Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 651  —  342. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Daða Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018, frá 9. febrúar 2018, um breytingu XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93/EB.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 9. ágúst 2018. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Markmið reglugerðarinnar er að koma á rafrænum samskiptum milli aðildarríkja ESB og tryggja öryggi rafrænna viðskipta innan sambandsins. Fyrirtæki og einstaklingar eiga að geta notað rafræn skilríki heimalanda sinna til að nota opinbera þjónustu innan Evrópu. Með reglugerðinni er búinn til innri markaður fyrir rafrænar undirskriftir og aðrar tengdar rafrænar aðgerðir með því að tryggja að þær hafi sama gildi og viðskipti á pappír og að hægt sé að nota þær í samskiptum milli ríkja.
    Reglugerðin byggir á ákvæðum forvera hennar, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB, sem var innleidd í íslensk lög með lögum um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001. Gildissviðið er þó víkkað út með setningu reglna um auðkenningu, vottun, traustþjónustu, tímastimplun, rafræn innsigli, vefsíður, rafræn skjöl og um rafræna þjónustu milli landa. Í reglugerðinni er einnig komið á auðkenningarskipan sem hefur þann tilgang að auka samvirkni rafrænna samskipta á milli landa. Þá fjallar reglugerðin um traustþjónustu, þó aðeins þá sem er aðgengileg almenningi og hefur áhrif á þriðja aðila.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar og verða sett ný lög um rafrænar undirskriftir í stað laga nr. 28/2001. Gert er ráð fyrir því að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi fram slíkt frumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 10. desember 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Ásgerður K. Gylfadóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Logi Einarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Smári McCarthy. Una María Óskarsdóttir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.