Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 430  —  166. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um fjármögnun þjónustu SÁÁ og meðferðarúrræði utan höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hver er staða fjármögnunar göngudeildarþjónustu SÁÁ á Akureyri?
    Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki gert þjónustusamning um göngudeildarþjónustu SÁÁ vegna áfengis- eða vímuefnavanda á Akureyri. Sú starfsemi hefur verið rekin með sjálfsaflafé SÁÁ og mótframlagi frá Akureyrarbæ. Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ var heildarkostnaður árið 2017 við göngudeildarþjónustu á Akureyri um 24 millj. kr. Akureyrarbær greiddi árið 2017 liðlega 5 millj. kr. framlag til þjónustunnar samkvæmt samstarfssamningi. Áætluð rekstrarniðurstaða fyrir göngudeildarþjónustu SÁÁ á Akureyri fyrir árið 2019 er að sögn SÁÁ liðlega 25 millj. kr. Akureyrarbær er tilbúinn að leggja um 5 millj. kr. til rekstrarins.

     2.      Hvaða önnur meðferðarúrræði eru í boði utan höfuðborgarsvæðisins fyrir þá sem glíma við áfengis- og vímuefnavandamál?
    Þverfagleg sérhæfð meðferð við fíkn á vegum heilbrigðisþjónustunnar er um þessar mundir fyrst og fremst hjá SÁÁ og á Landspítalanum. Sem stendur þarf fólk víða að af landinu að sækja áfengis- og vímuefnameðferð til höfuðborgarinnar.
    Heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar hafa almennt ekki sérhæfð meðferðarúrræði fyrir þá sem glíma við áfengis- og vímuefnavandamál, en í grunnþjónustu heilsugæslunnar er þessum málaflokki sinnt eins og öðrum heilbrigðisvanda. Heilsugæslustöðvar um land allt eiga að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem veitt er almenn fræðsla, ráðleggingar og stuðningur til einstaklinga í neyslu- og fíknivanda. Hluti af almennri læknisþjónustu getur t.d. verið að trappa niður ávanabindandi lyf. Þeim sem heilsugæslan nær ekki að sinna er veitt sérhæfð heilbrigðisþjónusta eftir þörfum, fyrst og fremst hjá SÁÁ og á Landspítalanum.
    AA-samtökin og SÁÁ veita sértæka þjónustu við áfengis- og vímuefnavandamálum utan höfuðborgarinnar og Akureyrar. Víða um land eru haldnir reglulegir fundir sem hafa að markmiði að hjálpa fólki sem kljáist við fíknivandamál, veita ráðgjöf og stuðning og efla meðferðarheldni. Auk starfsemi SÁÁ á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri starfrækja samtökin meðferðarstöðina Vík á Kjalarnesi, þar sem boðið er upp á eftirmeðferð eftir dvöl hjá SÁÁ á sjúkrahúsinu Vogi.
    Sveitarfélögin bera ábyrgð á fjölbreyttri félagsþjónustu við íbúa sína. Forvarnaverkefni velferðarsviðs Reykjanesbæjar er gjaldfrjáls þjónusta. Einstaklingur með vímuefnavandamál getur pantað ráðgjafarviðtal í afgreiðslusíma Reykjanesbæjar og í framhaldinu fengið allt að þrjú einstaklingsviðtöl hjá áfengis- og vímuefnaráðgjafa SÁÁ. Eftir það býðst þátttaka í hópi í Fjölskyldusetri Reykjanesbæjar tvisvar í mánuði.
    Áfangaheimili er tímabundinn dvalarstaður fyrir einstaklinga sem hafa átt við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða en eru í virkri endurhæfingu eftir meðferð. Eitt áfangaheimili er rekið að Hamratúni á Akureyri fyrir fólk sem glímir við geðraskanir, en þar hafa einnig einstaklingar með fíknivandamál dvalið. Áfangaheimilið að Hamratúni hefur fimm pláss þar sem fólk getur dvalið í tvö til þrjú ár.
    Fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára rekur Barnaverndarstofa tvö meðferðarheimili á landsbyggðinni, Laugaland í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakka á Rangárvöllum. Um er að ræða rými fyrir alls 12 börn á aldrinum 13–18 ára.
    Vinakot er sjálfseignarstofnun sem starfrækir búsetuúrræði, heimaþjónustu og inngripsteymi ætlað börnum og ungmennum sem glíma við fjölþættan vanda, þar með talið vímuefnavanda og geðsjúkdóma. Vinakot er á höfuðborgarsvæðinu, en er í góðu samstarfi við flest sveitarfélög á landinu.

