Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. september 2018.  Útgáfa 148c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um varnir gegn landbroti

2002 nr. 91 15. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 31. maí 2002. Breytt með l. 61/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006), l. 31/2007 (tóku ekki gildi, sbr. l. 133/2007, l. 127/2008, l. 79/2010 og l. 132/2011), l. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis- og auðlindaráðherra eða umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Tilgangur, skilgreiningar og yfirstjórn.
1. gr. Tilgangur.
Tilgangur laga þessara er að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi vatna.
2. gr. Skilgreiningar.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
    1. Fyrirhleðsla: Mannvirki til varnar gegn landbroti, svo sem til að hafa áhrif á rennsli vatna eða verja land og mannvirki fyrir ágangi vatna með öðrum hætti.
    2. Landbrot: Jarðvegsrof og gróðureyðing sem stafar af ágangi vatna.
    3. Landkostir: Auðlindir sem felast í gróðri, jarðvegi og vistkerfum landsins.
    4. Nytjaland: Land sem tekið hefur verið til sérstakra nytja, svo sem þaulræktar eða skógræktar.
    5. Umráðahafi lands: Sá telst umráðahafi lands sem hefur lögmætan rétt til að ráðstafa nýtingu þess.
3. gr. Yfirstjórn.
Landgræðsla ríkisins fer fyrir hönd [ráðherra] 1) með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi fjalla um.
    1)L. 126/2011, 349. gr.

II. kafli. Framkvæmd.
4. gr. Hlutverk Landgræðslu ríkisins – forgangsröðun.
Landgræðsla ríkisins metur hvar þörf er á fyrirhleðslum til að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot sem ógnar eða veldur tjóni á landi eða mannvirkjum.
Við forgangsröðun verkefna skal höfð hliðsjón af verðmæti þess lands eða mannvirkis sem landbrotið ógnar. Nytjalönd, mannvirki og gróðurlendi skulu jafnan njóta forgangs við röðun verkefna.
Landgræðsla ríkisins telst ávallt vera framkvæmdaraðili þegar unnið er að fyrirhleðslum samkvæmt lögum þessum.
5. gr. Hlutverk umráðahafa lands og skráning Landgræðslu ríkisins.
Verði umráðahafi lands var við landbrot eða telji hættu á landbroti yfirvofandi skal hann tilkynna það til Landgræðslu ríkisins. Hún heldur skrá yfir landbrot eða staði þar sem hætta er á landbroti og metur hvar þörf á fyrirhleðslum er brýnust.
6. gr. Samráð um fyrirhleðslur.
Landgræðsla ríkisins skal hafa samráð við eiganda/umráðahafa mannvirkja eða lands sem fyrirhleðslu er ætlað að verja. Ef framkvæmd kann að hafa áhrif á veiði eða fiskrækt skal tilkynna það stjórn viðkomandi veiðifélags [eða [Matvælastofnun] 1) ef ekki er starfandi veiðifélag, sbr. lög um lax- og silungsveiði og lög um fiskrækt]. 2)
Vilji landeigandi eða veiðifélag gera athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd skal hún vera skrifleg og berast Landgræðslu ríkisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar.
Landgræðsla ríkisins skal hafa samráð við viðkomandi búnaðarsamband eða héraðsráðunauta um forgangsröðun fyrirhleðsluverkefna. Hún getur einnig haft samráð við þessa aðila um eftirlit með framkvæmdum og viðhald fyrirhleðslna.
    1)L. 167/2007, 32. gr. 2)L. 61/2006, 57. gr.
7. gr. Framkvæmdir við fyrirhleðslur.
Þegar fyrirhugaðar eru umfangsmiklar framkvæmdir við fyrirhleðslur skal Vegagerðin hafa umsjón með verkfræðilegum undirbúningi og framkvæmdum í samráði við Landgræðslu ríkisins. Landgræðsla ríkisins telst þó ávallt framkvæmdaraðili fyrirhleðslna samkvæmt lögunum, sbr. 4. gr.
8. gr. Kostnaður við fyrirhleðslur.
Landgræðsla ríkisins greiðir kostnað við varnir gegn landbroti, svo sem ákveðið er árlega í fjárlögum. Nú þarf með fyrirhleðslum eða á annan hátt að stöðva landbrot sem stofnar í hættu mannvirkjum í eigu ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða fyrirtækja sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkis eða sveitarfélaga, svo sem samgöngumannvirkjum, raflínum eða öðrum dreifikerfum, og greiðir þá viðkomandi aðili allan kostnað, enda þótt í landi einstaklinga sé. Á sama hátt greiðir viðkomandi aðili að fullu kostnað við framkvæmdir sem vinna þarf til þess að hindra landbrot eða ágang vatns sem rekja má til framkvæmda opinberra aðila, t.d. þar sem þrengt er að ám við vega- og brúargerð, straumrennsli breytist vegna efnistöku úr farvegi o.s.frv.
Þegar fyrirhleðslu er bæði ætlað að verja samgöngu- og/eða veitumannvirki og land skal kostnaður við framkvæmdirnar og undirbúning þeirra skiptast milli Landgræðslu ríkisins og þess aðila skv. 1. mgr. sem viðkomandi mannvirki heyra undir, eftir nánara samkomulagi þeirra á milli. Ef upp kemur ágreiningur um skiptingu þessa kostnaðar skal [ráðherra] 1) skera úr.
Landgræðslu ríkisins er heimilt að styrkja framkvæmdir við fyrirhleðslur sem ætlað er að vernda mannvirki eða land í eigu einkaaðila. Auglýsa skal eftir umsóknum um slíka styrki á opinberum vettvangi þar sem fram koma skilyrði þau sem umsækjandi þarf að uppfylla til að geta hlotið styrk, sem og hámarksfjárhæð styrks.
Kostnaður við framkvæmd laga þessara er greiddur úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
    1)L. 126/2011, 349. gr.

III. kafli. Ýmis ákvæði.
9. gr. Bætur fyrir tjón af völdum fyrirhleðslna.
Ef framkvæmdir við fyrirhleðslur valda bótaskyldu tjóni skal greiða skaðabætur í samræmi við lög og almennar venjur. Við undirbúning verks skulu áætlaðar skaðabætur, ef einhverjar eru, taldar með til kostnaðar við verkið.
10. gr. Heimild til útgáfu reglugerða.
[Ráðherra] 1) getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
    1)L. 126/2011, 349. gr.
11. gr. Ágreiningsmál og kærur.
Ef ágreiningur rís um framkvæmd þessara laga sker [ráðherra] 1) úr. Sú málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    1)L. 126/2011, 349. gr.
12. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast þegar gildi.