Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1171  —  556. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks


     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?

Almennt.
    Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 20. september 2016. Í 9. gr. samningsins er fjallað um aðgengi en þar er m.a. kveðið á um það að aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Í greininni eru síðan talin upp fjölmörg atriði sem snerta aðgengi í sínum víðasta skilningi. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem felast meðal annars í því að staðreyna og ryðja úr vegi hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:
     a )      bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þ.m.t. skólar, íbúðarhúsnæði, heilbrigðisþjónusta og vinnustaðir,
     b )      upplýsinga- og samskiptaþjónustu og annarrar þjónustu, þ.m.t. rafræn þjónusta og neyðarþjónusta.
    Samningsaðilar skulu og gera viðeigandi ráðstafanir:
     a )      til þess að þróa, útbreiða og fylgjast með því að lágmarkskröfur og leiðbeiningar um aðgengi að aðstöðu og þjónustu, sem almenningi er opin eða látin í té, séu uppfylltar,
     b )      til þess að tryggja að einkafyrirtæki, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu, sem er almenningi opin eða látin í té, taki mið af aðgengi fyrir fatlað fólk frá öllum hliðum,
     c )      til þess að bjóða fram fræðslu fyrir hagsmunaaðila um aðgengismál sem varða fatlað fólk,
     d )      til þess að setja upp í byggingum og annarri aðstöðu sem er almenningi opin skilti með blindraletri og í þeirri mynd að fatlaðir eigi auðvelt með að lesa og skilja það sem á þeim stendur,
     e )      til þess að láta í té ýmiss konar beina aðstoð og þjónustu milliliða, þ.m.t. fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem almenningi er opin,
     f )      til þess að stuðla að því að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum,
     g )      til þess að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, m.a. Netinu,
     h )      til þess að stuðla að hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi á frumstigi til þess að slík tækni og kerfi verði aðgengileg á sem lægstu verði.
    Í nýjum lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem samþykkt voru nú í apríl er sterk skírskotun til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í markmiðsgrein laganna er kveðið á um það að fatlað fólk skuli eiga kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Jafnframt er kveðið á um að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa skuli fötluðu fólki skilyrði til að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Ein meginforsenda þess að þetta markmið náist er að fötluðu fólki sé tryggt aðgengi að og í manngerðu umhverfi og geti nýtt sér aðgang að upplýsingasamfélaginu.
    Í maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021. Þar er einnig byggt á þeirri leiðsögn sem samningur Sameinuðu þjóðanna veitir og þeirra laga sem áður er getið. Í stefnunni og framkvæmdaáætluninni eru skilgreind sjö undirmarkmið þar sem áhersla er lögð á ákveðin grunngildi, svo sem eitt samfélag fyrir alla, jöfn tækifæri og lífskjör, algilda hönnun sem gagnast öllum og því að fatlað fólk skuli vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Skilyrði verði sköpuð til að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi með aðgengi til jafns við aðra, hvort sem um er að ræða að manngerðu umhverfi, samgöngum, þjónustu, upplýsingum eða möguleikum til tjáskipta. Síðar í þessu svari verður gerð nánar grein fyrir efnisatriðum áætlunarinnar.

Aðgengi að mannvirkjum.
    Þegar ákvörðun lögaðila liggur fyrir um nýbyggingar sem kostaðar eru úr ríkissjóði er óskað eftir samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins. Ef um er að ræða ákvörðun um byggingu fasteignar sem heyrir undir málefnasvið ráðuneytis er haft samband við Framkvæmdasýslu ríkisins en Framkvæmdasýslan fer með stjórn ákveðins hluta verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins og veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf um byggingartæknileg málefni og undirbúning og eftirlit framkvæmda.
    Ef um breytingar á húsnæði sem heyrir undir velferðarráðuneytið er að ræða og húsnæðið er í eigu ríkissjóðs þá hafa Ríkiseignir séð um undirbúning, framkvæmd og eftirlit með minni háttar breytingum en Framkvæmdasýsla ríkisins með umfangsmeiri breytingum. Þó er vert að taka fram að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri sjá um breytingar og viðhald sinna bygginga.
    Ráðherra áréttar mikilvægi þess að þær stofnanir sem heyra til hans málefnasviðs starfi í samræmi við lög um mannvirki, nr. 160/2010, en skv. 1. gr. er markmið laganna m.a. að tryggja aðgengi fyrir alla. Ráðherra vekur einnig athygli á ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar þar sem er kveðið á um aðgengi með skýrum hætti.
Aðgangur að opinberum vefjum.
    Stjórnarráðið er með einn sameiginlegan vef, þ.e. stjornarradid.is. Á þeim vef er fylgt aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í maí árið 2012. Markmiðið með stefnunni er að tryggja sem bestan aðgang að efni, m.a. fyrir blinda, sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki við lestur og notkun vefja almennt.

