Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1252, 148. löggjafarþing 561. mál: aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum (hert skatteftirlit og skattrannsóknir, aukin upplýsingaöflun o.fl.).
Lög nr. 77 20. júní 2018.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna aðgerða gegn skattundanskotum og skattsvikum (hert skatteftirlit og skattrannsóknir, aukin upplýsingaöflun o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Sama gildir um fastar starfsstöðvar hlutafélaga og einkahlutafélaga í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr.
  2. Á eftir orðunum „dótturfélög“ og „dótturfélagi“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: eða fasta starfsstöð; og: eða lokun fastrar starfsstöðvar.
  3. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Tap í fastri starfsstöð skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. er aðeins frádráttarbært hjá íslensku félagi að ekki sé unnt að jafna tapið hjá erlendu félagi föstu starfsstöðvarinnar.


II. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „starfsmannaleigan“ í 3. mgr. kemur: eða annar aðili sem leigir út vinnuafl.
  2. Á eftir orðinu „Starfsmannaleiga“ í 1. og 2. málsl. 4. mgr. kemur: eða annar aðili sem leigir út vinnuafl.
  3. Á eftir orðinu „starfsmannaleigu“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: eða annars aðila sem leigir út vinnuafl.


III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

3. gr.

     Á eftir 5. gr. A laganna kemur ný grein, 5. gr. B, svohljóðandi:
     Erlent atvinnufyrirtæki með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis, sem selur þjónustu sem veitt er rafrænt, fjarskiptaþjónustu eða útvarps- og sjónvarpsþjónustu til annarra en atvinnufyrirtækja hér á landi, getur valið á milli almennrar skráningar skv. 5. gr. eða einfaldrar skráningar vegna skila á virðisaukaskatti hér á landi samkvæmt þessari grein. Einföld skráning skal fara fram í rafrænu skráningarkerfi á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Erlendu atvinnufyrirtæki sem selur hingað til lands í áskrift blöð og tímarit á pappírsformi og erlendum ferðaþjónustuaðila sem selur virðisaukaskattsskylda þjónustu hingað til lands er heimilt að skrá sig með einfaldri skráningu ef salan á sér stað til annarra en atvinnufyrirtækja.
     Erlendu atvinnufyrirtæki sem skráir sig með einfaldri skráningu skal ekki heimilt að færa virðisaukaskatt af aðföngum sínum til innskatts samkvæmt ákvæðum 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr.
     Ákvæði 1.–3. mgr. skulu á sama hátt taka til umboðsmanna og annarra þeirra aðila sem eru í fyrirsvari fyrir erlend atvinnufyrirtæki.
     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um skilgreiningu á hugtökum og um uppgjör, tilhögun bókhalds og tekjuskráningu, gjalddaga, kærur, form og efni sölureikninga, gengisviðmið o.fl.

IV. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Við 6. tölul. 1. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Liggi leiguverð hópbifreiðar ekki fyrir skal þó ákvarða áætlaða leigu sem 1/60 hluta meðaltollverðs innfluttra hópbifreiða sem flokkast hafa í sama tollskrárnúmer síðastliðin þrjú ár fyrir hvern byrjaðan mánuð frá komu tækis til landsins. Meðaltollverðið skal birt með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda ár hvert. Aðflutningsgjald af hópbifreiðum skal innheimt við komu hópbifreiðar til landsins miðað við áætlaða tímalengd notkunar hennar hér á landi. Reynist notkunartíminn annar skal sú fjárhæð aðflutningsgjalda sem á milli ber innheimt við brottför bifreiðarinnar frá landinu.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Hafi tollur af ökutæki verið felldur niður vegna tímabundinnar notkunar þess hér á landi er heimilt án undanfarandi skoðunar að fjarlægja skráningarmerki þess hafi notkunin varað lengur en heimilt er eða þegar að öðru leyti hefur verið farið gegn skilyrðum niðurfellingarinnar. Leita má aðstoðar lögreglu við framkvæmdina. Skráningarmerkið skal ekki afhenda aftur fyrr en tollurinn hefur verið greiddur.


5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði 1. gr. gildi og kemur til framkvæmda 1. janúar 2019.
     Ákvæði 3. gr. kemur til framkvæmda 1. júlí 2019.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2018.