Ferill 355. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 433  —  355. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um flóðavarnir á landi.


Flm.: Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Oddný G. Harðardóttir, Vilhjálmur Árnason.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem leysi eftirfarandi verkefni er snúa að flóðavörnum á landi, í samvinnu við Landgræðslu ríkisins:
     1.      Vinni úttekt á ástandi flóðavarna við helstu jökulár landsins og helstu önnur vatnsföll sem valdið geta skaða.
     2.      Greini stöðu og mikilvægi þeirra flóðavarnaverkefna sem bíða aðgerða hjá Landgræðslunni, bæði stöðu verkefna hjá einkaaðilum sem sækja um styrki og verkefna er vinna þarf að frumkvæði sveitarfélaga, ráðuneyta, Vegagerðarinnar eða Landgræðslunnar.
     3.      Forgangsraði verkefnum með tilliti þess hve brýn þau eru og með hliðsjón af áhættumati Veðurstofunnar.
     4.      Leggi fram tillögu að áætlun um aðgerðir, jafnt til viðhalds sem nýframkvæmda, þar sem kostnaðarmat hvers verkefnis kemur fram.
    Starfshópurinn ljúki störfum og skili skýrslu fyrir lok júnímánaðar 2019. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en við upphaf 150. löggjafarþings.

Greinargerð.

    Landgræðsla ríkisins hefur það hlutverk samkvæmt lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002, að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum af völdum fallvatna, með fyrirhleðslum eða bakkavörnum. Með bakkavörnum er átt við að grjót- og/eða malarfylling er sett við árbakka til þess að stöðva landbrot. Bakkavarnir eru minna áberandi í umhverfinu en varnargarðar. Varnargarðar eru nauðsynlegir þar sem framburður vatnsfalla sest til og þau flæmast út fyrir farvegi sína. Af sjálfu leiðir að flóðavarnir við stórfljót landsins eru og eiga að vera fyrirferðarmestu framkvæmdir við varnir gegn landbroti.
    Landgræðslan á samstarf við Vegagerðina um varnir gegn niðurbroti gróðurlendis og til varnar samgöngumannvirkjum, svo sem vega og brúa, og geta stofnanirnar skipt með sér kostnaði. Stofnanirnar gera með sér formlega samninga um ábyrgð á tilteknum varnargörðum á stórum vatnasvæðum, t.d. við Markarfljót þar sem 40 varnargarðar eru samtals rúmlega 40 km langir. Þar sem vandasamar eða umfangsmiklar fyrirhleðsluframkvæmdir eru á vegum Landgræðslunnar, annast Vegagerðin verkfræðilegan undirbúning, útboð og eftirlit með þeim. Landgræðslunni er einnig heimilt að styrkja framkvæmdir við fyrirhleðslur sem ætlaðar eru til að vernda mannvirki eða land í eigu einkaaðila og hefur hámarksupphæð umsókna/styrkja undanfarin ár verið 3.000.000 kr. Á hverju ári hafa slíkar umsóknir verið á bilinu 40 til 60.
    Landgræðslan hefur umsjón og viðhaldsskyldu með fjölda varnargarða, einkum meðfram suðurströndinni og með jökulfljótum norðan heiða. Aðkallandi verkefni eru við vatnsföll víða um land auk þess sem brýnu viðhaldi eldri varnargarða verður að sinna en á það hefur skort undanfarin ár. Ekki er unnt að verða við nema hluta þeirra beiðna sem berast árlega um margvíslegar aðgerðir. Við forgangsröðun verkefna er lögð áhersla á varnaraðgerðir þar sem ræktuðu landi, byggingum eða öðrum mannvirkjum stafar hætta af ágangi vatna. Meðal stærstu og þýðingarmestu verkefna eru viðhald og viðbætur við flóðavarnir við Markarfljót, Héraðsvötn, Skaftá, Kúðafljót og vatnsföll á Mýrum eystra, ásamt í Hornafirði, Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá í Lóni. Þegar kemur að mati á mikilvægi verkefna í flóðavörnum er unnt að hafa hliðsjón af áhættumati vatnsflóða sem unnið er á Veðurstofu Íslands.
    Undanfarin 10 ár hefur fjárveiting til landbrots af völdum fallvatna haldist óbreytt í kringum 70 millj. kr. á ári en kostnaður við framkvæmdir hækkað töluvert. Árið 2010 mun hafa verið unnið að alls 45 verkefnum en árið 2017 voru verkefnin 17. Stafar það að hluta til af hækkandi verktakakostnaði en einnig er æ erfiðara að fá verktaka til vinnu í flokki minni verkefna. Hefur orðið til biðlisti með yfir 70 ólíkum verkefnum og er áætlaður kostnaður vegna þeirra rúmar 357 millj. kr. (sjá töflu, aftast í greinargerðinni) að lágmarki. Verkefni sem fengu sérstaka fjárúthlutun vegna vatnavaxta í Hornafirði haustið 2017 eru ekki með í þeirri samantekt. Enn fremur er unnið að flóðavörnum við stórfljótin Kúðafljót og Jökulsá á Fjöllum og er kostnaður við þær ekki fulltalinn í töflunni
    Meginstraumvötn landsins eru jökulár, sem kunnugt er. Þar verða oft gríðarlegar sveiflur í rennsli, t.d. við örar snjóleysingar, skyndilegar og langvinnar rigningar og við jökulhlaup. Þau geta átt upptök í jökullónum sem tæmast skyndilega, eða í jöklum sem hylja jarðhitasvæði og við eldgos undir jökulskjöldum. Jökulhlaup geta verið lítil og meðalstór, með rennsli um 1.000–5.000 m3/sek., þ.e. líkt og 3–15 Ölfusár í meðalrennsli. Þau geta orðið stór eða mjög stór, 50.00–200.000 m3/sek., eða fimmtán- til sjötugfalt rennsli Ölfusár. Nú sýna stórar eldstöðvar á borð við Kötlu, Bárðarbungu og Öræfajökul merki þess að kvika safnast til þeirra. Grímsvötn, virkasta megineldstöð landsins, er kunn að jökulhlaupum, þó ekki í hvert sinn sem þar gýs.
    Rétt er að minna á að nokkrar byggðir landsins eru í sérstakri hættu vegna flóða í stórám. Þær eiga tilvist sína undir því að varnargarðar standist áhlaup. Má nefna Landeyjar, Álftaver, Vík, land við Hvítá í Árnessýslu og Kelduhverfi, allt byggðir við jökulár. Einnig þurfa land og byggðir við dragár á borð við Stóru-Laxá á flóðavörnum að halda.
    Loftslagsbreytingar undanfarinna ára og reynsla af skyndilegum vatnavöxtum vegna aukinnar skammtímaúrkomu valda líka áhyggjum, samhliða skorti á fé til viðhalds og endurnýjunar flóðavarna allvíða um land, í a.m.k. áratug eða enn lengur. Varnir gegn náttúruvá eru ákaflega mikilvægur samfélagsþáttur á Íslandi af því hvernig náttúrufarið er. Það er því mjög nauðsynlegt að vinna greiningu á stöðu í málaflokknum með fullri samvinnu við Landgræðsluna og útbúa aðgerðaáætlun þar sem komi fram tillögur um forgangsröðun verkefna og upplýsingar um áætlaðan kostnað við þau.

Landshluti Fjöldi verkefna í bið Áætlaður kostnaður
Vesturland og Vestfirðir 9 25.440.000
Norðvesturland 18 50.100.000
Norðausturland 9 47.500.000
Austurland 7 17.440.000
Suðurland 31 216.800.000
Samtals 74 357.280.000