Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 654  —  157. mál.
Viðbót.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Hjört Örn Eysteinsson frá NPA-miðstöðinni svf., Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Þroskahjálp og Bjarnheiði Gautadóttur og Evu Margréti Kristinsdóttur frá velferðarráðuneytinu.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Landssamtökunum Þroskahjálp, MND-félaginu á Íslandi, NPA-miðstöðinni svf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vinnueftirlitinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verði framlengdur til 31. desember 2020. Bráðabirgðaákvæði 9 veitir samtökum aðila vinnumarkaðarins heimild til að gera með sér samkomulag um að víkja frá ákvæðum 53. og 56. gr. laganna um hvíldartíma og næturvinnu þeirra starfsmanna sem vinna við notendastýrða persónulega aðstoð. Þá er lagt til að í bráðabirgðaákvæðinu verði vísað til starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Forsaga frumvarpsins.
    Með 3. gr. laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 80/2015, var bráðabirgðaákvæði 9 bætt við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Ákvæðið veitti samtökum aðila vinnumarkaðarins heimild til að víkja frá ákvæðum laganna um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli samstarfsverkefnis ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV í þágildandi lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Bráðabirgðaákvæði 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum var ætlað að gilda til sama tíma og bráðabirgðaákvæði IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, eða til ársloka 2016. Gildistími bráðabirgðaákvæðis 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum var framlengdur til ársloka 2017 með lögum nr. 128/2016 og aftur með lögum nr. 93/2017 til ársloka 2018 eða fram að gildistöku laga þar sem kveðið yrði á um réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
    Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, tóku gildi 1. október 2018. Við gildistöku laganna féll umrætt bráðabirgðaákvæði úr gildi og talsverð óvissa ríkir um lögmæti samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem gerðir hafa verið frá 1. október 2018. Í greinargerð með frumvarpinu segir að gert sé ráð fyrir að samhliða því að frumvarpið verði að lögum skipi ráðherra tímabundna nefnd undir forustu ráðuneytisins með fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Landssamtökunum Þroskahjálp, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Vinnueftirliti ríkisins og Öryrkjabandalagi Íslands. Nefndinni er m.a. ætlað að fylgjast með því hvort réttindi þeirra starfsmanna sem starfa við framkvæmd þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir séu virt og koma með tillögur um breytingar á lögum eða reglugerðum að því er varðar réttindi og starfsumhverfi þeirra starfsmanna.

Umræða velferðarnefndar um málið.
    Í umsögnum til nefndarinnar kemur fram það sjónarmið að með lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sé notendastýrð persónuleg aðstoð ekki lengur tilraunaverkefni heldur lögbundinn réttur þeirra sem þörf hafa fyrir slíka aðstoð skv. 11. gr. laganna. Mikilvægt sé að heildarendurskoðun á starfsumhverfi þeirra sem starfa við að veita notendastýrða persónulega aðstoð fari fram og að réttindi þeirra sem veita þjónustuna verði tryggð með sambærilegum hætti og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Nefndin tekur undir þau sjónarmið.
    Þá var bent á sérstakt eðli þjónustunnar og nauðsyn þess að veita undantekningu frá lágmarksvinnutímareglum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum til þess að tryggja þá lágmarksþjónustu sem lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir mæla fyrir um. Í því sambandi kom fram hjá notendum þjónustunnar að tíð vaktaskipti hentuðu illa notendum og þær löngu vaktir sem þjónustan byggist á væru þess eðlis að oft fengi starfsmaður nægan hvíldartíma innan vaktar. Bentu þau á að starfsmenn sem veita þjónustuna óski oft eftir löngum vöktum þar sem tími gefst til hvíldar innan vaktar.
    Einnig kom fram að ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins væri of víðtækt, enda væri vísað til allra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir en ekki einungis þeirra sem starfa við notendastýrða persónulega aðstoð.

Álit velferðarnefndar.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að farið verði í úttekt á starfsumhverfi starfsmanna sem starfa við notendastýrða persónulega aðstoð og að mörkuð verði skýr stefna um framtíðarstarfsumhverfi þjónustunnar. Í því sambandi er nauðsynlegt að sú tímabundna nefnd sem gert er ráð fyrir að ráðherra skipi hefji störf sem fyrst og vinni að lausn þess hvernig megi tryggja sem best réttindi starfsmanna með tilliti til sérstaks eðlis þjónustunnar. Leggur nefndin til að gildistíma ákvæðisins, sem mælt er fyrir um í b-lið 1. mgr. frumvarpsins, verði breytt þannig að ákvæðið gildi til 31. desember 2019.
    Nefndin tekur undir það sjónarmið að ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins sé of víðtækt. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er markmið þess einungis að framlengja heimild samtaka aðila vinnumarkaðarins til að víkja frá ákvæðum um hvíldartíma og næturvinnutíma vegna þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum notendastýrða persónulega aðstoð. Mælt er fyrir um þá þjónustu í 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Leggur nefndin til að ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins verði breytt svo að vísað verði til 11. gr. laganna um þá þjónustu sem að framan hefur verið fjallað um.
    Nefndin bendir á að skv. 2. gr. frumvarpsins tekur breytingin gildi 1. október 2018 og er því afturvirk. Þar sem núverandi bráðabirgðaákvæði 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum féll úr gildi 1. október 2018 er talsverð óvissa með gildi þeirra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem gerðir hafa verið eftir það tímamark. Telur nefndin réttara að lögin öðlist strax gildi en áréttað verði sérstaklega í b-lið 1. gr. að ákvæðið taki til þeirra samninga sem gerðir eru á tímabilinu 1. október 2018 til 31. desember 2019.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Á undan orðunum „laga nr. 38/2018“ í a-lið komi: 11. gr.
                  b.      B-liður orðist svo: 2. mgr. orðast svo:
                     Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2019 og tekur til samninga sem gerðir eru á tímabilinu frá 1. október 2018 til 31. desember 2019.
     2.      2. gr. orðist svo:
                   Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Guðmundur Ingi Kristinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ásmundur Friðriksson og Halldóra Mogensen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 6. desember 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Ásmundur Friðriksson, frsm. Ólafur Þór Gunnarsson.
Andrés Ingi Jónsson. Guðjón S. Brjánsson. Vilhjálmur Árnason.
Alex B. Stefánsson. Una María Óskarsdóttir.