Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 854  —  524. mál.
Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2018.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2018 bar hæst óstöðugleikann í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi og þann mikla flóttamannavanda sem þau hafa valdið á nágrannasvæðum og í Evrópu. Samstarf við ríki utan bandalagsins og uppbygging stöðugleika bæði til suðurs og austurs, auk baráttunnar við hryðjuverkaógnina, var því í brennidepli.
    Þá var rík áhersla lögð á ástandið í Úkraínu og samskipti NATO og Rússlands sem hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi. Nefndarmenn voru því sammála um nauðsyn þess að styrkja stöðu NATO gagnvart Rússlandi þótt lögð hafi verið áhersla á mikilvægi samræðna milli Rússa og NATO-þingsins. Þá ályktaði þingið um uppfærslu viðbragða við herbrögðum Rússa með áherslu á afskipti af kosningum og rangri upplýsingagjöf.
    Enn fremur var ítrekað fjallað um málefni Afganistans og samhengið milli öryggismála heimamanna og heimshlutans. Áhersla var lögð á stöðu stærsta verkefnis NATO, Resolute Support í Afganistan, sem fór af stað eftir yfirfærslu öryggismála til Afgana árið 2014. Eftir brottför fjölþjóðahersins þarf enn að styðja dyggilega við stjórnvöld í Afganistan með auknum mannskap og aðstoð við nágrannaríkin.
    Einnig var sjónum beint að varnarútgjöldum aðildarríkjanna í ljósi nýrra öryggisógna og hvernig bandalagið getur tekist á við fjölþættar áskoranir sem blasa við og tryggt getu sína og nauðsynlegan styrk til þess að standa við skuldbindingar sínar. Rætt var um mikilvægi þess að draga úr niðurskurði á fjárframlögum til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna. Þá varð nefndarmönnum tíðrætt um jafnari byrðar á bandalagsþjóðir, aukin fjárframlög Evrópuríkja og að aðildarríkin stefndu að því að ná markmiði um að útgjöld til varnarmála næðu 2% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024 til að mæta breyttum öryggishorfum.
    Jafnframt var áhersla lögð á samstarf NATO og Evrópusambandsins, stjórnmálastefnu bandalagsins og öryggishorfur í Evrópu. Þá fengu málefni norðurslóða aukna athygli á árinu og ályktaði þingið um öryggi og samstarf á svæðinu. Enn fremur voru til umræðu jafnréttismál innan NATO og mikilvægi þess að innleiða þau í starfsemi og stefnur tengdar öryggis- og varnarmálum með innleiðingu öryggisályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi á árinu má nefna ástandið í Norður-Kóreu, hervæðingu samfélagsmiðla og falsfréttir, netöryggi, geimvarnir og orkuöryggi.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth-áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 262 þingmenn frá aðildarríkjunum 29. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 61 þingmaður frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2018 Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.
    Íslandsdeildin hélt þrjá undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.

Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2018 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Stjórnmálanefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Varnar- og öryggismálanefnd: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
    Til vara: Jón Steindór Valdimarsson
Nefnd um borgaralegt öryggi: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Efnahagsnefnd: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Vísinda- og tækninefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
    
    Njáll Trausti Friðbertsson var á árinu kosinn einn af fjórum varaformönnum vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2018 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í Vilníus, vorfundi í Varsjá og ársfundi í Halifax. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Febrúarfundir.
    Dagana 19.–21. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmála-, efnahags-, öryggis- og varnarmálanefnda. Að þessu sinni sóttu fundina 110 þingmenn frá 29 aðildarríkjum NATO-þingsins. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru baráttan gegn hryðjuverkum, ástandið í Úkraínu, kólnandi samskipti NATO og Rússlands og loks óstöðugleikinn í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, fundina, auk Örnu Gerðar Bang, ritara.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 19. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum hjá þingmönnum en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Stoltenberg ræddi m.a. um helstu áhersluatriði næsta leiðtogafundar NATO sem fór fram í Brussel í júlí 2018, um hryðjuverkaógnina, um mikilvægi þess að aðildarríkin ykju framlög sín til öryggis- og varnarmála og um óvissu um fyrirætlanir Rússa. Þá lagði hann áherslu á að bandalagið þyrfti að tryggja jafnvægi milli þess að takast á við áskoranir sem koma úr austri annars vegar og suðri hins vegar.
