Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 649  —  340. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Sigríði Rafnar Pétursdóttir frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018, frá 6. júlí 2018, um breytingu XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/899 frá 17. maí 2017 um notkun tíðnisviðsins 470–790 MHz í Sambandinu.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 6. janúar 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Aðildarríki innan EES-svæðisins skulu eigi síðar en 30. júní 2020 hafa heimilað notkun 700 MHz (694–790 MHz) tíðnisviðsins fyrir háhraðafarnetsþjónustu. Ísland er komið lengra en flestar Evrópuþjóðir í því að losa þetta tíðnisvið þannig að úthluta megi því til notkunar fyrir háhraðafarnetsþjónustu. Áður en notkun þessarar þjónustu hefst verður notendum þráðlauss búnaðar til fjölmiðlunar og á sviði annarrar miðlunar efnis tilkynnt með fyrirvara um þær áætlanir. Þessir aðilar hafa heimild til að nýta hluta tíðnisviðsins með víkjandi heimildum þar til háhraðafarnetsþjónusta hefst á umræddu tíðnisviði.
    Samræmingunni er ætlað að tryggja útbreiðslu háhraðafarneta sem tryggt geti íbúum aðildarlandanna a.m.k. 30 Mb/s gagnahraða ásamt því að tryggja fríar þráðlausar sjónvarpssendingar til sömu aðila. Að auki skal þráðlausum búnaði sem notaður er til fjölmiðlunar tryggður aðgangur að tíðnisviði á næstu árum. Þá skulu stafrænar sjónvarpsútsendingar njóta forgangs á lægri hluta UHF-tíðnisviðsins (470–694 MHz) ásamt þráðlausum tækjum til fjölmiðlunar. Ákvörðunin hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkjanna til að skipuleggja og nota tíðnisvið sín í þágu almennings, almannaöryggis og varnarmála. Þá felst engin fjárhagsleg skuldbinding hins opinbera í innleiðingu ákvörðunarinnar.
    Innleiðing ákvörðunarinnar kallar á breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Gert er ráð fyrir því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggi á yfirstandandi löggjafarþingi fram frumvarp til breytinga á lögunum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 10. desember 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Ásgerður K. Gylfadóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Logi Einarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Smári McCarthy. Una María Óskarsdóttir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.