Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 678  —  463. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að stofna formlegan samstarfsvettvang vestnorrænu landanna um framtíð íslensku, færeysku og grænlensku. Fyrsta skrefið verði stofnun starfshóps með einum til tveimur fulltrúum frá hverju landanna sem hafi þekkingu á málfræði og máltækni. Hlutverk starfshópsins verði að semja skýrslu með yfirliti um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja ásamt yfirliti um þann máltæknibúnað (hugbúnað og gagnasöfn) sem til er fyrir hvert málanna og leggi fram tillögur að samstarfi um máltæknibúnað og önnur viðbrögð við stafrænu byltingunni.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2018 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 5. september 2018 í Þórshöfn í Færeyjum.
    Sú stafræna bylting sem nú stendur yfir hefur mikil áhrif á öll tungumál. Enskan hefur yfirburðastöðu í hinum stafræna heimi og því hefur verið haldið fram að meiri hluti opinberra tungumála Evrópuþjóða eigi í vök að verjast á þessu sviði og eigi jafnvel á hættu „stafrænan dauða“. 1 Staða tungumála í hinum stafræna heimi er yfirleitt því verri sem færri tala þau og því má búast við að íslenska, færeyska og grænlenska standi höllum fæti hvað þetta varðar. Í könnun Evrópuverkefnisins META-NET árið 2012 2 kom í ljós að íslenskan stæði næstverst þeirra 30 tungumála sem könnunin tók til. Færeyska og grænlenska voru ekki meðal þeirra, en ljóst má vera að staða þeirra er enn verri.
    Vegna þess að tungumálin standa frammi fyrir svipaðri ógn frá enskunni er mikilvægt að kanna hvernig Ísland, Færeyjar og Grænland geti unnið saman á þessu sviði til að vernda og efla tungumál sín. Þótt málin séu öll örtungumál er staða þeirra vissulega nokkuð mismunandi. Íslenska og færeyska eru mjög skyld tungumál en grænlenska alls óskyld þeim, og færeyska og grænlenska hafa lengi verið í nánu sambýli við dönsku en íslenskan verið næsta einráð á Íslandi. Þrátt fyrir þetta er enginn vafi á því að löndin þrjú geta haft margvíslegt gagn af samstarfi á þessu sviði. Vestnorræna ráðið er augljós vettvangur til að gangast fyrir slíku samstarfi.
    Fyrsta skrefið í samvinnu landanna gæti verið stofnun starfshóps með einum til tveimur fulltrúum frá hverju þeirra. Þessir fulltrúar þyrftu að hafa þekkingu á málfræði og máltækni. Hlutverk starfshópsins væri að semja skýrslu sem innihéldi
          yfirlit um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja, hvers í sínu landi,
          yfirlit um þann máltæknibúnað (hugbúnað og gagnasöfn) sem til er fyrir hvert málanna,
          tillögur að samstarfi um máltæknibúnað og önnur viðbrögð við stafrænu byltingunni.
    Um fyrsta þáttinn má m.a. hafa hliðsjón af rannsóknarverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ 3 sem nú stendur yfir á Íslandi, en því er m.a. ætlað að nýtast öðrum örtungumálum sem fyrirmynd. Um annan þáttinn má m.a. leita fyrirmynda í áðurnefndar skýrslur META-NET.
    Nýlega hefur verið samin metnaðarfull máltækniáætlun fyrir íslensku 4 og hefur sjálfseignarstofnuninni Almannarómi 5 verið falið að reka miðstöð máltækniáætlunar til að sjá um framkvæmd áætlunarinnar. Mikilvægt er að hafa hliðsjón af því starfi og kanna vel hvort og þá hvernig það gæti einnig nýst til stuðnings færeysku og grænlensku. Samstarfið gæti t.d. falist í því að nýta aðferðir sem verða þróaðar fyrir íslenska máltækni (t.d. við gerð hugbúnaðar eða uppbyggingu gagnasafna) einnig fyrir hin málin. Einnig má hugsa sér að löndin þrjú vinni saman að því að ná tengslum við alþjóðleg hugbúnaðarfyrirtæki í því skyni að koma tungumálum sínum inn í vörur þeirra.
    Ef tveir fulltrúar frá hverju landi væru í starfshópnum kæmi e.t.v. til greina að annar þeirra hefði þekkingu á málfræði og máltækni en hinn væri stjórnmála- eða embættismaður sem hefði pólitískt umboð. Þetta fer þó auðvitað eftir því hvernig hlutverk nefndarinnar yrði skilgreint.


1     www.meta-net.eu/whitepapers/press-release-is
2     www.meta-net.eu/whitepapers/overview-is
3     molicodilaco.hi.is/
4     www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=56f6368e-54f0-11e7-941a-005056bc530c
5     www.facebook.com/almannaromur/