    Enn fremur greindi Stoltenberg frá helstu atriðum fundar varnarmálaráðherra NATO sem fór fram 14.–15. febrúar 2018. Þau lutu m.a. að auknum varnarviðbúnaði og framlögum til varnarmála, eflingu herstjórnar NATO og að stuðningi við umbætur í Írak í ljósi þess að búið er að frelsa stór landsvæði úr höndum hryðjuverkasamtakanna sem nefna sig Íslamska ríkið. Íröksk stjórnvöld hafa óskað eftir aðstoð við umbætur í öryggis- og varnarmálum og er verið að undirbúa þjálfunarverkefni á vegum NATO í nánu samstarfi við stjórnvöld og fjölþjóðalið sem berst gegn Íslamska ríkinu.
    Njáll Trausti Friðbertsson vakti máls á vaxandi mikilvægi málefna norðurslóða, m.a. út frá loftslags-, efnahags- og öryggismálum. Hafísinn á svæðinu hopaði hratt sökum loftslagsbreytinga og slík þróun hefði ómæld áhrif á hefðbundið líf á svæðinu. Þá væru ný tækifæri að skapast varðandi opnun nýrra siglingaleiða, í ferðaþjónustu og með auknu aðgengi að auðlindum. Jafnframt væru vaxandi áhyggjur af aukinni spennu milli norðurskautsríkjanna með auknu viðskiptalegu mikilvægi og landfræðipólitískum breytingum, ekki síst í ljósi aukinnar hernaðaruppbyggingar Rússa á svæðinu. Í ljósi þessarar þróunar og þeirrar staðreyndar að fimm af aðildarríkjum NATO eiga landsvæði að norðurslóðum beindi Njáll Trausti þeirri spurningu til Stoltenbergs hvort hann teldi að hlutverk NATO á norðurslóðum mundi aukast og meiri áhersla yrði lögð á öryggismál á svæðinu. Stoltenberg svaraði því til að vægi norðurslóða væri að aukast innan bandalagsins sem endurspeglaðist m.a. í því að meiri áhersla yrði lögð á eftirlit og viðbrögð á svæðinu.
    Á fundunum var jafnframt rætt um viðbúnaðaráætlun bandalagsins (Readiness Action Plan, RAP), samskipti NATO og Evrópusambandsins, stöðu verkefna NATO í Afganistan eftir yfirfærslu öryggismála í hendur Afgönum, stjórnmálastefnu bandalagsins og öryggishorfur í Evrópu. Í ávarpi sínu lagði Paolo Alli, forseti NATO-þingsins, áherslu á mikilvægi NATO-þingsins við að byggja upp stuðning innan þjóðþinga aðildarríkjanna við mikilvæg málefni NATO eins og baráttuna gegn hryðjuverkum, samskipti NATO við Rússa og að deila ábyrgð innan bandalagsins. Þá ávarpaði Steven Vandeput, varnarmálaráðherra Belgíu, fundinn og lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstarfs, trausts og samheldni. Þá fór fram umræða um þær áskoranir sem NATO stæði frammi fyrir bæði til suðurs og austurs; þær væru hinn nýi veruleiki og ólíklegt að aðstæður breyttust til batnaðar á næstunni. Viðbúnaðaráætlun bandalagsins (RAP) gegndi því lykilhlutverki sem viðbragð bandalagsins við þessum ógnum og breyttu öryggisumhverfi.
    Jafnframt hélt bandaríski hershöfðinginn Curtis Scaparrotti, yfirmaður herafla NATO í Evrópu, erindi og svaraði spurningum nefndarmanna. Hann ræddi m.a. um þá stefnu bandalagsins að taka við nýjum aðildarríkjum og lagði áherslu á áframhaldandi stuðning við hana sem og á mikilvægi samstarfsaðila NATO. Þá var rætt um fyrirhugaðar breytingar á herstjórnarkerfi bandalagsins þar sem gert er ráð fyrir stofnun tveggja nýrra undirherstjórna sem munu annars vegar fást við liðs- og birgðaflutninga og hins vegar öryggismál á Atlantshafi.
