflun um tekjur hjá Þjóðskrá Íslands, sbr. 15. gr. frumvarpsins sem einungis kveður á um upplýsingaskyldu um búsetu en ekki laun. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins segir að ákvæðið sé nánast samhljóða ákvæðum gildandi laga um lögheimili. Nefndin hefur fengið þær upplýsingar að ekkert hafi reynt á ákvæðið. Verður þó að telja að í framkvæmd yrði óskað eftir þessum upplýsingum frá hinum skráða sjálfum, þ.e. að stofnunin óski eftir staðfestu afriti af skattframtali viðkomandi. Þá bendir nefndin á að þegar vafi sé um rétta skráningu á lögheimili sé Þjóðskrá Íslands heimilt skv. 15. gr. að óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum, svo sem ríkisskattstjóra, í þeim tilgangi að ákvarða rétta skráningu.
    Við meðferð málsins kom fram að lokamálsliður 2. mgr. 4. gr. sem kveður á um að ef ekki verði skorið úr um lögheimili einstaklings skuli miða við það sveitarfélag þar sem hann hafði síðast skráð lögheimili. Fram kom að greinin er ekki í anda meginreglunnar að „maður hafi lögheimili þar sem hann hefur fasta búsetu“. Reynslan hingað til hafi verið sú að í mörgum málum er viðkomandi löngu fluttur úr lögheimilissveitarfélagi yfir í annað sveitarfélag. Að skrá viðkomandi þar sem hann hafði síðast lögheimili geti þannig gefið ranga mynd af þjóðskrá. Nefndin leggur því til að hafa greinina óbreytta frá gildandi lögum þannig að miðað skuli við það sveitarfélag þar sem viðkomandi hafi haft þriggja mánaða samfellda dvöl. Nefndin leggur til breytingar í þá veru.
Lögheimili hjóna og skráð sambúð.
    Í frumvarpinu er að finna nýmæli um að hjón mega eiga hvort sitt lögheimilið kjósi þau það. Við meðferð málsins fyrir nefndinni var bent á hættu á því að slík heimild gæti leitt til þess að tekjuháir einstaklingar gætu skráð lögheimili sitt í sveitarfélögum sem hafa lágt álagningarhlutfall útsvars án þess að hafa þar raunverulega búsetu. Fram kom tillaga um að takmarka slíka heimild við tilteknar aðstæður. Nefndin tekur undir að þessi hætta sé vissulega fyrir hendi en áréttar að heimild hjóna til að eiga hvort sitt lögheimilið sé einkum vegna þess að hjón séu ekki alltaf í stöðu til eða kjósi að eiga sama lögheimili t.d. vegna atvinnu. Nefndin áréttar að slík heimild geti ekki falið í sér skattalegt hagræði fyrir hjón. Þá bendir nefndin á að með frumvarpinu er Þjóðskrá Íslands fengnar eftirlitsheimildir og heimild til að upplýsingaöflunar sem og heimild til að leiðrétta skráningu lögheimila. Telur nefndin að slík heimild ætti að nægja við slíkar aðstæður en þannig er Þjóðskrá Íslands falið að meta hvort með slíkri skráningu verið sé að misnota kerfið. Í þessu sambandi bendir nefndin einnig á úrskurðarvald ríkisskattstjóra um heimilisfesti í skattamálum.
    Við meðferð málsins var einnig rætt um hvort þyrfti að skilgreina nánar hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að falla frá meginreglunni um að hjón eigi sama lögheimili og hvort tvöföld lögheimilisskráning hjóna geti haft áhrif á vaxtabætur eða barnabætur. Jafnframt var bent á að skýrt þurfi að koma fram við skráningu hjóna hvoru á sitt lögheimili hvort um sé að ræða samvistarslit vegna skilnaðar að borði og sæng eða sameiginlega ákvörðun um sitt hvort lögheimilið án þess að hjúskap sé slitið. Ríkisskattstjóri þyrfti ótvíræða heimild um rafrænan aðgang að þessum tilteknu upplýsingum til að tryggja álagningu opinberra gjalda.