     3.      Hvaða almennu geðheilbrigðisúrræði eru í boði utan höfuðborgarsvæðisins fyrir þá sem glíma við geðræn vandamál eða tvíþættan vanda?
    Helmingur þeirra sem haldnir eru fíknivanda glímir einnig við annan geðheilbrigðisvanda. Það er kallað að glíma við tvíþættan vanda þegar fólk upplifir fíkn og aðra geðröskun á sama tíma. Í þeim tilvikum er oft mikil breidd í einkennum og mismunandi hvor vandinn þróast fyrst. Til að mynda getur fólk með þunglyndi þróað með sér fíkn í áfengi eða önnur vímuefni í viðleitni til þess að slá á einkenni þunglyndisins og öfugt.
    Í öllum heilbrigðisumdæmum landsins er unnið markvisst að því að setja á fót geðheilsuteymi. Markmiðið er að fólk sem glímir við geðræn vandamál hafi aðgang að þverfaglegu teymi fagfólks í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem komi að greiningu og meðferð. Stefnt er að því að geðheilsuteymi hafi tekið til starfa í öllum landshlutum árið 2019. Sem dæmi má nefna að á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru starfandi tvö teymi fagaðila sem veita víðtæk geðheilbrigðisúrræði. Neysluvandi er ekki frávísunarorsök úr þjónustunni en sé neysla eða fíkn aðalvandi eða vegi þungt í klínískum geðvanda (tvígreining) er máli vísað í viðeigandi sérúrræði, einkum til SÁÁ og geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss.
    Í innleiðingu geðheilbrigðisáætlunar er einnig unnið að því að auka við þjónustu sálfræðinga í heilsugæslunni í samræmi við samsetningu og stærð þjónustusvæða. Þannig getur fólk fengið meðferð og stuðning sálfræðinga á heilsugæslustöðvum vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíða. Markmiðið er að sálfræðingar verði á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019 og útlit er fyrir að það markmið náist.
    Á nokkrum heilbrigðisstofnunum landsins, svo sem á Vestfjörðum, Suðurnesjum og á Vesturlandi, eru geðlæknar farnir að vera með skipulagða móttöku ákveðna daga í mánuði. Þá gegna sjálfstætt starfandi sérfræðingar, svo sem sálfræðingar og geðlæknar, einnig mikilvægu hlutverki í greiningu og meðferð einstaklinga sem glíma við geðræn vandamál eða tvíþættan vanda.
    Sveitarfélög hafa mörg hver skólasálfræðinga og sum bjóða upp á viðtalsmeðferð hjá sálfræðingum sem starfa hjá þeim. Sálfræðiþjónusta innan grunnskólanna er með mismunandi hætti eftir sveitarfélögum. Í skólum sinna sálfræðingar í flestum tilvikum greiningu á fyrstu stigum en koma minna að meðferð.
    Mikilvægt er að tryggja aðgang allra landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Til viðbótar við hefðbundnar leiðir í veitingu á þjónustu hefur fjarþjónusta í auknum mæli skotið rótum hérlendis með góðum árangri. Dæmi um slíka fjargeðheilbrigðisþjónustu er hjá fyrirtækinu Mín líðan þar sem sálfræðingar hafa boðið upp á sálfræðimeðferð á netinu frá árinu 2016.
    Björgin – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja er endurhæfingarúrræði og athvarf fyrir fólk með geðheilsuvanda. Þjónusta hjá Björginni felst í endurhæfingu, athvarfi, ráðgjöf og eftirfylgd, en Björgin býður ekki sérsniðna þjónustu er lýtur að áfengis- og vímuefnavanda.
    Í sveitarfélaginu Norðurþingi er auk almennrar lögbundinnar þjónustu rekin mann- og geðræktarmiðstöðin Setrið, sem er að langmestu leyti notuð af fólki með geðraskanir en er opin öllum, og sambærileg úrræði eru til staðar í fleiri sveitarfélögum.
    Geðhjálp veitir ráðgjöf og stuðning, m.a. í formi sjálfshjálparhópa.

     4.      Telur ráðherra gagnlegt með tilliti til jafnræðis að skilyrt verði í fjárlögum hvers árs sérstök fjármögnun meðferðarúrræða utan höfuðborgarsvæðisins?
    Ráðherra stefnir að mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaáætlunar fyrir landið allt um meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn. Í þeirri vinnu verður m.a. skilgreint hvers konar heilbrigðisþjónustu skuli veita á hverjum stað og hluti af slíkri vinnu er að fara yfir hvernig skynsamlegast er að haga fjárveitingum til þjónustunnar.