    Einnig tóku fjórir sendiherrar hjá NATO, þau Claudio Bisogniero frá Ítalíu, Marek Ziólkowski frá Póllandi, Sarah MacIntosh frá Bretlandi og Kay Bailey Hutchison frá Bandaríkjunum, þátt í pallborðsumræðum með þingmönnum og svöruðu spurningum. Rætt var um áskoranir í öryggismálum og þróun mála undanfarna mánuði. Áberandi var umræða um varnarframlög aðildarríkjanna og jafnari byrðar á bandalagsþjóðir til að mæta breyttum öryggishorfum.

Fundur stjórnarnefndar.
         Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Vilníus 24. mars. Á meðal helstu dagskrármála fundarins var taugaeitursárásin í Bretlandi 4. mars 2018 og samskipti NATO-þingsins við Rússland. Auk þess var umræða um starfsáætlun og fjárhagsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2018 og stefnu Litháen í öryggis- og varnarmálum. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, starfandi ritara.
         Rætt var um stöðu forseta NATO-þingsins sem ekki hlaut endurkjör í þingkosningunum á Ítalíu 4. mars 2018. Var samþykkt að hann starfaði áfram næstu sex mánuði og að Rasa Jukneviciene tæki við stöðu forseta NATO-þingsins að þeim tíma loknum. Í kjölfarið kynnti framkvæmdastjóri NATO-þingsins athugasemdir sínar við stefnumarkandi tillögur og ályktanir NATO-þingsins sem samþykktar voru árið 2017. Í beinu framhaldi ávarpaði Raimundas Karoblis, varnarmálaráðherra Litháen, fundinn. Í máli sínu lagði hann áherslu á mikilvægi baráttunnar gegn hryðjuverkum og hversu flókin sú barátta væri orðin í ljósi þeirra tækniframfara sem orðið hefðu á síðustu árum. Hann sagði Rússland vera mestu öryggisvá nútímans þar sem Pútín ætlaði sér að endurreisa veldið sem Sovétríkin voru. Því væri mikilvægt að NATO væri vel á verði. Þá væri nauðsynlegt að halda áfram þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi.
    Næst á dagskrá voru umræður um taugaeitursárásina í Salisbury í Bretlandi 4. mars 2018. Breski þingmaðurinn Richard Benyon ávarpaði NATO-þingið og lýsti fyrir þinginu hvernig árásina bar að. Þá fór hann yfir helstu sjónarmið Bretlands og viðbrögð Breta í kjölfar árásarinnar. Ljóst væri að taugaeitrið væri framleitt og þróað í Rússlandi og að rússneska ríkið hefði ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvort eitrið hefði komist í rangar hendur eða hvernig það hefði komist til Bretlands. Viðbrögð Bretlands hefðu verið afgerandi í kjölfar árásarinnar. Þá lýsti Benyon yfir þakklæti fyrir sterk viðbrögð á alþjóðavettvangi. Samþykkt var einróma yfirlýsing þar sem NATO-þingið lýsti yfir einhug og samstöðu með Bretlandi og fordæmdi árásina sem skýlaust brot á alþjóðalögum. NATO-þingið styddi aðgerðir Bretlands, þar á meðal beiðni Bretlands um að Stofnunin um bann við efnavopnum (OPCW) tæki árásina til skoðunar. NATO-þingið skoraði jafnframt á Rússland að vera samvinnuþýtt við rannsóknina.
    Þá var farið yfir forgangsmál fyrir leiðtogafundinn í Brussel. Samþykkt var yfirlýsing um samstöðu NATO og áherslumál fyrir leiðtogafundinn. Í kjölfarið var rætt um starfsemi, umræðuefni og áherslur NATO-þingsins fyrir árið 2018. Beiðni þings Svartahafsins (PABSEC) um efnahagssamvinnu um áheyrnaraðild að NATO-þinginu var hafnað. Þá var rætt um hvort breyta ætti reglum NATO-þingsins í þá átt að þau ríki sem leggðu mest til fjárhagslega hefðu aukið atkvæðavægi þegar kæmi að ákvörðunum um aukin útgjöld. Ákveðið var að fresta umræðunni þar til á vorþinginu í Varsjá.
