Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 650  —  341. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Ástríði Scheving Thorsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018, frá 6. júlí 2018, um breytingu XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/61/ESB frá 15. maí 2014 um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á rafrænum háhraðafjarskiptanetum.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 6. janúar 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Aðdragandann að setningu tilskipunarinnar má rekja til markmiða fjarskiptaáætlunar ESB um aðgang allra íbúa sambandsins að öflugri háhraðanetsþjónustu fyrir árið 2020. Sambærileg markmið hafa jafnframt verið sett í fjarskiptaáætlun Alþingis. Tilskipuninni er ætlað að greiða fyrir uppbyggingu fjarskiptainnviða, fyrst og fremst lagningu ljósleiðara, með því að stuðla að auknum samlegðaráhrifum við samnýtingu á fjarskipta- og veituframkvæmdum. Mælt er fyrir um almennan rétt fjarskipta- og veitufyrirtækja til að bjóða aðgang að raunlægum innviðum sínum og skyldur þeirra til að koma til móts við sanngjarnar beiðnir um aðgang í því skyni að byggja upp háhraðafjarskiptakerfi á grundvelli sanngjarnra skilmála og skilyrða.
    Rekstraraðilar innviða eiga þannig gagnkvæman rétt á því að samnýta framkvæmdir til að uppbygging á innviðum sé sem hagkvæmust. Sérstaklega á þetta við á svæðum þar sem markaðsbrestur veldur því að markaðsaðilar treysta sér ekki til að byggja upp innviði einir en gætu gert það í samstarfi við aðra og þá einkanlega veitufyrirtæki og önnur innviðafyrirtæki. Þá fá stjórnvöld bæði hlutverk og úrræði til þess hvetja til þessarar þróunar, svo sem með gerð gagnagrunns um innviði, miðlun upplýsinga og leiðbeininga til hagsmunaaðila og úrskurðarvald í ágreiningsmálum.
    Innleiðing tilskipunarinnar mun hafa í för með sér bæði beinan og óbeinan kostnað fyrir ríkið, sveitarfélög, veitufyrirtæki og jafnvel Vegagerðina. Beinn kostnaður felst í því að skilgreina þarf eftirlitsstjórnvald sem geti sinnt þeim verkefnunum sem tilskipunin kveður á um, og búa þarf til innviðagagnagrunn og veita þjónustu honum tengda. Ef samnýting fyrirliggjandi gagnagrunna verður heimiluð má gera ráð fyrir að stofnkostnaður verði um 20 millj. kr. og aukinn rekstrarkostnaður vegna fjölgunar starfsgilda og viðvarandi rekstrarkostnaðar gagnagrunns verði um 15–25 millj. kr. á ári. Ætla má að óbeinn kostnaður felist í því að fjarskipta- og veitufyrirtæki þurfi að taka tillit til samnýtingar annarra í uppbyggingaráformum sínum sem gæti aukið flækjustig og kostnað við framkvæmdir. Að mati Póst- og fjarskiptastofnunar mun þjóðhagslegur ávinningur vega upp á móti þeim óbeina kostnaði.
    Innleiðing ákvörðunarinnar kallar á breytingar á fjarskiptalögum, nr. 81/2003. Þá verður skoðað hvort gera þurfi breytingar á fleiri lögum í kjölfarið. Gert er ráð fyrir því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggi á yfirstandandi löggjafarþingi fram frumvarp til breytinga á lögunum. Samráð verður jafnframt haft við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið við innleiðinguna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir framsögumaður var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 10. desember 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Logi Einarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Smári McCarthy. Una María Óskarsdóttir.