          Nánari upplýsingar um stefnuna eru á www.stjornarradid.is/um-vefinn/adgengisstefna/
    Í stefnunni er fylgt staðli alþjóðlegu samtakanna W3C (WCAG 2.0 AA, sjá www.w3.org/TR/WCAG/).


Annað:
          Vefur Stjórnarráðsins er búinn vefþulu, þ.e. að hver sem opnar vefsíðu á þeim vef getur smellt á hnappinn ,,hlusta“ og hlustað á vefþuluna lesa textann á síðunni.
          Velferðarráðuneytið hefur látið þýða nokkrar vefsíður á táknmál og birt á Stjórnarráðsvefnum( www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=398011e4-c06a-11e6-9409-005056bc4d74). Í byrjun árs 2018 var leitað til Félags heyrnarlausra um samstarf um frekari þýðingar á efni Stjórnarráðsvefsins á táknmál, það ber vonandi einhvern ávöxt með haustinu.
          Í könnun á opinberum vefjum haustið 2017 þar sem m.a. aðgangur var metinn út frá þeim atriðum sem fram koma í fyrrnefndri stefnu var vefur Stjórnarráðsins, stjornarradid.is, með fullt hús stiga; 100% í lagi og var um leið valinn besti opinberi vefurinn 2018.

     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?
    Í fyrrgreindri þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 er sérstaklega fjallað um aðgengi. Í kafla A er skilgreint markmið um að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra. Skilgreind eru sjö verkefni sem ætlað er að stuðla að því að markmiðið náist. Verkefnin hafa breiða skírskotun þar sem gert er ráð fyrir fjölda samstarfsaðila um framkvæmd. Vinna við þessi verkefni er þegar komin af stað og fjármögnun þeirra verkefna sem velferðarráðuneytið ber ábyrgð á tryggð. Jafnframt skal vakin athygli á því að í fyrri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem hófst árið 2012 var árangur áætlunarinnar metinn og má sjá frekari upplýsingar um það á vefsíðu ráðuneytisins. Sama mun verða gert með gildandi áætlun. Þau verkefni sem nú er unnið að samkvæmt áætluninni og snúa beint að aðgengi eru eftirfarandi:

A.1. Algild hönnun verði leiðarljós við alla skipulagningu manngerðs umhverfis.
Markmið: Að auka þekkingu á samfélagslegu gildi algildrar hönnunar.
Lýsing: Unnið verði fræðsluefni um samfélagslegt gildi algildrar hönnunar. Meðal annars verði byggt á lögum og stefnu stjórnvalda um fjölbreytta íbúabyggð þar sem fólki er gert kleift að búa á eigin heimili. Fræðsluefni, fræðslan sjálf og framkvæmd hennar verði samstarfsverkefni faghópa á vegum velferðar- og skipulagsyfirvalda. Fræðslan nái til ábyrgðaraðila á sviði skipulags- og byggingarmála hjá ríki og sveitarfélögum, stjórnmálamanna á sveitarstjórnarstigi, alþingismanna sem og ráðuneyta og stofnana ríkis og sveitarfélaga.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2017–2018.
Kostnaður: 2 millj. kr. vegna fræðsluefnis.
Mælanlegt markmið: Fjöldi kynninga og umfang fræðsluefnis.

A.2. Algild hönnun verði innleidd við breytingar á þegar byggðu húsnæði.
Markmið: Að bæta aðgengi að húsnæði, einkum í þegar byggðum hverfum.
Lýsing: Gefnar verði út leiðbeiningar um heimild til þess að víkja frá ákvæðum byggingarreglugerðar um algilda hönnun í þegar byggðu húsnæði. Jafnframt fari fram miðlæg skráning á þessum undanþágum, bæði varðandi breytingar á húsnæði sem og breytta notkun þess.

Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið, Mannvirkjastofnun, byggingarfulltrúar sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: Frá og með 2017 (viðvarandi).
Kostnaður: Kostnaðarmat hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Mælanlegt markmið: Tímamörk þegar leiðbeiningar hafa verið gefnar út og miðlæg skráning hafin, eigi síðar en 1. janúar 2018.

A.3. Áætlanir um úrbætur á aðgengi og aðgengisfulltrúar.
Markmið: Að aðgengi í víðum skilningi hindri ekki samfélagsþátttöku fatlaðs fólks.
Lýsing: Hvatt verði til þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa. Hlutverk þeirra verði að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi viðkomandi aðila í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutist aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið, en færist yfir til miðstöðvar innan stjórnsýslunnar skv. 1. mgr. 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2017– 2021.
Kostnaður: Kostnaður metinn hjá innanríkisráðuneytinu.
Mælanlegt markmið: Hlutfallslegur fjöldi aðgengisfulltrúa hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum ásamt fjölda aðgerðaáætlana.

A.4. Aðgengilegar upplýsingar um réttindi, þjónustu og annað efni.
Markmið: Að fatlað fólk geti nálgast upplýsingar um rétt sinn og þjónustu.
Lýsing: Vefsíður, fræðsluefni og upplýsingar, svo sem um réttindi og þjónustu, séu aðgengilegar fötluðu fólki á auðskildu máli og byggist á aðferðafræði algildrar hönnunar. Táknmálstúlkun verði aðgengileg sem og punktaletur, textun og upplýsingar, bæði ritaðar og rafrænar, á auðskildu máli. Á vefjum sveitarfélaga verði upplýsingar um umferli og hjólastólaaðgengi. Opinberir aðilar geri tímasettar áætlanir um úrbætur á aðgengi á framangreindum sviðum sem séu endurmetnar annað hvert ár.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, skipulagsyfirvöld, Embætti landlæknis, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og samtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Viðvarandi.
Kostnaður: 3 millj. kr. á ári.
Mælanlegt markmið: Hlutfall fatlaðs fólks sem telur sig geta nálgast upplýsingar um réttindi og þjónustu.

A.5. Starfsstöð fyrir auðlesinn texta.
Markmið: Að auka framboð auðlesins texta, m.a. fyrir fólk með þroskahömlun og aðra sem geta nýtt sér hann.
Lýsing: Í því skyni að greiða fyrir aðgengi fólks með þroskahömlun að upplýsingum og þar með tækifærum til virkrar þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra verði komið á laggirnar starfsstöð þar sem veitt verði ráðgjöf, upplýsingar og kennsla varðandi auðlesinn texta. Þar verði m.a. orðabanki sem verði aðgengilegur á netinu til notkunar fyrir alla. Starfsstöðin gegni sambærilegu hlutverki gagnvart fólki sem þarf auðlesinn texta til að afla sér upplýsinga og Samskiptamiðstöð heyrnarlausa og heyrnarskertra hefur gagnvart döff-fólki og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gagnvart fólki með sjónskerðingar.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Háskóli Íslands, menntavísindasvið, Átak, félag fólks með þroskahömlun, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.
Tímabil: 2018 og svo viðvarandi.
Kostnaður: 3 millj. kr.
Mælanlegt markmið: Starfsstöð fyrir auðlesinn texta hefji starfsemi.

A.6. Auknir möguleikar fatlaðs fólks til að nýta almenningssamgöngur.
Markmið: Að leið fatlaðs fólks verði greiðari á milli staða dagsdaglega.
Lýsing: Aðgengi að biðskýlum og almenningsvögnum verði bætt. Á biðstöðvum sjáist skýrt hvenær næsta vagns er von. Í vögnum verði afmörkuð svæði fyrir hjólastóla. Fatlað fólk sem metið er í þörf fyrir akstursþjónustu fái kort sem gildir í almenningsvagna samhliða akstursþjónustunni. Ungir notendur akstursþjónustu njóti sömu afsláttarkjara og jafnaldrar þeirra. Áætlunarleiðir milli landshluta verði aðgengilegar fötluðu fólki með sama hætti og almenningssamgöngur innan sveitarfélaga.
Ábyrgð: Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra.
Dæmi um samstarfsaðila: Velferðarráðuneytið og Strætó bs.
Tímabil: 2017–2021.
Kostnaður: Kostnaðarmat hjá sveitarfélögum.
Mælanlegt markmið: Hlutfall almenningsvagna með hjólastólaaðgengi.

