Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Nr. 27/148.

Þingskjal 1245  —  479. mál.


Þingsályktun

um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, að á árunum 2018–2029 verði unnið að uppbyggingu innviða í samræmi við eftirfarandi áætlun sem felur í sér markmið um:
     a.      stýringu og sjálfbæra þróun,
     b.      vernd náttúru og menningarsögulegra minja,
     c.      öryggismál,
     d.      skipulag og hönnun, og
     e.      ferðamannaleiðir.

1. Markmið um stýringu og sjálfbæra þróun.
Markmið og áherslur.
    Skilgreindir verði ákveðnir staðir í öllum landshlutum þar sem faglega verði staðið að uppbyggingu innviða til verndar náttúru og minjum. Jafnframt verði stöðum, þar sem náttúra eða minjar eru sérlega viðkvæm eða innviðir ónógir eða metnir óæskilegir, hlíft við skipulagðri umferð ferðamanna. Áhersla verði lögð á að beina meginþorra ferðamanna á þá áfangastaði í viðkomandi landshluta þar sem unnið er að uppbyggingu innviða og aðstaða og þjónusta er fullnægjandi.
    Auðlindir lands verði flokkaðar í samræmi við stefnu um tegund ferðamennsku með hliðsjón af verkfærum sem þróuð hafa verið innan ferðamálafræði. Með því verði mótuð stefna um fyrirkomulag uppbyggingar og upplifunar ferðamanna.
    Á grundvelli stefnumótunar á ferðamannastöðum verði leitað leiða til að móta viðmið og hagnýta niðurstöður rannsókna, sérstaklega á þolmörkum, við ákvarðanatöku um uppbyggingu innviða, aðgangsstýringu og merkingar.
    Komið verði upp skilvirkari leiðum til stýringar á aðgangi ferðamanna um viðkvæm svæði með hliðsjón af ákvæðum um almannarétt.

Langtímasýn.
     a.      Stefnt verði að því að framkvæmdir á viðkvæmum svæðum með aðdráttarafl séu byggðar á þolmarkarannsóknum og afturkræfar í anda sjálfbærrar þróunar, þ.e. að verði innviðir fjarlægðir beri staðurinn ekki varanleg merki þeirra að tilteknum tíma liðnum.
     b.      Stefnt verði að því að fyrirbyggja álag með uppbyggingu innviða í stað þess að brugðist sé aðallega við því álagi sem orðið er. Í því felist að innviðir stýri í meira mæli umferð ferðafólks um vinsælustu staðina í stað þess að ákvarðanir ferðafólks móti eðli og forgangsröðun uppbyggingar að nær öllu leyti.
     c.      Stefnt verði að því að til verði skipulagt net tiltekinna ferðamannastaða með fullnægjandi innviðum.
     d.      Stefnt verði að því að til verði aðgengilegur gagnagrunnur um staði, svæði og leiðir og ferðatengda innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, sem geri kleift að miðla upplýsingum um viðkomandi staði, eðli þeirrar upplifunar sem þar er að vænta fyrir ferðamenn og annað sem lýtur að náttúru, minjum, reglum, þjónustu og væntingum við heimsókn á viðkomandi stað.

  1.1. Lög og reglur um stýringu.
    1.1.1.          Settar verði skýrari reglur um aðgangsstýringu ferðamanna með það að markmiði að ríkari heimildir liggi fyrir til stýringar ferðamanna í samspili eignarréttar á landi og almannaréttar einstaklinga.
    1.1.2.          Settar verði reglur um landgöngu ferðamanna af skipum utan hafna.
    1.1.3.          Settar verði reglur um umgengni við villt dýr á grunni gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.
    1.1.4.          Mótaðar verði staðbundnar reglur um umferð gangandi fólks um sérlega viðkvæm svæði með mikið aðdráttarafl, svo sem að slíkri umferð sé beint á tiltekinn áningarstað innan svæðisins í stað þess að gengið sé á viðkvæmu yfirborði svæðisins.