    Nefndin telur það ekki í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 7. september 2016 að takmarka undanþágu um tvöfalda lögheimilisskráningu hjóna og setja skilyrði fyrir henni. Nefndin bendir á að um er að ræða undantekningu frá meginreglu og almennt eru undantekningar túlkaðar þröngt. Þá komi fram í þjóðskrá hvort viðkomandi sé í hjónabandi, skilin að borði og sæng eða lögskilin. Þetta fyrirkomulag mun ekki breytast með frumvarpinu. Þannig geti ríkisskattstjóri fengið upplýsingarnar sem hann þarf með aðgangi að þjóðskrá. Nefndin telur að svo stöddu ekki tímabært að kveða á um beinan rafrænan aðgang ríkisskattstjóra að kerfum Þjóðskrár Íslands í ljósi þess að verið er að þróa nýtt þjóðskrárkerfi, m.a. vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar, en beinir því til ráðuneytisins að hafa þessar athugasemdir til hliðsjónar þegar nýtt kerfi verður komið í gagnið.
    Enn fremur var bent á að mögulega þyrfti að breyta 1. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt á þann veg að hjón sem hafa lögheimili hvort á sínum stað skuli telja fram tekjur sínar á sama hátt. Að lokum var bent á að taka þyrfti fram í frumvarpinu að skráning hjóna á sitt hvort lögheimilið taki jafnt til lögheimilis hér á landi og erlendis. Nefndin telur að frumvarp þetta kalli ekki á breytingar á 1. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt enda ekki um að ræða skilnað, slit á samvistum eða andlát maka. Þá telur nefndin ekki nauðsynlegt að taka fram að bæði sé átt við lögheimili innan lands sem og erlendis til að gæta samræmis við efni þingsályktunar Alþingis frá 7. september 2016 sem kvað m.a. á um það markmið að hjónum yrði gert kleift að eiga lögheimili hvoru á sínum staðnum, hvort heldur bæði hefðu bækistöð innan lands í mismunandi sveitarfélögum eða annað hefði bækistöð erlendis.
    Að auki komu fram ábendingar um samspil 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins við 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Í lögum um útlendinga er skilyrði um sameiginlega búsetu hjóna og að málamyndahjúskapur veiti ekki rétt til dvalarleyfis. Helsta sönnunarkrafan í þeim málum hefur verið skilyrði um sameiginlega búsetu. Nefndin áréttar að túlka skuli heimild hjóna til að skrá tvöfalt lögheimili þröngt. Nefndin telur þess vegna ljóst að með frumvarpinu hafi ekki staðið til að ákvæði 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins hefði áhrif á sönnunarmat í málum á grundvelli 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Lögheimili barna.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um tvöfalda lögheimilisskráningu barna. Fyrir liggur að dómsmálaráðuneytið er með til skoðunar búsetu barna og fyrirhugað er að leggja fram frumvarp til breytinga á ýmsum lögum. Um er að ræða ítarlega greiningarvinnu á því hvernig skráningu lögheimila barna er háttað þegar foreldrar hafa skilið að skiptum og börn búa til jafns hjá báðum foreldrum og réttaráhrif skráningarinnar. Auk þess þarf að skoða vandlega hvaða breytingar þarf að gera á lögum en ekki nægir að breyta eingöngu frumvarpi þessu. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að þetta fyrirkomulag sé til skoðunar og leggur áherslu á að ráðuneytið flýti þeirri vinnu eins og kostur er.