    Loks var farið yfir fjármál NATO-þingsins og ársreikning fyrir árið 2017 sem var samþykktur samhljóða.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Varsjá dagana 25.–28. maí 2018. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru ástandið í Rússlandi, með áherslu á afskipti af kosningum og ranga upplýsingagjöf, og baráttan gegn hryðjuverkaógninni. Einnig fór fram umræða um ástandið í Íran, átökin í Sýrlandi, flóttamannavandann, ástandið í Norður-Kóreu og orkuöryggi. Rúmlega 260 þingmenn sóttu fundinn frá 29 aðildarríkjum auk fulltrúa frá 22 aukaaðildar- og áheyrnarríkjum.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2018. Samþykktar voru breytingartillögur við starfsreglur NATO-þingsins. Áfram verður áhersla lögð á samstarf og stefnu um opnun fyrir ný aðildarríki, norðurslóðamál, spillingu og áhrif hennar á öryggi ríkja, kynjajafnrétti og öryggismál og samskipti þvert yfir Atlantshaf. Rætt var um samskipti NATO-þingsins við rússneska þingið og voru nefndarmenn sammála um að halda samskiptum við Rússa óbreyttum í samræmi við ákvörðun stjórnarnefndar þingsins í Ríga 2014 þar sem nefndarmenn greiddu einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu eftir innlimun þeirra á Krímskaga. Áhersla var þó lögð á mikilvægi þess að samræður ættu sér stað milli Rússa og NATO-þingsins. Þá var tekin ákvörðun um að Ruxandra Popa tæki við starfi framkvæmdastjóra NATO-þingsins árið 2019 af David Hobbs sem gegnt hefur starfinu síðan 2008.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um tvær skýrslur á fundum sínum. Sú fyrri fjallar um óstöðugleika í suðri og sú síðari um ástandið í Norður-Kóreu og áskoranir varðandi alþjóðlegt öryggi. Vísinda- og tækninefnd ræddi um afskipti Rússlands af kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum í aðildarríkjum NATO og ranga upplýsingagjöf. Þá fór fram umræða um nýbreytni í varnarmálum og hvernig NATO gæti nýtt sé tækniframfarir í verkefnum sínum. Enn fremur var rætt um drög að skýrslu sem beindist að tískusveiflum í tæknigeiranum og skuggahliðum öryggismála, t.d. hvernig hryðjuverkasamtök nota dulkóðuð skilaboð og rafmynt ( cryptocurrencies) í starfsemi sinni. Jafnframt fór fram umræða um framtíð kjarnorkusamnings við Íran.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um áskoranir varðandi orkuöryggi í Mið- og Austur-Evrópu, alþjóðaviðskipti og framtíð geimiðnaðarins. Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um drög að tveimur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrri fjallar um dreifingu ábyrgðar innan NATO og hvernig endurskipuleggja megi starfsemina með jafnari ábyrgð aðildarríkjanna. Síðari skýrslan fjallar um málefni Afganistan og samhengið milli öryggismála heimamanna og heimshlutans. Jafnframt fóru fram pallborðsumræður um sérstakar aðgerðir í nútímaöryggisumhverfi. Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi um lýðræði og mannréttindi við Svartahaf og borgaralegar varnir á norðurslóðum og við Miðjarðarhaf. Þá fór fram pallborðsumræða um ástandið í Rússlandi og áskoranir.
