Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 19  —  19. mál.
Málsnúmer.
Tillaga til þingsályktunar

                                  

um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.


Flm.: Kolbeinn Óttarsson Proppé, Andrés Ingi Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og jafnréttismálaráðherra að koma á fót ráðgjafarstofu innflytjenda, þ.m.t. að leggja til viðeigandi lagabreytingar. Hlutverk stofunnar verði að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf og upplýsingar til innflytjenda um þjónustu, réttindi og skyldur. Ráðgjafarstofan verði jafnframt vettvangur fyrir félagslegan og sálfélagslegan stuðning til að renna styrkari stoðum undir árangursríka samfélagsþátttöku á Íslandi. Ráðherra hafi náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og leiðandi sveitarfélög á sviði innflytjendamála um uppbyggingu og rekstur ráðgjafarstofunnar, Rauða krossinn, verkalýðshreyfinguna og önnur félagasamtök og stofnanir sem koma að málefninu. Ráðherra kynni Alþingi áætlun um verkefnið eigi síðar en 1. maí 2019.

Greinargerð.

    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að koma á fót miðlægri upplýsingastofu þar sem innflytjendur geta sótt allar þær upplýsingar um þjónustu, réttindi og skyldur sem auðvelda þeim að koma sér fyrir í nýju samfélagi. Með tillögunni er gert ráð fyrir að ráðgjafarstofa innflytjenda verði samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og þar geti innflytjendur sótt sér upplýsingar þvert á sveitarfélög. Með innflytjendum er átt við íbúa á Íslandi sem fæddir eru erlendis, óháð ríkisborgararétti, og nær hugtakið einnig yfir flóttamenn, sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd.
    Það er stórt skref hjá öllum að flytjast til annars lands og hefja þar nýtt líf. Ýmsar ástæður búa að baki því skrefi, en hvort sem það er stigið af sjálfsdáðum eða af illri nauðsyn er öllum í hag að njóta sem bestrar leiðsagnar um hið nýja samfélag. Það gerir breytingar á högum fólks léttari og stuðlar um leið að því að fólk verður mun fyrr virkt í samfélaginu og getur fyrr farið að gefa af sér. Það er því mikilvægt að allir geti á einum stað sótt sér upplýsingar um hið nýja samfélag, hvaða réttindi og þjónusta þar bjóðast, en einnig um þær skyldur sem íbúar þurfa að uppfylla. Ráðgjafarstofa innflytjenda yrði slíkur staður, þar sem nálgast mætti allar nauðsynlegar upplýsingar og ráðgjöf undir sama þaki (á ensku hefur slíkt verið kallað first-stop-shop).
    Víða um heim eru dæmi um sams konar stofnanir, þar sem unnið er eftir hugmyndafræði um að sameina alla þjónustu undir einu þaki, t.d. í Portúgal, 1 en þar má sérstaklega horfa til verkefnis í Lissabon, 2 Kanada 3 og Danmörku. 4 Víða er starfsemin raunar víðtækari og nær til ýmissa verkefna sem Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins sinna hér. Eftir því sem reynsla kemst á starfsemi ráðgjafarstofu innflytjenda er rétt að meta umfang starfseminnar og hvort eigi að útvíkka hana frekar til að gera kerfið enn einfaldara og skilvirkara.
    Umfangsmiklar úttektir og skýrslur hafa verið gerðar á stöðu og málefnum flóttafólks og innflytjenda á undanförnum árum. Áhersla er lögð á að við útfærslu verkefnisins verði horft til reynslu félagasamtaka hér á landi sem starfa með og í þágu innflytjenda. Þá verði m.a. horft til skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi frá 2015, 5 skýrslu félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda árið 2016, 6 stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd 2018–2022 frá 2017 7 og tillagna úr skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um greiningu á þjónustu við flóttafólk sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið 2016. 8
    Í síðastnefndu skýrslunni eru gerðar tillögur um umfangsmiklar breytingar á skipulagi og stjórnsýslu útlendinga- og innflytjendamála. Á meðal tillagnanna er að komið verði á fót stofnun útlendinga- og innflytjendamála til að „samhæfa og samstilla aðgerðir til úrlausnar margra verkefna sem hafa mikið flækjustig, geta í senn verið fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg og kalla á skjótar en um leið vandaðar ákvarðanir í málefnum einstaklinga og fjölskyldna“. Margar tillagnanna höggva í sama knérunn, að einfalda kerfið og gera það skilvirkara, enda er flækjustigið að ýmsu leyti hærra hér en í ýmsum samanburðarlöndum þar sem verkefnin eru á ábyrgð tveggja ráðuneyta og margra stofnana. Þá er í skýrslunni lagt til að hafin verði vinna við endurskoðun uppskiptingar málaflokksins á milli ráðuneyta.
    Mikilvægt er að horfa til hinna Norðurlandanna og þess fordæmis sem sett er í aðlögun umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna. Þá þurfi að horfa til reynslu Rauða krossins í þessum málaflokki.
    Í þessari þingsályktunartillögu er ekki gengið svo langt að krefjast uppstokkunar eða breytinga á skiptingu verkefna á milli ráðuneyta. Það er þó þarft verk að einfalda regluverkið í kringum málaflokkinn og skynsamlegt að hefja þá vinnu hið fyrsta.
