Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1162  —  179. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Pétur Halldórsson og Salome Hallfreðsdóttur frá Landvernd, Guðrúnu Höllu Finnsdóttur og Ragnar Guðmundsson frá Norðuráli, Guðna A. Jóhannesson og Rakel Jensdóttur frá Orkustofnun, Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Baldur Dýrfjörð og Pál Erland frá Samorku, Bryndísi Skúladóttur fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur og Jakob Gunnarsson frá Skipulagsstofnun, Agnar Bragason frá Umhverfisstofnun og Eymund Sigurðsson rafmagnsverkfræðing.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Eyjafjarðarsveit, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Fljótsdalshéraði, Grímsnes- og Grafningshreppi, Grýtubakkahreppi, Guðrúnu D. Harðardóttur, Hörgársveit, Herði Einarssyni, Hvalfjarðarsveit, Ísafjarðarbæ, Landgræðslu ríkisins, Landsneti hf., Landsvirkjun, Landvernd, Lotu (Eymundi Sigurðssyni), Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Norðuráli ehf., Orku náttúrunnar ehf., Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum náttúrustofa, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Skaftárhreppi, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun.
    Tillagan, sem lögð er fram í fyrsta sinn á Alþingi í samræmi við 39. gr. raforkulaga, byggist að hluta til á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, nr. 11/144, en hefur þó víðtækara gildissvið og nær yfir almennar áherslur um uppbyggingu flutningskerfis raforku og hvernig standa skuli að henni til lengri tíma. Í 15 töluliðum er kveðið á um hvað skuli leggja til grundvallar við uppbyggingu flutningskerfis raforku hér á landi. Auk þess er í tillögunni gert ráð fyrir að gerðar verði óháðar og sjálfstæðar rannsóknir á lausnum og óháð greining á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð með tilliti til ákveðinna þátta. Mælt er fyrir um að tillagan verði tekin til endurskoðunar á vorþingi 2019 en fram til þess tíma er endurskoðun lýkur skuli gilda viðmið og meginreglur þingsályktunar nr. 11/144.
    Þegar tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína var til meðferðar á Alþingi (321. mál á 144. löggjafarþingi) kom fram vilji til þess að tryggja aðkomu Alþingis að mótun kerfisáætlunar sem þá var jafnframt til umræðu. Þar sem ekki þótti samræmast tilskipun ESB ( 2009/72/EB, svonefndri þriðju raforkutilskipun) að Alþingi samþykkti kerfisáætlun sem slíka var lögfest breyting á 39. gr. raforkulaga um að ráðherra leggi á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með þessu var ætlunin að lýðræðislega kjörnir fulltrúar hefðu aðkomu að svo mikilvægri áætlun á landsvísu og getur þingið þannig tilgreint ákveðnar meginreglur og viðmið sem beri að taka mið af við gerð kerfisáætlunar.
    Ljóst er að uppbygging og þróun á flutningskerfi raforku felur í sér umfangsmikið kerfi innviða með langan líftíma er varðar hagsmuni fólks og fyrirtækja um allt land. Við meðferð málsins í nefndinni var einkum fjallað um eftirfarandi atriði:
    Í tillögunni kemur fram að flutningskerfið skuli treysta betur, það skuli tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi á raforku um allt land. Rætt var í nefndinni um þau svæði sem helst þyrfti að leggja áherslu á. Bent var á að samkvæmt gildandi regluverki hefði til að mynda ekki reynst unnt að tryggja flutning á raforku til Eyjafjarðar. Auk þess hefur verið bent á að Vestfirðir séu það svæði sem búið hefur við hvað minnst raforkuöryggi. Nefndin leggur áherslu á að þau landsvæði verði í forgangi þar sem þörfin er brýnust, svo sem Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes.
    Bent var á að flutningur raforku milli landsvæða væri háður takmörkunum og var lagt til að flutningsgeta milli landsvæða yrði miðuð við ákveðið lágmarkshlutfall af vinnslugetu virkjana sem tengjast flutningskerfinu. Nefndin leggur til að hugað verði nánar að þessu við fyrirhugaða endurskoðun.
    Í 10. tölul. A-liðar tillögunnar er kveðið á um að við val á línuleið skuli forðast að raska, nema brýna nauðsyn beri til, friðlýstum svæðum og svæðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laga um náttúruvernd. Nefndin telur að gera verði greinarmun á mismunandi svæðum sem njóta verndar sem er þegar kveðið á um í lögum. Um er að ræða friðlýst svæði samkvæmt lögum um náttúruvernd eða samkvæmt sérlögum. Þá má nefna svæði sem hafa hlotið skráningu á náttúruminjaskrá án þess að hafa verið friðlýst og auk þess svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Nefndin leggur til breytingartillögu við 10. tölul.