  1.2. Flokkun lands og staða.
    1.2.1.          Unnið verði að flokkun á auðlindum lands með hliðsjón af verkfærum sem þróuð hafa verið innan ferðamálafræði með það að markmiði að skilgreina ferðamannastaði og skipuleggja og samræma nýtingu lands til náttúruverndar og útivistar. Tekið verði tillit til aðgengis, eðlis svæðis, viðmiða um þolmörk og þess til hvers konar ferðamanna svæði eigi að höfða, með hliðsjón af stefnu svæðisins með tilliti til ferðamennsku. Sú flokkun liggi til grundvallar ákvarðanatöku um uppbyggingu innviða á viðkomandi svæði til framtíðar. Gefnar verði út leiðbeiningar um framangreint.

  1.3. Þolmörk ferðamennsku.
    1.3.1.          Mótaður verði rammi um hagnýtingu á niðurstöðum rannsókna á þolmörkum ferðamennsku og skyldum viðfangsefnum í þágu ákvarðanatöku um uppbyggingu innviða og sjálfbæra nýtingu staða, svæða og leiða. Slíkt megi útfæra á vettvangi stjórnunar- og verndaráætlana eða í tengslum við aðrar stefnumótandi áætlanir fyrir viðkomandi svæði.

  1.4. Miðlun og merkingar.
    1.4.1.          Hönnun leiðbeinandi skilta, þ.e. skilta sem vísa í umgengnisreglur, fylgi leiðbeiningum sem m.a. byggjast á niðurstöðum rannsókna varðandi miðlun slíks efnis til ferðamanna.
    1.4.2.          Varað verði á skýran hátt við mögulegum staðbundnum hættum með viðeigandi merkingum á viðkomandi stöðum og afmörkunum miðað við þá ólíku hópa sem alla jafna sækja staðinn heim.
    1.4.3.          Tilmælum verði beint reglulega til þeirra aðila sem miðla upplýsingum til ferðamanna og áhersla lögð á ábyrga ferðahegðun sem m.a. lýtur að góðri umgengni um náttúru og menningarsögulegar minjar og einnig að fyrirhyggju og aðgát.
    1.4.4.          Til verði stafrænn gagnagrunnur með miðlun upplýsinga um ferðamannastaði landsáætlunar, þá ferðatengdu innviði sem þar eru, þjónustu og þær umgengnisreglur sem þar ber að fylgja.

2. Markmið um vernd náttúru og menningarsögulegra minja.
Markmið og áherslur.
    Unnið verði að vernd náttúru og menningarsögulegra minja á stöðum sem eru undir álagi vegna ferðamanna. Leitað verði leiða til að fyrirbyggja að slíkt álag valdi raski eða skemmdum. Jafnframt verði stefnt að því að lagfæra spjöll sem orðið hafa.
    Umsjónaraðilar með ferðamannastöðum verði skilgreindir og útfært í hverju umsjónarleg ábyrgð felst.
    Ástand ferðamannastaða verði metið og grundvöllur fyrir frekari uppbyggingu og uppbyggingu nýrra ferðamannastaða verði kannaður. Metið verði í hverju tilviki hvort aukin stýring í formi vörslu og reglna geti dregið úr þörf á uppbyggingu efnislegra innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
    Það verði grundvallaratriði að nýting ferðaþjónustu og útivistar spilli ekki náttúru og menningarsögulegum minjum og minnki þar með aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar.

Langtímasýn.
     a.      Vernd náttúru og menningarsögulegra minja njóti ávallt forgangs. Stefnt verði að jafnvægi í samspili verndar náttúru og menningarsögulegra minja og nýtingar ferðamanna á þessum sömu gæðum.
     b.      Í lok gildistíma áætlunarinnar verði engar náttúru- eða menningarsögulegar minjar skilgreindar í yfirvofandi hættu á að tapa verndargildi sínu vegna álags af völdum ferðamennsku samkvæmt útgefnu mati þeirra stofnana sem bera á þeim umsjónarlega ábyrgð.
     c.      Fyrir liggi stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir þjóðgarða og önnur friðlýst svæði sem eru undir álagi vegna ferðamanna. Þar verði tiltekin stefnumörkun í gildi og á grunni hennar forgangsröðun aðgerða sem miði að því að viðhalda verndargildi með hliðsjón af auknu álagi af völdum ferðamennsku og útivistar.
     d.      Fullnægjandi landvarsla verði byggð upp til að tryggja vernd náttúru og menningarsögulegra minja og að ferðamenn fái viðhlítandi leiðbeiningar og fræðslu.

