Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1340  —  675. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson, Inga Sæland, Logi Einarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar eftirfarandi, í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands:
     a.      Stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2019–2023, 100 millj. kr. á ári.
                      Barnamenningarsjóður Íslands hafi að markmiði að fjármagna og styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Jafnframt verði lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Annað hvert ár verði efnt til Barnaþings sem taki til umfjöllunar málefni tengd börnum og ungmennum og hagsmunum þeirra.
                      Forsætisráðherra skipi fimm manna stjórn sjóðsins og fimm varamenn. Stjórn sjóðsins tilkynni um úthlutun úr sjóðnum á degi barnsins ár hvert.
                      Forsætisráðherra setji nánari reglur um starfsemi sjóðsins að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Reglurnar verði birtar í Stjórnartíðindum.
                      Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, sjái um umsýslu og vörslu sjóðsins.
     b.      Hafin verði smíði hafrannsóknaskips með framlagi af fjárlögum næstu þrjú ár, 2019– 2021, sem skiptist þannig að 300 millj. kr. verði varið til hönnunar og undirbúnings á árinu 2019 og 1.600 millj. kr. hvort ár 2020 og 2021 til smíði skipsins. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falin framkvæmd þessa.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi hefur verið undirbúin af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og er flutt í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Alþingi heldur hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí í tilefni af því að öld er liðin frá því að samningar voru undirritaðir um fullt sjálfstæði og frelsi í eigin málum. Flutningsmenn tillögunnar leggja til tvíþætt verkefni; annars vegar í þágu barna og ungmenna og hins vegar til eflingar rannsókna í þágu lífríkis og auðlinda í hafinu umhverfis Ísland.

Barnamenningarsjóður Íslands.
    Barnamenningarsjóður var stofnaður árið 1994 í tilefni af lýðveldisafmælinu og ári fjölskyldunnar og hafði það hlutverk að styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Sjóðurinn starfaði samkvæmt reglum nr. 246/1994 og síðar nr. 594/2003 með árlegu framlagi frá Alþingi í fjárlögum. Upphaflega annaðist menntamálaráðuneytið umsýslu sjóðsins en frá og með árinu 2013 færðist umsýsla hans til Rannís, Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Ekki hafa verið ákveðnar fjárveitingar til sjóðsins frá árinu 2016 og því fjármagni sem áður var úthlutað á vegum hans hefur verið varið í aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytis um menningu barna og ungmenna 2014–2017. Sú áætlun er byggð á menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi í mars 2013, en þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu er einn af fjórum meginþáttum hennar. Þá var aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla einnig höfð til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar þar sem lögð er áhersla á sköpun, listir og virka þátttöku í menningarlífi. Eins og fram kemur í menningarstefnu er aðgengi að menningar- og listalífi mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi og eru menningarlæsi og menningarþátttaka veigamikil atriði í uppvexti barna og unglinga. Þá auka kynni þeirra af menningu og listum jafnframt víðsýni og umburðarlyndi og þátttaka í menningarstarfi eykur vitund um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi. Sjónarmið þessi koma einnig fram í 31. grein barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en þar segir:
     1.      Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.
     2.      Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.
    Það er því tillaga flutningsmanna að í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands verði stofnaður nýr og öflugur Barnamenningarsjóður Íslands sem styðji einkum verkefni á sviði lista og menningar sem unnin eru fyrir börn eða með virkri þátttöku barna, með það að markmiði að styrkja þau til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun. Þannig er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á að styrkja verkefni er efli sköpunarkraft barna og ungmenna og hæfni þeirra til þess að verða þátttakendur í þeirri þróun sem nú á sér stað í aðdraganda hinnar svonefndu fjórðu iðnbyltingar.
    Mikilvægt er að unnið verði áfram á grundvelli menningarstefnu frá 2013 og aðgerðaáætlunar um menningu barna og ungmenna 2014–2017, svo sem með frekari uppbyggingu verkefnisins List fyrir alla, auk áherslna sem fram koma í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 um það verkefni. Jafnframt er gert ráð fyrir að samráðsvettvangi menningarstofnana um menningu fyrir börn og ungmenni verði komið á fót með formlegum hætti.
    Við framkvæmd þessarar tillögu ber að hafa í huga að Barnamenningarsjóði Íslands er ætlað að styrkja verkefni sem unnin eru fyrir börn, með börnum og af börnum. Gert er ráð fyrir því að menningarstofnanir og aðrar stofnanir og skólar á öllum skólastigum geti sótt um verkefnastyrki til sjóðsins sem og sjálfstætt starfandi einstaklingar og frjáls félagasamtök.
    Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir að lögð verði áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að eflingu lýðræðislegrar þátttöku barna í samfélaginu og að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Gert er ráð fyrir því að m.a. verði lögð sérstök áhersla á verkefni sem hafa það að markmiði að efla samfélagslega þátttöku barna innflytjenda og flóttafólks og barna sem búa við bágan efnahag.
    Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992. Fullgilding hans felur í sér skuldbindingu Íslands að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans en sáttmálinn var lögfestur hér á landi 20. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna mælir fyrir um alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Hann hefur að geyma ýmis grundvallarréttindi og tryggir öllum börnum að 18 ára aldri sérstaka vernd og umönnun og endurspeglar nýja sýn á hlutverk og stöðu barna sem fullgildra þátttakenda í samfélaginu. Barnasáttmálinn tryggir þannig börnum rétt til þess að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem þau varða og kveður á um að taka beri tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Tillagan gerir ráð fyrir markvissri vinnu við áframhaldandi innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í samráði við umboðsmann barna og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
    Gert er ráð fyrir því að styrkt verði verkefni sem efla lýðræðisþátttöku barna og ungmenna og verkefni sem hvetja til aukinnar þátttöku barna í stefnumótun og ákvörðunartöku í nærsamfélagi þeirra. Er hér gert ráð fyrir að um verði að ræða verkefni sem lagt geti grunn að framtíðarþátttöku barna í lýðræðisstarfi og stuðli að aukinni kosningaþátttöku framtíðarkynslóða. Dregið hefur úr kosningaþátttöku ungs fólks en í sveitarstjórnarkosningunum árið 2014 var kjörsókn eftir aldri skrásett í fyrsta sinn. Minnst var þátttaka ungs fólks á aldrinum 20–24 ára, og var hún aðeins 45,4%. Sama var uppi á teningnum í forsetakosningum 2016 en þá var þátttaka hópsins 63,1%. Í alþingiskosningum 2016 var hún 65,7% en 69,6% í alþingiskosningum 2017. Sérfræðingar eru sammála um að mikilvægt sé að leita allra leiða til að sporna við þessari öfugþróun og hefur m.a. verið efnt til svonefndra skuggakosninga meðal framhaldsskólanema með það að markmiði að þjálfa nemendur sem ekki hafa náð kosningaaldri í að kjósa og undirbúa þá sem hafa aldur til þess að kjósa í fyrsta sinn. Jafnframt öðlast ungt fólk reynslu í því hvernig hið lýðræðislega ferli kosninga er skipulagt og framkvæmt.
    Tillagan gerir ráð fyrir að stutt verði sérstaklega við verkefni sem efla lýðræðisþátttöku barna og ungmenna en fyrirhugað er að lagt verði fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um umboðsmann barna þar sem Barnaþing, sem haldið verði annað hvert ár, verði fest í sessi sem umfjöllunarvettvangur um stöðu og hagsmuni barna og ungmenna hér á landi og í alþjóðlegu samhengi.
    Gert er ráð fyrir því að Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, annist umsýslu sjóðsins en sú stofnun fer þegar með umsýslu sjóða á sviði menningar, lista og æskulýðsstarfs.
    Tillagan gerir ráð fyrir að forsætisráðherra skipi fimm manna stjórn sjóðsins og jafnmarga til vara. Einn fulltrúi verði skipaður samkvæmt tillögu frá mennta- og menningarmálaráðherra, einn samkvæmt tillögu frá embætti umboðsmanns barna, einn samkvæmt tillögu frá Bandalagi íslenskra listamanna og einn samkvæmt tillögu frá ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en forsætisráðherra skipi formann sjóðstjórnar.
    Stjórninni er ætlað að semja úthlutunarreglur þar sem gætt verði að sjónarmiðum hæfilegrar fjarlægðar við úthlutun opinbers fjár og í því sambandi horft til framkvæmdar verkefnisins List fyrir alla.
    Miðað er við að sjóðurinn fái til verkefna sinna 100 millj. kr. á ári frá ársbyrjun 2019 til ársloka 2023. Í reglum sjóðsins skal kveðið á um að úthlutun úr sjóðnum fari fram á degi barnsins, síðasta sunnudag í maí ár hvert, og er með því lögð áhersla á það mikilvæga hlutverk sem börn skipa í íslensku samfélagi.

Nýtt hafrannsóknaskip.
    Með tillögunni er lagt til að hafin verði smíði hafrannsóknaskips með sérstöku viðbótarframlagi af fjárlögum næstu þrjú ár, 2019–2021, sem skiptist þannig að 300 millj. kr. verði varið til hönnunar og undirbúnings á árinu 2019 og 1.600 millj. kr. hvort ár 2020 og 2021 til smíði skipsins.