    Hér er lagt til að setja á fót upplýsinga- eða ráðgjafarstofu sem standi öllum innflytjendum til boða. Þar verði á einum stað hægt að fá ráðgjöf og upplýsingar um réttindi og skyldur og hvaða þjónusta standi innflytjendum til boða sem ríkisvaldið og sveitarfélögin veita. Í því skyni er mikilvægt að öll sveitarfélög komi að uppbyggingu og rekstri stofunnar, þar sem aðstæður geta verið ólíkar á milli sveitarfélaga, sem og Rauði krossinn, sem hefur mikla reynslu í málaflokknum.
    Þá er einnig mikilvægt að haft sé gott samráð við alla þá aðila sem koma að málaflokknum, t.d. með ýmiss konar ráðgjöf og réttindagæslu. Þar má sérstaklega nefna verkalýðshreyfinguna og Vinnumálastofnun. Til þess að markmið tillögunnar nái sem best fram að ganga, verður samráðið að vera sem víðtækast.
    Í stefnu Reykjavíkurborgar er komið inn á samstarf við ríki og sveitarfélög. Fyrsti áherslupunkturinn um samstarfið hljóðar svo:
    „Ríki og sveitarfélög standi saman að stofnun upplýsingamiðstöðvar sem staðsett verður í Reykjavík þar sem boðið verður upp á aðgengilega og ókeypis ráðgjöf til innflytjenda um þjónustu, réttindi og skyldur.“
    Fyrirhuguð starfsemi ráðgjafarstofu innflytjenda er í samræmi við þessa samþykktu stefnu Reykjavíkurborgar og því mikilvægt að gott samráð verði haft við borgaryfirvöld. Flestir innflytjendur setjast að í höfuðborginni, eða á höfuðborgarsvæðinu, og því er eðlilegt að horfa til þess varðandi staðsetningu stofunnar. Mikilvægt er þó að gott samráð verði haft við öll sveitarfélög á landinu og sérstaklega þau á höfuðborgarsvæðinu.
    Við skipulag ráðgjafarstofu innflytjenda verði sérstaklega horft til Fjölmenningarseturs og verkefna þess, en skv. 3. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, eru þau m.a. að:
     a.      veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda,
     b.      vera sveitarfélögum til ráðgjafar við að taka á móti innflytjendum sem flytjast í sveitarfélagið,
     c.      taka saman og miðla upplýsingum um réttindi og skyldur innflytjenda,
     d.      fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, meðal annars með upplýsingaöflun, greiningu og upplýsingamiðlun,
     e.      koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna,
     f.      taka saman árlega skýrslu til ráðherra um málefni innflytjenda,
     g.      hafa eftirlit með framgangi verkefna sem fram koma í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, sbr. 7. gr.,
     h.      vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og einnig samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
    Hér eru mörg mikilvæg verkefni og sérstaklega þarf að huga að þeirri skörun sem gæti orðið á verkefnum stofnana og hvort gera þurfi lagabreytingar vegna þessa áður en ráðgjafarstofa innflytjenda tekur til starfa. Verkefni Fjölmenningarseturs snúa að miklu leyti að stjórnsýslunni, sveitarfélögum og ráðuneyti, sem og upplýsingasöfnun, þó upplýsingagjöf til einstaklinga sé einnig á verkefnaskránni. Fjölmenningarsetur er á Ísafirði og sinnir góðu starfi þar, en langflestir innflytjendur eru á höfuðborgarsvæðinu.
    Þó er mikilvægt að ráðgjafarstofan nýtist öllum óháð staðsetningu og því verði hugað vel að upplýsingatækni og unnið verði að því að þjónustu verði hægt að veita í gegnum fjarfundabúnað, svo sem viðtöl í gegnum Skype eða annan búnað.
    Rekstri ráðgjafarstofu innflytjenda væri best fyrir komið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Hvað fordæmi varðar má sérstaklega beina sjónum að Bjarkahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, sem starfrækt er í Reykjavík. Þar er öll þjónusta undir sama þaki, en ríki og Reykjavíkurborg hafa samstarf um reksturinn. Með þingsályktunartillögunni er ráðherra falið að hafa náið samráð við sveitarfélögin með slíkt samstarf í huga. Þá er lagt til að áætlun um verkefnið verði kynnt Alþingi eigi síðar en 1. maí 2019.

Kostnaður.
    Óvíst er hve mikill kostnaður hlýst af stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda og hve mikil áhrif stofnun hennar hefur á ríkissjóð. Vonast er til að samstarf náist við sveitarfélögin um rekstur og þá er viðbúið að einhver þjónusta færist til stofunnar frá öðrum sviðum og stofnunum og fjármunir fylgi með.
    Nefna má, til að hafa einhverjar tölur, að árlegur kostnaður við ríkisstofnun með fimm starfsmenn (kvörðunarþjónustu Neytendastofu) er um 55 millj. kr.
1     citiesofmigration.ca/good_idea/one-stop-shop-mainstreaming-integration/
2     www.acm.gov.pt/-/cnai-lisboa
3     www.welcomecentre.ca/
4     www.trampolinehouse.dk/
5     Ríkisendurskoðun, Málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi, mars 2015.
6     Velferðarráðuneytið, Skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda árið 2016, maí 2016.
7     Reykjavíkurborg, Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd 2018–2022, september 2017.
8     Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Greining á þjónustu við flóttafólk, 2016.