Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 412  —  343. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018
um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn frá 9. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.
     2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018, frá 23. mars 2018, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.
     2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB.
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir tilskipun 2014/56/ESB var ákvörðun nr. 102/2018 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, kemur fram að á tímabilinu frá 1994 til ársloka 2016 tók Ísland upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnar-skrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er breytt með lögum til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samn-ingnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.
    Með tilskipuninni eru gerðar breytingar á tilskipun 2006/43/EB, svokallaðri áttundu félagatilskipun Evrópusambandsins, sem inniheldur reglur um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga. Með breytingunum er kveðið á um frekari samræmingu reglna um aðila sem annast lögboðna endurskoðun í því skyni að gera reglurnar gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í tilskipuninni er þannig m.a. kveðið á um frekari samræmingu reglna hvað varðar skilyrði fyrir viðurkenningu og skráningu, reglur um óhæði og hlutlægni.
    Einnig er kveðið á um frekari samræmingu reglna um opinbert eftirlit með aðilum sem annast lögboðna endurskoðun. Talið er mikilvægt að styrkja opinbert eftirlit með þessum aðilum til að auka fjárfestavernd. Þannig er sjálfstæði opinberra eftirlitsyfirvalda ESB eflt og þeim faldar valdheimildir sem nauðsynlegar þykja til að koma í veg fyrir brot gegn gildandi reglum í tengslum við endurskoðunarþjónustu.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar bar að innleiða hana í ríkjum ESB fyrir 17. júní 2016.

4. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB.
    Með reglugerðinni er kveðið á um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Vegna þess að slíkar einingar hafa umtalsvert vægi í opinberu tilliti, sem kemur til af umfangi og flækjustigi í starfsemi þeirra eða af eðli starfseminnar, þarf að efla trúverðugleika á endurskoðuðum reikningsskilum þeirra eininga sem tengdar eru almannahagsmunum. Eru því gerðar meiri kröfur til endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sem endurskoða slíkar einingar. Þar eru m.a. gerðar enn ríkari kröfur á gagnsæi til almennings og aukið áhættumiðað eftirlit með þess konar endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Með tilliti til þess verður að gera breytingar á núverandi eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum.
    Með gerðinni er komið á fót Evrópunefnd eftirlitsaðila endurskoðenda (CEAOB) sem tekur við verkefnum sem áður voru í höndum Evrópuhóps eftirlitsaðila endurskoðenda en EFTA-ríkin hafa ekki verið aðilar að síðargreinda hópnum.
    Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er að finna aðlögunartexta þar sem kveðið er á um að eftirlitsaðilar í EFTA-ríkjunum skuli hafa rétt til þess að taka fullan þátt í fyrrgreindri Evrópunefnd eftirlitsaðila endurskoðenda með sömu skilyrðum og eftirlitsaðilar aðildarríkja ESB, þó án atkvæðisréttar eða réttar til formennsku.

5. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar á Íslandi þar sem breyta þarf lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, vegna innleiðingar á tilskipun 2014/56/ESB. Unnið er að drögum að nýjum heildarlögum um endurskoðendur sem fella mun úr gildi núgildandi lög um endurskoðendur. Innleiðing tilskipunarinnar mun jafnframt hafa í för með sér umtalsverðar breytingar á eftirliti með endurskoðendum og leiða til aukins kostnaðar við eftirlitið. Eftirlitsgjöld endurskoðenda munu hins vegar standa undir þeim kostnaði.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett á laggirnar óformlegan starfshóp skipaðan fulltrúum endurskoðendaráðs, Fjármálaeftirlitsins og Félags löggiltra endurskoðenda sem vinnur að tillögum á innleiðingu tilskipunarinnar. Stefnt er að því að tillögur um innleiðinguna verði settar í opið samráðsferli þegar drög að lagafrumvarpi þess efnis liggja fyrir. Gert er ráð fyrir að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi frumvarpið fram á yfirstandandi löggjafarþingi.

6. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en munu ekki taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Tilskipun 2014/56/ESB var send utanríkismálanefnd í samræmi við framangreindar reglur. Í bréfi utanríkismálanefndar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðina og fylgir bréfinu álit efnahags- og viðskiptanefndar þar sem gerðin fékk efnislega umfjöllun. Í bréfinu eru ekki gerðar athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018 frá 27. apríl 2018
um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn (Félagaréttur).


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0412-f_I.pdfFylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0412-f_II.pdfFylgiskjal III.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0412-f_III.pdf