  2.1. Stjórnun og vernd náttúru og menningarsögulegra minja.
    2.1.1.          Stjórnunar- og verndaráætlanir verði unnar fyrir friðlýst náttúruverndarsvæði á landsáætlun og þess gætt að þær séu nýttar við stefnumótun, þarfagreiningu og ákvarðanatöku um innviði á viðkomandi svæðum. Áhersla verði lögð á að forgangsraða vinnu við slíkar áætlanir fyrir svæði undir miklu álagi af völdum ferðamennsku.
    2.1.2.          Verndaráætlanir vegna friðlýstra/friðaðra minjastaða á landsáætlun liggi til grundvallar við ákvarðanir um innviði á viðkomandi stöðum, en þetta eigi við um staði sem eru undir miklu álagi af völdum ferðamennsku og eru staðsettir utan friðlýstra náttúruverndarsvæða, sbr. fyrri lið.
    2.1.3.          Njóti staðir á landsáætlun ekki friðlýsingar verði gerðar áætlanir um innviðauppbyggingu og eðli hennar samkvæmt sniðmáti sem útbúið verði á vettvangi landsáætlunar. Jafnframt verði skoðað hvort henti að friðlýsa slík svæði.

  2.2. Umsjón, ábyrgð og eignarhald.
    2.2.1.          Skilgreindir verði umsjónaraðilar ferðamannastaða. Einnig verði skilgreint hvað felist í slíkri umsjón, umgangi umsjónar og þeirri ábyrgð sem fylgi umsjón með stað.
    2.2.2.          Unnið verði að lausn ágreinings um eignarhald eða umsjón á stöðum sem teljast mikilvægir út frá markmiðum landsáætlunar þar sem slíkur ágreiningur getur leitt til þess að ekki sé hægt að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir vegna verndunar og sjálfbærrar nýtingar svæðanna. Í sumum tilvikum geti lausn legið í því að friðlýsa viðkomandi svæði.
    2.2.3.          Stjórnvöld móti virka stefnu um uppkaup ríkis á landi og/eða mannvirkjum, m.a. til að leysa úr ágreiningsmálum sem upp geta komið á mikilvægum stöðum út frá markmiðum landsáætlunar.

  2.3. Mat á álagi, ástandi og innviðaþörf.
    2.3.1.          Safnað verði skipulega gögnum um álag af völdum ferðamanna á staði á landsáætlun.
    2.3.2.          Reglulega verði birtur listi sem setur fram á skipulegan hátt ástand friðlýstra svæða (sbr. rauðlistaskýrslur um friðlýst svæði í hættu), þ.m.t. þjóðgarða, þar sem tilgreint verði það álag sem staðir verða fyrir, sem og ástand þeirra.
    2.3.3.          Reglulega verði birtar niðurstöður samræmds ástandsmats ferðamannastaða, en þar verði m.a. metið ástand náttúru og innviða, sem og menningarminja.
    2.3.4.          Við mat á þörf á innviðum á tilteknum stað verði horft til samspils vörslu, reglna og efnislegra innviða. Í þarfagreiningu verði tekið tillit til kostnaðar við uppbyggingu, reksturs og viðhalds efnislegra innviða til lengri tíma. Ekki beri að líta á efnislega innviði sem sjálfgefið fyrsta viðbragð við auknu álagi á náttúru vegna fjölgunar ferðamanna.

3. Markmið um öryggismál.
Markmið og áherslur.
    Öryggi ferðamanna í náttúrunni verði tryggt eftir fremsta megni og með markvissum aðgerðum dregið úr eða komið í veg fyrir slys á fólki á ferðamannastöðum. Stefnt verði að slysalausum ferðamannastöðum. Uppbyggingu innviða verði þó ekki hægt að miða við áhættuhegðun afmarkaðs hóps. Grundvallarreglan verði sú að ferðamenn ferðist í náttúru landsins á eigin ábyrgð.
    Leitast verði við að ferðamenn virði öryggisráðstafanir, fylgi leiðbeiningum og sýni almenna skynsemi. Stefnumótandi sjónarmið varðandi öryggismál sem leggja skal til grundvallar verði einkum tvenns konar. Annars vegar að varað verði við hættum, leyndum og ljósum, á ferðamannastöðum. Slík upplýsingagjöf geti m.a. falist í merkingum og landvörslu á viðkomandi stöðum. Hins vegar að settir verði upp öryggisinnviðir þar sem nauðsyn er talin á, hvort sem er til að afmarka slíkar hættur eða beina fólki á tryggan áningarstað. Þessir innviðir uppfylli öryggiskröfur og -staðla vegna slíkra mannvirkja.