A.7. Tölulegar upplýsingar um aðgengiskröfur.
Markmið: Að alltaf sé hugað að aðgengi fyrir alla við skipulagningu nýs húsnæðis og íbúðabyggða.
Lýsing: Unnin verði skýrsla með upplýsingum um áhrif aðgengiskrafna við skipulagningu íbúðahverfa þar sem áhersla er lögð á þéttingu byggðar. Teknar verði út aðgengiskröfur bæði í skipulagsskilmálum og lágmarkskröfum samkvæmt byggingarreglugerð. Skýrslan verði liður í framkvæmd landsskipulagsstefnu og sérstaklega tengd starfi aðgerðahóps sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála til að greiða fyrir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða.
Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Dæmi um samstarfsaðila: Mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun, Þjóðskrá Íslands, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2017.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælanlegt markmið: Tímamörk þegar skýrsla hefur verið lögð fram, eigi síðar en 1. janúar 2018.
Af því sem að framan er lýst stendur vilji ráðherra til þess að aðgengi að ráðuneytinu, stofnunum þess og þeim stöðum sem almenningur sækir sé í samræmi við almenn viðmið í byggingarreglugerð.

Staða mála á málefnasviði ráðherra.
    Kallað var eftir upplýsingum um stöðu aðgengismála hjá þeim stofnunum sem heyra til málefnasviðs ráðherra. Niðurstaða þeirrar upplýsingaöflunar er að þau mál séu með ýmsum hætti.
    Eftirfarandi byggist á svörum stofnana á málefnasviði ráðherra.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (GGR).
    Á stofnuninni eru starfandi sérfræðingar á þessu sviði sem fara reglulega yfir aðgengismál húsnæðisins og senda stjórnendum greinargerð um hvar úrbóta sé þörf. Ekki er í gildi sérstök stefna um aðgengi fatlaðs fólks. Stjórnendur sjá til þess að nauðsynlegum umbótum sé komið í framkvæmd, og ef við á, í samstarfi við Ríkiseignir. Á vefsíðunni er unnt að stækka letrið og nauðsynlegar upplýsingar um þjónustu stofnunarinnar hafa verið þýddar á fimm erlend tungumál.
    Þeim sem nýta þjónustu stofnunarinnar er vísað þangað og á tilvísunareyðublaðinu er sérstaklega spurt um hvort annað foreldra eða bæði séu erlend, um upprunaland og hvort þörf sé á túlki. Allir sem þörf hafa fá túlkaþjónustu, auk þess sem niðurstöður athugana eru þýddar á viðkomandi tungumál.
    Á tilvísunareyðublaðinu er einnig spurt hvort þörf sé á sérstakri aðstoð þannig að hægt sé að mæta sérþörfum hvers notenda.

Jafnréttisstofa.
    Í áætlun Jafnréttisstofu um öryggi og heilbrigði er gert ráð fyrir reglulegri úttekt á húsnæði stofnunarinnar með tilliti til aðgengis fatlaðra. Jafnréttisstofa tekur í notkun nú um mánaðamótin (maí/júní) nýjan vef sem hannaður er af fyrirtækinu Stefnu. Stefna notar sérstakan aðgengisgátlista til að auðvelda þeim sem reiða sig á skjálesara eða annan hugbúnað að skoða vefinn. Þar með er leitast við að fullnægja kröfum um aðgang.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu (Miðstöðin).
     Miðstöðin leggur mikla áherslu á aðgengismál bæði hvað varðar aðgengi að manngerðu umhverfi og aðgang að upplýsingum og gögnum. Ekki er í gildi sérstök stefna um aðgengi fatlaðs fólks. Miðstöðin reynir að vera til fyrirmyndar þegar kemur að aðgengi að manngerðu umhverfi og er gott aðgengi að henni. Hún veitir einnig notendum sínum og þeim sem þurfa ráðgjöf í aðgengismálum. Vefsíða Miðstöðvarinnar hefur hlotið vottun um að vefurinn standist kröfur um aðgang fyrir fatlaða. Nokkur ár eru þó liðin frá vottuninni og á dagskrá að uppfæra vefinn meðal annars til að tryggja aðgang í hæsta gæðaflokki. Eitt af verkefnum Miðstöðvarinnar er að gera námsefni fyrir blinda og sjónskerta aðgengilegt og tryggja þannig aðgang þess hóps að upplýsingum og gögnum.