    Í 7. tölul. er m.a. kveðið á um að styrking og uppbygging flutningskerfisins skuli miða að því að auka afhendingaröryggi raforku á landsvísu með sérstakri áherslu á þau landsvæði sem búa við skert orkuöryggi. Fram kom við umfjöllun um málið að afhendingaröryggi væri mjög misjafnt eftir landshlutum, mest á höfuðborgarsvæðinu en minnst á landsbyggðinni sem tengist meginflutningskerfinu um byggðalínuhlutann. Ekki eru hins vegar skilgreind í tillögunni ákveðin markmið afhendingaröryggis samkvæmt þessum tölulið og leggur nefndin því til breytingartillögu í því skyni að gera viðmið skýrari. Annars vegar er lagt til að allir afhendingarstaðir verði árið 2030 komnir með tengingu sem tryggi að verði rof á stakri einingu valdi það ekki takmörkunum á afhendingu og hins vegar að árið 2040 verði allir afhendingarstaðir í svæðisbundnum hlutum komnir með tengingu sem tryggi hið sama. Nefndin bendir á að með einingu er ekki átt við spennistöð eða tein.
    Samkvæmt tillögunni eru fyrirhugaðar tilteknar rannsóknir og greiningar, líkt og áður hefur verið vikið að, og kveðið á um að niðurstöður þeirra verði lagðar fram á Alþingi eigi síðar en 1. febrúar 2019. Nefndin telur ljóst að það sé of knappur tími til jafnumfangsmikilla rannsókna og því rétt að seinka þessu þannig að miðað verði við 1. október 2019. Einnig beinir nefndin því til ráðherra að í rannsóknum eða greiningum verði fundin leið til að meta líftímakostnað jafnt sem stofnkostnað. Samhliða þessu er gerð tillaga um dagsetningu í C-lið um hvenær tillaga til þingsályktunar verði tekin til endurskoðunar. Raunhæft virðist að miða við að það verði í fyrsta lagi á haustþingi 2019.
    Í tillögugrein má finna hugtök sem bent var á að sum hver mætti skilgreina nánar. Sem dæmi má nefna hugtakið lykilsvæði, en í því samhengi bendir nefndin á bls. 52 í skýrslu ráðherra um raforkumál (386. mál), þar sem er að finna kort sem veitir leiðbeiningar um hvernig skuli skilja það. Að öðru leyti beinir nefndin því til ráðherra að í þeirri endurskoðun sem er fyrirhuguð verði leitast við að hafa orðalag eins nákvæmt og skýrt og unnt er.
    Nefndin telur mikilvægt að huga betur að öryggi flutningskerfis raforku þegar að náttúruhamförum kemur og leggur til að bætt verði við nýjum tölulið í A-lið sem taki á því.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við A-lið:
                  a.      Við 3. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skulu Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes vera sett í forgang.
                  b.      Við 7. tölul. bætist þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Allir afhendingarstaðir í meginflutningskerfinu skulu árið 2030 vera komnir með tengingu sem tryggi að rof á stakri einingu valdi ekki takmörkunum á afhendingu eða afhendingarrofi. Allir afhendingarstaðir í svæðisbundnum hlutum flutningskerfisins skulu árið 2040 vera komnir með tengingu sem tryggi að rof á stakri einingu valdi ekki takmörkunum á afhendingu eða afhendingarrofi. Fram að þeim tíma skal leitast við að tryggja afhendingaröryggi fyrir svæðisbundin flutningskerfi með afli innan svæðis.
                  c.      10. tölul. orðist svo: Við val á línuleið fyrir raflínur skal gæta að verndarákvæðum friðlýstra svæða samkvæmt lögum um náttúruvernd, svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum og réttaráhrifum skráningar á náttúruminjaskrá skv. 37. gr. laga um náttúruvernd. Forðast ber einnig að raska, nema brýna nauðsyn beri til, svæðum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd.
                  d.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Tryggja skal raforkudreifingu og raforkuöryggi með tilliti til mögulegra náttúruhamfara.
     2.      Í stað orðanna ,,1. febrúar 2019“ í 2. mgr. B-liðar komi: 1. október 2019.
     3.      Í stað orðanna ,,á vorþingi 2019“ í 1. mgr. C-liðar komi: á haustþingi 2019.

Alþingi, 6. júní 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, frsm. Inga Sæland.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Sigurður Páll Jónsson. Sara Elísa Þórðardóttir.