Langtímasýn.
     a.      Stefnt verði að því að slysum, sem innviðauppbygging geti komið í veg fyrir, fækki.
     b.      Skilgreint verði þjónustustig staða sem einnig taki til öryggistengdra þátta, svo sem hálkuvarna, handriða, girðinga og þess háttar.

  3.1. Reglur um öryggismál.
    3.1.1.          Unnin verði greining á því hvort reglur um öryggismál á fjölsóttum ferðamannastöðum séu fullnægjandi og gerðar á þeim viðeigandi breytingar til að stuðla að auknu öryggi ferðamanna. Hlutverk, ábyrgð og heimildir landvarða til að framfylgja slíkum reglum verði skýrðar.

  3.2. Umsjón og ábyrgð.
    3.2.1.          Skilgreindur verði umsjónaraðili ferðamannastaða sem aðild eiga að landsáætlun, sbr. samsvarandi lið í kafla um vernd náttúru og menningarsögulegra minja, og lúti sú umsjón einnig að öryggismálum.
    3.2.2.          Skilgreint verði hvað felist í umsjón gagnvart öryggi ferðafólks, umfangi umsjónar og þeirri ábyrgð sem fylgi umsjón með stað með tilliti til öryggismála.
    3.2.3.          Umsjónaraðilar skilgreini þær staðbundnu hættur sem kunni að vera á þeim ferðamannastað sem þeir bera ábyrgð á og geri viðeigandi öryggisráðstafanir.
    3.2.4.          Skilgreint verði þjónustustig innviða á ferðamannastöðum gagnvart árstíðabundnum áskorunum, t.d. vegna hálku og snjóa. Hlutverk umsjónaraðila ferðamannastaða verði skilgreint gagnvart því að viðhalda þessu þjónustustigi, svo sem með aðvörunum, viðeigandi hálkuvörnum, lokunum, o.s.frv.

  3.3. Mat á öryggi ferðamanna.
    3.3.1.          Umsjónaraðilar mannaðra svæða geri öryggisáætlun fyrir viðkomandi stað í samráði við þar til bær yfirvöld. Öryggisáætlun taki til fræðslu, forvarna og viðbragðs. Skilgreind verði viðunandi áhætta í hverju tilviki. Fyrirliggjandi verði sniðmát fyrir öryggisáætlanir ferðamannastaða. Metin verði þörf á gerð öryggisáætlana á ómönnuðum svæðum og þeim forgangsraðað í kjölfarið.

  3.4. Öryggi innviða.
    3.4.1.          Umsjónaraðilar hvers staðar tryggi að viðeigandi stöðlum sé fylgt, sem og reglum um öryggisatriði varðandi hönnun, byggingu og viðhald mannvirkja.
    3.4.2.          Við hönnun og skipulag bílastæða verði fólk og vélknúin farartæki aðgreind eftir fremsta megni, auk þess sem gert verði ráð fyrir að mismunandi farartæki verði í aðgreindum stæðum. Jafnframt verði sett viðmið um fjarlægð bílastæða frá náttúrufyrirbærum með tilliti til öryggismála.

  3.5. Samhæfing.
    3.5.1.          Unnið verði úr tillögum sem settar voru fram í skýrslu Ferðamálastofu, Umhverfisstofnunar, Landsbjargar o.fl. frá árinu 2011 um öryggismál á ferðamannastöðum: Öryggi á ferðamannastöðum – stefna til 2015. Í henni er listi yfir 28 ferðamannastaði þar sem sérstaklega þarf að huga að öryggismálum.

