Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 652  —  343. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018, frá 23. mars 2018, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn, frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.
     2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 23. september 2018. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB kveður á um frekari samræmingu reglna um aðila sem annast lögboðna endurskoðun í því skyni að gera reglurnar gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Þá er kveðið á um frekari samræmingu reglna um opinbert eftirlit með aðilum sem annast lögboðna endurskoðun. Sjálfstæði opinberra eftirlitsyfirvalda innan Evrópska efnahagssvæðisins verður eflt og þeim faldar valdheimildir sem nauðsynlegar þykja til að koma í veg fyrir brot gegn gildandi reglum í tengslum við endurskoðunarþjónustu. Innleiðing tilskipunarinnar hefur í för með sér umtalsverðar breytingar á eftirliti með endurskoðendum og leiðir til aukins kostnaðar við eftirlitið. Eftirlitsgjöld endurskoðenda standa hins vegar undir þeim kostnaði.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 kveður á um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Í reglugerðinni eru gerðar meiri kröfur til endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sem endurskoða slíkar einingar. Þá eru jafnframt gerðar enn ríkari kröfur um gagnsæi til almennings og aukið áhættumiðað eftirlit með þess konar endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Gerðar verða breytingar á núverandi eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum.
    Með gerðinni er komið á fót Evrópunefnd eftirlitsaðila endurskoðenda (CEAOB) sem tekur við verkefnum sem áður voru í höndum Evrópuhóps eftirlitsaðila endurskoðenda en EFTA-ríkin hafa ekki verið aðilar að síðarnefnda hópnum. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er að finna aðlögunartexta þar sem kveðið er á um að eftirlitsaðilar í EFTA-ríkjunum skuli hafa rétt til þess að taka fullan þátt í fyrrgreindri Evrópunefnd eftirlitsaðila endurskoðenda með sömu skilyrðum og eftirlitsaðilar aðildarríkja ESB, þó án atkvæðisréttar eða réttar til formennsku.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar og hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp með nýjum heildarlögum um endurskoðendur í stað laga nr. 79/2008.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 10. desember 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Logi Einarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Smári McCarthy. Una María Óskarsdóttir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.