Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 190  —  71. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um kolefnisgjald.


     1.      Hver eru meginmarkmið stjórnvalda með álagningu kolefnisgjalds?
    Álagning kolefnisgjalds er liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum.
    Í þessu samhengi er rétt að nefna að hinn 31. maí 2017 samþykkti Alþingi ályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, nr. 18/146, þar sem þau áform voru m.a. látin í ljós að hagrænar forsendur sem stuðli að orkuskiptum og orkusparnaði yrðu tryggðar og sérstaklega tekið fram að hvetja bæri neytendur og fyrirtæki til að velja vistvæna tækni og orkugjafa sem stuðli að aukinni framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa. Jafnframt ályktaði Alþingi að markvisst ætti að hvetja til orkusparnaðar á öllum sviðum. Því er óhætt að segja að Alþingi hafi tekið virkan þátt í mótun þeirra markmiða sem liggja til grundvallar kolefnisgjaldi.

     2.      Hvernig leggst kolefnisgjald á íbúa á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og íbúa landsbyggðarinnar hins vegar og hvað skýrir muninn á gjaldheimtu milli þessara hópa?
    Kolefnisgjald er að meginstefnu lagt á innflutning jarðefnaeldsneytis. Byrðar af gjaldinu dreifast því jafnt á hvern lítra eða kíló eldsneytis óháð því hvar það er nýtt. Beint samhengi er milli eldsneytisnotkunar og byrðar kolefnisgjalds. Ekki liggja fyrir marktækar upplýsingar um mun á meðalnotkun ökutækja milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Rannsókn á útgjöldum heimilanna sem Hagstofa Íslands birtir eftir búsetu gefur hins vegar vísbendingar um að eldsneytisnotkun á íbúa á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli sé nokkuð áþekk en að hún sé þó nokkuð meiri í dreifbýli. Segja má að þessi munur endurspegli þá staðreynd að íbúar landsbyggðarinnar þurfa jafnan að ferðast um lengri veg til að sækja þjónustu en styttri vegalengd vegna vinnu.

     3.      Hve mikið hefur vöruverð hækkað árlega sl. þrjú ár vegna álagningar kolefnisgjalds og hve mikið hafa íbúðalán heimilanna hækkað árlega vegna þess?
    Almennt er talið að verðlagning á eldsneyti hafi áhrif á notkun eldsneytis, a.m.k. til lengri tíma litið. Þannig geta stjórnvöld haft áhrif á eldsneytisnotkun heimila og fyrirtækja fyrir tilstilli vörugjalda á eldsneyti. Ákveði stjórnvöld að auka skattlagningu eldsneytis dregur það úr notkun, að öðru óbreyttu, sem getur komið fram í minni akstri eða kaupum á sparneytnari bifreiðum. Hið gagnstæða gildir ef dregið er úr skattlagningu eldsneytis.
    Álagning kolefnisgjalds hefur að meginmarkmiði að draga úr koltvísýringslosun, hvetja til notkunar vistvænna ökutækja og orkusparnaðar líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. Aðgerðin, ásamt öðrum aðgerðum og utanaðkomandi þáttum, hefur leitt til þess að neytendur hafa fremur keypt sparneytnari og vistvænni ökutæki undanfarin ár. Hlutur jarðefnaeldsneytis vegur þar með minna í neyslukörfu landsmanna en ella. Erfitt er að einangra þau áhrif þar sem margir ólíkir þættir hafa áhrif á neyslukörfuna. Þar með er óraunhæft að meta raunveruleg áhrif álagningar kolefnisgjalds á vöruverð og íbúðalán heimilanna. Jafnframt er óljóst að hve miklu leyti álagning kolefnisgjalds hefur verið velt út í verðlagið enda er verðlagning eldsneytis frjáls.

     4.      Hvaða áhrif mun fyrirhuguð hækkun kolefnisgjalds um 10% á ári næstu tvö ár hafa, sbr. 2. og 3. tölul.?
    Líkt og fram kemur í svari við 2. tölul. má gera ráð fyrir að hækkun gjaldsins hafi nokkuð áþekk áhrif á íbúa á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli en hins vegar meiri áhrif á íbúa í dreifbýli. Fyrirhuguðum hækkunum kolefnisgjalds er ætlað að hafa áhrif á hegðun neytenda. Hins vegar er ófyrirséð hversu hratt neytendur munu bregðast við aðgerðunum og því er óraunhæft að álykta hve mikið íbúðalán heimilanna og vöruverð mun raunverulega hækka. Jafnframt er óljóst að hve miklu leyti álagningu kolefnisgjalds verður velt út í verðlagið enda er verðlagning eldsneytis frjáls.