4. Markmið um skipulag og hönnun.
Markmið og áherslur.
    Að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir skilgreini sveitarfélög á hvaða staði í náttúrunni og til hvaða menningarsögulegra minja henti að beina umferð ferðamanna svo og mismunandi hópum ferðamanna. Slík stefnumörkun verði sett fram við gerð aðalskipulags.
    Gert verði átak í deiliskipulagi ferðamannastaða.
    Hvað varðar eðli uppbyggingar á stöðum á miðhálendinu og staðsetningu þeirra verði miðað við að fylgt verði þeirri stefnumörkun sem sett hafi verið fram í gildandi landsskipulagsstefnu.
    Nauðsynleg mannvirki á ferðamannastöðum til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum séu vel hönnuð, falli vel að landslagi, viðkomandi minjum, gildi staðar og staðaranda og styðji við upplifun gesta. Góð ending og lítil viðhaldsþörf einkenni slík mannvirki. Stefnt verði að því að vel hannaðir innviðir auki upplifun gesta en þess jafnframt gætt að náttúra, minjar og heildarsvipmót lands verði varið eftir fremsta megni. Staðsetning bílastæða og þjónustuhúsa verði ákveðin út frá eðli viðkomandi staðar og þjónustutengdir innviðir verði í nægilegri fjarlægð frá þungamiðju aðdráttarafls staðar þannig að þeir dragi ekki úr gildi hans. Aðkoma og gönguleið að stað verði hluti af minnisstæðri upplifun gesta.
    Stefnumótandi sjónarmið varðandi skipulag og hönnun verði tvíþætt, annars vegar það sem lýtur að skilgreiningu ferðamannastaða í skipulagi og hins vegar hvernig staðið verði að hönnun innviða á viðkomandi stað.

Langtímasýn.
     a.      Sveitarfélög marki stefnu um ferðamannastaði og ferðaþjónustu í aðalskipulagsáætlunum sínum.
     b.      Lokið verði við gerð deiliskipulags þeirra svæða sem eru undir mestu álagi af ferðaþjónustu og annarra svæða þar sem þörf er á deiliskipulagi.
     c.      Stefnt verði að samþættingu áfangastaðaáætlana og skipulagsáætlana sveitarfélaga.
     d.      Til verði fagþekking á sviði hágæðainnviðauppbyggingar er lúti að byggingu innviða, hönnun og yfirbragði, efnisvali og notagildi og nái einnig til algildrar hönnunar og aðgengis fyrir alla á ferðamannastöðum í náttúrunni.

  4.1. Skipulagsgerð sveitarfélaga.
    4.1.1.          Við gerð aðalskipulags sveitarfélaga verði litið til leiðbeinandi verkfæra eins og afþreyingarrófs (ROS). Þannig verði leitast við að skilgreina mismunandi eðli ferðamannastaða og -svæða, til að mynda staða sem geti tekið á móti mjög miklum fjölda ferðamanna, staða sem þurfi að vernda gagnvart umferð ferðamanna og staða sem höfði til ákveðinna tegunda ferðamennsku. Mótuð verði viðmið varðandi skilgreiningu á eðli staða við aðalskipulagsgerð.
    4.1.2.          Sveitarfélög, að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir, fjalli í aðalskipulagsgerð sinni um ferðamannastaði þar sem fram komi hvaða staðir í náttúrunni og hvaða menningarsögulegu minjar eigi að höfða til mismunandi hópa ferðamanna. Hvað varðar miðhálendið verði tryggt að fylgt sé ákvæðum landsskipulagsstefnu við ákvarðanir um uppbyggingu staða.
    4.1.3.          Átak verði gert í að ljúka deiliskipulagi á þeim svæðum sem eru undir mestu álagi af umferð ferðamanna.

  4.2. Hönnun, yfirbragð og staðsetning efnislegra innviða.
    4.2.1.          Hönnun mannvirkja taki mið af menningarstefnu í mannvirkjagerð sem sett var af stjórnvöldum árið 2007 og endurskoðuð árið 2014.
    4.2.2.          Algild hönnun: Á fjölsóttum ferðamannastöðum verði unnið að aðgengi fyrir alla, eins og við verður komið. Unnar verði leiðbeiningar og viðmið vegna þessa í samráði við þar til bæra aðila.
    4.2.3.          Staðsetning innviða vegna þjónustu sem er í boði, svo sem bílastæða og þjónustuhúsa, verði ákveðin út frá eðli viðkomandi staðar. Skulu slíkir innviðir vera í nægilegri fjarlægð frá þungamiðju staðar þannig að þeir dragi ekki úr gildi hans.