Vinnumálastofnun (VMST).
    Aðgengi að manngerðu umhverfi hjá Vinnumálastofnun er í samræmi við kröfur laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59 frá 1992. Vinnumálastofnun fer með atvinnumál fatlaðs fólks og því þarf það í ríkum mæli að sækja þjónustu þangað og einnig starfar hjá stofnuninni fólk með fötlun. Stofnunin leggur því áherslu á að aðgengismál séu í góðu lagi.
Staða þessara mála er í megindráttum eftirfarandi:
          Bílastæði fyrir fatlaða eru stutt frá inngangi stofnunarinnar.
          Útidyrahurð er með skynjara og opnast sjálfkrafa.
          Dyraop eru nægjanlega stór fyrir hjólastóla.
          Salerni fyrir fatlaða eru á báðum hæðum stofnunarinnar.
    Aðgangur að upplýsingum og gögnum. Upplýsingatækni- og rannsóknarsvið nálgast þessa spurningu einkum út frá aðgangi að rafrænum skráningar- og upplýsingakerfum. Vefir Vinnumálastofnunar eru fjölmargir en vefsíða stofnunarinnar er aðal vefurinn og henni tengjast aðrir vefir á einn eða annan hátt. Vefsíðan er í sífelldri þróun og unnið að endurbótum alla mánuði ársins.
    Vefúttektarfyrirtækið SJÁ ehf. hefur nokkrum sinnum gert úttektir á vefjum Vinnumálastofnunar, nú síðast í febrúar 2018 fyrir Mínar síður atvinnuleitenda. SJÁ vann fyrir VMST að undirbúningi fyrir könnun innanríkisráðuneytisins á opinberum vefjum árið 2015 og hefur verið unnið eftir leiðbeiningunum sem þar komu fram og má nefna örfá atriði sem hafa verið bætt í ljósi þeirrar úttektar og snertir ofangreint erindi.
          Skerpa milli leturs og bakgrunns var í einhverjum tilfellum ekki nægjanleg samkvæmt stöðlum (4,5:1). Til dæmis átti það við um hvítt letur á appelsínugulum bakgrunni og eins voru textatenglar oft ógreinilegir (dæmi: stuttir tenglar ).
          Tab virkni (það að ferðast um vefinn með tab-lykli á lyklaborði) virkar mjög vel nú og bendilinn sem sýnir hvar notandinn er staddur er einnig nokkuð skýr. Blátt á svörtu sést ekki mjög vel (leiðakerfi) en sést mjög vel á ljósari bakgrunni.
    Vinnumálastofnun hefur lagt mikla áherslu á aðgang fatlaðra að allri sinni þjónustu og vefurinn þar ekki undanþeginn. Lögð er áhersla á að hann sé aðgengilegur fyrir alla sem hann vilja skoða eða nýta. Í því skyni var fjárfest í forritinu Siteimprove sem notað er á vefi stofnunarinnar í þeim tilgangi að fylgjast með og bæta þá. Web Governance Suite samanstendur af Quality Assurance, Accessibility, Policy, SEO, Response og Analytics. Þetta samansafn verkfæra veitir víðtæka yfirsýn yfir vefsíðuna og auðveldar vefstjórn til muna. Vinnumálastofnun hefur nýtt þetta verkfæri frá árinu 2016 og miklar endurbætur hafa verið unnar á vefnum á þeim tíma.
    Það sem þessi heildarlausn Siteimprove hjálpar einkum til með og snertir ofangreint erindi er eftirfarandi: Tryggir aðgang á netinu: Aðgangur á netinu snýst um að gefa öllum notendum, óháð fötlun, möguleika á því að nálgast og nota vefsíðuna. Einn af hverjum fimm notendum netsins á við einhvers konar erfiðleika að stríða þegar kemur að því að nota netið. Með notkun þessa kerfis getur stofnunin uppfyllt alþjóðlegar kröfur um aðgengismál. Kerfið skoðar allar vefsíður VMST með tilliti til WCAG 2.0 staðalsins og gefur einkunnirnar A, AA og AAA. Verkfærið skoðar einnig síðurnar út frá WAI-ARIA-staðlinum sem hjálpar til við að gera rafrænt efni og rafrænar umsóknir aðgengilegar fólki með einhvers konar hamlanir.
    Endurnýjuð vefsíða verður opnuð um mitt ár 2018 og verður á henni vefþula. Þessi vefþula les á íslensku og um leið upplitar hún setningar og orð sem verið er að lesa sem er mjög gott fyrir til dæmis lesblinda og einstaklinga sem eiga í erfiðleikum með lestur. Vinna við Mínar síður atvinnuleitenda er á starfsáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2018. Það eru skráningar- og samskiptasíður stofnunarinnar fyrir þá sem óska eftir vinnu og atvinnuleysisbótum. Þar verður tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í úttekt SJÁ ehf. sem snýr að fötluðu fólki og síðan aðlöguð þörfum fatlaðs fólks. Mínar síður atvinnurekenda munu taka mið af þeim aðgerðum sem gerðar verða á sömu síðum atvinnuleitenda.
    Undir vefsíðuna falla nokkrir aðrir vefir eins og enskur vefur sem er nokkurs konar endurspeglun aðalvefs Ábyrgðarsjóðs launa, EURES, og nú er ráðgert að færa vef Fæðingarorlofssjóðs undir vefsíðu stofnunarinnar. Allir þeir vefir falla undir áður nefndar aðgengisreglur. Atvinnumál kvenna og Svanni lánatryggingasjóður eru sjálfstæðir vefir og verður Siteimprove beitt á þá vefi eins og vefsíðu stofnunarinnar. Sú vinna er í undirbúningi.
Þá eru vefir Posting.is, Starfandi, og Ráðum rétt vefir á vegum stofnunarinnar en ekki hefur farið fram aðgengisúttekt á þeim.

