Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1173  —  50. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Í tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra leiði viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta sem starfa hjá hinu opinbera. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram komu við umfjöllun nefndarinnar að launamun kynjanna verði ekki útrýmt nema með stórhuga og samstilltum aðgerðum samfélagsins alls. Í því ljósi er eðlilegt að boða til víðtæks samráðs í anda þess sem lagt er til í tillögunni.
    Við umfjöllun nefndarinnar var bent á starfsmatskerfi sem Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa haft forgöngu um að þróa. Markmið starfsmatsins er að tryggja að starfsfólki séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er og að leiða til þess að störfum sé raðað þannig til grunnlauna að þau séu hin sömu fyrir störf sem metin eru jafn verðmæt, óháð starfsstöðum, stéttarfélagi eða kyni. Sambærileg vinna er hafin hjá öðrum sveitarfélögum, byggð á reynslu Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Meiri hlutinn telur að aðferðafræði á borð við starfsmat geti leitt til víðtækari árangurs en upphafleg tillaga flutningsmanna þar sem aðferðafræði starfsmats lítur ekki einungis til kynjabreytunnar þegar kemur að því að jafna kjör, heldur annarra þátta sem kunna að valda óútskýrðum launamun. Telur meiri hlutinn jafnframt að samtal aðila vinnumarkaðarins á þessum nótum sé líklegt til að skila varanlegum breytingum á launasetningu hins opinbera.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að hjá ríkinu hefur verið hafið starf til að ná þeim markmiðum sem tillagan stefnir að. Þannig er t.d. hafin innleiðing jafnlaunastaðals með það að markmiði að vinna gegn kynbundnum launamun. Þá má nefna að í tengslum við samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um jöfnun lífeyrisréttinda hafa hafist viðræður um jöfnun launa milli mismunandi hluta vinnumarkaðarins og er ljóst að þar er m.a. horft til jöfnunar launakjara á milli starfsstétta, ólíkra hópa og út frá kynferði. Meiri hlutinn telur að greiningarvinna og viðræður sem mælt er fyrir um í tillögunni geti fallið vel að þeirri stefnumörkun sem þegar liggur fyrir á þessu sviði.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaganna um leiðir til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta sem vinna hjá hinu opinbera. Ráðist verði í greiningu á launakjörum ólíkra starfsstétta, m.a. til að draga fram kynbundinn launamun, og sérstaklega verði horft til reynslu sveitarfélaga af starfsmati og skoðað hvort sú aðferðafræði geti nýst við mat á störfum á vegum hins opinbera.

    Steinunn Þóra Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 29. maí 2018.

Páll Magnússon,
form.
Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson.