Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 182  —  179. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011, með síðari breytingum (gjald í stofnverndarsjóð).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað „1.500 kr.“ í 1. málsl. kemur: 3.500 kr.
     b.      Í stað „Bændasamtök Íslands“ í 2. málsl. kemur: Innheimtumaður ríkissjóðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 6. gr. laga nr. 27/2011, um útflutning hrossa. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samræmi við tillögu frá Bændasamtökum Íslands. Frumvarpið felur í sér að gjald fyrir hvert útflutt hross hækkar úr 1.500 kr. í 3.500 kr. Þá er innheimtu gjaldsins breytt þannig að í stað þess að Bændasamtökin annist innheimtuna sér innheimtumaður ríkissjóðs um hana. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð og mun framlag til stofnverndarsjóðs á fjárlögum taka mið af innheimtum tekjum. Gjald af hverju útfluttu hrossi rennur í stofnverndarsjóð skv. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, en um sjóðinn gilda ákvæði reglugerðar nr. 1123/2015, um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í 6. gr. laga um útflutning hrossa er mælt fyrir um gjaldtöku af hverju útfluttu hrossi og verður gjaldinu því ekki breytt nema með setningu laga. Hækkun gjaldsins er gerð að tillögu Bændasamtaka Íslands, en beiðni um hækkun gjaldsins barst ráðuneytinu fyrst í nóvember 2015 í kjölfar þess að Félag hrossabænda og fagráð í hrossarækt höfðu ályktað um það. Bændasamtök Íslands benda á að auknar tekjur muni efla sjóðinn til að takast á við þau verkefni sem honum er ætlað að styðja við, þ.e. að veita styrki til þróunar- og rannsóknarverkefna í hrossarækt.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Verði frumvarpið að lögum mun gjald af hverju hrossi hækka úr 1.500 kr. í 3.500 kr. Gjaldið mun renna í ríkissjóð sem veitir stofnverndarsjóði íslenska hestakynsins framlag á fjárlögum í samræmi við tekjur af gjaldinu. Fagráð í hrossarækt annast stjórn sjóðsins. Sjóðurinn er í vörslu Bændasamtaka Íslands sem annast reikningshald hans og ávöxtun í samráði við fagráðið. Ríkisendurskoðun endurskoðar reikninga stofnverndarsjóðs. Sjóðurinn veitir styrki til þróunar- og rannsóknaverkefna sem eiga að stuðla að viðhaldi verðmætra eiginleika í íslenska hrossastofninum, verndun erfðafjölbreytileika stofnsins og auka þekkingu á stofninum og útbreiðslu hans. Fagráð í hrossarækt auglýsir eftir umsóknum ár hvert og tekur ákvörðun um styrkveitingar. Stjórn Bændasamtaka Íslands staðfestir úthlutun styrkja eftir tillögum fagráðsins.
    Um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins gilda ákvæði reglugerðar nr. 1123/2015 en reglugerðin var endurskoðuð og birt í stjórnartíðindum 4. desember 2015. Þar var um að ræða endurskoðun á þágildandi reglugerð nr. 470/1999. Helstu breytingar sneru að því að veita sjóðnum aukið svigrúm til að úthluta árlega allt að 12 millj. kr. en samkvæmt eldri reglugerð gat sjóðurinn úthlutað takmörkuðum fjármunum. Þá var í nýrri reglugerð kveðið á um verklagsreglur við úthlutun styrkja úr sjóðnum. Eigið fé sjóðsins á árunum 2014–2017 var eftirfarandi: 2014 samtals 104.860.884 kr., 2015 samtals 96.531.002 kr. og 2016 samtals 88.843.599 kr. og 2017 samtals 85.543.817 kr. Tekjur í stofnverndarsjóðinn vegna útflutnings hrossa á árunum 2014–2017 voru: 2014 samtals 1.903.500 kr., 2015 samtals 2.016.000 kr., 2016 samtals 2.209.500 kr. og 2017 samtals 2.229.000 kr. Ef gjaldið yrði hækkað í 3.500 kr. af hverju útfluttu hrossi miðað við útflutning 2017, alls 1.486 hross, myndu tekjur sjóðsins hækka um 133% og verða rúmlega 5 millj. kr. á ári.
    Í fjárlögum 2002 var tilgreindur fjárlagaliður 04-826 Stofnverndarsjóður búfjár, en hann hélt utan um mál stofnverndarsjóðs íslenska hestakynsins og hafði 0,6 millj. kr. í fjárlögum 2002. Þessi fjárlagaliður var felldur niður í fjárlögum 2003. Það var gert samhliða breytingu á ákvæðum laga nr. 161/1994, um útflutning hrossa, þegar gjald af hverju útfluttu hrossi var lækkað. Ekki hafa komið fram staðfestar skýringar á því hverjar voru ástæður þess að liðurinn var felldur niður á fjárlögum. Svo virðist þó sem það hafi verið gert fyrir mistök eða vegna þess hversu óveruleg fjárhæðin var, en áætlaðar tekjur sjóðsins á árinu 2003 voru 0,4 millj. kr. Frá því að fjárlagaliðurinn var felldur niður árið 2003 hefur gjaldið verið hækkað. Það var 500 kr. í upphafi en er nú 1.500 kr. Auk þess eru nú fleiri hross flutt út. Tekjurnar hafa því hækkað frá því sem var árið 2003. Á árinu 2017 námu tekjur af gjaldinu um 2,2 millj. kr. Með vísan til framangreinds þykir rétt að tekjur og útgjöld vegna sjóðsins verði tilgreind í fjárlögum. Jafnframt þykir rétt að ríkissjóður annist innheimtu gjaldsins og er því lagt til að ákvæði 2. málsl. 6. gr. laganna, þess efnis að Bændasamtök Íslands annist innheimtu gjaldsins, verði breytt.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki er tilefni til að ætla að frumvarpið stangist á við stjórnarskrá eða hafi áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið m.a. vegna erindis Bændasamtaka Íslands um að hækka gjald í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins sem barst ráðuneytinu fyrst í nóvember 2015. Þar var einnig óskað tiltekinna breytinga á reglugerð um sjóðinn þar sem kveðið yrði á um hærri úthlutun úr honum. Ný reglugerð nr. 1123/2015 um sjóðinn var sett í kjölfarið en ekki talin ástæða til að hækka gjaldið fyrr en reynsla væri komin á heimildir til aukinnar úthlutunar úr sjóðnum. Erindi Bændasamtakanna var aftur tekið fyrir á árinu 2016 og var þá hafin vinna við gerð frumvarps þessa. Vinnsla málsins dróst vegna anna við innleiðingu búvörusamninga á árinu 2016 og málinu var svo frestað vegna stjórnarskipta. Fulltrúar Bændasamtaka Íslands funduðu með ráðherra vegna málsins 9. maí 2018 og sendu í kjölfarið nýtt erindi, dags. 17. maí 2018. Í erindinu kemur fram að almennt sé ekki heimilt að skerða höfuðstól sjóðsins að raungildi, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1123/2015, og því sé undir venjulegum kringumstæðum takmarkað fé til ráðstöfunar ár hvert. Á árunum 2015-2020 sé þó heimilt að ganga á sjóðinn samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í framangreindri reglugerð. Með hækkun gjaldsins vilji hrossaræktendur byggja upp sjóðinn svo hann sé betur í stakk búinn til að styðja við nauðsynleg verkefni þegar eldri reglur um ráðstöfun taka gildi að nýju árið 2021. Um þetta sé einnig sátt innan greinarinnar enda sé stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins eini þróunarsjóður hrossaræktarinnar.