Dulið lögheimili.
    Við meðferð málsins komu fram ábendingar um að útlista þurfi framkvæmdina um dulið lögheimili en það geti leitt til vandkvæða ef stofnanir geti ekki séð lögheimili sem er dulið. Fyrir liggur að hafin er vinnsla við frumvarp til laga um þjóðskrá og almannaskráningu þar sem kveðið verður nánar á um útfærslu um dulið lögheimili og er það meginástæðan, ásamt tæknilegum atriðum, að gildistöku ákvæðisins er frestað. Nefndin beinir því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að við nánari útfærslu verði tekið tillit til sjónarmiða um mat á því hvaða stofnanir fái upplýsingar um dulið lögheimili og hvaða takmarkatilvik geti komið upp.

Skráning aðseturs innan lands.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um útfærslu á 1. mgr. 8. gr. frumvarps, þ.e. mat á veikindum og hvort um tímabundna eða ótímabundna ákvörðun sé um að ræða. Fram kom að eðlilegt væri að gera þá kröfu að undanþágan væri einungis veitt ef raunveruleg þörf væri á aðsetri annars staðar vegna veikindanna og að túlka bæri ákvæðið þröngt. Í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins kemur fram að með aðsetri sé átt við tímabundna búsetu í húsnæði sem uppfyllir skilyrði lögheimilis. Þá kemur fram í athugasemdum við 1. mgr. 8. gr. að um tímabundna búsetu sé að ræða. Nefndin telur því ljóst að um tímabundna skráningu sé að ræða. Þá bendir nefndin á að gert sé ráð fyrir því í a-lið 18. gr. frumvarpsins að ráðherra setji reglugerð um skráningu aðseturs. Nefndin leggur áherslu á að ráðherra setji þá reglugerð sem fyrst.

Námsmenn erlendis.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um árekstur ákvæða 9. gr. frumvarpsins og reglugerðar um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám, nr. 648/1995, þannig að um sé að ræða mismunandi tímamörk á búsetu hér á landi áður en nám hefjist erlendis. Annars vegar gerir frumvarpið kröfu um tveggja ára búsetu hér á landi en hins vegar gerir reglugerðin kröfu um fimm ára búsetu. Til að gæta samræmis beinir nefndin því þess vegna til viðkomandi ráðherra að gera breytingar á reglugerðinni á skilyrðum um lengd búsetu hér á landi vegna náms erlendis þannig að gerð verði krafa um a.m.k. tveggja ára búsetu hér á landi.
    Einnig komu fram sjónarmið um hvort skilgreina ætti nám í ákvæðinu sjálfu eða a.m.k. reglugerð og hvort ósamræmi væri á milli skilgreiningar á námi í frumvarpinu og samkvæmt framangreindri reglugerð. Nefndin telur samhljóm vera á milli skilgreiningar á námi í frumvarpinu og reglugerðar en telur hins vegar æskilegt að í reglugerð komi m.a. fram hvaða nám geti fallið þar undir.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um lengd heimildar til að hafa lögheimili á Íslandi á meðan námi erlendis stendur. Fram komu sjónarmið um að eðlilegt væri að heimildin væri til eins árs í stað fjögurra ára. Að mati nefndarinnar gerir ákvæðið námsmönnum kleift að fara erlendis í nám og um leið halda lögheimili og ávinna sér réttindi hérlendis. Nefndin tekur fram að markmiðið með takmörkun á heimildinni sé til að koma í veg fyrir bótasvik en um leið má hún ekki vera of íþyngjandi fyrir einstaklinga. Auk þess leggur nefndin áherslu á eftirlitshlutverk Þjóðskrár Íslands í þessum efnum. Telur nefndin því ekki tilefni til þess að stytta heimild til að hafa lögheimili á Íslandi á meðan á námi erlendis stendur.

Aðsetur erlendis.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um hvort heimild í 11. gr. frumvarpsins um aðsetur erlendis vegna veikinda væri of rúm. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að heimildin er bundin við a.m.k. tveggja ára búsetu en ráðherra er heimilt að setja önnur skilyrði. Nefndin telur að gæta þurfi samræmis um lengd búsetu hér á landi vegna aðseturs erlendis vegna veikinda við lengd búsetu áður en nám hefst erlendis. Nefndin leggur því til að ekki verði gerð breyting á kröfu um a.m.k. tveggja ára búsetu hér á landi. Að öðru leyti telur nefndin æskilegt að ráðherra kveði nánar á um skilyrði um skráningu aðsetur erlendis í reglugerð.

Staðfesting á aðsetri.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um ósamræmi á því hversu títt þarf að staðfesta skráningu aðseturs eftir því hvort um er að ræða aðsetur innan lands, aðsetur vegna náms erlendis eða aðsetur erlendis vegna veikinda, sbr. 8., 9. og 11. gr. frumvarpsins. Lagt var til að í öllum tilvikum ætti að krefjast endurnýjunar á skráningum árlega. Nefndin telur að mismunandi reglur þurfi að gilda um staðfestingu á aðsetri í þessum tilvikum enda um ólíkar aðstæður að ræða og þá megi ekki íþyngja einstaklingum að óþörfu. Nefndin telur því ekki tilefni til að samræma skráningar í þessum tilvikum.

