Ferill 491. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 807  —  491. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (gengishagnaður).

Flm.: Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Í stað orðanna „með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til“ í 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að færa mismuninn til tekna með jafnri fjárhæð á allt að þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 og koma til framkvæmda fyrir reikningsárið 2019.

Greinargerð.

    Í 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, kemur fram að draga skuli gengistap frá gengishagnaði ársins og færa mismuninn til tekna sem gengishagnað. Með lögum nr. 61/2008, sbr. 1. gr., bættist við ákvæðið sú regla að mismuninn skyldi færa til tekna með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til. Þetta ákvæði getur falið í sér óhagræði og umtalsverðan kostnað fyrir lögaðila, ekki síst minni fyrirtæki. Dæmi eru um að fyrirtækjum sé gert skylt að dreifa nokkrum tugum þúsunda króna í skattskyldan gengishagnað yfir þriggja ára tímabil í stað þess að greiða skatt af hagnaðinum strax. Með frumvarpinu er lagt til að þessi kvöð verði felld niður en þess í stað verði um valfrjálsa heimild að ræða. Fyrirtækjum verði heimilt en ekki skylt að dreifa greiðslu skatts af gengishagnaði á allt að þrjú ár.
    Frumvarpið hefur engin áhrif á tekjur ríkissjóðs til lengri tíma en mun í einhverjum tilfellum flýta greiðslu skatts af gengishagnaði.