    Auk þess fór fram vinna í vinnuhópi um menntun og kynningu á öryggismálum og verkefnum NATO í aðildarríkjunum. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í fundum nefndarinnar og lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að upplýsa ungmenni um grundvallarmarkmið bandalagsins í tengslum við sögulega þróun og breytt ástand öryggismála í heiminum í dag. Spurningalisti hefur verið sendur frá NATO-þinginu til menntamálaráðuneyta allra aðildarríkja þar sem óskað er upplýsinga um framkvæmd fræðslu um öryggismál í grunnskólum ríkjanna.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 28. maí þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Paolo Alli, forseti NATO-þingsins, Marek Kuchcinski, forseti pólska þingsins, Andrzej Duda, forseti Póllands, Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Forseti NATO-þingsins setti fundinn og sagði m.a. í ræðu sinni að sjónum yrði sérstaklega beint að varnarútgjöldum aðildarríkjanna í ljósi nýrra öryggisógna. Aðildarríkin hefðu neyðst til að snúa við áratugalöngum niðurskurði til varnarmála árið 2014 eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga ólöglega. Þau væru byrjuð að færast nær því markmiði að 2% af vergri landsframleiðslu (VLF) sé varið til varnarmála árið 2024, þótt sum ríkin þurfi að koma á fót aðgerðaáætlun til að ná því marki. Þá sagði Alli: „Þar sem við köllum saman þingmenn sem bera ábyrgð á fjárhagsáætlun varnarmála aðildarríkjanna er ljóst að NATO-þingið gegnir mikilvægu hlutverki við að ná samstöðu varðandi sanngjarnari dreifingu þess álags sem fylgir sameiginlegum vörnum okkar.“ Það væri málefni sem varðaði bæði hernaðarlegan árangur og stjórnmálalega samstöðu.
    Í ræðu sinni lagði framkvæmdastjóri NATO m.a. áherslu á að jafnari byrðar yrðu lagðar á bandalagsþjóðir og framlög Evrópuríkja til varnarmála yrðu aukin. Einnig ræddi hann um endurskoðun herstjórnarkerfis NATO með áherslu til austurs og varnir gegn nýjum ógnum svo sem netógnum og fjölþættum ógnum. Samstarf við ríki utan bandalagsins og uppbygging stöðugleika bæði til suðurs og austurs væri einnig í brennidepli auk áframhaldandi stuðnings í Afganistan með auknum mannskap og aðstoð við nágrannaríkin Jórdaníu, Írak og Túnis. Einnig fór fram umræða á þingfundinum um leiðtogafund NATO sem haldinn verður í Brussel 11.–12. júlí 2018 og samþykkti þingið yfirlýsingu nr. 444 um staðfestingu á samstöðu og trúverðugleika NATO.
    Njáll Trausti Friðbertsson tók til máls á þingfundinum og vakti athygli á mikilvægi jafnréttismála. Hann lagði áherslu á mikilvægi öryggisályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi sem hefur leitt til aukinnar áherslu á jafnréttismál og mikilvægi þess að innleiða þau í starfsemi og stefnur tengdar öryggis- og varnarmálum. Hann sagði eitt af markmiðum ályktunarinnar vera að stuðla að sanngjarnara umboði bæði karla og kvenna þegar horft væri til varnarmála og friðarumleitana þar sem þingmenn gegndu mikilvægu hlutverki. Því bæri okkur að stefna að heilstæðri nálgun sem tryggði aðkomu beggja kynja að stefnumótun í þjóðþingum, nefndum og störfum NATO þar sem verulega hefði hallað á konur. Þá spurði Njáll Trausti framkvæmdastjóra NATO hvort hann sæi aukna áherslu hjá bandalaginu á jafnréttismál og hvort unnið væri að innleiðingu ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325.
