Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 677  —  462. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um vestnorrænt samstarf á sviði íþrótta barna og unglinga.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að efla samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði íþrótta barna og unglinga.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2018 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 5. september 2018 í Þórshöfn í Færeyjum.
    Það er mikilvægt fyrir æsku vestnorrænu landanna að hún kynnist á sviði íþrótta og menningar. Grundvöllur góðs árangurs á sviði íþrótta er öflugt barna- og unglingastarf íþróttafélaga og fjárfesting í innviðum á borð við knattspyrnu- og íþróttahallir.
    Vestnorrænu löndin hafa öll góða reynslu af barna- og unglingamótum í handbolta, fótbolta eða körfubolta. Á Íslandi eru haldin fjölmörg mót í þessum greinum fyrir yngri flokka drengja og stúlkna. Á veturna eru mót í körfubolta og handbolta víða um landið og eins í knattspyrnu á sumrin þar sem yfir 1.000 þátttakendur taka þátt og fjölmargir foreldrar og aðstoðarfólk fylgir liðum sínum hvert á land sem er. Mikill áhugi er fyrir þessum mótum á Íslandi og gildir þá einu hvort keppt er í stúlkna- eða drengjaflokkum.
    Í þeim tilgangi að tengja vestnorrænu þjóðirnar enn betur saman væri hægt að koma á kerfisbundnu íþróttasamstarfi, t.d. með því að bjóða ungu íþróttafólki frá Grænlandi og Færeyjum að taka þátt í þeim mótum sem haldin eru á Íslandi eða stofna til vestnorrænna íþróttamóta sem væru haldin til skiptis í löndunum þremur. Á þennan hátt væri hægt að efla tengsl landanna í gegnum ungu kynslóðina sem byggi að því alla tíð. Einnig gæti góður árangur Íslendinga á heimsvísu í hópíþróttum verið stökkpallur fyrir hinar vestnorrænu þjóðirnar. Með því að deila reynslu landanna af uppbyggingu innviða, þjálfunar og aðstöðu geta vestnorrænu löndin bætt árangur sinn á þessum vettvangi til framtíðar.
    Alþingi beinir þeim tilmælum því til ríkisstjórnarinnar að kanna til hlítar hvernig styrkja megi samstarf landanna á þessum vettvangi til hagsbóta fyrir æsku Vestur-Norðurlanda og stuðla að því að treysta samstarf landanna til framtíðar.