Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 3  —  3. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað „9,45 kr.“, „8,25 kr.“, „11,65 kr.“ og „10,35 kr.“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: 10,40 kr.; 9,10 kr.; 12,80 kr.; og: 11,40 kr.

2. gr.

    Í stað „10,40 kr.“, „9,10 kr.“, „12,80 kr.“ og „11,40 kr.“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: 11,45 kr.; 10,00 kr.; 14,10 kr.; og: 12,55 kr.

II. KAFLI

Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað „119,60 kr.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 122,60 kr.
     b.      Í stað „108,95 kr.“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 111,65 kr.
     c.      Í stað „147,40 kr.“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 151,10 kr.
     d.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Áfengisgjald skal lagt á í samræmi við upplýsingar um vínandamagn sem tilgreindar eru á umbúðum vöru.
    Telji tollstjóri eða ríkisskattstjóri að upplýsingar á umbúðum séu rangar er þeim heimilt að mæla vínandamagn eða fela það öðrum viðurkenndum aðila og miðast álagning áfengisgjalds þá við niðurstöðu þeirra mælinga. Kostnaður við mælingar skal greiddur af framleiðanda eða innflytjanda vörunnar hafi vínandamagn verið ranglega tilgreint.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað „491,05 kr.“ í 1. tölul. kemur: 503,35 kr.
     b.      Í stað „27,30 kr.“ í 2. tölul. kemur: 28,00 kr.
     c.      Í stað „27,30 kr.“ í 3. tölul. kemur: 28,00 kr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað „616,85 kr.“ í 1. tölul. kemur: 632,25 kr.
     b.      Í stað „34,25 kr.“ í 2. tölul. kemur: 35,10 kr.

III. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

6. gr.

    Í stað „27,35 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 28,05 kr.

7. gr.

    Í stað „44,10 kr.“ og „46,75 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 45,20 kr.; og: 47,90 kr.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað „61,30 kr.“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: 62,85 kr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                 Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
10.000–11.000 0,32 21.001–22.000 7,75
11.001–12.000 0,99 22.001–23.000 8,44
12.001–13.000 1,67 23.001–24.000 9,10
13.001–14.000 2,36 24.001–25.000 9,78
14.001–15.000 3,03 25.001–26.000 10,44
15.001–16.000 3,71 26.001–27.000 11,13
16.001–17.000 4,38 27.001–28.000 11,82
17.001–18.000 5,05 28.001–29.000 12,49
18.001–19.000 5,73 29.001–30.000 13,15
19.001–20.000 6,39 30.001–31.000 13,83
20.001–21.000 7,09 31.001 og yfir 14,50
     b.      6. mgr. orðast svo:
                 Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
5.000–6.000 9,51 18.001–19.000 25,11
6.001–7.000 10,29 19.001–20.000 26,24
7.001–8.000 11,08 20.001–21.000 27,40
8.001–9.000 11,87 21.001–22.000 28,55
9.001–10.000 12,63 22.001–23.000 29,66
10.001–11.000 13,76 23.001–24.000 30,80
11.001–12.000 15,23 24.001–25.000 31,94
12.001–13.000 16,69 25.001–26.000 33,08
13.001–14.000 18,14 26.001–27.000 34,20
14.001–15.000 19,61 27.001–28.000 35,36
15.001–16.000 21,05 28.001–29.000 36,50
16.001–17.000 22,51 29.001–30.000 37,64
17.001–18.000 23,99 30.001–31.000 38,75
31.001 og yfir 39,90

10. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2018, sem stendur frá 1. til 15. desember 2018, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. janúar 2019.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2019 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. janúar 2019 og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. janúar 2019.

V. KAFLI

Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „5.925 kr.“ og „142 kr.“ í 2. mgr. kemur: 6.075 kr.; og: 146 kr.
     b.      Í stað „55.510 kr.“, „2,37 kr.“ og „87.375 kr.“ í 4. mgr. kemur: 56.900 kr.; 2,43 kr.; og: 89.560 kr.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Í stað „0,0385%“ í a-lið 1. tölul. kemur: 0,0376%.
     b.      Í stað „0,4403%“ í 2. tölul. kemur: 0,4200%.
     c.      Í stað „0,0236%“ og „0,0128%“ í 6. tölul. kemur: 0,0254%; og: 0,0137%.
     d.      Í stað „0,0091%“ í 9. tölul. kemur: 0,0084%.
     e.      Í stað „0,0087%“ í 11. tölul. kemur: 0,0092%.
     f.      Í stað „0,01%“ í 12. tölul. kemur: 0,0094%.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, með síðari breytingum.