    Jens Stoltenberg svaraði því til að jafnréttismál væru afar mikilvæg og aukinn fókus væri á þeim innan bandalagsins. Hann sagðist stoltur af vinnu NATO undanfarið varðandi jafnréttismál og sagði hlut kvenna í þjálfun hafa aukist mikið. Sýnileiki bandalagsins á þessu sviði hefði jafnframt aukist og mikið verk verið unnið. Þá benti hann á hversu óskynsamlegt það væri að beina eingöngu sjónum að helmingi íbúa og sú væri ekki raunin hjá bandalaginu.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn í Halifax dagana 16.–19. nóvember 2018. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 300 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar 13 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna, sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hefur borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru málefni norðurslóða, geimvarnir, samstarf NATO og Evrópusambandsins, átökin í Sýrlandi og eldflaugavarnir. Einnig fór fram umræða um hervæðingu samfélagsmiðla og falsfréttir.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrri hluta árs 2019. Áhersla verður m.a. lögð á þá þekkingu og reynslu sem NATO hefur aflað sér á 70 ára starfsafmæli sínu árið 2019. Sjónum verður beint að því hvernig bandalagið getur tekist á við fjölþættar nýjar áskoranir sem blasa við og tryggt getu sína og nauðsynlegan styrk til þess að standa við skuldbindingar sínar. Þá verða málefni Rússlands áfram í brennidepli og ástandið í Sýrlandi auk þess sem aukinni athygli verður beint að Afríku.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um þrjár skýrslur á fundum sínum. Á grundvelli hinnar fyrstu var samþykkt ályktun um að styrkja framlag NATO til að takast á við viðfangsefni í suðrænum löndum. Önnur fjallaði um Norður-Kóreu og þá ógn sem landið er alþjóðlegu öryggi og í hinni þriðju var sjónum beint að öryggismálum á vestanverðum Balkanskaga. Þá fóru fram pallborðsumræður um öryggismál í Norðaustur-Asíu og um hlutverk Kína.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins samþykkti ályktanir á grundvelli tveggja skýrslna á fundi sínum. Í fyrri skýrslunni var fjallað um dreifingu ábyrgðar og nýjar skuldbindingar á nýjum tímum og í seinni skýrslunni um styrkingu varna NATO í austri. Þá fóru fram pallborðsumræður um öryggismál á norðurslóðum. Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar og fagnaði áhuga hennar á málefnum norðurslóða. Nefndarmenn voru sammála um að áhrif loftslagsbreytinga mætti líta á sem öryggis- og varnarmál, m.a. vegna hækkunar yfirborðs sjávar og aukins aðgengis að náttúruauðlindum á norðurslóðum.
    Vísinda- og tækninefnd samþykkti ályktanir á grundvelli tveggja skýrslna, annars vegar um að verja kosningar í aðildarríkjunum og hins vegar um hvernig viðhalda mætti áherslu á vísindi og tækni og auka snerpu bandalagsins. Þá fór fram umræða um skýrslu nefndarinnar um afskipti Rússlands af kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum í bandalaginu. Sömuleiðis fóru fram pallborðsumræður um notkun öfgahópa og hryðjuverkasamtaka á netinu. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í störfum nefndarinnar og var jafnframt kosinn einn fjögurra varaformanna hennar.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 19. nóvember þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Rasa Jukneviciene, fráfarandi forseti NATO-þingsins, Harjit Singh Sajjan, varnarmálaráðherra Kanada, og Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Jukneviciene lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO á tímum fjölmargra öryggisógna vegna hryðjuverkastarfsemi og óstöðugleika suður af Evrópu auk óvinveittrar afstöðu Rússlands í austri.
    Varnarmálaráðherra Kanada, Harjit Singh Sajjan, sagði samstarf aðildarríkja NATO jafnvel enn mikilvægara nú en áður í ljósi nýrra ógna. Hvort sem brugðist yrði við árásargjarnri hegðun Rússa í Austur-Evrópu eða vaxandi óstöðugleika víða um heim stæðu menn frammi fyrir enn flóknari ógnum en áður.
    Samþykktar voru ályktanir á þingfundinum um að stjórnvöld í aðildarríkjum NATO styrktu varnir (e. deterrence) við austurlandamæri bandalagsins með því að bæta herstjórnarlegt skipulag, þróa viðvörunarkerfi og viðhalda viðbúnaði heraflans. Einnig var ályktað um samstarf við einkageirann til að verja kosningar frá utanaðkomandi afskiptum og um að íhuga ætti refsiaðgerðir sem svar við árásum Rússa. Þá lögðu fundarmenn einnig áherslu á nauðsyn þess að fjármagn yrði lagt fram til að viðhalda tækniþróun hjá NATO og hvöttu þeir stjórnvöld í aðildarríkjum til að uppfylla viðmið um framlög til varnarmála.
    Aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, Rose Gottemoeller, lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi þess að tryggt væri að fjárframlög til varnarmála yrðu samþykkt í aðildarríkjunum svo að bandalagið byggi yfir þeim tækjum sem nauðsynleg væru til að takast á við verkefni sín. Hún fagnaði samþykkt um fjögurra ára samfellda hækkun framlaga aðildarríkjanna og bað þingmenn að tryggja að ekki kæmi bakslag í framkvæmd hennar.