Umboðsmaður skuldara.
    Þegar embættið flutti í Kringluna 1 í desember 2010 var húsnæðið tekið út með tilliti til aðgengis fatlaðra að þjónustueiningum stofnunarinnar. Ekki er til sérstök stefna eða aðgerðaráætlun í aðgengismálum.

Vinnueftirlit ríkisins
    Vinnueftirlit ríkisins hefur beitt sér fyrir því að allar starfsstöðvar þess, á samtals níu stöðum á landinu, uppfylli kröfur byggingarreglugerðar um aðgengi að opinberum byggingum eins og frekast er kostur.
    Á síðasta ári flutti Vinnueftirlitið höfuðstöðvar sínar að Dverghöfða 2 í Reykjavík. Við val á nýju húsnæði var lögð sérstök áhersla á gott aðgengi fyrir fatlaða. Hugað var vel að öllum helstu atriðum sem snerta aðgengi fatlaðra, bæði utanhúss og innanhúss. Húsnæði höfuðstöðva Vinnueftirlitsins í Reykjavík á því að uppfylla skilyrði um gott aðgengi fyrir fatlaða.
    Starfsstöðvar stofnunarinnar út á landi eru í Reykjanesbæ, á Selfossi, Egilsstöðum, Húsavík, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Akranesi.
    Vegna fyrirspurnarinnar var skoðað hvort einhverjir annmarkar væru á aðgengi fyrir fatlaða að húsnæði stofnunarinnar. Sú skoðun leiddi í ljós að gott aðgengi á að vera fyrir fatlaða á þessum stöðum. Undantekning er þó á Egilsstöðum þar sem vantar ramp yfir þröskuld á neðstu hæð áður en komið er að lyftunni og á Akranesi er smá mishæð milli útistéttar og gólfsins inni sem þarf að laga. Vinnueftirlitið mun beita sér fyrir því að endurbætur verði gerðar á þessu.
    Varðandi aðgang fatlaðs fólks að upplýsingum og gögnum þá notar vefsíða Vinnueftirlitsins stillingar.is þar sem notendur geta sjálfir skilgreint liti og stærð leturs.

Ríkissáttasemjari
    
Húsnæði ríkissáttasemjara er á 4. hæð í lyftuhúsi. Bílastæði fyrir fatlaða er fyrir utan aðaldyr hússins og greitt aðgengi fyrir fatlaða að lyftu. Sama er að segja um húsnæði embættisins, fatlaðir í hjólastól komast greiðlega inn í alla fundarsali og á salerni.
    Embættið er ekki með skriflega stefnu um aðgengi fyrir fatlað fólk en við endurbætur á húsnæði embættisins nú í vetur var sérstaklega hugsað að þörfum fatlaðra þannig að þeir gætu áfram haft greiðan aðgang að öllum rýmum.

