Ferill 649. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 1174  —  649. mál.
Röð flutningsmanna.




Tillaga til þingsályktunar


um skattleysi uppbóta á lífeyri.


Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Oddný G. Harðardóttir, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Sæmundsson, Þorsteinn Víglundsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp, eigi síðar en 1. nóvember 2018, sem leysi undan skattskyldu uppbætur á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Við frumvarpsvinnuna verði m.a. haft samráð við félags- og jafnréttismálaráðherra með það að markmiði að tryggja að skattleysi uppbóta á lífeyri skerði ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

Greinargerð.

    Þegar einstaklingur með örorku- eða ellilífeyri er undir ákveðnu tekjumarki að teknu tilliti til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og annarra tekna getur hann átt rétt á uppbót á lífeyri, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Með því er komið til móts við þann kostnað sem viðkomandi einstaklingur ber og fæst ekki greiddur eða bættur með öðrum hætti. Uppbót á lífeyri myndar stofn til tekjuskatts samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem tryggi skattleysi uppbóta á lífeyri, enda óeðlilegt að einstaklingar séu skattlagðir vegna greiðslna sem ætlað er að standa undir kostnaði þeirra vegna örorku, hreyfihömlunar eða sjúkdóma. Jafnframt er ráðherra falið að hafa samvinnu við félags- og jafnréttismálaráðherra til þess að tryggja að skattleysið leiði ekki til skerðinga á greiðslum almannatrygginga til þeirra sem eiga rétt á uppbótum á lífeyri. Við vinnuna verði metið hvort gera þurfi breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, til að tryggja stöðu lífeyrisþega að þessu leyti.
    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar 108. þingmál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, 90/2003 (skattleysi uppbóta á lífeyri), sem lýtur að sama efni. Flutningsmenn frumvarpsins eru Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lýst stuðningi við efni frumvarpsins og telur óeðlilegt og ósanngjarnt að uppbót á lífeyri sé skattlögð líkt og um launatekjur sé að ræða án þess að veittur sé frádráttur á móti vegna útlagðs kostnaðar.
    Í umsögn ríkisskattstjóra til efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið er bent á að tekjuhugtak tekjuskattslaga sé rúmt og því verði að túlka allar undantekningar og ívilnanir þröngt. Samkvæmt því hafa uppbætur á lífeyri verið taldar til skattskyldra tekna líkt og gildir um aðrar almennar greiðslur til lífeyrisþega. Bent er á að ef gera eigi breytingar og taka uppbætur undan skattskyldu verði að byggja á því sjónarmiði að greiðslunum sé ætlað að standa undir kostnaði sem í eðli sínu sé ekki persónulegur kostnaður, en slíkur kostnaður er aldrei frádráttarbær frá tekjum. Þá sé nauðsynlegt skattfrjálsar greiðslur séu vel afmarkaðar og sérgreindar þannig að glöggt liggi fyrir tegund og eftir atvikum sú fjárhæð sem um ræðir þannig að unnt sé að halda henni utan skattlagningar á þá sem ætlað er að njóta undanþágunnar, sbr. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Við lagabreytingar sem miða að skattleysi uppbóta á lífeyri er einnig nauðsynlegt að huga að jaðaráhrifum tekna og bóta í tilvikum þar sem skattskylda tekna sem skerða bætur er annars konar en skattskylda bótanna sjálfra og tekjumörk hafa áhrif á bótarétt.
    Í greinargerð með áðurnefndu frumvarpi um skattleysi uppbóta (108. mál) kemur fram að árlega hafi verið greiddar um 229 millj. kr. í tekjuskatt vegna þeirra. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu háar fjárhæðir hafa verið greiddar í bensínstyrk á hverju ári.
    Í minnisblaði skattaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 8. mars 2018, er á það bent að tekjuskattur ríkisins vegna skattlagningar uppbótanna hafi numið 82 millj. kr. á árinu 2016 og útsvarstekjur sveitarfélaga 147 millj. kr. Það liggur því fyrir að skattleysi uppbóta hefur mun meiri áhrif á tekjur sveitarfélaga en ríkissjóðs. Með hliðsjón af þessu er nauðsynlegt að það frumvarp sem lagt verði fram verði unnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.