Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 435  —  237. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um jafnréttismat.

     1.      Hvernig framkvæmdi ráðuneytið jafnréttismat við vinnslu eftirtalinna frumvarpa sem lögð voru fram á 148. löggjafarþingi:
                  a.      frumvarps til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum (stjórn álaveiða), á þskj. 302 (215. mál),
                  b.      frumvarps til laga um breytingu á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (eftirlit, upplýsingagjöf), á þskj. 441 (330. mál),
                  c.      frumvarps til laga um Matvælastofnun, á þskj. 442 (331. mál),
                  d.      frumvarps til laga um breytingu á lögum um Fiskræktarsjóð, nr. 72/2008 (gjald af veiðitekjum, fjöldi stjórnarmanna o.fl.), á þskj. 616 (433. mál),
                  e.      frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.), á þskj. 656 (457. mál)?

    Frumvörpin sem spurt er um eru meðal fyrstu frumvarpa í innleiðingu jafnréttismats frumvarpa. Matið hefur tekið og á eftir að taka breytingum með aukinni reynslu og þekkingu. Undanfarið ár hafa verið haldin námskeið fyrir þá starfsmenn sem koma að frumvarpssmíði og gefnar út nýjar leiðbeiningar. Leiðarvísirinn sem lá fyrir þegar umrædd frumvörp voru metin á ekki lengur við, en breytt ferli við frumvarpssmíði hafði þau áhrif að móta þurfti nýtt verklag og verkferli við jafnréttismat á frumvörpum, sbr. svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um jafnréttismat (þskj. 1114 á 148. löggjafarþingi). Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur nú að innleiðingu breytts verklags í samræmi við nýjar leiðbeiningar.
    Jafnréttismat framantalinna lagafrumvarpa var framkvæmt í samræmi við leiðarvísi forsætisráðuneytisins um mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa frá árinu 2012. Í honum kemur fram að áður en jafnréttismat er framkvæmt ber að hafa í huga að ekki er í öllum tilvikum þörf á slíku sérstöku mati og sé frumvarp þess eðlis að það krefst ekki mats á jafnréttisáhrifum ber engu að síður að geta þess í umsögn um frumvarpið. Með vísan til þessa hefur verið fjallað um jafnréttismat allra þeirra frumvarpa sem spurt er um í greinargerð þeirra.
    Mati á jafnréttisáhrifum lagafrumvarpa er skipt niður í sex stig. Á fyrsta stiginu fer fram upphafsgreining. Þar er skoðað til hverra frumvarpið nær og hvaða áhrif það hefur á ólíka hópa fólks. Markmið frumvarps eru skilgreind í upphafi og skoða þarf hver líkleg áhrif frumvarpsins verða á þá hópa kvenna og karla sem frumvarpinu er ætlað að ná til. Ganga þarf úr skugga um að áhrif frumvarpsins geri báðum kynjum kleift að hafa jafnan aðgang að samfélaginu í heild. Meðal annars er litið til þess hverju frumvarp á að ná fram og hverjir verða fyrir áhrifum þess, hvort frumvarpið mæti ólíkum þörfum karla og kvenna, hvort frumvarpinu sé ætlað að jafna stöðu kynjanna, hvort einhver ákvæði frumvarpsins hafi ólík áhrif á konur og karla, hvort eitthvað leggi aukið vægi á annað kynið fremur en hitt og hvort halli á annað kynið þegar kemur að úthlutun á gæðum, tíma eða fjármunum.
    Frumvörpin sem spurt er um eiga það sameiginlegt að áhrif þeirra ná með sama hætti til allra hagsmunaaðila sem viðkomandi lög snerta, svo sem fagaðila, neytenda eða samfélagsins í heild, óháð kyni. Því var ekki talin þörf á frekari greiningu á kynjaáhrifum sem fólgin er í síðari stigum mats samkvæmt leiðarvísinum.

     2.      Á hverju byggir ráðuneytið þá staðhæfingu í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 302 að ákvæði þess hafi áhrif á konur jafnt sem karla, og hafi ekki áhrif á stöðu kynjanna, en í greinargerðinni kemur jafnframt fram að afar litlar upplýsingar séu til um álaveiðar við Ísland?
    Í frumvarpinu kemur fram að megintilgangur þess er að vernda álastofninn hér á landi gegn ofveiði en stofninn er í útrýmingarhættu.
    Efni þess var að afla lagaheimilda fyrir ráðherra til að setja reglur um álaveiðar, m.a. til að banna eða takmarka veiðar ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.
    Bann eða takmarkanir á álaveiðum sem ráðherra kann að setja með reglugerð á grundvelli laganna getur aðeins byggst á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Takmarkanir á veiðum hafa áhrif á bæði konur og karla. Ekki verður séð að skortur á upplýsingum um magn veiddra ála skipti máli í þessu sambandi.

     3.      Hvaða gögn liggja til grundvallar þeim staðhæfingum sem koma fram í greinargerðum með frumvörpunum á þskj. 441 og 442 að breytingar sem í þeim felast snerti bæði kyn jafnt? Hefur farið fram greining á því hvort til staðar sé kynjaskekkja sem bregðast þurfi við á málefnasviðinu?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. hér að framan ber að hafa í huga að ekki er í öllum tilvikum þörf á slíku sérstöku mati. Talið var að frumvörpin á þskj. 441 og 442 næðu jafnt til kynjanna og engin ákvæði frumvarpanna með ólík áhrif á konur og karla. Því var ekki talin ástæða til að framkvæma sérstaka greiningu á því hvort til staðar væri kynjaskekkja sem bregðast þyrfti við.

     4.      Hvaða greiningar á veiðifélögum og úthlutun styrkja úr Fiskræktarsjóði liggja til grundvallar þeirri staðhæfingu í greinargerð með frumvarpi á þskj. 616 að breytingar á úthlutunum hafi jafnt áhrif á konur sem karla og því séu sjónarmið varðandi kynjaskiptingu málinu óviðkomandi?
    Með frumvarpinu voru lagðar til tilteknar breytingar, m.a. að fellt yrði brott ákvæði um að veiðiréttarhöfum bæri að greiða gjald af veiðitekjum til Fiskræktarsjóðs.
    Þar sem greiðsluskylda af veiðitekjum í sjóðinn hefur verið felld brott hefur sjóðurinn minni fjármuni til ráðstöfunar og hefur það áhrif á þá sem fá úthlutað úr sjóðnum, konur jafnt sem karla.
    Umrætt gjaldtökuákvæði á við veiðifélög og gerði engan greinarmun á konum og körlum og brottfall gjaldskyldunnar varðar á sama hátt alla veiðiréttarhafa.
    Með vísan til framanritaðs taldi ráðuneytið ekki ástæðu til að láta fara fram greiningu á veiðifélögum vegna frumvarpsins.