13. gr.

    Í stað „0,00888%“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,00835%.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

14. gr.

    Í stað „11.175 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 11.454 kr.

15. gr.

    Í stað „2017 og 2018“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2017, 2018 og 2019.

16. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Vegna útreiknings á dvalarframlagi skv. 21. gr. er á tímabilinu 1. janúar 2019 til og með 31. desember 2019 unnt að óska eftir því að Tryggingastofnun ríkisins beri saman útreikning dvalarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Ef samanburðurinn sýnir aukna kostnaðarþátttöku heimilismanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta dvalarframlag vegna framangreinds tímabils til samræmis við það.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað „2018“ í 14. tölul. kemur: 2019.
     b.      Í stað „2018“ þrívegis í 1. málsl. 18. tölul. kemur: 2019.
     c.      Í stað „31,75%“ í 1. málsl. 18. tölul. kemur: 36,23%.

X. KAFLI

Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað „2018“ þrívegis kemur: 2019.
     b.      Í stað „31,75%“ kemur: 36,23%.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

19. gr.

    Í stað „1. janúar 2018 til 31. desember 2018“ í ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum kemur: 1. janúar 2019 til 31. desember 2019.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum.

20. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2019 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.852,8 millj. kr. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 75,9 millj. kr. á árinu 2019.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.

21. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 934 kr. á mánuði árið 2019 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum.

22. gr.

    Í stað „2018“ og „627 kr.“ í 4. mgr. 14. gr. laganna kemur: 2019; og: 1.256 kr.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, með síðari breytingum.

23. gr.

    Í stað „17.100 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 17.500 kr.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.

24. gr.

    Í stað „og 2018“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 2018 og 2019.

XVII. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, með síðari breytingum.

25. gr.

    Í stað „ársins 2018“ í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum kemur: ársins 2019.

XVIII. KAFLI

Breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka IV við lögin:
     a.      Í stað „0,20 kr./kg“ fyrir tollskrárnúmer 2710.1920 kemur: 35,00 kr./kg.
     b.      Á brennsluolíur (svartolíu) sem flokkast undir tollskrárnúmer 2710.1940 skal leggja úrvinnslugjald sem nemur 0,20 kr./kg.

27. gr.

    Í viðauka XVI við lögin bætast við tvö tollskrárnúmer, 8701.2021 og 8701.2029 (dráttarbifreiðar fyrir festivagna), og á þau skal leggja úrvinnslugjald vegna hjólbarða (BS), 18.000 kr./stk.

XIX. KAFLI

Breyting á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, með síðari breytingum.

28. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. er ráðherra heimilt að leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem fram kemur mat á líklegri þróun samfélags-, atvinnu-, umhverfis- og byggðaþátta og lýðfræðilegra breytna til næstu áratuga og áhrifum þeirra á afkomu, fjárhagsstöðu og skuldbindingar opinberra aðila eigi síðar en í árslok 2019.

XX. KAFLI

Gildistaka.

29. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 2. gr. öðlast gildi 1. janúar 2020.
    Ákvæði 14. gr. kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2019 vegna tekna ársins 2018.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 1., 3.–13., 17., 19. og 22.–27. gr. gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í beinum tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019. Tillögur þess hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Frumvarpið hefur auk þess að geyma tillögur að breytingum sem talið er nauðsynlegt að samþykktar verði sem lög á haustþingi 2018.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Hækkun á kolefnisgjaldi um 10% árið 2019 og 10% árið 2020.
          Hækkanir á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi á áfengi og tóbak verði 2,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins.
          Áfengisgjald verði miðað við þær upplýsingar sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru.
          Breytingar á gjaldskrám Fjármálaeftirlitsins verði í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar.
          Lækkun gjaldhlutfalls vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.
          Bráðabirgðaákvæði sem koma skal í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar.
          Framlenging á ákvæði til bráðabirgða til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju.
          Framlenging bráðabirgðaákvæða um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
          Hækkun á framlagi til Kristnisjóðs og þjóðkirkjunnar.
          Hækkun á sóknargjöldum.
          Breytingar á fjárhæð losunargjalds samkvæmt lögum um loftslagsmál.
          Framlenging á bráðabirgðaákvæðum þar sem kveðið er annars vegar á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2019 og hins vegar að atvinnurekendur sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóðir greiði áfram sama hlutfall af stofni til iðgjalds á árinu 2019 eða 0,10%.
          Lagfæring á ýmsum tollskrárnúmerum sem bera eða ættu að bera úrvinnslugjald.
          Breytingar á lögum um opinber fjármál þar sem gert er ráð fyrir fráviki frá þeirri skyldu ráðherra að leggja fyrir Alþingi skýrslu um samfélagsþróun og áhrif hennar á opinber fjármál eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Ráðherra verður heimilt að leggja skýrsluna fram eigi síðar en í árslok 2019.

3. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
    Eftirfarandi er nánari umfjöllun um breytingartillögur frumvarpsins.

3.1. Hækkun kolefnisgjalds.
    Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 var með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir að fjárhæðir kolefnisgjalds hækkuðu um 10% við upphaf árs 2019 og aftur um 10% við upphaf árs 2021. Í þessu samhengi er einnig rétt að nefna að 31. maí 2017 samþykkti Alþingi ályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, nr. 18/146, þar sem ákveðið var að tryggja bæri hagrænar forsendur sem stuðluðu að orkuskiptum og orkusparnaði. Sérstaklega var tekið fram að hvetja bæri neytendur og fyrirtæki til að velja vistvæna tækni og orkugjafa sem stuðluðu að aukinni framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa.
    Skattlagning koltvísýringslosunar gerir stjórnvöldum fært að beina samfélaginu í átt að kolefnishlutleysi. Hún hvetur einstaklinga og lögaðila til að bæta orkunýtingu og til að nota hreina orku. Hækkun kolefnisgjalds sendir skýr skilaboð til neytenda, atvinnurekenda og fjárfesta um að það skilar árangri og borgar sig að fjárfesta í tækjum og búnaði sem draga úr losun koltvísýrings. Jafnframt fá þeir betri tilfinningu fyrir því að losun koltvísýrings hefur samfélagslegan kostnað í för með sér. Það kostar að losa kolefni út í andrúmsloftið við brennslu jarðefnaeldsneytis og eftir því sem losunin er meiri verður skattlagningin hærri í formi kolefnisgjalds. Verulegu máli skiptir að vel takist til við orkuskipti á Íslandi.
    Áætlaður tekjuauki ríkissjóðs af 10% hækkun kolefnisgjalds er 550 millj. kr. að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt á árinu 2019 og svipuð fjárhæð árið 2020. Að teknu tilliti til hækkunarinnar verða áætlaðar tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi tæplega 6 milljarðar kr. árið 2019.
    Þá voru fjárhæðir kolefnisgjalds hækkaðar um 50% á yfirstandandi ári með vísan til markmiðs um að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að draga úr losun koltvísýrings með orkuskiptum eða bættri orkunýtingu.

3.2. Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta.
    Í frumvarpinu eru tillögur um 2,5% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Er þá miðað við áætlaða tólf mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs yfir árið 2018 sem er 3% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Hins vegar er gert ráð fyrir að krónutölugjöldin hækki ekki meira en sem nemur 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Hér er um að ræða olíugjald, almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 1,6 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.

3.3. Áfengisgjald miðað við upplýsingar sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru.
    Gert er ráð fyrir að áfengisgjald verði miðað við upplýsingar sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru og stjórnvöldum veitt heimild til að mæla vínandamagnið ef þau telja að upplýsingar á umbúðum séu rangar. Rekja má tilefni þessara breytinga á lögunum til niðurstöðu yfirskattanefndar í úrskurði nr. 116/2015. Þar kom fram að miða ætti álagningu áfengisgjalds við upplýsingar um vínandamagn áfengrar vöru sem fram kæmu í vottorðum vörunnar í þeim tilfellum þegar innflytjandi hennar gæti lagt slík vottorð fram, en fram að uppkvaðningu úrskurðarins hafði tollstjóri talið rétt að miða áfengisgjald í öllum tilvikum við upplýsingar á umbúðum vörunnar.