  4.3. Val á efni.
    4.3.1.          Við efnisval verði það haft í huga að innviðir verði endingargóðir, sem mest afturkræfir og viðhaldslitlir og að fjármunir nýtist sem best. Forðast beri skammtímalausnir varðandi efnisval nema slíkt reynist nauðsynlegt til að varna yfirvofandi skemmdum á náttúru og minjum.
    4.3.2.          Leitast verði við að nýta efnivið til innviðauppbyggingar úr nærumhverfi viðkomandi staðar. Efni í göngustíga hæfi næsta umhverfi sem þeir liggja um. Sérstök aðgát verði viðhöfð á viðkvæmum svæðum og víðernum þannig að innviðir hafi ekki neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna.

  4.4. Fagþekking.
    4.4.1.          Fagþekking á sviði innviðauppbyggingar verði efld, ekki síst þegar náttúran sjálf er efniviður, svo sem í stígagerð og hleðsluvinnu. Einnig verði þekkingunni miðlað til hlutaðeigandi umsjónaraðila.

  4.5. Samhæfing.
    4.5.1.          Sveitarfélög leiti leiða til að samræma gerð áfangastaðaáætlana og gerð aðalskipulags við landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
    4.5.2.          Innleiddur verði sá hluti menningarstefnu í mannvirkjagerð sem lúti að mannvirkjum á ferðamannastöðum í náttúrunni.
    4.5.3.          Fyrirliggjandi hönnunarleiðbeiningar fyrir mannvirki og ferðamannastaði í náttúrunni verði uppfærðar og staðlaðar með tilliti til viðfangsefna landsáætlunar.
    4.5.4.          Skapaður verði vettvangur umsjónaraðila til að miðla þekkingu og reynslu milli staða hvað varðar hönnun og lausnir, svo sem á merkingum, fræðsluefni og skiltum, sem stuðli að hagræði og meira heildarsvipmóti.

5. Markmið um ferðamannaleiðir.
Markmið og áherslur.
    Ferðamannaleiðir, sem í samhengi landsáætlunar eru gönguleiðir, hjólaleiðir og reiðleiðir, tengi gjarnan saman ólíka staði og kalli á sambærilega hugmyndafræði um innviði vegna álags, öryggismála og upplifunar. Brýnt sé að til verði fullnægjandi umgjörð til að hægt verði að skilgreina og taka stefnumótandi ákvarðanir um fyrirkomulag, ábyrgð og stjórnun á ferðamannaleiðum til framtíðar.
    Skilgreindar verði ferðamannaleiðir sem tengi saman ferðamannastaði. Í fyrsta áfanga landsáætlunar verði lögð áhersla á gönguleiðir, en reiðleiðir og hjólaleiðir teknar til skoðunar í framhaldinu.

Langtímasýn.
     a.      Skilgreindar verði helstu ferðamannaleiðir fyrir gangandi umferð í öllum landshlutum.
     b.      Stefnt verði að því að til verði vel skipulagt net tiltekinna ferðamannaleiða með skilgreindri umsjónarlegri ábyrgð og fullnægjandi innviðum.
     c.      Skilgreindar verði reið- og hjólaleiðir á svæðum sem eru friðlýst á grundvelli náttúruverndarlaga og sérlaga.

  5.1. Stefnumótun um gönguleiðir og umgjörð þeirra.
    5.1.1.          Skipaður verði vinnuhópur til að vinna stefnumótun um gönguleiðir og þá umgjörð sem þeim þarf að skapa. Unnið verði að tilraunaverkefni um ferðamannaleiðina Laugaveg frá Landmannalaugum til Þórsmerkur. Vinnuhópurinn leggi fram stefnumótandi tillögur að umbótum á löggjöf varðandi ferðamannaleiðir, fyrirkomulag í skipulagi, formlega umsjón, erfiðleikastig og þjónustu- og öryggisstig og öðrum atriðum sem lúta að þessu viðfangsefni.
    5.1.2.          Á grunni tillagna vinnuhóps um tilraunaverkefni um ferðamannaleiðina Laugaveg verði unnið að því að skilgreina helstu ferðamannaleiðir fyrir gangandi umferð í öllum landshlutum, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2016.

  5.2. Umsjón.
    5.2.1.          Umsjónaraðilar ferðamannaleiða fyrir gangandi umferð verði skilgreindir. Einnig verði skilgreint hvað felist í slíkri umsjón, umfangi umsjónar og þeirri ábyrgð sem fylgir umsjón með ferðamannaleið.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2018.