    Frumvarpið var sett í opið samráð í samráðsgátt Stjórnarráðsins 24. ágúst til 2. september 2018. Auk þess var óskað athugasemda frá tollstjóra í kjölfar ábendingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þá leið að skynsamlegt væri að kveða á um það í 6. gr. laganna hvaða ríkisaðila yrði falin innheimtan.
    Bændasamtök Íslands sendu umsögn og kváðust styðja umrætt frumvarp og lögðu áherslu á mikilvægi þess að tekjur af gjaldinu myndu skila sér áfram óskertar í Stofnverndarsjóð. Tollstjóri skilaði jafnframt inn umsögn. Þar kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við að innheimta gjaldsins verði færð til innheimtumanns ríkissjóðs en bent er á að ákvæðið þurfi að vera skýrara hvað varðar álagningu gjaldsins, málsmeðferð og eftir atvikum viðurlög þar sem ekki kæmi fram í frumvarpinu hver legði gjaldið á, hver hefði eftirlit með álagningu þess og kæruleiðir. Einnig væri ekki vikið að gjalddögum og eftir atvikum eindögum og dráttarvöxtum.
    Þær umsagnir sem bárust þóttu ekki gefa tilefni til frekari breytinga á frumvarpinu. Umrætt gjald er ákveðin krónutala sem kveðið er á um í lögum nr. 27/2011 sem útflytjandi hrossa þarf að greiða af hverju útfluttu hrossi. Ekki er litið svo á að hægt verði að kæra álagningu umrædds gjalds enda ekki um matsbundna álagningu gjalds að ræða. Gjaldið er auk þess greitt við útflutning hrossa hverju sinni, það rennur í ríkissjóð og svo til stofnverndarsjóðs íslenska hestakynsins samkvæmt lögunum. Verkefni sjóðsins eru síðan skilgreind í reglugerð nr. 1123/2015 um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið mun hafa óveruleg áhrif á fyrirtæki og einstaklinga sem stunda útflutning á hrossum.
    Þá mun frumvarpið hafa þau áhrif að tekjur af gjaldi á útflutt hross á ári hverju munu aukast um tæplega 3 millj. kr. á ári. Tekjurnar hafa verið um 2,2 millj. kr. síðustu ár en verða um 5 millj. kr. Sjóðurinn hefur verið í vörslu Bændasamtaka Íslands sem hefur annast innheimtu gjaldsins. Verði frumvarpið að lögum mun innheimta gjaldsins færast til ríkisins, tekjurnar munu renna í ríkissjóð og fær stofnverndarsjóðurinn framlag á fjárlögum sem tekur mið af tekjunum. Bændasamtökin munu áfram annast umsýslu sjóðsins og úthlutanir úr sjóðnum eins og ákvæði reglugerðar nr. 1123/2015, um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins, mæla fyrir um.
    Hækkun gjaldsins er talin óveruleg og mun hún því ekki hafa áhrif á heildareftirspurn eða einstaka markaði. Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á stöðu kynjanna, þar sem ákvæði þess koma ekki með misjöfnum hætti niður á fyrirtækjum eða einstaklingum. Frumvarpið hefur áhrif á útflytjendur hrossa en ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um kynjahlutfall hrossaræktenda.
    Þá eru áhrif frumvarpsins á stjórnsýslu, þ.e. ráðuneyti og stofnanir, óveruleg þar sem umfang þess er lítið og gert er ráð fyrir að innheimta gjaldsins rúmist innan ramma þeirra sem koma að álagningu og innheimtu gjaldsins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu tekjur og gjöld ríkissjóðs aukast um 5 millj. kr. þar sem tekjur og gjöld sjóðsins hafa ekki verið á fjárlögum eða í bókhaldi ríkisins undanfarin ár. Áhrifin rúmast innan núgildandi ramma atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Verði frumvarpið að lögum mun gjald af hverju hrossi hækka úr 1.500 kr. í 3.500 kr. Þá er í greininni kveðið á um að innheimta gjaldsins verði í höndum hins opinbera í stað Bændasamtaka Íslands.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.