3.4. Gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins.
    Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds og ýmsum lágmarks- og fastagjöldum skv. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 2. gr. laganna. Breytingarnar endurspegla álagt eftirlitsgjald að fjárhæð 2.330 millj. kr. Gert er ráð fyrir að heildargjöld verði 2.429,8 millj. kr. og aðrar tekjur nemi 41,2 millj. kr. án fjármagnsliða. Þannig er gert ráð fyrir að heildargjöld nemi 58,6 millj. kr. umfram samtölu tekna og verði mætt með lækkun á eigin fé stofnunarinnar. Álagningarstofn eftirlitsgjalds eftirlitsskyldra aðila eru ýmist eignir eða rekstrartekjur.

3.5. Greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
    Lögð er til lækkun á gjaldhlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar og er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Í 7. gr. laga nr. 166/2011 er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 283,9 millj. kr. á árinu 2019. Álagningarstofn gjaldsins eru öll útlán gjaldskyldra aðila.

3.6. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Lögð er til 2,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlags-forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2019. Samkvæmt því verður gjaldið 11.454 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2019 vegna tekna ársins 2018. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði um 64 millj. kr. viðbótartekjum á ári.

3.7. Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna.
    Lagt er til nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2019. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs því aukast um 895 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið.

3.8. Samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða.
    Með lögum nr. 106/2011, sem samþykkt voru í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum annars vegar og hins vegar hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum frá 3. desember 2010, var tímabundið komið í veg fyrir þá víxlverkun milli örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum sem orðið hafði í samspili þessara tveggja meginstoða í lífeyristryggingum.
    Víxlverkanir þessar lýsa sér þannig að samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð lækka lífeyrisgreiðslur og bætur félagslegrar aðstoðar í mörgum tilfellum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þá er mælt fyrir um það í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að sjóðfélagi í lífeyrissjóði eigi rétt á örorkulífeyri úr viðkomandi sjóði hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutaps sem er metið 50% eða meira. Ákvæðið hefur verið útfært nánar í samþykktum lífeyrissjóða þar sem kveðið er á um að heildartekjur örorkulífeyrisþega eftir orkutap verði ekki umfram þær tekjur sem hann hafði fyrir orkutap. Við samanburð á heildartekjum fyrir og eftir orkutap líta lífeyrissjóðir m.a. til greiðslna almannatrygginga sem oft hefur leitt til þess að greiðslur til örorkulífeyrisþega úr lífeyrissjóðum hafa lækkað eða jafnvel fallið niður. Við þá tekjulækkun öðlast hinir sömu einstaklingar aukin réttindi innan almannatryggingakerfisins sem aftur leiðir til enn frekari lækkunar á greiðslum frá lífeyrissjóðunum við næsta samanburð og síðan koll af kolli. Gagnkvæm tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum getur því leitt til tíðra breytinga á örorkulífeyrisgreiðslum og tilsvarandi óöryggis lífeyrisþega sem fyrst og fremst hafa komið örorkulífeyrisþegum illa.
    Til að komið verði í veg fyrir að framangreind víxlverkun eigi sér stað á árinu 2019 er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæða í lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð og ákvæðis til bráðabirgða XI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði framlengdur um eitt ár. Ef ekki væri gripið til þess að framlengja ákvæðið er gert ráð fyrir að nettó myndu útgjöld ríkissjóðs lækka um 500 millj. kr.
    Gert er ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2019. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 300.000 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 1 milljarð kr. á árinu 2019.

3.9. Framlag til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs.
    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2019 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 41,7 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2018. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 900 þús. kr. á árinu 2019.

3.10. Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 931 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 934 kr. fyrir árið 2019. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2018, með breytingu á lögum nr. 91/1987, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 3.303,2 millj. kr. framlagi til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins og nemur heildarhækkun sóknargjaldsins frá fjárlögum fyrir árið 2018 því 47,1 millj. kr. Viðræður standa yfir milli stjórnvalda og þjóðkirkjunnar um hverjar framtíðartekjurnar verða.