    Við Ísland mætast kaldir og hlýir hafstraumar sem skapa skilyrði fyrir mikla uppblöndun næringarefna og frumframleiðni og þar með auðugt lífríki. Þess vegna búa Íslendingar við ríkuleg fiskimið. Nýting sjávarfangs lagði grunn að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og þar með fullveldinu. Það er stefna stjórnvalda að nýting lifandi auðlinda sjávar sé byggð á bestu fáanlegu þekkingu og ráðgjöf hverju sinni. Það hefur reynst þjóðinni farsælt. Allir helstu fiskistofnar eru í ágætu ástandi. Er Ísland hér í fararbroddi og er litið til landsins sem fyrirmyndar á þessu sviði. Þessi staða auk ábyrgrar nýtingar og meðferðar á aflanum er hornsteinn íslensks sjávarútvegs. Mikilvægt framlag Íslendinga til þróunarstarfa er að miðla þessari þekkingu m.a. með starfrækslu Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.
    Þegar hafa orðið miklar breytingar á umhverfi sjávar. Loftslag er að hlýna og sjávarstraumar að breytast. Hafið hefur hlýnað og vistkerfi hafsins eru að breytast. Í hafinu í kringum Ísland og norðan við landið eru þessar breytingar miklar og hraðar. Þegar má sjá breytingar á vistkerfum hafsins í kringum Ísland. Norðlægar tegundir hörfa norðar en suðlægar tegundir sækja á. Dæmi um þessar breytingar er að loðna, sem er norðlæg tegund, hefur fært sig norðar, en auk þess að vera góður veiðistofn er hún mjög mikilvæg sem fæða margra annarra tegunda eins og þorsks. Annað dæmi er makríll sem var fyrir stuttu sjaldgæf tegund hér við land. Miklar áskoranir eru fólgnar í vöktun umhverfisþátta vistkerfa og breytinga í afkomu einstakra stofna. Þá þarf að fylgjast mjög vel með kolefnisbúskap og súrnun sjávar. Aukning plasts í hafi og annar mengunarvandi kallar einnig á auknar rannsóknir, auk þess sem þörf er á auknum örverurannsóknum. Kortlagning hafsbotnsins og efstu jarðlaga hans í lögsögu Íslands er hafin. Þetta er mjög umfangsmikið verk og kallar á mikið úthald öflugra skipa. Áformað er að verkinu ljúki innan tíu ára. Samhliða þeirri kortlagningu eru búsvæði botndýra og einstakar náttúrumyndanir kortlagðar. Slíkar rannsóknir eru forsenda þess að skilja betur vistkerfið í hafinu, meta verndargildi einstakra svæða, efla verndun og stýra nýtingu á markvissari hátt. Nýtt og vel búið hafrannsóknaskip mun styrkja þessar rannsóknaráherslur til muna.
    Meginforsenda þess að Íslendingar geti tekist á við þær breytingar sem eiga sér nú stað á umhverfi hafsins og vistkerfi þess eru viðamiklar haf- og fiskirannsóknir, þ.m.t. reglulegar stofnmælingar á helstu nytjastofnum. Það er nauðsynlegt til að nýtingin sé sjálfbær og hún byggð á bestu fáanlegu þekkingu. Íslendingar þurfa að ráða yfir góðum og vel búnum rannsóknaskipum sem geta sinnt haf- og umhverfisrannsóknum, eru vel búin til bergmálsmælinga á uppsjávarstofnum, útbúin veiðarfærum til rannsókna á stofnum í upp-, mið- og botnsjó auk þess að geta rannsakað umhverfi með myndavélum og fjölgeislamæli. Þá eru rannsóknaskipin mikilvægur vettvangur kennslu og rannsókna fyrir háskólanema og til uppfræðslu á öðrum skólastigum.
    Hafrannsóknastofnun á og rekur tvö rannsóknaskip. Þar að auki hafa verið leigð fiskiskip til ákveðinna verkefna. Stofnmæling botnfiska vor og haust eru stærstu verkefni stofnunarinnar þar sem leiguskip eru notuð. Sífellt erfiðara er að fá skip til þeirra verkefna vegna þess að skipum í flotanum hefur fækkað og ný skip eru í fullri notkun við atvinnuveiðar. Því þarf að treysta nánast alfarið á rannsóknaskip. Þá hefur breytt útbreiðsla uppsjávarfiska og miklar breytingar á stofnstærð þeirra kallað á auknar mælingar rannsóknaskipanna. Annað skipa stofnunarinnar, Árni Friðriksson, er smíðað árið 2000 en hitt árið 1970. Eldra skipið, Bjarni Sæmundsson, er því að verða 50 ára gamalt og löngu búið að gegna sínu hlutverki. Skipið stenst ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til rannsóknaskipa um aðbúnað og tæki og er auk þess þungt í rekstri.
    Öflugar hafrannsóknir og vöktun á umhverfi sjávar eru forsenda sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlindanna sem auka þekkingu á umhverfinu og þeim breytingum sem þar eru að verða. Með þingsályktunartillögu þessari er því lagt til að þegar á næsta ári verði hafinn undirbúningur að smíði nýs hafrannsóknaskips og það verði smíðað á árunum 2020 og 2021. Með því er horft til þess að Ísland geti áfram verið í forustu í góðri umgengni við náttúruna og í haf- og fiskirannsóknum.