    Breska þingkonan Madeleine Moon var kosin nýr forseti NATO-þingsins og tók hún við embættinu af Rösu Jukneviciene frá Litháen. Í ræðu sinni lagði Moon áherslu á mikilvægi þess að aðildarríkin stæðu við skuldbindingar sínar í varnarmálum auk þess sem hún ítrekaði áherslur sínar um að efla forustu ungu kynslóðarinnar og samstarfsaðila NATO. Enn fremur lagði hún áherslu á jafnréttismál innan NATO sem utan og vísaði til ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Hún sagði mikinn árangur hafa náðst á sviði jafnréttismála undanfarinn áratug og að hún vildi tryggja áframhaldandi vitundarvakningu um ómetanlegt starf kvenna að öryggismálum í víðum skilningi.
    Áður hafði Clare Hutchinson, sérstakur fulltrúi varðandi konur, frið og öryggi hjá NATO, kynnt fyrir fundargestum niðurstöður nýlegrar könnunar um jafnréttismál hjá NATO þar sem m.a. kom fram að 12% af starfsmönnum bandalagsins væru konur. Hún sagði þessa tölu allt of lága en þróunin væri samt upp á við þótt hún mætti vera hraðari. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að jafnréttissjónarmið yrðu innleidd í alla starfsemi NATO, bæði hernaðarlega og pólitíska uppbyggingu. Auk þess þyrfti að uppræta kynbundna misnotkun og áreitni innan NATO án tafar.
    Njáll Trausti Friðbertsson vakti athygli á málefnum norðurslóða og á auknu vægi svæðisins í alþjóðlegri umræðu. Hann sagði landfræðilega legu, bætt aðgengi að náttúruauðlindum og áhrif loftslagsbreytinga hafa opnað augu umheimsins fyrir tækifærum og áskorunum á svæðinu. Með auknu mikilvægi svæðisins varðandi viðskipti og landfræðistjórnmálalegar breytingar (e. geopolitical changes) óttuðust menn aukna spennu milli strandríkja á norðurslóðum en Rússar hefðu nú þegar aukið hernaðarviðbúnað sinn þar. Í ljósi þessarar þróunar, og með hliðsjón af því að fimm af aðildarríkjum NATO eiga landsvæði á norðurslóðum, spurði Njáll Trausti Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóra NATO, hvort hún teldi að NATO ætti að hafa aukin afskipti af málefnum norðurslóða. Gottemoeller svaraði því til að málefni norðurslóða væru afar mikilvæg og yfirstandandi loftslagsbreytingar hefðu aukið áhuga á svæðinu. Hún sagði að NATO mætti vera virkara þegar kæmi að málefnum norðurslóða og að bandalagið treysti á aðildarríki sín á norðurslóðum eins og Noreg og Ísland til að veita leiðsögn í þeim málum.

Nefndarfundir.
    Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sótti fund varnar- og öryggismálanefndar í mars í Doha og í september í Madríd og Lissabon. Einnig sótti hún ráðstefnu NATO-þingsins í Washington í desember. Njáll Trausti Friðbertsson sótti fundi vísinda- og tækninefndar í maí í Ósló og Bodø og í október í San Diego. Einnig sótti hann fundi stjórnmálanefndar í New York og Boston í október. Þá heimsótti forseti NATO-þingsins Alþingi í maí.

Alþingi, 28. janúar 2019.

Njáll Trausti Friðbertsson,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaform. Willum Þór Þórsson.Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2018.


Ársfundur í Halifax, 16.–19. nóvember:
          Ályktun 445 um uppfærslu viðbragða við herbrögðum Rússa.
          Ályktun 446 um öryggi og samstarf á norðurslóðum.
          Ályktun 447 um dreifða ábyrgð og nýjar skuldbindingar á nýjum tímum.
          Ályktun 448 um styrkingu varna NATO í austri.
          Ályktun 449 um tækifæri og áskoranir á vettvangi geimvarna.
          Ályktun 450 um orkuöryggi.
          Ályktun 451 um leiðir til að takast á við áskoranir úr suðri.
          Ályktun 452 um leiðir til að verja kosningar í aðildarríkjum NATO.
          Ályktun 453 um mikilvægi þess að viðhalda áherslum á vísindi og tækni og auka snerpu NATO.