3.11. Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárhæð losunarheimilda skv. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál. Í 14. gr. laganna er kveðið á um losunargjald sem lagt er á rekstraraðila starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir samkvæmt greininni. Í ljósi þess að losunargjaldið hefur einkenni skatts, sbr. 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, þarf að uppfæra gjaldið árlega og er því mælt fyrir um fjárhæð gjaldsins í frumvarpinu.
    Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2019 skuli vera 1.256 kr. fyrir hvert tonn. Í því sambandi má geta að fjárhæð losunargjalds var 968 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar árið 2017 en lækkaði í 627 kr. fyrir hvert tonn árið 2018. Nauðsynlegt er að lögfesta fjárhæð losunargjalds vegna losunar á árinu 2019 í síðasta lagi 31. desember 2018 svo rekstraraðilum starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir verði ljóst fyrir upphaf árs 2019 hver upphæð losunargjalds verður vegna losunar 2019.
    Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál skal Umhverfisstofnun fyrir 31. maí ár hvert afhenda innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu um magn gjaldskyldrar losunar. Innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi starfsstöðvar skal því næst fyrir 1. júlí ár hvert leggja á og innheimta losunargjald af starfsstöðvum sem hafa verið undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar 2018 um magn gjaldskyldrar losunar árið 2017 voru fjórar starfsstöðvar undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Tvær starfsstöðvar voru með losun umfram þann fjölda heimilda sem þeim hefði verið úthlutað endurgjaldslaust hefðu þær verið þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Þessum starfsstöðvum bar því að greiða losunargjald sem var eftirfarandi samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar: Gjaldskyld losun Fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja hf. í Vestmannaeyjum var 945 tonn CO2 og fjárhæð losunargjalds samkvæmt því 914.760 kr.; gjaldskyld losun Steinullar hf. var 462 tonn CO2 og fjárhæð losunargjalds 447.216 kr.
    Í skýringum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, var lagt til að við ákvörðun losunargjaldsins yrði byggt á upplýsingum um markaðsverð losunarheimilda frá Intercontinental Exchange kauphöllinni í London (ICE) en þar voru, þegar frumvarpið var lagt fram, rúmlega 90% af viðskiptum með losunarheimildir í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Til að fá traustar og hlutlægar upplýsingar um markaðsverðið var samið við KPMG ehf. um að útbúa skýrslu um meðalverð losunarheimilda á tímabilinu 1. ágúst 2017 til 31. júlí 2018. Í skýrslu KPMG, dags. 1. ágúst 2018, kemur fram að meðalverð losunarheimilda á fyrrgreindu tímabili hafi verið 10,1 evra á hvert tonn af koldíoxíði eða ígildi þess, eða 1.255,9 kr. miðað við meðaltal af miðgengi evru hjá Seðlabanka Íslands á tímabilinu. Við útreikning meðalverðs var stuðst við söguleg gögn um viðskipti með losunarheimildir í Intercontinental Exchange kauphöllinni. Við útleiðslu meðalverðs var notast við vegið meðaltal samfelldra ferla frá Intercontinental Exchange sem aðgengilegir eru í gagnaveitunni Capital IQ. Gagnaveitan setur verð losunarheimilda fram sem verð af þremur nýjustu framvirku samningunum sem til eru á markaðinum hverju sinni. Meðalverð losunarheimilda var reiknað út frá gögnum framangreindrar kauphallar, miðað við vægi þeirra í heildarfjölda samninga á hverjum degi. Á tímabilinu frá 1. ágúst 2017 til 31. júlí 2018 áttu viðskipti sér stað 202 daga alls. Meðalverð tímabilsins var reiknað út sem meðaltal af framangreindu vegnu meðalverði dagsviðskipta, ef einhver voru.
    Lagt er til að framangreindir útreikningar KPMG verði lagðir til grundvallar við ákvörðun losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2019. Starfsstöðvar sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfisins skv. 14. gr. laganna skulu samkvæmt því greiða 1.256 kr. fyrir hvert tonn losunar gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á tímabilinu 1. janúar 2019 til 31. desember 2019. Miðað við álagt gjald árið 2018 eru tekjuáhrifin 1–2 millj. kr.

3.12. Sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins.
    Lagt er til að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 17.100 kr. í 17.500 kr. eða sem nemur almennum verðlagsbreytingum árið 2018. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 115 millj. kr. árlega.

3.13. Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Hér er lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lögum um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2019. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014, 2015, 2016, 2017 og 2018. Eftir sem áður er gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum eða 0,10%. Þá er gert ráð fyrir því að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra annars vegar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, SES, hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2019 leggi ríkissjóður starfsendurhæfingarsjóði til framlag á fjárlögum.