Tilkynning um skráningu lögheimilis og aðseturs.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um 13. gr. frumvarpsins. Fram komu ábendingar um að í 1. mgr. ákvæðisins virðist hvorki vera gert ráð fyrir því að sanna þurfi með rafrænum skilríkjum hver stendur að baki tilkynningum né að unnt sé að sanna á sér deili með rafrænum skilríkjum. Nefndin bendir á að í dag er framkvæmdin sú að einstaklingar sem tilkynna um flutning á vefnum sanna á sér deili með rafrænum skilríkjum eða íslykli sem er útgefin af Þjóðskrá Íslands. Nefndin telur því ekki tilefni til þess að kveða þurfi sérstaklega á um það að sanna skuli á sér deili með rafrænum skilríkjum.
    Einnig var fjallað um tilkynningarskyldu um flutning lögheimilis ef einstaklingur dvelst erlendis í sex mánuði eða lengur skv. 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Fram komu ábendingar um að þessi skylda virðist vera óháð því hvort skilyrði viðkomandi ríkis til skráningar á lögheimili séu uppfyllt eða hvort farið sé til margra ríkja í sömu ferð. Þannig þurfi þeir sem ætla að ferðast utan Íslands í sex mánuði eða lengur að fella niður lögheimili sitt þótt þeir eigi hér á landi dvalarstað. Nefndin tekur fram að ákvæðið á einungis við um þá einstaklinga sem hyggjast hafa fasta búsetu erlendis á ákveðnum stað en nær ekki til þeirra einstaklinga sem ferðast til margra ríkja í sömu ferð. Nefndin telur þó nauðsynlegt að kveðið verði nánar um um þetta atriði í reglugerð um skráningu lögheimilis, sbr. c-lið 18. gr. frumvarpsins, og beinir því til ráðherra að setja reglugerð þar um eins fljótt og verða má.

Flutningur til Íslands og dvöl.
    Við meðferð málsins var rætt um kröfur 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins um að tilkynna skuli flutning til Íslands í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands. Spurt var á hvort sú krafa gengi upp, t.d. þegar einstaklingur sem kemur til landsins með Norrænu til að setjast að fyrir austan þarf að mæta í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík til að sanna á sér deili. Með frumvarpinu eru felldar niður heimildir til að skrá lögheimili hjá sveitarstjórnum og lögreglu. Er hér um að ræða nokkra breytingu til samræmis við þá framkvæmd sem verið hefur til nokkurs tíma, en það þykir horfa til einföldunar og hagræðingar að hafa alla skráningu til landsins á einni hendi og á einum stað. Nefndinni var bent á að flestir sem flytja til landsins koma í gegnum Keflavíkurflugvöll og koma við í Reykjavík á leið sinni út á land og Þjóðskrá Íslands hefur einnig starfsstöð á Akureyri. Í greinargerð með frumvarpi þessu kemur einnig fram að í fámennu samfélagi sé óþarft og til kostnaðarauka að hafa skráningar á fleiri stöðum auk þess sem það þurfi sérhæfða þekkingu og þjálfun til að lesa úr og meta skilríki, hvort sem er erlend eða innlend, t.d. er varðar fölsun eða mansal. Nefndin telur mikilvægt að horfa til þess hvað sé til hagræðingar fyrir einstaklinga og að slík þjónusta haldi áfram að vera aðgengileg um land allt. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum um möguleika á fölsun og mansali leggur nefndin þess vegna til að heimild verði fyrir einstaklinga til að skrá lögheimili sitt hjá lögreglu en ekki hjá sveitarfélagi.

