Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 648  —  339. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta), XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Hjörleif Gíslason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.     Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018, frá 9. febrúar 2018, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta), XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fylgiskjal I) og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem setur ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og breytingu á tilskipun ráðsins 82/891/EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 9. ágúst 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2014/59/ESB um endurbætur og skilameðferð fjármálafyrirtækja mælir fyrir um viðbrögð og aðgerðir til að takast á við erfiðleika í rekstri fjármálafyrirtækja. Slíkum fyrirtækjum og stofnunum beri að gera sérstaka endurbótaáætlun sem búi þau undir erfiðleika í rekstri og að sérstakt stjórnvald eða stjórnsýslueining sem nefnt er skilavald útbúi sérstaka skilaáætlun sem það getur hrint í framkvæmd með skjótum hætti ef nauðsyn þykir til að takast á við áföll í rekstri stærri lánastofnana. Tilskipunin hefur jafnframt það markmið að lágmarka neikvæðar afleiðingar af erfiðleikum fjármálafyrirtækja með því að tryggja áframhaldandi kerfislega mikilvæga starfsemi viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækja en takmarka um leið hættu á að erfiðleikar kalli á framlög úr ríkissjóði.
          Í tilskipuninni er kveðið á um skilasjóð ætlað er að tryggja skammtímafjármögnun vegna ýmissa aðgerða sem hægt er að grípa til við skilameðferð. Skilasjóðurinn verður að meginstefnu til fjármagnaður af fjármálafyrirtækjum. Þá er fyrirséð að kostnaður muni aukast fyrir þau fjármálafyrirtæki sem undir reglurnar falla og munu þær ef til vill breyta áhættusækni fyrirtækjanna enda fylgir reglunum að hluthafar og lánardrottnar skulu bera stærri hluta tjóns ef illa fer í rekstri fjármálafyrirtækis. Almenningur hefur mikilla hagsmuna að gæta af því að samfella á fjármálamarkaði sé tryggð, komi til áfalla, og að kostnaður við fjármálaáföll verði að litlu, ef nokkru, leyti fjármagnaður með skattfé.
         Hluti tilskipunar 2014/59/ESB hefur þegar lagastoð í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Eftirstandandi ákvæði verða innleidd með fyrirhugaðri setningu nýrra heildarlaga um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram slíkt frumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 10. desember 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Logi Einarsson.
Smári McCarthy. Una María Óskarsdóttir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.