3.14. Úrvinnslugjald.
    Lagt er til að lagfærð verði ýmis tollskrárnúmer sem bera eða ættu að bera úrvinnslugjald. Um er að ræða álagningu á smurolíu, svartolíu og hjólbarða á tækjum. Nánar verður fjallað um breytingartillögurnar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

3.15. Frávik frá skyldu ráðherra að leggja fyrir Alþingi skýrslu um samfélagsþróun og áhrif hennar á opinber fjármál.
    Með setningu laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, lögfesti Alþingi ákvæði um framkvæmd langtímaáætlana og sviðsmyndagreininga um samfélagsþróun og áhrif hennar á opinber fjármál til nokkurra áratuga í senn. Samkvæmt 9. gr. laganna er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi, eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, skýrslu um slíkt mat á horfum til langs tíma. Innleiðing á öllum helstu þáttum laganna um opinber fjármál hefur verið í höndum sérstakrar verkefnisstjórnar hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Verkefnið um langtímaáætlanagerð hefur verið til skoðunar þar og undirbúið í stórum dráttum en af ýmsum ástæðum hefur verið beðið með að setja það í gang, aðallega sökum þess að ýmsir aðrir brýnni þættir sem þurfti að hrinda í framkvæmd á fyrstu stigum nýja fyrirkomulagsins hafa gengið fyrir. Einnig þurftu sumir verkþættir að komast áleiðis sem undanfarar langtímaáætlunar, svo sem undirbúningur að endurbættu fyrirkomulagi á þjóðhagsspá og spálíkaninu. Þá hefur fremur fámennur hópur sérfræðinga hjá stjórnsýslunni, sem þarf að byggja upp þessa nýju langtímaáætlanagerð, verið undir miklu álagi frá því lögin tóku gildi við gerð áætlana til skemmri og meðallangs tíma litið auk tíðra stjórnarskipta frá gildistöku laganna og hefur það valdið nokkrum töfum. Að mati verkefnisstjórnar ráðuneytisins er ljóst að aðdragandi að slíkri skýrslu, þar sem koma þarf á samstarfi ýmissa aðila og útfæra margvíslegar forsendur, reikniverk og greiningar í fyrsta sinn, mun taka a.m.k. eitt ár. Með hliðsjón af því að lög um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016 er sá skilningur lagður í 9. gr. laganna að fyrsta skýrslan af þessum toga hefði að óbreyttu átt að koma fram fyrir árslok 2018. Er því gerð tillaga um að sett verði bráðabirgðaákvæði við lögin til að fresta fyrstu útgáfu hennar til ársloka 2019.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á ákvæðum skattalaga sem hafa verið í gildi um nokkra hríð. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var stuðst við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019. Við gerð þess var haft samráð við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóra og tollstjóra.
    Í frumvarpinu er að finna breytingar á lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019. Vegna eðlis málsins og tengsla við frumvarp til fjárlaga voru frumvarpsáform, frummat á áhrifum og frumvarpsdrög ekki sett í samráðsferli samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, þar sem kveðið er á um að heimilt sé að víkja frá þessu ef mál eru sérlega brýn eða aðrar gildar ástæður eru fyrir hendi. Sjá ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 1. gr., 2. málsl. 3. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. samþykktarinnar.

6. Mat á áhrifum tillagna frumvarpsins.
    Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og sama má segja um áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Áætlaður tekjuauki ríkissjóðs af 10% hækkun kolefnisgjalds er 550 millj. kr. að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Áhrif þessa á vísitölu neysluverðs eru metin um 0,016% hækkun.
    Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals 179 millj. kr. en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs. Þá mun verðlagsuppfærsla krónutölugjalda (áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiðagjöld) auka tekjur ríkissjóðs um 1,6 milljarða kr. Þessar hækkanir munu óhjákvæmilega hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs og eru þau áhrif áætluð 0,06%.
    Heildaráhrif af framangreindum aðgerðum eru metin um 2,3 milljarðar kr. til hækkunar á tekjum og verðlagsáhrif samanlagt 0,076%.
    Aðrar breytingar eru taldar hafa óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Í greinunum er lagt til að fjárhæðir kolefnisgjalds verði hækkaðar um 10% 2019 og 10% 2020. Um nánari skýringar vísast til kafla 3.1 í greinargerðinni.

Um a–c-lið 3. gr., 4. og 5. gr.

    Í greinunum er lagt til að áfengis- og tóbaksgjöld verði hækkuð. Þetta er 2,5% hækkun gjalda til samræmis við almennar verðlagsbreytingar.