Eftirlit, upplýsingaöflun og upplýsingagjöf.
    Við meðferð málsins var fjallað um heimild Þjóðskrár Íslands til þess að óska eftir tilteknum og afmörkuðum upplýsingum frá ótilgreindum stjórnvöldum og lögaðilum án þess að lögð sé að sama skapi ótvíræð upplýsingaskylda á þessa aðila og þá m.t.t. þagnarskyldu. Fram komu ábendingar um það að binda heimildina við lögaðila geti leitt til þess að einstaklingur í eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi falli utan gildissviðs ákvæðisins og geti af þeim sökum vikist undan upplýsingaskyldunni. Nefndin leggur því til að nota víðtækara hugtak þannig að kveðið verði á um upplýsingaskyldan nái til fyrirtækja í einkarekstri í stað lögaðila.

Leiðrétting og málsmeðferð.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að fella þyrfti brott lokamálslið 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins enda ekki nauðsyn að kveða á um slíkt þar sem Þjóðskrá Íslands beri að fara eftir stjórnsýslulögum í þessum efnum. Nefndin leggur því til að fella á brott málsliðinn vegna þessa og til þess að koma í veg fyrir þann misskilning að Þjóðskrá Íslands geti ekki tekið ákvörðun ef andmæli berast.
    Til viðbótar framangreindum breytingartillögum leggur nefndin til leiðréttingu á tilvísun í 6. gr. í 2. mgr. 16. gr. og þess í stað verði vísað til 5. gr.

Refsiákvæði.
    Í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um að brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Mikilvægt er að refsiheimildir laga séu skýrar og afdráttarlausar og uppfylli ákvæði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um skýrleika refsiákvæða. Í því felst að lýsing á hinni refsiverðu háttsemi verður að koma skýrt fram í lagatexta og hafa áþreifanleg viðmið. Í frumvarpinu er að finna ýmiss konar ákvæði, til að mynda um skyldu fyrirsvarsmanna að hlutast til um skráningu lögheimilis; um skyldu til að skrá aðsetur í þjóðskrá; um skyldu einstaklinga að skrá og viðhalda réttri skráningu; um skyldu Þjóðskrár Íslands að sannreyna sjálfræði einstaklinga í skrá yfir lögræðissvipta menn; um skyldu Þjóðskrár Íslands að tilkynna einstaklingi um fyrirhugaða breytingu á skráningu lögheimilis; um eftirlit Þjóðskrár Íslands með framkvæmd laganna og margt fleira. Með 17. gr. eru brot við þessum ákvæðum sem og öðrum öll gerð refsiverð. Þá er í frumvarpinu reglugerðarheimild til setningar reglugerðar um framkvæmd laganna, þ.m.t. framkvæmd eftirlits með skráningu lögheimilis einstaklinga. Brot á ákvæðum þeirrar reglugerðar verða einnig refsiverð verði ákvæðið óbreytt sett í lög en ekki liggur fyrir hvernig ákvæði hennar verða.
    Með vísan til 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar leggur nefndin til að 17. gr. frumvarpsins verði afmörkuð og í ákvæðinu sé vísað til þeirra ákvæða laganna sem því er ætlað að ná til og reglugerða settra samkvæmt þeim.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Lokamálsliður 2. mgr. 4. gr. orðist svo: Skal þá miðað við það sveitarfélag þar sem hann hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl.
     2.      Á eftir orðunum „í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands“ í 2. mgr. 14. gr. komi: eða á skrifstofu viðkomandi lögregluembættis.
     3.      Við 15. gr.
                  a.      Í stað orðsins „lögaðilum“ tvívegis í 2. mgr. komi: fyrirtækjum í einkarekstri.
                  b.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórnvöldum og fyrirtæki í einkarekstri er rétt og skylt að verða við beiðni Þjóðskrár Íslands.
     4.      Við 16. gr.
                  a.      Í stað tilvísunarinnar „6. gr.“ í 2. mgr. komi: 5. gr.
                  b.      Síðari málsliður 3. mgr. falli brott.
     5.      17. gr. orðist svo:
                 Brot gegn 12. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
                 Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn 2. mgr. 15. gr. laga þessara og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.

    Andrés Ingi Jónsson, Jón Steindór Valdimarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara en hún telur að ráðuneytið eigi að leggja fram tillögur varðandi skráningu aðseturs í atvinnuhúsnæðum sem fyrst á næsta þingi.

Alþingi, 7. júní 2018.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir,
með fyrirvara.
Guðmundur Andri Thorsson. Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Teitur Björn Einarsson. Willum Þór Þórsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.