     5.      Til hvaða mótvægisaðgerða hefur verið gripið til að verja heimilin fyrir neikvæðum áhrifum á greiðslubyrði og höfuðstól lána vegna álagningar kolefnisgjalds?
    Ekki hefur verið gripið til sérstakra mótvægisaðgerða til að verja heimilin fyrir neikvæðum áhrifum á greiðslubyrði og höfuðstól lána vegna álagningar kolefnisgjalds. Framlag kolefnisgjalds til verðbólgu er afar lítið og vandséð hvert markmið og þar af leiðandi fyrirkomulag slíkra aðgerða ætti að vera. Hins vegar er til þess að líta að skattar á almenning hafa í ýmsum skilningi lækkað undanfarin ár. Annars vegar á beinan hátt, t.d. með niðurfellingu almennra vörugjalda og tolla og með lækkun almenns þreps virðisaukaskatts, og hins vegar óbeint vegna fyrirkomulags vörugjalda á ökutæki og bifreiðagjalds, en í báðum tilvikum hefur verið tekið mið af skráðri losun ökutækja og gjöldin því lækkað jafnt og þétt frá árinu 2011. Þá hefur meðaleldsneytisnotkun ökutækja í eigu einstaklinga dregist saman undanfarin ár vegna minni eyðslu nýlegra ökutækja. Þess vegna má með góðu móti halda því fram að mótvægi við kolefnisgjald komi fram hjá þeim sem gjaldinu er ætlað að hafa áhrif á, þ.e. hjá þeim sem nota vélbúnað sem nýtir jarðefnaeldsneyti. Það er í samræmi við markmið skattlagningarinnar.

     6.      Hvaða áhrif hefur álagning kolefnisgjalds haft árlega á fjárhag og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja í helstu atvinnugreinum landsmanna?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. er meginmarkmið kolefnisgjalds að hvetja til notkunar vistvænna orkugjafa, orkusparnaðar og minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Sé horft einvörðungu til álagningar kolefnisgjalds án tillits til nokkurs annars er ljóst að álagningin hefur neikvæð áhrif á fjárhag og samkeppnisstöðu þeirra atvinnufyrirtækja sem nýta jarðefnaeldsneyti í starfsemi sinni en þó því minni áhrif sem fyrirtækið hefur brugðist meira við með bættri orkunýtingu eða notkun vistvænni orkugjafa. Viðamikið yrði að meta raunveruleg heildaráhrif þar sem þau eru mismikil eftir atvinnugreinum enda vægi eldsneytis mismunandi eftir atvinnugreinum. Benda má á að markmið kolefnisgjalds eru í þágu framtíðarhagsmuna og heildstæð áhrifagreining myndi einnig taka mið af slíkum ókomnum ábata sem gera má ráð fyrir að allt samfélagið muni njóta. Einnig má gera ráð fyrir að álagning kolefnisgjalds og hin breytta hegðun og minni losun sem hún hefur stuðlað að muni draga úr umfangi og beinum áhrifum frekari aðgerða í loftslagsmálum sem komið gætu til á næstu árum. Það er jafnframt almennt markmið skattlagningar að afla ríkissjóði tekna, sem þýðir að væri ekki lagt á kolefnisgjald væri að óbreyttu jafnmikilla tekna aflað með annars konar skattlagningu ellegar kæmu tilsvarandi áhrif fram á útgjalda- eða efnahagshlið ríkissjóðs.

     7.      Til hvaða aðgerða hefur ríkisstjórnin gripið árlega til að tryggja að álagning kolefnisgjalds dragi ekki úr þrótti atvinnulífsins og kaupmætti atvinnutekna og hagsæld heimilanna?
    Ekki hefur verið gripið til sérstakra aðgerða til að tryggja að álagning kolefnisgjalds dragi ekki úr þrótti atvinnulífsins og kaupmætti atvinnutekna og hagsæld heimilanna. Á undanförnum árum hafa verið gerðar breytingar á vörugjaldi, virðisaukaskatti, bifreiðagjaldi og kolefnisgjaldi til að fjölga vistvænum ökutækjum, líkt og fram kemur í svari við 5. tölul. Árangur sést nú þegar í fjölgun sparneytnari og vistvænni ökutækja. Einstaklingar og fyrirtæki hafa því að einhverju leyti komist hjá áhrifunum af álagningu kolefnisgjalds. Þá er jafnframt til þess að líta að atvinnulífið hefur sótt verulega í sig veðrið undanfarin ár og kaupmáttur almennings hefur aukist hröðum skrefum. Bæði atvinnulífið og heimilin eru því í góðri stöðu til að takast á við kolefnisgjald og orkuskipti í samgöngum.

     8.      Hvar sér þess merki í stefnumótun fjármálaáætlunar 2019–2023 að álagning kolefnisgjalds skili auknum tekjum til ráðstöfunar til aðgerða í loftslagsmálum og hvaða kröfur um mælanlegan árangur gerir ráðherra til slíkra aðgerða?
    Engin bein merki um að álagning kolefnisgjalds skili auknum tekjum til ráðstöfunar til aðgerða í loftslagsmálum er að finna í fjármálaáætlun 2019–2023 enda er ljóst af lögum um opinber fjármál og lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur, nr. 47/2018, að skatttekjur ríkisins renna til ríkissjóðs en ekki einstakra verkefna. Hvorki í lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, né annars staðar kemur fram að tekjur af kolefnisgjaldi séu ætlaðar til ráðstöfunar í tiltekin verkefni heldur fer um þær eins og hverjar aðrar skatttekjur, þeim er ráðstafað í samræmi við þá forgangsröð sem Alþingi ákveður með fjármálaáætlun og fjárlögum. Í þessu samhengi er rétt að ítreka að það er á engan hátt tilgangur álagningar kolefnisgjalds að fjármagna tiltekin verkefni. Tilgangur álagningarinnar er að hvetja notendur tækja sem nýta jarðefnaeldsneyti til að draga úr eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun og er það gert með því að þess sjáist staður í skattlagningunni og eldsneytisverði að losun koltvísýrings hefur samfélagslegan kostnað í för með sér.
    Áform ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum koma skýrast fram í aðgerðaáætlun sem nýlega hefur verið kynnt og er nú í samráðsferli.