Um d-lið 3. gr.

    Lagt er til að áfengisgjald verði miðað við upplýsingar sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru. Er þetta gert til að einfalda álagningu áfengisgjalds og mun slík framkvæmd jafnframt tryggja samræmi í álagningu áfengisgjalds hvað varðar áfengi framleitt hérlendis annars vegar og innflutt áfengi hins vegar, enda ekki algengt að skýrslur um vínandamagn fylgi með sendingargögnum. Þá er slík framkvæmd jafnframt talin auka gagnsæi álagningar. Ef viðkomandi eftirlitsstjórnvald, þ.e. tollstjóri hvað varðar innflutt áfengi eða ríkisskattstjóri hvað varðar áfengi framleitt hérlendis, telur líklegt að upplýsingar á umbúðum séu rangar er heimilt að mæla vínandamagn eða fela það öðrum viðurkenndum aðila og miðast álagning áfengisgjalds þá við þær mælingar.

Um 6. og 7. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni hækki um 0,7 kr. á hvern lítra, úr 27,35 kr. í 28,05 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 1,1 kr. á hvern lítra, úr 44,10 kr. í 45,20 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 1,15 kr., úr 46,75 kr. í 47,90 kr. Hækkunin nemur 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019.

Um 8. gr.

    Í greininni er lögð til hækkun á fjárhæð olíugjalds sem greiða skal í ríkissjóð sem vörugjald af gas-, dísil- og steinolíu skv. 1. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004. Lagt er til að gjaldið verði hækkað um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019.

Um 9. gr.

    Hér er gerð tillaga um hækkun á fjárhæðum kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019.

Um 10. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvernig kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri ef ekki er komið með ökutæki til álestrar innan álestrartímabila.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 2,5% vegna almennra verðlagsbreytinga í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir hækkun gildandi álagningarhlutfalla rekstrarfélaga verðbréfasjóða, fagfjárfestasjóða og Íbúðalánasjóðs. Lögð er til lækkun á gildandi álagningarhlutfalli viðskiptabanka, vátryggingafélaga, lífeyrissjóða og Lánasjóðs sveitarfélaga. Önnur álagningarhlutföll haldast óbreytt.
    Framangreindar breytingar taka mið af endurmati á skiptingu kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins í samræmi við ákvæði laga nr. 99/1999.

Um 13. gr.

    Lögð er til breyting á hlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, sem miðað er við þegar gjald sem ætlað er að standa undir kostnaði vegna reksturs umboðsmanns skuldara er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Um 14. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, verði hækkað um 2,5% og nemi 11.454 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2019 vegna tekna ársins 2018.

Um 15. og 16. gr.

    Lögð er til framlenging á gildistíma ákvæðis til bráðabirgða VII í lögum um málefni aldraðra þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóður aldraðra hafi tímabundna heimild til að kosta rekstur hjúkrunarrýma aldraðra. Ástæða þessara ráðstafana er fjárhagsvandi ríkissjóðs og sparnaðarkrafa fjárlagaheimilda.
    Þá er gert ráð fyrir nýju ákvæði til bráðabirgða við lög um málefni aldraðra. Í ákvæðinu er kveðið á um að á tímabilinu frá 1. janúar 2019 til og með 31. desember 2019 sé unnt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi á kostnaðarþátttöku heimilismanna fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Með lögum nr. 166/2006 var dregið úr tengingum við tekjur maka heimilismanna og þær síðar afnumdar með lögum nr. 120/2009. Sýni samanburðurinn aukna kostnaðarþátttöku heimilismanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta dvalarframlag vegna ársins 2019 til samræmis við það. Sú niðurstaða sem er hagstæðari fyrir heimilismanninn verður því ætíð valin við útreikning á kostnaðarþátttöku hans og útreikning dvalarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um sams konar bráðabirgðaákvæði að ræða og í gildi er vegna ársins 2018. Gildandi ákvæði um heimild til samanburðar á útreikningi á kostnaðarþátttöku heimilismanna samkvæmt eldri og yngri lögum rennur út 31. desember 2018.

Um 17. gr.

