Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 528  —  210. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um brottfall laga um ríkisskuldabréf, nr. 51/1924.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason og Sigurð Pál Ólafsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Nefndinni barst umsögn um málið frá Seðlabanka Íslands.
    Samkvæmt frumvarpinu falla lög um ríkisskuldabréf, nr. 51/1924, úr gildi en lögin hafa verið leyst af hólmi með lögum um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs, nr. 79/1983, og lögum um lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990.
    Ein efnisleg regla er í lögum um ríkisskuldabréf sem ekki er annars staðar í lögum en hún er sú að ríkisskuldabréf skuli ekki gefa út til lengri tíma en 25 ára, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í umsögn Seðlabankans, sem sinnir lánaumsýslu ríkissjóðs, segir um þetta atriði: „Þrátt fyrir að núverandi stefna í lánamálum ríkissjóðs geri ekki ráð fyrir að slíkur möguleiki verði nýttur nema sýnt sé að slík útgáfa hafi verulega hagkvæmni í för með sér fyrir ríkissjóð þá mælir Seðlabankinn með brottfalli laga nr. 51/1924 þar sem með því fjölgar kostum ríkissjóðs við skuldastýringu og eykur svigrúm til áhættudreifingar.“
    Nefndin gerir ekki athugasemd við brottfall laga um ríkisskuldabréf og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Álfheiður Eymarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. nóvember 2018.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Hildur Sverrisdóttir. Ásgerður K. Gylfadóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.