Tryggingastofnun (TR)
    Hjá Tryggingastofnun er ætíð hugað að aðgengi fyrir fatlaða jafnt að manngerðu umhverfi stofnunarinnar sem að rafrænum miðlum. Sökum fjölbreytni viðskiptavinahóps stofnunarinnar er ávallt hugað að aðgengi allra að stofnuninni og í nýlegri auglýsingu eftir nýju húsnæði fyrir stofnunina var mikil áhersla lögð á aðgengi allra að stofnuninni og er þar sérstaklega átt við fatlaða. Lausnir innanhúss fyrir viðskiptavini og starfsmenn eru einnig skoðaðar með aðgengi allra í huga.
    Viðskiptavinum er gert mögulegt að nálgast stofnunina og upplýsingar frá henni á fjölbreytta vegu. Hægt er að heimsækja stofnunina að Laugavegi 114 og eru tvö stæði fyrir fatlaða við aðalinnganginn og nokkur sérmerkt stæði fyrir aftan húsið. Fjölga þarf þessum stæðum og er hugað að því við frágang á framtíðarhúsnæði stofnunarinnar í Hlíðasmára 11 í Kópavogi. Skábraut er utan við húsið með löglegum halla fyrir hreyfihamlaða, engir þröskuldar í húsnæði stofnunarinnar og aðgengilegt um allt hús, bæði í þjónustumiðstöðinni og á vinnusvæðum stofnunarinnar fyrir fatlaða. Heyrnarskertir geta bókað viðtal með táknmálstúlki og þannig fengið upplýsingar um sín málefni eða réttindi hjá stofnuninni.
    Vefsíða stofnunarinnar og persónuleg vefsvæði viðskiptavina á Mínum síðum uppfylla öll skilyrði um aðgengi fatlaðra og eru vefsvæðin aðgengileg fyrir sjónskerta, heyrnarlausa auk þess að styðja við hjálpartæki á borð við talgervil. Við upplýsingar um bótaflokkana á vefsíðu stofnunar eru einnig útskýringar á táknmáli.
    Hjá Tryggingastofnun er ekki sérstök aðgerðaáætlun eða stefna um aðgengi fatlaðs fólks, en eðli máls samkvæmt er sérstaklega tekið á aðgengi fatlaðra og aldraðra í stefnum stofnunarinnar.
    Hjá Tryggingastofnun er í gildi vefstefna sem leggur áherslu á að uppfylla staðla um góðan aðgang á vefsvæðum stofnunarinnar. Þjónustustefna stofnunarinnar leggur áherslu á fjölbreyttar leiðir viðskiptavina til að nálgast stofnunina þannig að þeir fái auðveldlega allar upplýsingar er varða eigin málefni og réttindi hjá stofnuninni. Tryggð eru réttindi fatlaðs fólks til að fá viðtal með táknmálstúlki og leitast er við að hafa þá færni alltaf til staðar hjá einhverjum af þjónustufulltrúum stofnunarinnar.
    Mannauðsstefna Tryggingastofnunar leggur áherslu á að fólki sé ekki mismunað á grundvelli fötlunar [...] eða annarra persónubundinna þátta og er það haft í huga við allar innréttingar stofnunarinnar, við endurbætur og nú við hönnun nýs húsnæðis fyrir stofnunina.

Barnaverndarstofa.
    Stofan leitast við að húsnæði á hennar vegum sé aðgengilegt fyrir fólk með fötlun og hefur til dæmis látið ráðast í breytingar á húsnæði sem tekið hefur verið í notkun með slíkt í huga. Fyrirhuguð nýbygging fyrir meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu verður m.a. hönnuð þannig. Barnaverndarstofu hefur ekki borist beiðni um gögn eða upplýsingar þar sem fötlun einstaklings kallar á sérstakar aðgerðir eða ráðstafanir. Ef slík beiðni kæmi fram yrði leitast við að afhenda umræddar upplýsingar/gögn á fullnægjandi formi. Einnig stendur til að ráðast í sérstaka skoðun á þessum málum í þeim tilgangi að tryggja fullnægjandi aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi stofunnar sem og að upplýsingum og gögnum. Ekki er til staðar sérstök stefna um aðgengi fatlaðs fólks hjá stofunni.