    Í a-lið er lögð til framlenging á ákvæði í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, út árið 2019 en að öðrum kosti hefði það runnið sitt skeið í lok árs 2018. Kveðið er á um að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli örorkulífeyrisþegi hafa árlegt 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
    Samkvæmt b-lið skal við útreikning tekjutryggingar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. janúar 2019 til og með 31. desember 2019 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar, annars vegar samkvæmt reglum sem gilda á árinu 2019 og hins vegar reglum sem giltu árið 2013 auk 36,23% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna fyrir lífeyrisþega skal beitt.

Um 18. gr.

    Vísað er til skýringa við 17. gr. en í 18. gr. er kveðið á um útreikning heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Skal sömu reglu beitt og getið er um í 17. gr.

Um 19. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, verði framlengt um eitt ár og gildi út árið 2019. Það mun hafa þau áhrif að óheimilt verður á árinu 2019 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

Um 20. gr.

    Í greininni er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2019 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 41,7 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2018. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 900 þús. kr. á árinu 2019.

Um 21. gr.

    Í greininni er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 931 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 934 kr. fyrir árið 2019. Ákvörðuð hækkun nemur því um 0,32%.

Um 22. gr.

    Lagt er til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar skv. 4. mgr. 14. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Gert er ráð fyrir að breytingin muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Um nánari skýringar vísast til kafla 3.11 í greinargerðinni.

Um 23. gr.

    Lagt er til að sérstakt gjald sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og rennur til Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 17.100 kr. í 17.500 kr. til samræmis við almennar verðlagsbreytingar.

Um 24. gr.

    Lögð er til framlenging á ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2019. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013, 2014, 2015, 2016, 2017 og 2018. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að á árinu 2019 leggi ríkissjóður framlag að fjárhæð 739,5 millj. kr. til starfsendurhæfingarsjóða.

Um 25. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða III í lögunum verði framlengt um eitt ár. Atvinnurekendur, þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóðir munu því greiða áfram sama hlutfall af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, á árinu 2019 eins og á árunum 2016, 2017 og 2018 eða 0,10%.

Um 26. gr.

    Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra er innflutningur olíu sem á að flokkast í tollskrárnúmer 2710.1920 óverulegur en gera má ráð fyrir að olían endi að lokinni notkun með smurolíuúrgangi. Í a-lið 1. gr. er lagt til að úrvinnslugjald á tollskrárnúmer 2710.1920 sé það sama og lagt er á smurolíu eða 35 kr./kg.
    Leiðréttingu á tollskrárnúmeri fyrir svartolíu er að finna í b-lið 1. gr. Gert var ráð fyrir að innflutningur á svartolíu væri á tollskrárnúmeri 2710.1920 með úrvinnslugjaldi 0,2 kr./kg. Í raun er svartolía flutt inn á tollskrárnúmeri 2710.1940. Lagt er til að úrvinnslugjald á svartolíu á tollskrárnúmeri 2710.1940 verði 0,2 kr./kg. Sérstakur samningur er við innflytjendur á svartolíu um söfnun og endurnýtingu svartolíuúrgangs. Þar með er innflutningur svartolíu undanþeginn úrvinnslugjaldi, sbr. 8 gr. laga um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.

Um 27. gr.

    Í ljós hefur komið að úrvinnslugjald vegna hjólbarða vantar á tollskrárnúmer 8701.2021 og 8701.2029 í viðauka XVI við lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Um er að ræða dráttarbifreiðar fyrir festivagna. Lagt er til að úrvinnslugjald á þessi tollskrárnúmer verði 18.000 kr. á hvert tæki, sem er það sama og á önnur sambærileg tæki.

Um 28. gr.

    Samkvæmt 9. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem fram kemur mat á líklegri þróun samfélags-, atvinnu-, umhverfis- og byggðaþátta og lýðfræðilegra breytna til næstu áratuga og áhrifum þeirra á afkomu, fjárhagsstöðu og skuldbindingar opinberra aðila. Að óbreyttu hefði skýrslan átt að koma fram fyrir árslok 2018 en frá gildistöku laganna hinn 1. janúar 2016 hefur ekki gefist ráðrúm til að ljúka þeim undirbúningi sem slík skýrsla þarfnast. Ákvæðið gerir því ráð fyrir að veitt verði undanþága frá þeirri skyldu ráðherra að leggja fyrir Alþingi skýrslu um samfélagsþróun og áhrif hennar á opinber fjármál. Slík skýrsla verður því lögð fram í fyrsta sinn í árslok 2019.

Um 29. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.